Monday, March 31, 2008

Björgunaraðgerðir og annað smálegt

Núna á ég að vera að lesa á fullu fyrir hópverkefni sem á að fara í í kvöld og flytja framsögu um á morgun...mjög rólegur hópur þarna á ferð ;) En eins og allir sjá, er ég ekkert að nenna að lesa alveg strax og blogga bara í staðin!
Ég var frekar reið og pirruð um helgina og ákvað að sleppa því bara að blogga svo ég léti ekki eitthvað óhugsað og ljótt út úr mér hér...núna læt ég bara vel hugsað og ljótt út úr mér í staðin ;)
Það bar nefnilega svo við um þessar mundir (nánar tiltekið sl.fimmtudag) að föðureðli Hafþórs létt eitthvað á sér kræla. Hann í dugnaði sínum hringir í Mikael (ég var rétt ókomin heim úr skólanum og Mikael svarar í símann) og býður honum að koma í heimsókn til sín til Dalvíkur, þar sem þeir gætu farið í sund og gert sitt hvað fleira skemmtilegt. Svo heyri ég í honum aftur seinna um daginn, og þá bar hann þetta undir mig...hummm, spurning með forgangsröðun þarna, en jæja...ég náttúrulega spurði fyrst hvort hann hefði verið búinn að minnast á þetta við Mikael og þar sem hann játti því, þá varð það að samkomulagi að ég færi með Mikael út á Dalvík um hádegisbilið, þeir gætu farið í sund (og ég lært á meðan) og svo færi ég með hann aftur heim, nema ef Mikael myndi sækja það fast að vilja gista. Ok, þetta virtist ætla að verða í lagi...en stundum er maður full bjartsýnn! Klukkan tíu á laugardagsmorguninn hringir föðurómyndin og er sum sé laggstur á altari bakkusar, honum til dýrðar. Samt hafði hann hringt aftur á föstudagskvödinu og svona agalega spenntur að hitta guttann. Og Mikael greyið sem hafði vaknað kl.8 og alltaf að spyrja hvenær við færum á Dalvík, varð ansi hreint mikið sorgmæddur. Sagðist halda að pabbi hanns vildi ekkert hitta sig og grét.
Svo laugardagurinn fór í björgunaraðgerðir í formi bíóferðar, tölvuleikja og mikilla faðmlaga :)
Á sunnudeginum spurði Mikael samt eftir pabba sínum, hvort hann mætti hringja í hann og athuga hvort hann gæti hitt hann þá...en ég sagði honum að hann væri ábyggilega ennþá fullur! (og ég hef bara ekkert samviskubit yfir því að segja barninu sannleikann!). Svo Mikael gekk eftir ganginum og sönglaði "pabbi minn er alltaf fullur"...hummm.
Kallinn hringdi að vísu á laugardagskvöldinu, ennþá rámur (og sennilega eitthvað í því) og sagðist bara ekki "hafa verið tilbúinn" en ég var vond og vildi ekki leyfa honum að tala við Mikael og ekki leyfa honum að hitta hann daginn eftir. Bað hann bara vel að lifa og sagði ekki einusinni neitt ljótt! Nema kanski að fyrst hann væri nú búinn að vera fullur frá 14 ára aldri, þá fyndist mér nú lélegt að geta ekki frestað einu fyllerí um sólarhring...
Ég get samt alveg viðurkennt að ég veit aldrei hvenær ég er að gera rétt í þessum málum og hvenær ekki.

