Saturday, December 29, 2012

Að vera eða vera ekki...




Núna er árið 2012 að renna sitt skeið á enda og þá er tvennt árlegur viðburður; að fólk prufi flugeldana fyrir áramótin (væri verra ef þeir virkuðu ekki á ögurstundu) og hinir ýmsu miðlar hamast við að kjósa „mann ársins“ (og sumir taka fram að með orðinu „maður“ sé að sjálfsögðu átt við konur líka – skemmtilegt).

Hér ætla ég ekki að ræða flugeldaskotæði landans, heldur rétt velta upp hugsunum um þá þörf okkar að finna einhverja hetju á meðal vor, að hylla einhvern sem borið hefur af eða hvað?
Við erum að sjálfsögðu ekki sammála um hver ber af, hver er hetja eða sönn hetja og loga nú netmiðlar af misjafnlega gáfulegri umræðu um þessi hetjumál. Persónulega finnst mér það margar hetjur á landinu að alger óþarfi sé að gera upp á milli og velja einhverja eina „aðal hetju“. Hver er til dæmis tilgangurinn með því? Erum við að velja hetju eða mann ársins til að hvetja hina til að verða meiri „menn ársins“ á næsta ári? Eða vantar okkur einhvern til að hylla?

Við þurfum ekki að líta langt til að finna sannar hetjur:  það eru börn sem berjast fyrir lífi sínu á hverjum degi, vegna veikinda eða annarra erfiðleika, það eru bæði konur og karlar sem basla við það á hverjum degi að hugsa um börnin sín, ein og óstudd og fá sjaldnast annað en gagnrýni annarra í staðin. Það er fólk sem býr við kröpp kjör, en lætur ekki bugast. Það eru unglingar sem falla á prófum í framhaldsskólum en halda samt áfram og reyna aftur og aftur. Það er fullt af fólki út um allt land sem þarf að hafa meira fyrir hlutunum en aðrir, en halda ótrauð áfram, án þess að kvarta og berjast jafnvel fyrir auknum réttindum annarra í leiðinni. Ég gæti haldið áfram með mun lengri lista af fólki sem mér finnst uppfylla þau skilyrði að teljast menn ársins.

Landið er fullt af góðu fólki sem gefur af sér án þess að ætlast til nokkurs í staðin, fólk sem hjálpar og huggar með hjartað fullt af kærleika.

Skólar landsins eru fullir af börnum og ungmennum sem þurfa að hafa misjafnlega mikið fyrir námi sínu. Við hömpum þeim sem vel gengur, en hinir sem strita við og ströggla til að ná því marki að vera í meðaltalinu, þeir eru bara meðaljón sem aldrei vinna nein  verðlaun, jafnvel þótt þeir hafi lagt mun meira á sig en þeir sem verðlaun hljóta.

Er ekki allt í lagi að hugsa þetta allt aðeins upp á nýtt? Eða í það minnsta verið sammála um að vera ósammála og hætta að rífast yfir hver er mestur og bestur?

Kannski er þetta allt svo bara öfund í mér, þar sem ég er of mikil meðal-Jóna til að vinna nokkurntíman til hetjuverðlauna, en ég hef líka ofboðslega lítið fyrir því að vera meðal-Jóna, á meðan það er fullt af fólki sem hefur mikið fyrir því, og allt það fólk eru menn ársins að mínu mati, fólk sem gefst ekki upp og heldur áfram no matter what!

Megi nýja árið færa ykkur öllum gleði og kærleika, ást og frið!
Till next...adios

Saturday, November 10, 2012

Samkennd

Á snara.is er samkennd útskýrð sem: samúð, meðaumkun eða félagstilfinning. Hér ætla ég að velta vöngum yfir samkennd út frá því að hún sé félagstilfinning sem er til þess ætluð að stuðla að betra samfélagi.

   Hinn andlegi vinur minn Aristóteles, skrifaði um samkennd og dygð. Hann sagði að hana þyrfti að kenna börnum, því að uppeldi skifti öllu máli þegar kemur að samkennd. Dygð er meðalhóf milli tveggja öfga, til dæmis er hugrekki meðalhóf milli fífldirfsku og hugleysis. Aristóteles segir: „Þannig er þessu háttað með dygðir, því með athöfnum okkar í samskiptum við annað fólk verðum við ýmist réttlát eða ranglát. Við verðum ýmist hugrökk eða huglaus af athöfnum okkar við hættulegar aðstæður með því að venja okkur á ótta eða djörfung. Sama máli gegnir um langarnir og reiði, því manneskja verður ýmist hófsöm og geðprúð eða hóflaus og geðvond, allt eftir athöfnum og aðstæðum. Hneigðir verða til, í stuttu máli, fyrir samsvarandi virkni. Þetta er ástæða þess að virknin í hverju tilviki verður að vera af ákveðinni gerð, því hneigðirnar laga sig að virkninni. Af þeim sökum skiptir ekki litlu máli hverju við venjumst frá blautu barnsbeini, heldur miklu og reyndar öllu.“

