Tuesday, May 27, 2008

Sól og blíða

Alltaf er nú gott að vera úti í góða veðrinu :) Tók mig meira að segja til og sló garðinn þegar ég kom heim í dag. Varð reyndar litði oní endurvinnslutunnuna mína margumtöluði...og viti menn, við mér blasti mjólkurferna, sem stóð ósamanbrotin í einu horni tunnunnar. Ég bölvaði í hljóði yfir því að einhver asn... hefði nú sett óskolaða fernu oní tunnuna, en mikið hafði ég nú rangt fyrir mér, fernan var ekki óskoluð, heldur var hún hálffull af mjólk!!! Ég á bara hreinlega ekki til eitt einasta orði yfir sumt fólk!
Mikið væri nú gaman að búa í einbýlishúsi :)
Annars hef ég minna en ekkert að segja eða skrifa, er bara þreytt og ekkert nema eldhúsdagsumræður í sjónvarpinu...vei vei...held bara að rúmið sé mest spennandi í stöðunni :)

Till next...adios

Sunday, May 25, 2008

Slysalegt

Rétt í þann mund sem ég hætti að skrifa bloggið á föstudaginn og ætlaði að fara að græja mig fyrir "Killer Joe" þá hringdi vinur Mikaels í mig og sagði að hann hefði meitt sig í fætinum og gæti ekki labbað heim og hvort ég gæti ekki náð í hann. Ég auðvitað stökk út í bíl (ennþá í fjárhúsagallanum) og náði í drenginn og þar sem hann var mjög aumur og gat lítið stigið í fótinn þá auðvitað druslaði ég honum inn í bíl en lét hann svo nánast hoppa á einum fæti frá bílunum og inn heima...en studdi svona aðeins við hann. Sagði að hann hefði nú sennilega bara marist illa á lærinu. En sem betur fer þá kíkkaði ég nú á lærið á honum þegar heim kom og sá þá bara stærðar holu inn í lærið á honum. (En hann hafði sem sé verið að príla yfir grindverk, ásamt öðrum, sem rak sig í Mikael og hann datt ofaná grindverkið, sem var svona með oddmjóum spýtum). Svo ég gríp hreint viskastykki , vef því utanum lærið á honum og segi að við skulum bara skreppa upp á slysó...Mikael varð nú hálf skelkaður við það, en ég held að Kristján hafi orðið ennþá skelkaðri þegar ég segi honum að ég þurfi með Mikael upp á slysó.
Og auðvitað þurfti að sauma saman lærið á Mikael Huga og er hann nú með 5 spor í lærinu og risa plástur! Ótrúlegt samt hvað það hafur hægt lítið á honum....
En sem betur fer var hægt að fresta leikhúsinu þar til kl.10 um kvöldið og var ég mjög ánægð með að missa ekki af þeirri sýningu. Killer Joe er alger snilld! Rosalega vel leikið og flott plott.

Svo var það Eurovision í gærkveldi...þar sem við unnum næstum því...;) En Ísl. voru amk næst efstir af norðurlandaþjóðunum...við unnum Svíjagríluna og það eitt er nóg fyrir mig ;) hehe...
Svo var grill í sveitinni og rosa gaman að vera öll í kássu að horfa á Eurovision :) gáfum líka einkunnir og var það mun gáfulegri stigagjöf heldur en hjá hinum löndunum...Annars varð ég frekar fúl yfir því að þegar Ísl fékk 12 stig hjá krúttlegu dönunum...þá var Eurobandið ekki sýnt í mynd...heldur bara rússa plebbinn sem vann :( Held að Serbneska sjónvarpið ætti að skammast sín...en þetta blessaða sigurlag Rússa verður eitt af þessum sigurlögum sem enginn man lengur en í korter eftir keppni...ekki man ég hvernig það er!
Jæja, ætla að skipta um umbúðir á rassinum á Mikael ;) og koma mér svo út í sólina :)