Till next...adios

Thursday, March 27, 2008

Langir dagar

Já, þeir eru dálítið langir dagarnir um þessar mundir, en núna er ég byrjuð á fullu í ljósvakamiðlunaráfanga, sem er kenndur í lotu, sem þýðir aðallega að núna er ég í skólanum til kl. 17:00 sem er dálítið mikið...sér staklega ef maður þarf stundum á fyrirlestur kl. 17:00 eins og í dag. Svo dagurinn í dag var svona hlaupadagur...fór í tíma kl. 8-9 svo heim að læra, aftur í skólann frá 12-17 og svo ók ég í hendingskasti niðrá Amtsbókasafn á fyrirlestur. En hvað get ég sagt...ÞETTA ER BARA SVO GAMAN :)
Annars er þessi ljósvakamiðlunaráfangi (hér eftir kallaður LJÓ, ef ég þarf að nefna hann á nafn aftur), hrein snilld, Sigrún Stefánsdóttir að kenna og hún er bara fín. Svo er mikið af verklegum æfingum og ....takið nú vel eftir....ég verð í heilan dag á RÚVAk í næstu viku, að öllum líkindum á fimmtudaginn. En þá verð ég að kynna mér starfsemina, og bý til frétt sem kemur svo vonandi í svæðisútvarpinu um kvöldið :) Svo allir að hlusta á Rás 2 á fimmtudaginn :) fæ að vera með Gesti Einari um morgunin og svoleiðis...tíhí, rosa spennó :)

Jæja, held ég þoli ekki meiri spennu í bili, langur dagur á morgun, stanslaust í skólanum frá 8-17 og í mesta lagi 10 min pásur annað slagði... svo ég ætla bara að henda inn mynd...af kind og Mikael og læt það duga í dag.
Allir eiga að vera vinir :)

Till next...adios

Tuesday, March 25, 2008

Myndir

Ég er eitthvað svo andlaus núna að ég ákvað að skella bara inn nokkrum myndum.
Enda síðasti dagur páskafrísins í dag og þá má maður vera andlaus ;)
Annars var ég bara að opna páskaeggið mitt í dag, sem sýnir kanski best hvurslags ofát hefur verið á manni... Málshátturinn minn hljómaði þannig: "Hræddur flýr þó enginn elti". Sem mér finnst flottur málsháttur og passar bara fínt við mig :)

MYND 1. Ragnheiður amma með barnabörnin sín, sem eru orðin 9 talsins.

MYND 2. Mikael Hugi með Friðrik litla frænda.
MYND 3. Friðrik Ingi Þórðarson og Friðrik Árnason.

NYND 4. Kristján Esra krútt :)

Læt þetta duga í bili...set næst inn fleiri myndir, af kindum og fleiru...já, það eru komnir lambakóngar í sveitina, páksalömb, voru í heiminn bornir á páskadag. Þetta voru 3 litlir hrússar sem fengu nöfnin Friðrik I, II og III..konungleg nöfn á kóngana :)

Till next...adios

Sunday, March 23, 2008

Friðrik Árnason

Þá er lilli litli kominn með nafn. Drengurinn var skírður í Grundarkirkju, eldsnemma á páskadagsmorgun...og hlaut nafnið Friðrik. Verð að segja að þetta er vel valið nafn, (og var skemmtileg fullvissa að ég hafi giskað rétt,) ég fékk nú samt smá tár í augun þegar Árni sagði nafnið í kirkjunni.
Eins og sérst var alveg sérstaklega gott veður og Grundarkirkja flott...fór einmitt að rifja það upp við altarisgönguna, að það eru víst allnokkur ár síðan ég fermdist í þessari sömu kirkju. Þá fannst mér krikjan gríðarlega stór. Ég held að ég hafi nú samt ekki stækkað að neinu viti síðan ég fermdist, kanski þroskast eitthvað smávegis...er samt umdeilanlegt.
En þetta var bæði hugarhreinsandi og umhugsunarvekjandi að sitja í messunni og hlýða á orð Sr. Hannesar Ö.Blandon.
Ég held að innri ró og sálarfrið hafi verð fórnað fyrir lífsgæðakapphlaupið.

