Thursday, February 28, 2008

Skamm skamm

Nú er víst búið að fella dóm um að það má ekki skrifa ljótt um náungann í bloggi, svo ég er að hugsa um að leggja þessi blogg skrif mín á hilluna, áður en ég þarf að punga út mörghundruðþúsundköllum í miskabætur ;)

Ég fór á fyrstu árshátíð Mikaels í gær, agaleg stolt móðir sem horfði á sætasta strákinn í 1.bekk leika "vetur" ásamt heilum helling syngjandi krakka skara. Svo fengum við okkur súpu og brauð og áttum fína stund, svo fór Mikael í vistun og ég fór að sinna "fótbrotna" bílnum mínum! Ég heyrði nefnilega einhver læti í bílnum á leiðinni og svo spólaði ég bara af stað, en sá mér til mikillar ógleði, þegar ég var komin í skólann, að það var punkterað á bílnum! Ég náttúrulega reif upp tjakkinn og reyndi að ná dekk andsk...undan, en allar rær voru fastari en allt fast, og þar að auki var ég með drasl felgulykil! Ég hringdi í Þórð bróðir, sem kom og reyndi líka en með svipuðum árangri, allt pikk fast. Þar sem ég vildi nú ekki tefja hann meira úr vinnunni, þá hringdi ég bara í dekkjaverkstæði og grenjaði út smá hjálp og brátt kom snaggaralegur strákur og reif dekkið undan bílnum. Hann horfði líka á skiptilykilinn minn og sagði: "varstu að reyna að ná dekkinu undan með þessu"? Svo ég var mikið glöð að halda í þá vissu mína að ég og Þórður erum ennþá rosa sterk :) Svo tók við bið á dekkjaverkstæðinu, þar sem þeim þótti álitlegt að hreinsa upp allar felgurnar og skipta um ventla (sem vonandi verður til þess að ég þarf ekki lengur að pumpa í dekk á 3 daga fresti), og svo lét ég skipta um olíu í leiðinni, sem var víst löngu tímabært...en ég er nú bara kona ;)... nei, ég var nú "bara" komin rúml.1000 km. framyfir æskileg skipti ;)
Já og svo keypti ég felgukross :) algerlega tilbúin í næstu dekkjaskipti ;)
Svo fór ég á leynifélagsfund í gærkveldi, en þar sem hann er mjög leynilegur þá dettur mér ekki í hug að minnast á hann einu orði í þessu bloggi :)
Hafið það gott og látið ykkur ekki verða kalt, því það er kalt!

Till next...adios

Tuesday, February 26, 2008

Speki dagsins

Fann þetta inn á stjörnuspá Mbl.is

Sporðdreki: Í dag er hægt er að umfaðma hluti sem yfirleitt eru ósnertanlegir. Ef tveir eða fleiri óska sér þess sama, eru meiri líkur á að hún rætist. Hvað viljið þið vinirnir?

Var að spá í að setja þessar snilldar spár hér inn, þegar ég man...sjáum svo til hvað rætist...og hver kætist ;)
Ekki uppáhaldskennarinn minn ákvað af sinni góðmennsku að flýta prófi sem átti að vera 7.mars, til næsta þriðjudags...mér ekki til mikillar gleði. Þetta hefði kanski verið í lagi ef hann hefði látið vita aðeins fyrr en sl.föstudag...eða þá sendi hann póst, gat ekki einusinni ælt þessu út úr sér í tíma sem var um morguninn!
Svo ég verð að vera voða rösk á þriðjudaginn, fara í tíma kl.8 vinna svo aðeins hjá Írisi í hádeginu, fara svo í próf og stökkva svo í tíma í List og fagurfræði, sem verður nú sennilega eitthvað verulega mikið byrjaður þegar ég klára prófið!
En þetta reddast allt einhvernvegin....ef eitthvað klikkar þá fer ég bara á fyllerý...OR NOTTTT!
Jæja, best að koma guttanum litla í rúmið, það er árshátíð hjá honum í hádeginu á morgun...svo ég þarf að skrópa í fyrirlestri...næstum fyndið að eini tíminn sem ég er upptekin á morgun milli 12 og 13 þá er árshátíð hjá 1.bekk....Ég fer nú að verða nokkuð sammála spaugstofukallinum sem segir alltaf: "Þetta er eitt stórt samsæri"!
Minni á snilldar miðilinn landpostur.is og minni á að það er alveg nóg að leita uppi mínar fréttir og pistla og skoða það....það var þetta með sjálfhverfuna ;) minni einnig á freyvangur.net sem er alveg hreint ljómandi skemmtileg síða...já og svo drífa sig á sýningu every one :)
Góðar stundir. :)