Till next...adios

Friday, May 23, 2008

Einkunnir og Eurovision

Eurobandið klikkaði ekki í gær og kom okkur í aðal keppnina, alveg eins og tölfræðin sagði til um ;)
annars var maður spauglaust alveg að springa úr monti þegar þau fluttu lagið, gæsahúð og þjóðarrembingur í bland...og svo voru mikil gleðiöskur hjá mér og strákunum þegar það var sagt að Ísland hefði komist áfram :) Auðvitað erum við best ;) eins og alltaf, hinar þjóðirnar fatta það bara ekki alltaf ;)

Fékk síðustu en ekki sístu einkunnina mína í gærkveldi, fékk 8 í Upplýsingarýni, svo nú eru allar einkunnir komnar og lítur þetta þá svona út í heildina:

Afbygging 20.aldar: 7 meðaleink; 7,2
List og fagurfræði: 7 meðaleink; 8,2
Upplýsingarýni: 8 meðaleink; 6,72
Siðfræði og álitamál: 8 meðaleink; 6,5
Ljósvakamiðlun: 8,5 meðaleink; 8,3
Inngangur að fjölmiðlafræði: 9,5 meðaleink; 7,48

Mér reiknast það sem svo, að ég hafi sum sé 8 í meðaleinkunn :) MONT MONT MONT ;) hehe.
Er bara gríðarlega ánægð með þessar einkunnir og sérstaklega þar sem ég tók 2 auka einingar, svo hver veit hvað maður gerir næst ;)

Jæja, ætla að drífa mig úr fjárhúsagallanum og í fínu fötin fyrir leikhúsferð á eftir...Killer Joe...
spennó, svo sjálf aðal Júróvisjón á morgun...ÁFRAM ÍSLAND.....ÁFRAM ÍSLAND.....ÁFRAM ÍSLAND.....

Till next...adios

Thursday, May 22, 2008

Nr.1 :)

Númer eitt !...og þá er ég ekki að tala um Eurovisíon...heldur mig :) Ég fékk nefnilega 9,5 í fjölmiðlafræði og var með hæstu einkunnina :) Er gersamlega að rifna úr monti, er bara þokkalega sama hvernig söngvakeppnin fer og alles...brosi bara hringinn samt ;) Annars fór ég að spá í tölfræðilegt aðhvarf í dag, og samkvæmt því, þá eru gríðarlega miklar líkur á að Ísland komist upp úr undankeppninni í ár...en þetta er nú tölfærðin :)
(Þetta hlýtur að virka rosalega háskóla-gáfumanna-lega...tíhí)

Ég fór með mömmu í hið nýja Nettó í dag, og nú getur maður óskað Akureyringum til hamingju með að hafa loksins eignast alvöru stórmarkað. Ég hafði það á tilfinningunni að ég væri stödd í stórborginni...nú getum við lagt af molbúaháttinn og orðið alvöru stór-bær :) Það er hátt til lofts og vítt til veggja og fullt af sömu hlutunum í sömu hillustæðunum...so whatt þótt það taki mann klukkustund lengur að versla í matinn, bara vegna vegalengda í búðinni, við Akureyringar eigum hvort sem er nokkra klukkutíma auka í sólarhring sem Rvk.-ingarnir nota í akstur á milli staða ;)

Evrósisíon er að byrja....spennnnnnnó.....have fun :)

Till next...adios

Wednesday, May 21, 2008

Letilíf

Nennti ekki á foreldrafélagsfund í Brekkuskóla áðan.
Nenni heldur ekki að blogga.
Set inn tvær dýramyndir í sárabætur fyrir æsta aðdáendur mína...sem ég veit að leynast víða ;)
Fyrst er hér mynd af sætu lambi...