Gleðilega páska öll sem eitt :)

Till next...adios

Saturday, March 22, 2008

Laugardagur fyrir páska

Fór í búðar-leið-angur í dag, fólk virðist ennþá vera að tapa sér í neyslugleði. Kansi er fólk að flýta sér að kaupa og kaupa áður en að allir peningarnir verða búnir ;)
Annars kíkti ég inn í nýja Rúmfatalagerinn, þar sem "hættulegi rúllustiginn" er, það er búið að setja upp öryggisnet þar sem stelpan datt niður á opnurnardaginn, náttúrulega mun ódýrara heldur en að hafa öryggisvörð standandi þarna allan daginn. En rúmfatalagerinn hefur stækkað til muna, það verður að segjast...en afgreiðslukassarnir eru ennþá jafn fáir...sennilega ekki reiknað með neitti örtröð við þá, fólk er auðviðtað svo lengi að villast um í búðinni :)
Svo er páskadagur á morgun og skírn eldsnemma í fyrramálið, auðvitað hefur maður bara gott af smá nærandi hugleiðingu frá sr.Hannesi, snemma á páskadagsmorgun...og svo er spennandi að vita hvað Lilli litli verður skírður ;) Ég hef mínar hugmyndir með það, en læt það ekki uppi hér.
Sökkti mér niður í tertugerð í dag, svo átti ég nokkrar eggjahvítur í afgang, og sullaði sykri, kókos og súkkulaði saman við og bjó til toppa. Bakaði þetta alveg upp á von og óvon, því ónákvæmari vigtun hefur ekki verið gerð...en uppskriftin er svona ef einhver vill prufa:
6 eggjahvítur
hellingur af sykri
næstum allur pokinn af kókosmjöli
restin af súkkulaði-lakkrískurlinu
næstum heil plata af suðusúkkulaði

Hvíturnar og sykurinn þeytt saman (má gjarnan minka sykurinn) svo er rest hrært út í og sett með teskeiðum á smérpappír og bakað við 170°C í 15 min.

Ég hef nefnilega yfirleitt ætlað að gera eitthvað úr eggjahvítunum, þegar ég á þær í afgang úr perutertugerð, en svo gleymi ég því alltaf. Svo þetta var mikill áfangi, og topparnir vel ætir :)

Jæja, ég fór með guttana í vídeóleigu áðan, svo ætli það sé ekki best að fara að góna á eitthvað. Annars fannst mér svo sniðugt að taka dvd í dag, því þá þyrfti ég ekki að skila því fyrr en á mánudaginn...en það er víst bara opið á morgun, páskadag!
Hvert er heimurinn eiginlega að fara...er ekki bara hægt að hafa lokað á hátíðisdögum? Það var svoleiðis í þá gömlu góðu daga :)
Gleðilega páska :)

Till next...adios

Thursday, March 20, 2008

Gullkorn

Það datt gullkorn upp úr honum Mikael í sveitinni á þriðjudaginn...(eins og reyndar oft áður). En ég var að lýsa kennurunum hans Mikaels fyrir honum Árna, (svona ef hann skyldi þekkja þær) við erum búin að ræða þetta eitthvað og ég segi svo: þær eru tvær ungar og svo tvær gamalreyndar, sem eru búnar að kenna þarna í hundrað ár. Þá segir Mikael Hugi: " Nei! Ekkert í hundarð ár! (mjög hneikslaður) Þær eru búnar að vera þarna miklu lengur!" hehe....

Till next...adios

Wednesday, March 19, 2008

The gambling women ;)