Till next...adios

Monday, February 25, 2008

Hablaha

Langt síðan síðast...mikið að gera. Frumsýningin á Þið munið hann Jörund gekk vel sl. föstudagskvöld. Allir glaðir og rosa fjör, flott veisla á eftir. Ég var reyndar komin heim um eitt leitið, var bæði þreytt og ekki í fyllerísgír...það var ég hinsvegar kvöldið eftir ;)
Prinsessupartý Evu var rosa flott og farið á Kaffi Ak á eftir (minnir mig...hehe) ég skreið heim einhverntíman fyrir dagmál og var alveg óskaplega þreytt allan daginn í gær.

Loksins var rétt Evróvisíonlag valið, en eini gallinn var að það var búið að breyta þessu flotta lagi þannig að það var ekki eins flott og það var! Humms...annars svo að allir verði glaðir, þá má bara skipta út 2 hálfberu dönsurunum í sigurlaginu og setja tvo berjandi bumbuslagara í staðin ;) og svo má skreyta sviðið með gulum gúmmíhönskum....allar húsmæður veraldar myndu kjósa lagið...gulir gúmmíhanskar og "this is my live" ;) passar!
Jæja, ætla að reyna að rífa mig upp úr þynnkugír dags 2 og tölta í skólann.
Ráðleggingar dagsins; ekki drekka heila hvítvínsflösku + fordrykkinn hennar Evu, þá verðiði svakaleg full!

Till next...adios

Wednesday, February 20, 2008

Nágrannar


Eins og oft hefur komið fram þá á ég mér nágranna...og því virðist fylgja ýmislegt. Nýjasta, en jafnframt eitt elsta nágrannavandamálið, er umgangur um rusl. Það var nefnilega búið að líma aðvörunarmiða á tunnuna í gær, þessir Reykjavíkur-búar kunna náttúrulega ekki að ganga um ruslatunnur með pokum í, það er bara troðið endalaust! Af þessu tilefni þá skrifaði ég bréf og hennti inn um bréfalúguna á efstu hæðinni (fór nú í eigin persónu að tala við "miðgrannana", en það virðist aldrei vera neinn heima á efstu hæðinni...nema þá til að henda rusli!)
Svona leit bréfið út:

Ágætu íbúar efstu hæðar Þórunnarstrætis 128

Að gefnu tilefni vil ég ítreka að gengið verði betur um ruslatunnur hússins. Í dag var límdur aðvörunnar miði á aðra tunnuna, sem þýðir einfaldlega að ef úrbætur verða ekki gerðar þá hætta þeir að taka rusl! Og ekki er það spennandi kostur. Allt rusl á að fara í lokuðum pokum ofaní svörtu ruslapokana. Ef svörtu ruslapokarnir detta niður eða aflagast á einhvern hátt, þá er einfaldast að laga það strax, en ekki halda áfram að troða pokum ofaní tunnuna. Einfalt ekki satt? :)