Og svo mynd af kisa og kisu...sem heita reyndar Snúður Bolluson (kallaður Vælir) og Bolla...Hafið það sem best í blíðunni framundan...og áfram Ísland :)

Till next...adios

Tuesday, May 20, 2008

Afmæli og Evróvisíon

Hún Kathleen Caroll, sem er svo heppin að vera mágkona mín ;) á stórafmæli í dag...er orðin fertug en lítur út fyrir að vera þrítug :)Hér er hún ásamt Nonna bró. en þessi mynd er sennilega tekin um jólin 2006
Til hamingju með afmælið Kathleen :)

Það er fyrsti í Eurovisíon í dag og eftir sléttan hálftíma hefjast herlegheitin...svo maður getur verið syngjandi glaður næstu dagana. Fattaði það reyndar áðan að ég á 3 stutta bjóra inn í ísskáp, spurning um að drekka einn þeirra á hverju keppniskvöldi ;) Alltaf partý hjá mér...hehe.

Iron Man var flottur, bara með betri hasarkallamynd sem ég hef séð...ég varð ekki fyrir neinum vonbrigðum með Járnkallinn minn ;) hann er reyndar svolítið straumlínulagaðri heldur en hann var í hasarmyndablöðunum í denn...en flottur er hann, og hann Robert Downey Jr. er snilldargóður sem aðal töffarinn ever! Þetta er pottþétt mynd sem verður keypt á DVD daginn sem hún kemur út ;)

Jæja, ætla að gíra mig í Júró gír...góða skemmtun í kvöld :)

Till next...adios

Monday, May 19, 2008

Silast...

...inn einkunnir, var að fá eina í dag, fékk 8 í siðfræði og álitamál :) bara mjög ánægð með það, enda líka bara 2 sem voru hærri en ég...og það er alltaf ennþá skemmtilegra að vera nálægt toppnum :) Þið verðið bara að umbera montið í mér örlítið...hehe.
Annars lítið að frétta, maður er að komast í Eurovisíon fíling, samt spurning hvort maður verður ekki búin að fá alveg nóg eftir 3 kvöld!!! En maður horfir amk á þegar Ísland er í undanúrslitum...svo fer lokakvöldið eftir því hvort við komumst áfram, hvort maður horfir með báðum eða bara með öðru og drekkur bara þess mun meira ;) hehe...
Jæja, þetta verður bara að vera stutt núna, ætla að elda kvöldmat og drífa mig í bíó...jammm, tekin var sú drasstíska ákvörðun að skella sér á Iron Man! Framhald í næsta bloggi...;)

Till next...adios

Sunday, May 18, 2008

Skóla-fól

Um daginn gerðist það í Brekkuskóla að einhverjir gormar tóku sig til og rispuðu eina tvo bíla út á bílaplani, sem voru í eigu einhverra kennara. Og hverjum haldiði að hafi verið kennt um??? Jú, einmitt, honum Mikael mínum og vini hans :( Reyndar kom bara almennur póstur á alla foreldra þar sem var talað almennt um þetta atvik, og engum kennt um og foreldrar beðnir um að ræða við börn sín. Ég gerði það náttúrulega og Mikael var alveg miður sín yfir þessu...þ.e.a.s hann var miður sín yfir því að enginn í skólanum trúði því að hann hefði ekki gert þetta! "Mamma það trúir mér enginn og mér er kennt um" sagði hann með tárin í augunum. Ég er reyndar ennþá að bíða eftir að vera boðuð á fund í skólanum og er að hugsa um að bíða bara róleg eftir því og ræða þetta í leiðinni.
Annars fór ég að hugsa um að það er alls ekki þægilegt að vera kennt um eitthvað sem maður gerir ekki, hvað þá ef maður er bara 6 ára!
Mér finnst a.m.k að kennarar hljóti að þurfa að hafa eitthvað meira í höndunum en bara að stökkva á næstu ólátabelgi og kenna þeim um!
En ég er náttúrulega bara svolítið sár og bitur út í skólakerfið...og á eftir að díla við það í ein 9 ár í viðbót....púfff!