Það varð lítið úr fögrum fyrirheitum mínum í gær, með að laga til eða fara í búð...enda bæði leiðinlegt ;) Ég fór bara í sveitina í staðin og fanst það fín skipti. Árni og co voru mætt á svæðið og ég fór að kíkja á lilla litla í fyrsta skiptið. Hann er náttúrulega fjallmyndarlegur eins og allir í þessari göfugu ætt. :) Þegar í bæinn var komið aftur, þá hentist ég inn í Nettó og keypti eitthvað smotterí, held ég láti það bara duga yfir páskana...á til nóg af kartöflum og læri í frystinum, svo fer ég bara í heimskóknir inn á milli, já og skírnarveisluna sem er víst á páskadag :)
Í gærkveldi var svo PÓKERKVÖLD hjá Árna bró. þar voru samankomnir miklir pókerspilarar og snillingar á sínu sviði, Árni, Sverrir, Pálmi og Villi og svo fékk ég að vera með, hafði reyndar bara spilað póker tvisvar um jólin með litlum árangri. En það fór nú svo að ég gersamlega rústaði þeim köppum í póker ;) svo nú bíð ég bara eftir að rauðvínsflöskurnar fari að streyma til mín ;) hehe...
Þetta er nú bara svolítið gaman þegar maður kemst aðeins inn í þetta...átti engan vegin von á því að vinna..þótt það hafi náttúrulega sannast þarna hið fornkveðna: "heppinn í spilum, óheppinn í ástum."
Í gær afrekaði ég það að þvo gardínurnar í stofuglugganum....ég reyndar þvoði þær í þvottavél (tvisvar, því ég nennti ekki að strauja þær í gær), og svo straujaði ég þær í dag! Alveg ótrúlega dugleg...ætla samt að kaupa straufríar gardínur næst :)

Till next...adios

Tuesday, March 18, 2008

Gleði gleði

Nú er ég næstum komin í páskafrí...bara eitt hópvinnuverkefni í fyrramálið og svo frí :)
Ég fékk út úr prófinu (30%) í upplýsingarýni í morgun...og fékk 9,2 :) brosti alveg hringinn...þetta var hæsta einkunn sem gefin var og bara 4 sem náðu því...vá hvað ég er miklu gáfaðri en ég held ;) Kennarinn byrjaði líka á því að segja að meðaleinkunnin hefði verð 6,2 og að 10 hefðu fallið!!! Svo ég fer inn í páskafrí með gleði í hjarta. Var líka búin að fá út úr "Afbyggingu 20.aldarinnar" prófinu, og náði því...var með 18,5% af 30% rétt, sum sé náði með ca.6. Enda kennarinn Ítalskur fasisti ;) bara glöð að hafa náð.
Ég er að reyna að skrifa niður innkaupalista fyrir búðarferð páskanna....nenni bara ekki að vera að þvælast í búðir á þessum dögum, ætla frekar að þvælast í heimsóknir, á skíði, í gönguferðir og sund svo eitthvað sé nefnt..já og eina skírn, en það á víst að skíra litla frænda Árnason á laugard. fyrir páska...held ég ;) Mér hefði nú þótt flottast að láta skíra hann á skírdag af jó-Hannesi skírara-presti ;) hehe... En mikið verður nú gaman fyrir litla guttann að heita Elísabetus Katarínus Árnason ;) tja...eða ekki ;)
Ákvað að skella inn einni mynd af honum Mikael Huga, í þungum þönkum...er kanski að hugsa um óréttlætið í heiminum ;) Ef einhverjum finnst ég setja oftar inn myndir af Mikael en Kristjáni, þá er það einfaldlega vegna þess að myndir af Kristjáni má ekki taka nema á sérstökum hátíðis og tillidögum...ekki mikið fyrir sviðsljósið ;)
Jæja, annaðhvort verð ég að fara að laga til eða drífa mig í búðina...