Endurvinnslutunnan sem staðsett er við hliðina á tröppunum er eingöngu fyrir pappír, dagblöð, fernur og plast en það þarf að flokka það. Allur pappír má fara beint í tunnuna (samanbrotinn takk, taka í sundur kassa) en fernur og plast þarf að setja sér í glæra plastpoka, hreint og snyrtilegt! Þar sem undirrituð er að borga fyrir endurvinnslutunnuna, þá er afar leiðinlegt að gengið sé illa um hana. Með bestu kveðju og eindregnum óskum og gífurlegum væntingum og vonum um bætta umgengni við tunnur hússins...örlítið pirraður íbúi neðstu hæðar, Elísabet :)


Svo vona ég bara að allt verði glansandi fínt héðan í frá...var ég nokkuð voðalega dónaleg að skrifa svona bréf? Jæja, það er a.m.k farið og ég er líka farin að ná í Mikael í skólann...ætla svo að reyna að draga drengina með mér á Greifann í tilefni þess að það er miðvikudagur í dag og ég fór í litun og klippingu í gær :)

Till next...adios

Monday, February 18, 2008

Skrambinn

Held að ég sé nokkurn vegin að gera út af við sjálfa mig um þessar mundir (aðallega í dag þó). Ég var orðin svo ringluð í kollinum að mér tókst að senda tvisvar sinnum tölvupóst með viðhengi, án viðhengisins! Og í bæði skiptin skipti það náttúrulega öllu að hafa viðhengið...Held að það sé búið að hringja í mig svona þrjúhundruð sinnum í dag og ég sjálf hringt ein sexhundruð símtöl. Og er ekki einu sinni að ýkja verulega mikið núna ;)
En þetta fer nú allt saman að hafast, þegar þetta blessaða leikrit verður komið í sýningu þá verður maður víst "bara" að dúlla sér í miðasölunni ;)
Annars er skólinn algerlega að sitja á hakanum þessa dagana og er það ekki gott :( svo allar örlitlar glufur sem myndast í mitt þéttskipaða prógramm næstu dagana fer í lestur skólabóka....hummm, svindlaði aðeins núna með þessum blogg skrifum, en það er bara svo langt síðan að ég skrifaði síðast að ég get ekki látið fólk engjast í eftivæntingu eftir nýju bloggi ;) tíhí...
En það eru víst örfáir miðar lausir á frumsýningu, svo endilega drífa sig í að panta :)
Jæja, ætla að reyna að drífa í að þrífa mig og lesa svo um "skrambans lygar og tölfræði" :)
Lifið heil!

Till next...adios

Thursday, February 14, 2008

Valentínusardagurinn...

...hefur reyndar ekki verið mér ofarlega í huga í dag...en óhætt er að segja að leikfélagið hefur verið það! Er búin að sitja og reyna að selja auglýsingar í leikskrá og koma saman efni í sama rit. Þetta er alveg óskaplega seinlegt verk og yndislega leiðinlegt. En sem betur fer eru örlítið fleiri en ég úti að safna auglýsingum ;) En það eru ennþá laus pláss í leikskrá ef einhver vill auglýsa!!!