Ég fór í Nettó í gær, sem er svo sem ekki í frásögur færandi, nema það að þar standa yfir víðáttumiklar breytingar. Maður er alveg klukkutíma lengur í búiðnni en vanalega, vegna þess að það er búið að færa allt til og jafnvel þarf maður að elta hillurnar. Ég stóð hjá einni hillu og var að ákveða hvort ég ætti að kaupa Betty-Croker karmelluköku eða Brownies....en þá fór bara hillan í burtu. Ég reyndi nú að fylgja henni eftir með augunum og þegar hún stöðvaðist þá stökk ég til og reyndi að hrifsa til mín einn pakka...þá fór hillu fjárinn aftur á stað og ók nærri yfir tærnar á mér. Ég gargaði Æ og þá stoppaði hún...hillan sko...ég heyrði að einhver sagði "bíddu aðeins" og svo náði ég að hrifsa til mín karmelluköku og haltra í burtu. Ekki var nú neitt verið að biðja mann afsökunar á ákeyrslunni...ef ég hefði verið pínu úrill þá hefði ég eflaust skammast eitthvað, en ég nennti því ekki, var bara fegin að sleppa með allar tær óbrotnar.
Annars vorkenni ég bara aumingja fólkinu sem vinnur í búiðinni, búnar að vera breytingar og læti þarna í einhverjar vikur, en sem betur fer þá ætla þeir nú víst að loka alveg í eina 3 daga og klára herlegheitin. Spurning hvað fyrsta búðarferðin í nýja Nettó á eftir að taka marga klukkutíma...

Till next...adios

Friday, May 16, 2008

Stríð

Ég vaknaði nokkuð spræk í morgun og dreif mig í sveitina, við Sverrir vorum voða dugleg að marka, sprauta, gefa ormalyf og setja lambærnar út í góða veðrið, samt slatti eftir inni enn ;)
Á heimleiðinni hugsaði ég um að nú skyldi ég aldeilis leggja mig í sófann fram að kvöldmat...en þegar ég var að rölta að húsinu þá fattaði ég að það átti víst að taka garðarusl úr görðunum í dag.(Svona hreinsunarvika í gangi...hummm)
Þar sem ég hafði lengi ætlað að saga niður örfáar greinar sem stóðu svolítið út á götu, þá ákvað ég að fresta leti-sófanum og náði í sögina góðu. Ég sagaði og sagaði og tók nokkrar greinar sem voru full neðarlega fyrir minn smekk...og þá fór ég að spá í runna helv.... sem er hér við eitt húshornið, þetta er risa runni með risa risa RISA stórum göddum allsstaðar! En runninn var farinn að vaxa ískyggilega fyrir einn gluggann.
Og ég fór að saga, og runninn fór að stinga mig og ég sagaði meira og í hvert skipti sem runna kvikindið stakk mig þá sagaði ég eina grein í viðbót! Auga fyrir auga! Í stuttu máli þá var ég í garðinum frá kl.17:00-20:00 og þótt ég sé útúrstungin með blóðidrifnar hendur þá er minna eftir af runnanum heldur en mér...hehe. En runna skrattinn elti mig alla leið inn og ég var að tína síðustu gaddana úr hárinu á mér í sturtu...hann ætlaði ekki að gefa sig!
En ég var og er algerlega að niðurlotum komin...hefði sennilega verið gáfulegra svona heilsufarslega að henda mér í sófann heldur en að henda mér í runnann...
En veðrið er gott eigi að síður :)
Farin að leggja mig í sófann...