Till next...adios

Monday, March 17, 2008

Heilsufréttir

Heilsan er bara að verða nokkuð góð. Ekki orðin 100% en það kemur. Ég mætti galvösk í skólann í dag, held samt að HA sé eini skóli landsins sem ekki er kominn í páskafrí ;) en það er svo sem í lagi. Fer bara í tvo tíma í fyrramálið svo er ég komin í frí...tja, þarf reyndar að skrifa eina ritgerð...
Annars var ég alveg standandi bit og hissa og kjaftstopp (sem gerist nú ekki oft) þegar ég sá dóminn í máli 10 ára stelpunnar, sem varð fyrir því að skella hurð á höfuðið á kennaranum sínum. En eins og eflaust allir vita var móðir stúlkunnar dæmt til að greiða kennaranum litlar 10.000.000 kr. í skaðabætur.
Það fyrsta sem ég hugsaði var: ég tek báða strákana úr skóla...þori ekki að hafa þá þar ef þeir skyldu lenda í einhverju svipuðu.
Hvernig í óskupunum er þetta hægt? Hvernig er hægt að gera 10 ára barn, ábyrgt fyrir svona óviljaverki? Ég veit að hún skellti hurðinni, en að hún hafi ætlað að slasa kennarann, það er allt annar handleggur.
Svo er eitt skrítið, ef ég á barn í skóla sem slasast í skólanum, t.d dettur á hausinn, eða viðbeinsbrotnar eða eitthvað, þá borgar skólinn/leikskólinn fyrstu heimsókn á slysó. Og ég held að skólinn beri amk einhverja ábyrgð á krökkunum í skólanum. Eðlilega, ekki getum við foreldrarnir vaktað þau í skólatíma...nóg er nú samt ;)
Og hver getur borgað 10 millur í skaðabætur? Á bara að leggja líf þessarar fjölskyldu í rúst í eitt skiptið fyrir öll? Svo fá nauðgarar smá dóm og þurfa kanski að borga 500 þús.!!!
Girr...er frekar fúl yfir þessum dóm...en þarf að fara að elda kvöldmat, svo þið fáið frið frá frekari pirringslosun ;)

Passið ykkur á öllu sem má ekki, því það er bannað ;)

Till next...adios

Friday, March 14, 2008

Að gubba...

eða ekki gubba, það er spurningin. Ég var amk heima í allan dag með ógleði, hausverk og almenna vanlíðan. Fyrsti skóladagurinn sem ég sleppi síðan ég hóf skólagöngu í haust, og ég er algerlega miður mín yfir að hafa verið lasin! Svo átti ég líka að sjá um miðasölu í Freyvangi í kvöld, en tókst að plata það inn á Sverrir bró. af mikilli snilld. Mér tókst nú samt sem betur fer að klára ritgerðina í fjölmiðlafræði, um æsifréttamennsku, í gær og ætlaði að skila henni í tíma í dag, voða góð. En ég má skila henni á mánudagsmorguninn í staðinn :)
Jæja, hef ekki orku í meiri skrif, ætla að skríða í sófann og horfa á MA og MR í spurningakeppninni gettu betur og vona það besta.

Till next...adios

Thursday, March 13, 2008

Kreppa

Landsbankinn hlýtur að vera stöndugur banki, ekkert krepputal þar á bæ. Þeir héldu amk "glæsilegustu árshátíð sem um getur" sl. helgi. Eða eins og stendur í Fréttablaðinu: " Starfsmenn voru leystir út með gjöfum og fékk hver um sig ferðatösku. Þá hlaut starfsmannafélagið íbúð í Kaupmannahöfn sem það hefur til umráða fyrir sína félaga." Tja maður spyr sig...er ekki hægt að leyfa okkur hundtryggum kúnnum til fleirihundruðogfimmtíu ára að njóta einhvers af öllum þessum aukapeningum sem þeir virðast eiga? Á starfsmaður Landsbankans sem hefur kanski unnið hjá bankanum í 6 mánuði, meiri rétt á ókeypis ferðatösku og ódýrri gistingu í Köben heldur en ég...sem hef átt viðskipti við bankann síðan ég var 18 ára????? (Fer ekkert út í að telja hve mörg ár). Svo að ég blæs á allt tal um yfirvofandi kreppu, fyrst bankinn lætur svona. Annars lærði ég það í rýni um daginn að allar svona spár auki líkurnar á að það gerist, meira að segja nánast tryggir að það gerist. Þess vegna var Dabbi Odds alltaf að tala um "góðæri". Annars fór þetta margumrædda góðæri algerlega framhjá mér, og þá hlýtur það að gilda um kreppuna líka ;)

ps. talandi um Davíð Odds...ég sá hinn margumtalaða og umdeilanlega Þorstein Davíðsson um daginn...og get sagt ykkur það, í trúnaði, að hann er NÁKVÆMLEGA eins asnalegur og hann lítur út fyrir að vera ;)