Fyrir nákvæmlega viku síðan, þá var hringt í mig frá KB-banka, þar var kona á ferð sem vildi endilega að KB-banki fengi að gera "tilboð í mig". Ekki kanski svona til að eiga mig alveg...en svona sjá um mín peningamál. Hún var næstum viss um að þeir gætu gert mér gott tilboð. Hún reyndar sagði að hún þyrfti að fá örlitlar upplýsingar hjá mér, en svo myndi ráðgjafi hafa samband við mig, mér að kostnaðarlausu, mjög fljótlega og gera mér tilboðið ljóst. Upplýsingarnar sem konan vildi voru eftirfarandi:
Kona: Ertu með fastar launatekjur?
Ég: Nei, ég er á námslánum.
Kona: Ertu þá ekkert að vinna með skólanum?
Ég: Nei.
Kona: Ertu með einhver lán, húsnæðislán, yfirdráttarlán eða önnur?
Ég: Nei. (rosa fanst mér nú gaman að geta sagt það)
Kona: Áttu eigin íbúð?
Ég: Nei.
Kona: Ertu með húseigendatryggingu?
Ég: Nei, ég á ekkert húsnæði (eins og ég var rétt búin að segja).
Kona: Áttu innistæðu á bók eða verðbréf?
Ég: Nei.
Svo varð konan frekar vandræðaleg, og ég spurði hvort ég væri kanski ekkert vænlegur kúnni, ætti ekkert en skuldaði heldur ekkert (nema námslánin sem af er). Jú jú, hún hélt nú það, ég væri eflaust fínn kúnni og það yrði haft samband við mig á allra næstu dögum. Síðan hefur ekkert heyrst! Svo ég verð þá að draga þá ályktun að ég sé ekkert sérstaklega spennandi kúnni fyrir svona banka. Enda er það bara allt í lagi...langar alls ekkert í KB-bankann. Fyrst þeir gátu ekki leyft mér að eiga reikningsnúmerið á bók sem pabbi stofnaði fyrir mig þegar ég var lítil (bókin var alltaf á hans kennitölu en mínu nafni...eitthvað sem var aldrei spáð í) þá geta þessir dúddar bara etið það sem úti frýs...þótt það sé þiðið núna ;)

Engin blóm komin ennþá....hummm.....en bæ ðei vei...Valentínusardagurinn kemur víst frá Ásum en ekki USA-um. Þeir hafa bara veri skolli rómantískir ásarnir...tíhí, sennilega verið mest hjarta-Ásar ;)

Till next...adios

Wednesday, February 13, 2008

Aðfangadagur Valentínusardagsins

Á morgun er Valentínusardagurinn, veit ekki alveg hvort að þetta er rétt skrifað en vona það besta. Á þessum tímamótum er ekki úr vegi að staldra við og líta um öxl, reyna að finna út úr því hvort það séu einhverjar líkur á að maður fái blóm....;) hehe, hafa Íslendingar unnið Dani í Parken??? Þegar stórt er spurt, þá fær maður oft heimskuleg svör og það er bara allt í lagi.
Enda finnst mér þessi Valentínusardagur algert bull og lapið upp eftir USA-lýðnum (þetta mun mér finnast alveg þangað til einhver gefur mér, blóm, konfekt og dekurdag í spa þennan dag).

Allt sem ég ætlaði að skrifa er horfið úr höfði mér, en ég mundi hins vegar allt í einu að ég á eftir að hengja upp úr þvottavélinni! Veit ekki afhverju mér dettur alltaf í hug að setja í þvottavél þá daga sem ég nenni ekki að hengja uppúr henni....hummm, það er margt skrítið í hausnum á mér þótt sumt tolli stutt þar inni ;)

Till next...adios

Tuesday, February 12, 2008

Ekkert að segja


Hef bara ekkert að viti að segja í dag (eins og kanski svo oft áður, en læt það stundum ekki stoppa mig) svo ég ákvað bara að setja inn þessa fínu mynd af alvarlegu bræðrunum. Þetta er tekið um jólin, ætli við séum ekki að leggja af stað í sveitina þarna :)
Verður að duga í bili, have a nice day :)