Till next...adios

Thursday, May 15, 2008

Sikk

Er heima veik, er druslulegri en drusla og slappari en grá-sleppa...
Var með ægilegt samviskubit yfir að hafa ekki komist í sveitina í dag og var þess full viss að allt færi í steik í fjarveru minni...en svo hringdi ég í Sverrir áðan og allt gekk ljómandi vel í dag! En í sveitina skal ég á morgun með góðu eða illu!!! Einnig átti ég að vera á stjórnarfundi hjá Freyvangsleikhúsinu í kvöld en missi líka af því :(
Annars skemmtilegri fréttir :) Ég fór í ljómandi skemmtilegan saumaklúbb á þriðjudagskvöldið, það voru verðlaun í boði fyrir þá sem löbbuðu í klúbbinn og þar sem Lára litla á heima næstum á hjara Akureyrar þá var þetta langt og strangt labb...ég var næstum búin að ræna reiðhjóli af gömlum kalli sem hjólaði framhjá...ef hann hefði haft bögglabera aftaná þá hefði ég tyllt mér ;) En það voru veg-leg verðlaun og labbið þess virði. Góður matur, gott vín og síðast en ekki síst alveg frábær félagsskapur :)
Svo fékk ég eina einkunn í dag, ég fékk sum sé 7 í afbyggingu 20.aldar, sem er áfanginn sem yndislegi ítalinn kenndi svo listilega af sinni alkunnu snilld ;) Gott ef hitinn lækkaði ekki um einar 7 kommur þegar ég sá einkunnina áðan :)
Jæja, ætla að leggja mig og reyna að losna við sleppuna fyrir fyrramálið ;)

Njótið lífsins því það er frábært :)

Till next...adios

Sunday, May 11, 2008

Hvítasunnudagur

Gleðilega hvítasunnu og mæðradag :)
Í tilefni dagsins var ég í fríi frá burðarstörfum og notaði daginn í þvott, tillagningu og skúringar :) núna lítur stofan bara vel út í fyrsta skiptið síðan um jól...en ég hugsa að ég geti talið mínúturnar þangað til að hún fer á hvolf aftur! Reyndar er ég búin að tuða í strákunum nokkuð oft í kvöld að ganga betur um.En þeir taka því eins og hverju öðru tuði...
Annars er ég búin að vera voðalega löt í dag...drattaðist ekki á fætur fyrr en um hádegið, ætlaði svo að skella í pönnsur í kaffinu en varð ekkert úr því vegna skúringa...en svona í sárabætur þá bakaði ég pönnukökur handa strákunum í kvöldkaffi :) Svo er bara að drífa sig í sveitina í fyrramálið í áframhaldandi sauðburð í sumarblíðunni, sem byrjaði í dag ;)
Jæja, er voða eitthvað hugmyndasnauð í og veit ekkert hvað ég á að skrifa...nenni ekki einu sinni að skammast út í neitt og þá er nú mikið sagt...

Till next...adios

Friday, May 09, 2008

Hvítasunnuhelgarhret

Já, það hefur ekki verið sérlega gott veður í dag, fyrst var kalt og suddi en svo varð kaldara og fór bara að snjóa. Öll tún voru orðin mjalla hvít þegar ég fór úr sveitinni eftir kaffið í dag. En það er víst von á betri tíð með blóm í haga mjög fljótlega...svo þá verður vonandi hægt að koma slatta af lambám út. Voðalega er ég farin að tala bóndalega ;) hehe...
Allt annað, tata...fékk einkunn nr. tvö í dag, en það var List og fagurfræði (prófið sem mér gekk illa í) og ég fékk 7 mér til mikillar furðu. Tel það full víst að kennarinn hafi tekið á þessu mjög mjúkum höndum, hélt að ég hefði klúðrað þessu próf big time! Jæja, bara ánægð með þetta, enda var þetta svona auka fag, sem ég lagði enga ofuráherslu á, meira svona til gamans og næla mér í tvær auka einingar, sem ég hef eflaust ekkert að gera við ;) en ég veit þó að þetta er hægt...vonandi, á reyndar eftir að fá út úr 4 áföngum ennþá...og þar á meðal crazy enska prófinu í afbyggingu 20.aldar. Mér skylst að það sé bara nokkuð gott að fá 6 úr þeim áfanga... Jæja, best að vera ekki að spá of mikið í þessu svona fyrir fram, þetta er víst komið úr mínum höndum og í heldur kennaranna :)
Hafið það gott í snjónum...og munið að sumarið kemur aftur á sunnudaginn :)