Góðar stundir :)

Till next...adios

Sunday, March 09, 2008

Æsifréttamennska

Ég er að hamast við að skrifa ritgerð um æsifréttamennsku, eins og glöggt má sjá, þá gef ég mér ekki tíma til nens annars en ritgerðarstarfa, þar sem skiladagur er ekki seinna en nk.föstudag! En ég er svoooo duglega að finna mér eitthvað annað til dundurs að ólíkindum sætir.
Var voða dugleg í gær og fór á gönguskíði, reyndar er þetta bara í annað skiptið í vetur sem gönguskíðin eru dregin fram og ekki dugir það! Upp í fjalli var lítið sem ekkert skygni, þoka og akkúrat ljósaskiptin, svo ég sá nánast ekki neitt nema rétt fram fyrir tærnar á mér...en ekki skyldi það nú stoppa mig, fyrst maður var á annað borð komin upp í fjall :) Ég gekk og gekk og gekk það ágætlega til að byrja með, svo var mér farið að finnast eins og ég væri alveg lost, hélt ég væri komin rúmlega hálfa leið út á Þelamörk, þegar slóðin virtist loksins fara í hina áttina. Það hefur eflaust verið mjög spaugileg sjón að sjá mig á gönguskíðunum, sérstaklega þegar ég fór niður brekkur...ég fór MJÖG varlega...en sem betur fer voru nú engin vitni af þessum skíðaafrekum mínum ;) og ég ákvað að fara sem fyrst aftur þegar skyggnið væri örlítið betra :)
Svo dreif ég mig með strákana á skauta í dag...sem kom nú ekki "til af góðu" en það var nefnilega einhver skautaferð hjá 1.bekk, svo ekki varð vikist undan. Reyndar var þetta voða gaman, og Kristján fílar sig vel á skautum, en Mikael aftur á móti meiddi sig á fótunum, skautarnir eitthvað nuddast utaní, og tilkynnti það að hann ætlaði aldrei aftur á skauta!
Svo núna er ég bara þreytt, með smá hálsbólgu og kvef að reyna að sökkva mér niður í ritgerðarskrif en gengur hægt.
Jæja...æsifréttamennska here I come ;)

Till next...adios

Friday, March 07, 2008

Brandari dagsins

Sporðdreki: Lífið hefur mikinn tilgang núna, þar sem viss manneskja spilar stóra rullu. Hún ríkir yfir þér og afgangurinn af heiminum fellur inn í dauflegan bakgrunninn.

Þetta var í stjörnuspá dagsins á mbl.is held þetta ætti frekar að heita brandari dagsins. Í þessi skipti sem ég rek augun í stjörnuspána er hún alveg út úr kú...og þar sem ég er líka að læra gagnrýna hugsun, þá er ég auðvitað alveg hætt að trúa á svona bull eins og stjörnuspár, forspár og hrakspár...húmbúkk! ;)
Annars er ég löt í dag, nenni ekki að skrifa eða læra, ætla nú samt með strákana í Freyvangsleikhúsið og leyfa þeim að sjá Þið munið hann Jörund :) það verður nú gaman að sjá það í annað skiptið ;) Endilega drífa sig í leikhús everyone :) Ætla að athuga hvort sófinn sé ennþá mjúkur...