 Aristóteles sagði einnig að til þess að geta fundið meðalhófið þá þyrftum við bæði hyggindi og visku. „Það telst vera til marks um hygginn mann að geta ráðið ráðum sínum vel um eigin gæði og hagsmuni, en þó ekki í eistöku máli, eins og hvað leiði til heilbrigðis eða líkamsstyrks, heldur hvað leiði til almenns velfarnaðar.“

Þarna erum við þá komin að lykilatriðinu; það sem leiðir til almenns velfarnaðar. Til þess að geta unnið að velferð samfélagsins, þá þurfum við samkennd og við þurfum að kenna samkennd og við þurfum að rækta hana með okkur.
 Ég ætla hér að halda því fram, að hnignun samfélagsins, hvort sem við tölum um bankahrun, hvítflibbaglæpi, einelti eða aðra neikvæða þætti, eigi rætur sínar að rekja til skorts á samkennd. Það er skortur á samkennd og það er skortur á dygðum, það er skortur á meðalhófi og það er skortur á hyggindum og visku. Við höfum undanfarna áratugi unnið að því að ala á einstaklingsframtaki, og hvernig er það gert? Jú, með því að hampa þeim sem skara framúr, og skiptir þá engu hvaða leiðir eru farnar til þess. Í dag má enginn verða undir, það er ekki gott að vera meðal-Jóninn, það er ekki gott að sýna tilfinngar og það er algert tabú að sýna tilfinningar á almannafæri. Við eigum að vera köld og klár, kunna utanbókar allskyns fræði og skiptir þá skilningurinn minna máli. Við eigum að svara fyrir okkur og aldrei að víkja frá málstaðnum, hver sem hann kann að vera. Að viðurkenna mistök, eru talin mestu mistökin. Að eiga nógu margar táknmyndir auðs er það sem öllu skiptir. Hvað skipta þá nokkrar verðlausar sáli máli?

 Fyrir langa langa löngu þá gerði mannskepnan svokallaðan samfélagssáttmála, en hann byggðist á því að fólk setti sér reglur sem voru þeim í hag sem hópur. Þetta voru einfaldar reglur eins og bann við því að drepa, stela, svíkja og þess háttar. Þá þurfti fólk ekki lengur að óttast gjörðir annarra.
Alltaf eru þó einhverjir sem skera sig úr, gera uppreisn gagnvart „kerfinu“, mótmæla „forræðishyggju“ og vilja haga lífi sínu eins og þeim sýnist. Eru þetta þá einstaklingar sem kjósa að búa utan samfélaga? Nei, yfirleitt eru þetta aðilar sem kjósa að búa í samfélögum og njóta þeirra réttinda sem því fylgir en um leið maka sinn eigin krók. Það má segja að þetta sé fólk sem vill bæði halda og sleppa.
 En af hverju er þetta svona? Jú ég hygg að þetta sé vegna þess að þessum einstaklingum hefur ekki verið kennd samkennd. Þeim hefur ekki verið kennt að bera virðingu fyrir öðrum og að koma fram við aðra eins og þeir vilja láta koma fram við sig.

 Að kenna þetta er alls ekki á færi eins eða tveggja einstaklinga. Það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn segir gamalt málætki og það er alveg hárrétt.
Við erum öll fyrirmyndir í samfélagi okkar, annarra manna börn sjá okkur úti á götu, sjá okkur í umferðinni, sjá okkur úti í búð, sjá okkur tala við annað fólk og hverngi við komum fram við aðra. Í samfélögum skipta allir máli og ég hygg að það sé löngu tímabært að rifja það upp og vinna að því hörðum höndum að stuðla að bættri samkennd, sterkari siðferðisvitund og betra samfélagi fyrir alla.

Till next...adios

Wednesday, June 20, 2012

Í pokann með hrokann ;)

Hvað ungur nemur, gamall temur. Í þessu felst mikil viska – hvað getum við lært ef enginn er til að kenna okkur og leiðbeina? Nú tala ég eingöngu frá eigin reynslu og áliti, en ég segi að maður sé óttarlega vitlaus fyrstu 30 ár ævinnar eða svo, jafnvel dálítið lengur. Kannski er ég með endæmum seinþroska, en einhverra hluta vegna hafa skoðanir mínar breyst gríðarlega bara síðustu tíu árin. Svo ég myndi segja að 42 ára ég væri afar ósammála 32 ára mér.
Kannski kemur þetta til af þroska, en þroskinn kemur sennilega af reynslu og reynslan er það sem ungdóminn skortir (og þegar ég tala um ungdóm, þá meina ég flesta undir 35 ára aldri).