Till next...adios

Thursday, May 08, 2008

Burður

Fyrst létu þær á engu bera, en svo byrjuðu þær að bera :)
Eftir bongó blíðu í gær var frekar kalt og rigningarsuddi í dag og þá ákváðu einmitt ærnar að skjóta úr sér lömbum sem aldrei fyrr. Öll plön okkar Sverris um að marka og færa til fé varð marklaust og dagurinn fór bara í að flytja þær nýbornu í spil. Þar sem var nóg pláss í gær var orðið fullt af tvílembum í dag. Gaman að því, mætti samt hlýna aftur í hvelli takk :)
Annars er tíðindalítið úr fjárhúsunum...og af mér...tók annars á móti "fyrsta lambinu mínu" í dag, það kom bara haus en fæturnir voru eitthvað beiglaðir undir því, svo ég þurfti að ýta hausnum aftur inn (hann var nú sem betur fer ekki kominn allur út) og finna lappir og tosa svo út aftur.
Fór að spá hvað við mannfólkið, (þótt ósjálfbjarga séum fyrstu 20 árin) erum heppin að fæðast með hausinn fyrst...það yrði örugglega alveg agalega vont ef það þyrfti að ýta hausnum á barni inn aftur og leita af höndunum....hummmm...bara smá pæling ;) hehe...
Læt þessu bulli mínu lokið í bili, ætla að leggjast í leti-sófann minn :)
Ekki bólar á fleiri einkunnum...

Till next...adios

Wednesday, May 07, 2008

Góð byrjun...

á prófeinkunum...fékk fyrstu einkunnina í dag, og fékk sum sé 8,5 sem ég er bara ánægð með, sérstaklega þar sem aðeins 2 fengu 9 og enginn hærra en það. Svo er bara að krossa alla putta og vona að restin verði a.m.k. einhversstaðar þar í grenndinni ;)
Annars er ég bara á fullu í sveitastörfunum þessa dagana, nóg að gera og ég bara þreytt eftir daginn, en maður kemst nú ekki í skemmtilegri vinnu en þetta...sérstaklega þegar veðrið er svona æðislegt eins og það var í dag :)
Jæja, veit ekkert hvað ég get bullað hér meira í bili, mér hlýtur að detta eitthvað sniðugt í hug seinna...ætla að kíkja á kjúllann í ofninum.
Hafið það gott í góða veðrinu :)

Till next...adios

Tuesday, May 06, 2008

Sex af sex :)

Einhvernvegin svona leið mér eftir síðasta prófið í gær:
En ég náðist ekki á mynd og fékk því þessa lánaða, enda Mikael mun skemmtilegra myndefni en ég ;)
Já, það er gaman að vera búin í prófum, en nú byrjar taugastríð nr.2...að bíða eftir einkununum og einhvernvegin hef ég það á tilfinningunni að ég gæti þurft að bíða slatta. Svo það er gott að hafa nóg að gera ;)
Hélt upp á próflokin í gær með þvi að byrja á að fara og láta skipta um dekk á bílnum, svo nú er hann kominn á sumartúttur. Svo fór ég í sveitina og reyndi að gera eitthvað gagn :)
En um kvöldið var náttúrulega aðaldjammið, en þá hittist bekkurinn minn heima hjá einni og þar var grill og öl að vild...alger snilld :) Var samt eitthvað svo þreytt og át svo hryllilega mikið yfir mig að ég fór bara heim fyrir miðnætti, en þetta var rosa gaman og frábært að vera í svona samheldnum og skemmtilegum bekk :)
Ég er samt ekki ennþá alveg að átta mig á því að skólinn sé búinn, prófin búin og ég búin með heilt ár af háskólanámi...kanski nokkrir dagar þangað til að fattarinn fer alveg í gang.