Till next...adios

Thursday, March 06, 2008

Jibbíjei

Jæja, þá eru prófin búin í þessari viku ;) Nú þarf ég bara að drusla af einni ritgerð fyrir 14.mars og þá er maður svo gott sem komin í páskafrí. Sem reyndar verður eitthvað undirlagt af lestri og meiri ritgerðarskrifum. Mér gekk bara vel í prófinu í dag, amk betur en á þriðjudaginn, en þá þurfti ég líka að skrifa svörin á ensku, og kanski mest spurning um hvort kennarinn skilur mig ;) hehe... Annars verð ég bara fúl ef ég fæ undir 8 í prófinu í dag, enda las ég og las og las allan daginn í gær! Held ég hafi bara ekki farið út úr húsi, nema eldsnemma um morguninn þegar ég fór með Mikael til tannlæknis.
Annars hefur Mikael lofað bót og betrun í skólanum, en spyr mig samt annað slagið hvort hann þurfi ALLTAF að vera þægur í skólanum...held að honum finnist það algerlega óvinnandi vegur. Ég átti nú reyndar í stöðugum bréfaskrifum við kennarann hans í gær, þar að segja, hún sendi mér póst um að hún yrði á "einhverju ADHD námskeiði" þann dag sem ég átti að mæta í viðtal í næstu viku. Svo hún vildi gefa mér tíma í staðinn á þriðjud. Ég skrifaði til baka að ég væri í skólanum allan þriðjudaginn (hún getur sko bara hitt mig eftir hádegið) og þá skrifaði hún til baka hvort ég gæti ekki bara skrópað í skólanum!!! Ég þurfti að bíta mig í puttana til að skrifa ekki eitthvað miður fallegt, var næstum búin að spyrja hvort hún gæti bara ekki alveg eins skrópað í því sem hún var að gera.....en sleppti því. Sagðist komast á miðvikud. þótt ég þurfi að hoppa í burt úr hópavinnu, en það var bara eini dagurinn sem hún átti lausan handa mér... Mér finnst stundum óþolandi tillitsleysi hjá kennurum (nú verður Alla brjáluð) að ætlast til að maður geti stokkið í skólann hvenær sem þeim hentar, en þeir geta ekki hliðrað til fyrir mann. Í þessu tilviki var ég búin að segja að ég kæmist, miðvikud, fimmtud og föstud. í þessari viku, og miðvikud. fimmtud. og föstud. í næstu viku! Æ ég nenni annars ekki að pirra mig mikið yfir þessu, var nógu pirruð í gær...en þá var ég líka á fullu að lesa og þoldi enga truflun ;) Annars er ég mest hrædd um að þessir blessaðir kennarar ætli að reyna að klína einhverri greiningu á guttann. Ég fór nú í viðtal fyrir áramót og talaði við tvo kennara, eftir að Mikael og annar gutti voru að henda snjóboltum í bíla...og þá var ég nú bara spurð að því hvort að Mikael væri ekki bara ofvirkur! Og auðvitað hlýtur það bara að vera, fyrst að barnið nennir að hreyfa sig og á bróðir sem er greindur ofvirkur. Svo í viðtalinu í byrjun janúar, í skólanum, þá var bara allt í svona lukkunnarvelstandi...gekk allt svo vel og bla bla bla...held að kennaranum veiti ekki af svona ADHD námskeiði, er sennilega með athyglisbrest sjálf ;) tí hí...Kanski er ekki þorað að segja neitt við mann, nema að þær séu tvær saman...maður spyr sig.
Jæja, ætli ég sé ekki búin að drulla nóg yfir kennarastéttina í bili...bið alla kennara í ættinni afsökunar :) Annars er ég með lausn á þessu öllu saman, það eiga bara að vera fleiri kennarar og færri börn í bekk! Hver ræður við 25 börn í bekk??? Ekki ég, ég tek reyndar ofan hattinn fyrir þeim sem taka að sér að kenna, ég tæki það kanski að mér fyrir þreföld forsetalaun...en myndi þó hugsa málið!

Till next...adios

Tuesday, March 04, 2008

Eitt búið...