 Öll göngum við í gegnum ólíka hluti í lífinu, sem þroska okkur mis hratt og mis mikið, en við eigum það sameignilegt að við þurfum tiltal og handleiðslu til þess að okkur gangi betur og fáum tækifæri til að reyna nú að feta hin mjóa veg dygðanna. Sumir taka reyndar aldrei tiltali og hlusta ekki á nein rök, æða bara áfram í fullu trausti á sjálfan sig með óbilandi trú á eigin ódauðleika og réttsýni. Hjá sumum er mottóið: það sem mér finnst rétt er rétt! Og virka þá öll rök á viðkomandi jafn vel eins og að skvetta vatni á gæs; áhrifin eru engin.
 En fyrr en seinna þá reka þessir einstaklingar sig á, og því meiri sem trúin hefur verið á eigið ágæti því harkalegri verður áreksturinn. Eflaust gæti ég týnt til eitt eða tvö dæmi um þetta, en ég læt það ógert. En eitt er víst, að margir af þeim óhörnuðu unglingum sem eru önnum kafnir á þroskabrautinni (35 ára og yngri), freistast til að líta upp til þessara sjálfsöruggu, kokhraustu aðila með oft miður góðum afleiðingum. Þess vegna þurfum við fleiri hógværa, hjartgóða og réttsýna einstaklinga sem fyrirmyndir fyrir unga fólkið okkar. Við þurfum að læra að tala saman, ræða í bróðerni þau mál sem upp kunna að koma og taka sameiginlega ákvörðun. Við þurfum að kenna jákvæðni en ekki yfirgang, við þurfum að leiðbeina en ekki skammast, við þurfum að kenna samkennd en ekki hroka.

Það má heldur ekki misskilja mig, margt ungt fólk undir 35 ára er bæði miklum gáfum gætt og dygðum prýtt, en það vantar reynsluna og skilninginn sem því fylgir. Þegar við erum ung, þá finnst okkur við geta sigrað heiminn, þegar við þroskumst þá sjáum við að það er hin mesta vitleysa að sigra heiminn, við eigum að lifa í sátt við hann. Ég treysti ungu fólki mjög vel og þekki margt ungt fólk sem eru allir vegir færir og geta ekki annað en gert heiminn betri sem við búum í.

En þrátt fyrir það allt, þá megum við aldrei hundsa visku hinna eldri og reynslumeiri og ef eitthvað á að geta sætt sundurlyndi þá er það speki þeirra sem reynsluna hafa. Mannskepnan fór ekki að þróast að neinu viti fyrr en það tókst að færa skilaboð í orð og letur, þannig var hægt að koma vitneskju áfram til komandi kynslóða og ekki þurfti lengur að finna upp hjólið aftur og aftur. Notum þessa visku, lesum okkur til, lesum speki þeirra hugsuða sem uppi voru löngu fyrir árið 0. Lesum Sókrates, Plató, Aristóteles og Bókina um veginn eftir Lao Tse. Lesum, tölum saman í sátt, hugsum okkur hvernig við viljum hafa framtíðina og lifum í núinu.

Till next...adios

Tuesday, May 22, 2012

Íslendingar - einnota þjóð?

Ég fór á sushi veitingastað fyrir nokkru með strákunum mínum, sem er svo sem ekki í frásögur færandi, nema að það fékk mig til að hugsa enn meira um hversu einnota-vædd við íslendingar erum að verða.

 Ég vissi ekki betur en að þetta væri venjulegur sushi staður, og þarna inni voru mörg borð og stólar fyrir talsverðan fjölda fólks. En strax og inn var komið, var allt sushi-ið í plastbökkum, svona eins og maður getur keypt í sumum matvöruverslunum. Ég hélt að þetta væri kannski líka fyrir heimtöku og spurði hvort ekki væri hægt að fá sushi-ið á disk, en nei, þetta var það sem til var. Jæja, við völdum okkur þá bara stóran bakka saman og ég ákvað að kaupa þá einnig heitan rétt og súpu, sem afgreiðslukonan sagðist myndi koma með á borðið. Ekki leið löng stund þar til maturinn kom, kjúklingarétturinn í hólfaskiptum plastbakka og súpan í frauðplastglösum með loki! Einnig voru öll áhöldin úr plasti, nema prjónarnir en þeir voru svona hefðbundnir einnota úr tré.
 Og ég spurði mig: Eru margir veitingastaðir hættir að nenna að vaska upp og nota bara einnota áhöld? Hversu mikið af því einnota dóti sem borðað er úr á staðnum ætli fari í endurvinnslu? Er þetta það sem við viljum? Erum við alveg hætt að gefa okkur tíma til að setjast niður og njóta matarins? Viljum við bara taka með okkur matinn og troða honum í okkur á hlaupum?