Till next...adios

Sunday, May 04, 2008

Afmæli í sveitinni

Í dag, 4.maí, á litli bróðir afmæli, hann Sverrir og óska ég honum innilega til hamingju með það :) Í tilefni dagsins þá skelli ég hér inn mynd af Sverrir með nokkrum vinum sínum:
Hér er hann í góðra kinda hópi :) Ég ætla að drífa mig í sveitina eftir síðasta prófið á morgun, svona aðallega til að athuga hvort ég finni ekki tertuafganga ;)
Var annars pínulítið dugleg áðan (ekki að tala um lærdóm) ég fór nefnilega aðeins út að skokka, skokkaði í 20 min og var að niðurlotum komin...Fór að spá í hvernig stæði á því að mér finnst ég vera í verra formi núna en þegar ég byrjaði að skokka í fyrra sumar. Fattaði svo allt í einu, að þegar ég byrjaði þá, þá var ég náttúrulega búin að vera að vinna í rúm 15 ár í eldhúsi FSA og alltaf á þönum! (er ekki einu sinni að ýkja núna)...Þess vegna var ekkert tiltökumál að skokka út í Kjarnaskóg og aftur til baka í fyrsta skokki, núna er ég náttúrulega búin að SITJA á skólabekk síðan í haust og lítið hreyfst á mér rassinn við það. Svo sennilega verð ég lengur að koma mér í form núna en sl. sumar...spurning um að reyna að missa þetta ekki niður...en hvað get ég sagt...ég er bara löt!
Jæja, ætla að reyna að lesa eitthvað í Critical Thinking fyrir prófið í fyrramálið... og ef einhver heyrir mikil gleðiöskur um hádegisbilið á morgun (já það gæti heyrst suður og austur líka...og til annara landa jafnvel) þá er það ég að fagna próflokum :)
Til hamingju með afmælið Sverrir :)

Till next...adios

Saturday, May 03, 2008

Lazy cow

Jamms, ég er löt belja í dag...þyrfti að vera að lesa og lesa en fór þess í stað í langan göngutúr með strákana. Við byrjuðum á því að labba út í Sunnuhlíð, en þar var svona vorhátíð þar sem krökkum fæddum 2001 voru gefnir reiðhjólahjálmar, svo fengum við líka pylsur sem var ljómandi :) Svo gengum við niðrí bæ, komum við í BT þar sem eytt var í myndir og tölvuleik, síðan rölt áfram inn í miðbæ og svo heim. Ég var alveg að niðurlotum komin eftir "alla" gönguna og fór að horfa á mynd með Mikael og við sofnuðum samviskusamlega í sófanum...dugleg :)
En er loks sest niður með bækur fyrir framan mig, en það gengur eitthvað illa að festa hugann við námið, kanski er það öll sólin sem skín núna úti. Það er alveg ekta vorveður, sól, logn og hlýtt :) Ég hef kanski fengið smá sólsting í dag (þótt sólin hafi nú ekki skinið mikið í göngutúrnum), þessvegna er ég svona sljó eitthvað. Svo bakaði ég köku...setti í þvottavél...sem minnir mig á það, þvottavélin er löngu búin...best að hengja upp og panta pizzu :)
Svo er Evróvisión þáttur í sjónvarpinu í kvöld...tata...á morgun segir sá lati...

Till next...adios

Friday, May 02, 2008

Fimm af sex

Þetta er alveg að hafast. Var í siðfræðiprófinu áðan, það er reyndar ekki ennþá búið en ég hafði bara ekkert meira að skrifa og fór heim eftir rúman klukkutíma. Annars gekk mér bara ágætlega eða var heppin með prófspurningar ;) Þetta er náttúrulega alltaf spurningin um hvort maður er spurður að því sem maður veit ;) Annars hef ég í hyggju að halda upp á að þetta próf sé búið með því að nördast yfir "Leiðarljósi", elda svínasteik og byrja svo á að læra undir síðasta prófið. Kristján ætlar í bíó með vinum sínum í kvöld, að sjá Iron Man, svo við Mikael verðum bara að slappa af og læra. Annars langar mig óskaplega að sjá Iron Man,... Kristján vill samt ekki að ég fari með þeim félögunum í bíó ;) hehe...en Iron Man var nefnilega uppáhalds-hasarmyndapersónan mín í gamla daga :)
Annars er þetta líka spurning um að halda bernskuminningunum um Iron Man ómenguðum eða svipta honum inn í nútímann með þeim afleiðingum sem því kann að fylgja...set málið í nefnd :)

Till next...adios