and one to go...Var í einu prófi í dag, 30% sem ég held að hafi gengið þokkalega. Ég verð a.m.k brjáluð ef ég fell...þá vaknar kennarinn upp dauður einn morguninn ;) hehe...nei, kanski ekki alveg. Reyndar mundi ég nú alveg nokkur atriði sem ég hefði átt að hafa með, þegar ég var komin út úr stofunni, en það er líka alltaf svoleiðis. Svo er ég að fara í annað próf á fimmtudagsmorguninn, og vona bara það besta. Stefin á að eyða morgundeginum að mestu í lestur. Nenni ekki að lesa neitt í dag, þarf líka að ná í Mikael í afmæli, elda kvöldmat og fara á fund!
Talandi um Mikael....ussss, hann er að fyllast af einhverjum "töffara stælum" um þessar mundir, fékk tölvupóst í dag, um að hann hefði farið oft útaf skólalóðinni og ekki hlýtt neinum! Eins gott að ég var bara að sjá þennan póst og hann verður í afmæli í rúman hálftíma í viðbót... En ég þarf a.m.k að mæta í viðtal í skólanum næsta fimmtudag, og á bréfinu að dæma sem ég fékk, þá á ég allt eins von á því að hann verði bara rekinn úr skólanum!!! Glæsileg byrjun á skólaferli hans ;)
En auðvitað er bara gaman að eiga bara börn sem þarf að hafa eitthvað fyrir, alveg ómögulegt ef maður þarf ekki að mæta nokkrum sinnum í skólann útaf smá veseni...;)
Annars er Kristján líka að verða svo hryllilega "rólegur", ekkert vesen með hann í skólanum, nema þá einna helst að fá hann til að læra...agalega latur við námið, og virðist slétt sama, reyndar sagði hann við mig um daginn að hann ætlaði að verða heimsfrægur heilaskurðlæknir. Svo glotti hann ógurlega ;D Gaman að þessu öllu saman...
Tja...best að gera eitthvað af viti...or nott, ætla að leggjast í leti í 20 min. og æfa ræðuna sem Mikael fær að heyra á eftir ;)

Till next...adios

Saturday, March 01, 2008

Fall er fararheill...

...vona ég a.m.k, því ég datt svo hryllilega á rassinn í dag! Ákvað, eftir lestur kommúnistaávarpsins, að drífa mig og strákana niður á Glerártorg, og gangandi skyldi farið! Kristján og Mikael duttu báðir á leiðinni niðureftir, en ég náði nú að tölta áfallalaust. Hugsaði með mér að það yrði nú miklu auðveldara að labba uppeftir í hálkunni, minni hætta á að detta. Blótaði því samt aðeins að hafa ekki bara farið á bílnum ;) En svo á heimleiðinni, flaug ég mjög snyrtilega á rassinn, með einn haldapoka í hendinni (sem innihélt m.a. ljósaperur). Og auðvitað var ég á jafnsléttu og ekki komin nema rétt af stað, hugsa að fullt af fólki í bílum á leið hjá hafi verið skemmt. En þetta var næstum sætt, það var eins og fótunum hafi verið kippt undan mér...svo sem ekkert stórslys, bara aum kinn.

Allt annað; ég fór í leikhús í gærkveldi, á Fló á skinni sem LA er að sýna við fádæma vinsældir (var næstum búin að skrifa; við fáránlegar vinsældir) um þessar mundir. Verð nú að viðurkenna að ég var mest spennt að sjá þetta, vegna þess að ég lék sjálf í þessu stykki fyrir réttum 8 árum síðan. Og þótt ég sé algerlega ekki hlutlaus, þá verð ég bara að segja að ég held að þetta hafi verið miklu skemmtilegra, flottara og betur leikið hjá Freyvangsleikhúsinu ;) Mér fannst einhvernvegin alltof langt gengið í fíflaskapnum, ef það hefði verið dregið örlítið úr aveg tilgangslausum hálfvitagangi þá hefði þetta verið betra. Einnig finnst mér staðfæringin og stílbreytingin ekki til framdráttar. En þetta er nú bara mín skoðun. Mér fannst nú samt rosa gaman, en samt sennilegra að ég hefði skemmt mér betur ef ég hefði ekki alltaf verið að bera leikritin saman...varð meira að segja pínu skerí þegar ég uppgötvaði að ég mundi ótrúlega mikið af textanum, og gladdist ég hjarta mínu þegar ég heyrði "orginal" setningar :)
Jæja, læt gagnrýni lokið í bili...ætla að lesa eitthvað mikið fyrir háttinn.
Passið ykkur á hálkunni ;)

Till next...adios