Ég skil vel að oft er afar þægilegt og jafnvel eina leiðin til að fá „alvöru“ mat að taka hann með í plastbökkum. Ég hef sjálf oft fengið mér „take a way“ kaffi og gripið sushi-bakka í matvöruverslun til að borða heima. En erum við ekki aðeins að missa okkur í einnota-notkun?

 Í Háskóla Íslands er Háma, ef maður svo mikið sem röltir framhjá byggingunni sem það hýsir, þá mætir maður talsverðum fjölda fólks með plastbakka með mat. Ég held að það sé svipuð saga í flestum stærri mötuneytum landsins. Ég hef grun um að oft sé þetta af þægindarástæðu en ekki vegna þess að annað var ekki hægt. Ég er ekkert að tala um að hætta alfarið notkun einnotaumbúða, en ef fólk myndi aðeins reyna að stilla henni í hóf, þá væri hálfur sigur unninn. Já og ég tala nú ekki um að setja svo einnota umbúðirnar í endurvinnslu eftir notkun. Þetta er nefnilega að lang stærstum hluta aðeins hugsunarleysi, en ég hygg að það sé betra að huga að þessu strax, nema okkur langi mikið að flytja út á einhverja plasteyjuna sem fljóta nú um flest heimsins höf.

Till next...adios

Monday, March 05, 2012

Hvaða hvaða...

Íslendingar eru ótrúleg þjóð. Ekki það að ég hafi mikið vit á öðrum þjóðum, enda heimóttaleg með afbrigðum. En ég held þó að ég geti með sæmilegu móti fullyrt að við erum heimsmeistarar í þrasi og þrætum. Það er hreinlega eins og afar mörgum finnist þeir vera að játa sig sigraða að einhverju leyti ef þeir þurfa einhverntíman að skipta um skoðun.

Hvað ætli valdi þessu?

Ég hitti gamlan kennara (ekki að hann sé neitt gamall...bara langt síðan hann kenndi mér, rúm 25 ár eða svo) nú á haustdögum þegar fyrir lá að ég væri að skella mér suður yfir heiðar að hefja meistaranám í siðfræði. Ég rakst á hann fyrir hreina tilviljun og sagði honum frá þessari fyrirætlan minni í spurðum fréttum. Hann brosti að þessari vitleysu í mér og sagði að ekki væri neitt vit í að læra siðfræði á Íslandi, því siðleysi væri svo rótgróið í landanum að það tæki nokkra mannsaldra að breyta því.
(Ég færi þetta samtal kannski örlítið í stílinn, en ekkert rosa mikið).

Núna síðustu daga, þá hefur mig nokkrum sinnum verið hugsað til þessara orða, míns djúphugsa kennara. Ekki er það eitt sem því veldur, heldur næstum öll almenn umræða sem fer af stað í þjóðfélaginu. Það er eins og allir geti leyft sér að hnýta í alla, hreyta skít í aðra og tala niður til allra. Sumir reyna að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra. Aðrir drulla yfir skoðanir annarra sem svo drulla yfir skoðanir hinna sem svo drulla yfir skoðanir þeirra sem drulluðu yfir skoðanir þeirra.
Sem sagt, í stuttu máli; við erum óendanlega góð í því að vera ómálefnaleg.

Það virðist heldur ekki vera hægt að vekja máls á neinu, nema grípa til róttækra aðferða, sem svo vekja upp enn róttækari aðferðir, gegn róttæku aðferðunum, þannig að róttæklingarnir verða alveg rasandi.
Svo veit enginn hver kastaði fyrsta grjóthnullungnum úr glerhúsinu og ekkert að sjá nema glerbrot um allt og sundurskornar sálir.

Stundum langar mig til að öskra út um gluggann: „GETUM VIÐ EKKI HÆTT AÐ RÍFAST OG FARIÐ AÐ TALA SAMAN?“ En ég er bara orðin svo kvefuð af öllum þessum skít í þjóðfélaginu að ég kem ekki upp orði...enda væri það víst lítið skárra að öskra á aðra til að ná fram málefnalegri umræðu.

Kannski er bara réttast að byrja að hvísla, reyna svo að hækka róminn smátt og smátt og athuga hvort að það sé einhver að hlusta.
Ef enginn hlustar, þá er það er versta falli orð sem fjúka burt í tómið, ég hygg að það sé betra en að sitja eftir með ráma rödd og rifin raddbönd.

Till next...adios

Monday, February 06, 2012

Af staðgöngumæðrun og siðferði landans...

Það er best að reyna að hita upp „pikk puttana“ fyrir komandi ritgerðarvinnu og tjá sig hér um siðfræðileg álitaefni. Það sem ég ætla að fjalla örlítið um núna, er málið sem á að fara í umræðu (eða er búið að samþykkja drög að ble ble ble) á hinu háa Alþingi og von einhverra að það náist í gegn. En svona til að vera aðeins skýrari, þá ætla ég að fjalla um staðgöngumæðrun.

Jebb, þannig er það nú að lífið er hverfult og ekki allir sem fá allt sem þeir þrá.

En hvað eigum við að ganga langt í því að sumir fá það sem þeir þrá...því það er með þetta eins og allt annað, þetta kostar pening og ekki eiga allir peninga.

Í fyrsta lagi, þá held ég að það þurfi að taka umræðu um staðgöngumæðrun í samfélaginu áður en misgáfulega Alþingið okkar fjallar um svona viðkvæm mál, og þar sem að siðferði hefur ekki alltaf verið haft að leiðarljósi við afgreiðslu mála að undanförnu, þá tel ég algerlega þarft að hafa smá áhyggjur af gangi mála.

Í öðru lagi, hvað felur staðgöngumæðrun í sér? Hverjir eiga hlut að máli? Hverja snertir þetta bæði beint og óbeint? Hver er réttur allra sem að málum koma? Hvaða ábyrgð bera þeir sem koma að málinu, siðferðislega og lagalega?

Það er mikið talað um mannréttindi (réttindi til að eiga barn) já og réttindi kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Þau réttindi eru t.d notuð til að réttlæta fóstureyðingar; ekki er hægt að neyða konu til að ganga með barn sem hún vill ekki. En hvað er staðgöngumæðrun? Það er klárlega ekki verið að neyða konu til að ganga með barn sem hún vill ekki eiga...eða hvað? Hvað kallast það, þegar konu er borgað fyrir að ganga með barn? Hún er kannski ekki neydd til þess...eða hvað? Jú kannski rekur fjárhagsleg neyð hana út í það, svipað og vændi. Já...úps, þarna kannski fór ég aðeins og langt, að líkja staðgöngumæðrun við vændi...en er ekki í báðum tilvikum verið að selja aðgang/afnot að líkama kvenna?

Svo ég vaði úr einu í annað, þá vilja konur réttlæti og konur vilja standa jafnfætis karlmönnum, í þessu máli gera þær það klárlega ekki að þeirri augljósu ástæðu að karlmenn geta ekki gengið með börn.

En svona til gamans og kannski beint að karlkyns-lesendum þessa pistils (ef einhver les þetta á annað borð) þá getum við sett upp eitt lítið dæmi: Indverskur karlmaður, faðir tveggja barna (konan stakk hann af með hvítum auðjöfri), er atvinnulaus og peningalaus. Einn daginn er komið til hans og honum boðnir tveir valkostir.
Fyrri valkostur: honum eru boðnar 5 milljónir fyrir að vera tengdur við nýrnarbilaðan fyrirbura, sem á von á nýju nýra eftir 9 mánuði og þá einnig taka nýjir foreldrar við þessu barni. En eina von þessa barns til að lifa er það að einhver taki þetta að sér. Segjum sem svo að ef Indverjinn okkar tekur það að sér, þá þarf hann að liggja fyrir í nánast allan tímann, en getur þó farið aðeins um en alltaf er litla barnið teng við hann með slöngum. Barnið er allan tímann í hitakassa og til að indverjinn myndi sem minnst tengsl þá sér hann ekki í gegnum kassann, en sér þó útlínur barnsins og bæði sér og skynjar hreyfingar þess og hann getur talað til þess, þótt það heyri ekki í honum.

Seinni valkostur: honum eru boðnar 5 milljónir fyrir að selja blíðu sína 20 forríkum konum. (fer ekki út í nánari útlistanir á því).

Hvor kosturinn er nú vænlegri? Hvor kosturinn gæti hugsanlega leitt til þess að tilfinningatengs myndu verða til staðar? Eru báðir kostirnir jafn siðlegir?

Svo er eitt, allt annað kannski, en það er rétturinn til að eignast barn, er hann skýlaus réttur okkar? Eiga þau öll þau börn sem eru munaðarlaus og allslaus úti í hinum stóra heimi ekki frekar rétt á því að eignast foreldri?

Af hverju er ekki leitað leiða til að flýta fyrir og jafnvel gera ódýrara fyrir fólk að ættleiða börn?
Á hverjum degi deyja börn úr hungri og sjúkdómum.
Börn sem hafa fæðst til þess eins að deyja, vegna þess að forríku þjóðirnar eru of uppteknar við að leika guð. Við erum of upptekin við að stjórna hver fær að kveikja nýtt líf og ákveða hverjir fá að njóta þess.
Já og svo er þessi sér íslenska krafa um að allir verði að eignast börn, og helst ekki seinna en strax! Hvaðan kemur hún? Svo þegar fólk lætur undan þrýstingi og eignast barn, þá VERÐUR það að eignast annað...já og annað...og svo kannski bara skilur það, því það kikknaði undan kröfum samfélagsins sem enginn veit hver setti en allir verða að fara eftir.

Nú tek ég skýrt fram að börn eru alveg dásamleg, en þau eru ekki eitthvað sem við eigum heimtingu á, eða eigum að heimta að aðrir eignist, og ekki heimta að aðrir eignist fyrir okkur.
Hættum að dæma aðra, hættum að vera með nefið ofaní annarra manna málum (sumir geta ekki eignast börn, aðrir hafa engan áhuga á því), já og svona til að enda þennan langa og út um víðan völl pistil, þá skulum við taka „staðgöngumæðrunarmálið“ út af borðinu, á Alþingi í það minnsta. Við skulm í það minnsta velta fyrir okkur þeim ótal hlutum sem þetta getur leitt af sér, þetta getur valdið jafn mikilli sorg og gleði ef ekki gengur allt að óskum.

Ræðum málin að vel íhugðu máli, af skynsemi og með rökum, við skulum ekki missa okkur í slegggjudóma og heimtufrekju.

Eigum við ekki frekar að reyna að HÆKKA siðferðisstuðul okkar frekar en lækka?

Till next...adios

Tuesday, January 17, 2012

Að bera í bakkafullan...

Uuuu...réttlátt samfélag?

Nú er hver höndin á móti annari í allskonar umræðum, bæði manna á millum en þó sér í lagi á veraldarvefsíðum ýmisskonar. Eftir stutta skönnun á facebook, þá virðist sem svo að fólk sé talsvert að fá leið á „iðnaðarsalt-umræðunni“ svokölluðu. Jú auðvitað er hundleiðinlegt að tala um sama málefnið í allt að þrjá daga í röð! Tölum frekar um eitthvað annað; Gillz eða Geir H.H.

En ég ætla, því miður (og þá geta einhverjir bara hætt að lesa hér), að bera í bakkafullan lækinn og ræða aðeins meira um iðnaðarsaltið, eða öllu heldur spá í það; hvað í óskupunum hefur geta valdið því að það var selt hér og notað í matvæli í yfir tíu ár. Ég veit ekki hvort að almenningur gerir sér yfirleitt grein fyrir, eða hugsar út í það, að þessar eftirlitsstofnanir sem við höfum á landinu, eru í vinnu hjá okkur við að gæta hagsmuna okkar. Þetta eru stofnanir reknar af almannafé, fyrir skatta frá fyrirtækjum og einstaklingum, eins og aðrar opinberar stofnanir.

Hjá stofnunum eins og Matvælaeftirlitinu og Heilbrigðiseftirlitinu vinnur fagfólk og ef við grípum aðeins niður í grein sem Sigurður Kristinson skrifaði um fagstéttir þá segir þar meðal annars: „Fagstéttir standa ekki undir nafni nema þær hafi kerfisbundna tilhneigingu til að setja almannahag ofar sérhagsmunum.“ Hefur orðið misbrestur á þessu hjá mörgum fagstéttum landsins? Hvenær urðu sérhagsmunir æðri almannahagsmunum? Afhverju fær Ölgerðin undanþágu til að selja iðnaðarsalt og afhverju fær Skeljungur undanþágu til að selja áfram áburð með of háu kadíum-innihaldi?

Málið er ekki, að mér finnst, hvort að þetta sé svo skaðlegt eða ekki, eða hvort að við þurfum að innbyrða mörg baðkör að viðkomandi vöru til að hljóta skaða af, heldur því að reglur eru settar og eftirlitsaðilar ráðnir sem fara svo ekkert eftir reglunum. Og afhverju ekki? Er einhver að fá einhverjar greiðslur fyrir eitthvað? Getum við ekki alveg eins sleppt þessum reglum fyrst við erum ekkert að fara eftir þeim?

Einhverra hluta vegna þá finnst mér þessi mál hafa einhvern smá ilm af einhverju frekar spilltu, kannski ekkert ólöglegt, meira svona siðlaust...maður þekkir mann, eða er frændi hans, eða á bara fullt af peningum. Hver veit. En til þess að geta byggt hér upp farsælt og réttlátt samfélag, sem ég hygg að talsverður fjöldi manns vill, þá þurfum við einmitt að hætta að viðurkenna spillingu sem sjálfsagðan hlut.

Við eigum rétt á því að eftirlitsaðilar vinni störf sín á faglegan hátt í þágu okkar almennings. Hvað EF einhver mjög heilsuspillandi efni hefðu leynst í saltinu?

Svo bara rétt til umhugsunar: Ef við erum núna að byggja upp nýtt samfélag alveg frá grunni, hvernig viljum við hafa það? Viljum við hafa mikla stéttaskiptingu? Viljum við hafa mikin launamun? Viljum við hafa misjöfn réttindi fyrir misjafna hópa fólks? Spyrjið ykkur að þessum spurningum, og endilega upphugsið fleiri ;) og hugsið ykkur svo að þegar skipan nýja samfélagsins er tilbúin, þá veit enginn hvar hver lendir. Þú gætir lennt í efsta þrepi samfélagsins eða þú gætir lennt í því neðsta. Viljum við þá ennþá sömu skipan á málum?

Till next...adios

Thursday, January 05, 2012

Siðferðilegt álitamál til umhugsunar :)

Smá siðfræðileg pæling:
Það hefur örlítið verið í umræðunni núna, en samt reyndar furðanlega lítið, að stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar réði Þorvald Lúðvík Sigurjónsson sem nýjan framkvæmdarstjóra nýverið. Málið væri kannski ekki umræðandi, nema fyrir þær sakir að hann hefur stöðu sakbornings og sætir rannskókn hjá Sérstökum saksóknara, vegna gruns um stórfelld fjársvik í störfum sínum sem forstjóri Saga Capital fjárfestingabanka og sem framkvæmdarstjóri hjá Kaupþingi á undan því. (Tengist málefnum Glitnis og Kaupþings).

Ein helstu rök Geirs Kristinns Aðalsteinssonar, formanns AFE og oddvita L-listans, eru þau að Þorvaldur Lúðvík hafi skarað framúr í persónuleikaprófi hjá Capacent, af þeim 10 sem fóru í það próf, en alls sóttu 37 um stöðuna.

Hér er hvorki ætlunin að ræða um sekt eða sakleysi Þorvaldar Lúðvíks, eða hvort hann sé hæfari eða óhæfari en aðrir til að sinna þessu starfi, heldur ætla ég mér að velta því fyrir mér hvaða afleiðingar þessi ráðning getur haft og reyna að komast að því hvort það hafi verið siðfræðilega réttmætt að ráða hann í þetta starf.

Það hafa komið fram gagnrýnisraddir á þessa ráðningu, sem benda á það að vafi leiki á um siðferði hennar og því ætla ég að reyna að nytjagreina þessa athöfn.
Ef við setjum þessa ráðningu inn í athafnanytjastefnu, þá þarf að skoða allar afleiðingar sem athöfn að þessu tagi getur haft og ef við setjum þetta inn í reglunytjastefnu, þá skoðum við hvaða almennar afleiðingar þessi athöfn getur haft.

Hvað myndi t.d gerast ef það yrði almenn regla, að það skipti ekki máli við ráðningar í opinber störf, að umsækjandi hefið stöðu sakbornings í sakamáli?
Skiptir máli hvaða staða það er sem ráðið er í? Myndum við t.d vilja að skólastjóri væri ráðinn inn í skóla sem sætti rannsókn vegna nauðgunar?

Fyrirfram er ekki hægt að segja til um hvaða afleiðingar þessi ráðning hefur, enda er sjaldnast hægt að sjá fyrir um afleiðingar gjörða og það er einmitt það sem gerir þetta að siðferðislegu álitamáli.
Ef það væri vitað að maðurinn komi ekki til með að fá nokkurn dóm, þá skiptir þetta sennilega ekki svo miklu máli, nema þá að þessi umræða sem er í gangi í augnablikinu getur skaðað ímynd AFE, sem er í sjálfu sér slæmt fyrir öll fyrirtæki og stofnanir ef orðspor og ímyndir þeirra skaðast. Er ekki alltaf betra að taka ákvarðanir sem ekki skaða ímynd og álit út á við?
Eða erum við orðin það fljót að gleyma að það skiptir ekki máli ef allt fer vel að lokum?

Eins og staðan er í dag, þá kannski skaðast engir einstaklingar við þessa gjörð, en ef svo færi að Þorvaldur Lúðvík yrði fundinn sekur um misferli að einhverju tagi, þá gæti það bitnað á mörgum. Þeir sem að ráðninguni standa myndu bera álitshnekki og vera sakaðir um dómgreindarskort við ráðningaferlið, bæði þá stjórn AFE og einnig starfsfólk Capacent og allir þeir aðilar sem að málinu koma. Það gæti allt eins farið svo að einhverjir misstu vinnuna vegna rangra og áhættusamra ákvarðana og myndu þá einnig fjölskyldur þeirra gjalda fyrir það með óbeinum hætti.
Það virðist þó ekki vera lenska hérlendis að fólk taki almennt ábyrgð á umdeildum ákvörðunum, svo þetta er kannski langsótt.

Ég myndi þó segja að þessi ráðning hafi óbein áhrif á samfélagið í heild, því með þessari ráðningu er verið að segja að það skipti í raun ekki máli hvort að viðkomandi sæti rannsókn eður ei. Og ef fólk er saklaust uns sekt er sönnuð, þá hlýtur það að ganga yfir alla.
Einnig veit ég að rannsóknir mála og dómsúrskurður tekur oft langan tíma oft til skaða fyrir bæði einstaklinga og samfélagið í heild. En það kostar endurskoðun á réttarkerfinu í heild, já og kannski fleira fólk í vinnu í þessum málaflokki, sem er allt annað mál en það sem ég fjalla hér um.

Mikilvægi þess að ráða þennan ákveðna mann í þessa stöðu er mér að mestu leyti hulin ráðgáta. Ef umsóknir hefðu verið fáar og margir ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru, þá hefði málið litið öðruvísi út. En umsóknirnar voru 37 eins og áður kom fram og 10 virðast hafa náð því lágmarki að vera teknir í persónuleikapróf.

Þetta persónuleikapróf gerir mig reyndar örlítið ruglaða, því jafnvel hinir harðsvífustu glæpamenn geta komið glimrandi vel út úr persónuleikaprófum. Er það ekki einmitt eitt af því sem einkennir þá sem „svífast einskins“ í viðskiptum? Að vera svalur og kúl og láta fátt sem ekkert koma sér úr jafnvægi. Maður hefur jafnvel lesið um fjöldamorðingja sem nágrannar og aðrir báru hina bestu sögu og þóttu hinir mestu ljúflingar. Einnig veit maður að til er fólk sem er nánast ófært um mannleg samskipti eða eiga erfitt með að tjá sig opinberlega, en samt eldklárt og rosalega fært í því sem það tekur sér fyrir hendur (nema kannski að sannfæra aðra um ágæti sitt). En þetta er kannski aðeins útúrdúr, og meira ætlað til umhugsunar en að ég sé að varpa fram staðreyndum.

Hvert er réttlætið við þessa ráðningu? Átti maðurinn hana skilið, eða var verið að ganga framhjá enn hæfara fólki vegna pólitískra tengsla eða vinskapar?
Ég er þess fullviss, að minnsta kosti einn annar umsækjandi hefur verið að minnsta kosti jafn hæfur, án þess að hafa kynnt mér aðra umsækjendur á neinn hátt. En í þetta stórum hópi umsækjenda, má bara gera ráð fyrir því. Ég gæti jafnvel ályktað sem svo að eitthvað annað en gríðarleg hæfni þessa einstaklings hafi stýrt þessari ráðningu, en ég kýs að leyfa fólki að dæma hvert fyrir sig. Það mætti jafnvel bera þessa ráðningu saman við ráðningu bæjarstjóra Akureyrar á sínum tíma, en ég kýs að gera það heldur ekki.

Ef ráðningin er á öðrum forsendum en hæfni, þá er hún óréttlæti í garð hinna umsækjendana.

Ef ráðinn hefði verið einhver annar umsækjenda (en enginn annar sætir rannsókn) þá hefði það ekki einu sinni átt að skaða Þorvald Lúðvík, því hann hlýtur að minnsta kosti að hafa verið í svipaðri stöðu og aðrir umsækjendur varðandi vinnu. Ég tek það fram að ég hef ekki nennt að kynna mér hvort eða í hvaða vinnu hann var, eða aðrir umsækjendur.
En það má alveg hugsa sem svo að einhver annar hafi meira þurft á þessari atvinnu að halda, og jafnvel verið jafn hæfur.

Ef ráðningin er fordæmisgefandi út í samfélagið, þá gæti hún haft skaðleg áhrif á mörgum og misjöfn um stöðum.

Í siðfræðilegum álitamálum stendur valið oft á milli tveggja slæmra kosta, hver er hinn slæmi kosturinn í þessu tilviki?

Ef valið er á milli þess að ráða hæfan mann sem sætir rannsókn á misferli og að ráða hæfan mann sem sætir ekki rannsókn af neinu tagi, af hverju er þá valið erfitt?
Og af hverju er þá maður ráðinn sem sætir rannsókn þegar talsverður fjöldi annarra er í boði?

Það liggur nærri að maður geti ekki einu sinni flokkað þetta sem siðfræðilegt álitamál, heldur sé þessi ráðning hreint og beint siðferðilega röng og lykti af spillingu og pólitískum hrossakaupum. Er þetta sú leið sem við viljum fara eftir hrunadansinn mikla?

Þessi gjörð stuðlar ekki að sátt og samlyndi í samfélaginu og veitir hinum almenna borgara varla öryggistilfinnigu yfir því hversu faglega málum sé háttað í stjórnsýslunni.

Til er ein góð formúla fyrir því að finna út hvort að athafnir séu réttar eða rangar og hún er svona: Leggið saman góðar og slæmar afleiðingar. Ef slæmar afleiðingar eru meiri en hinar góðu er athöfnin röng, ef góðar afleiðingar eru meiri en slæmar er hún siðferðilega rétt. (eða í það minnsta réttari)

Og að þessum orðum skrifuðum þá læt ég það í hendur ykkar lesenda að ákveða hvort að ráðning Þorvaldar Lúðvíks sé siðferðilega rétt eða röng.
Ég er búin að gera upp við mig hvað mér finnst.

Till next...adios