Till next...adios

Monday, February 11, 2008

Prinsessa

Ég fékk það flottasta boðskort í afmæli, sem ég hef nokkrutíman fengið, í gær :) Skildi fyrst ekkert í hvaða bréf þetta var, sem beið eftir mér þegar ég kom heim...datt fyrst í huga að þetta væri límmiða-keðjubréf, en þar sem þetta var stílað á mig en ekki Mikael, þá var þetta mjög grunsamlegt bréf..! Sat lengi og horfði á það...hvað getur þetta eiginlega verið??? En svo opnaði ég umslagið og þá breiddist nú bros yfir andlitið :) var ekki hún Eva prinsessa að bjóða mér í prinsessuafmælið sitt :) jííííha! Það verður nú gaman :)
Annars er allt að að færast í fastar skorður, skóli hjá öllum í morgun og sumir voru mjög þreyttir eftir langt frí.
Hellingur að gera, nú hrúgast að manni hópverkefni, einstaklingsverkefni, ritgerðarskil, málstofur, próf og svo stússistúss fyrir leikfélagið. Ef einhver er snillingur í því að taka að sér meira en hann annar, þá er það ég ;)
En á móti kemur að þetta er nú bara alltaf jafn gaman og frábært allt saman, er að spá í að vera í skóla til fimmtugs eða svo ;) Þegar ég verð orðinn nútímafræðingur og fjölmiðlafræðingur þá fer ég bara til Nýja-Sjálands og læri eitthvað meira þar...verð doktor eða lektor eða rektor eða hvað þetta þýðir allt saman ;)
Alltaf gaman að láta sig dreyma...ætla nú samt að byrja bara á að reyna að klára fyrsta árið skammlaust ;)
P.s. ef einhver vill ráða mig í litla en vel borgaða vinnu í sumar, þá er ég til ;)

Till next...adios

Sunday, February 10, 2008

Hvísl

Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir :)

Vaknaði eldsnemma, óþunn, afskaplega þakklát því að hafa ekki látið undan djammeðli mínu kvöldið áður. Dreif mig fram í Freyvang og hvíslaði eina æfingu. Hef það á tilfinninguni að þetta verði afskaplega skemmtilegt leikrit...þarna verða á sviði sterkustu meðlimir leikfélagsins, þótt þeir þættust allir vera orðnir bæði getulausir og heyrnarlausir...veit ekki hvort það tengdist því að ég var að hvísla....hummm maður spyr sig ;)
Svo kíkti ég í sveitina með strákana, alveg í fyrsta skipti síðan um áramótin að ég held, höfum ekkert komist vegna veðurs, færðar, veikinda eða anna og leti! Sverrir bóndi var svolítið "þreyttur" eftir þorrabótið í gærkveldi, en sennilega ekki verið sá eini í sveitinni sem var þreyttur ;)
Svo kíkti ég til Friðbjargar um kvöldið og þar var sko plönuð alveg gríðarleg auglýsingasöfnun fyrir leikskrá leikfélagsins....og auðvitað var ekki hægt að plana svona ábyrgðarfullan hlut nema að vera fullur ábyrgðar og dreypa örlítið á rauðvínstári ;) Svo ef þið viljið koma auglýsingu á framfæri, þá endilega hafið samband ;)
Jæja, gríðarlega buzy vika framundan, ég algerlega ólesin...heldi ég haski mér í rúmið.

Till next...adios

Saturday, February 09, 2008

Ekki partý

Ég datt í einhvern ægilegan "langar að djamma" gír í kvöld, sennilega vegna þess að allir sem ég þekki eru annaðhvort á þorrablóti eða fyrir sunnan og engar líkur á því að ég finni einhvern sem langar með mér á tjútt...enda er ég líka svo löt að ég bíða alltaf eftir því að einhver reyni að draga mig á djamm...skil svo ekkert í því þegar ekkert gerist! Annars átti ég kalda "STELLU" í ísskápnum og sit nú og sötra á meðan ég rita þetta (burp, exskvísmí). Var að horfa á laugardagslögin í sjónvarpinu áðan (já, glöggir lesendur sjá að líf mitt er frekar eymdarlegt þetta kvöldið) og verð nú að segja að ég skil ekki í fólki sem eyðir peningunum sínum í það að kjósa lög í þessari vitleysu ;) hóhóhó-heyheyhey...var alveg afskaplega máttlaust lag, hefði verið flott ef það hefði verið hægt að færa vöðvakraftinn aðeins í röddina. Lagið með henni Ragnheiði Gröndal var annars voða fínt lag, á vel heima í léttum söngleik (fékk einmitt þá fínu hugmynd að semja leikrit með lögum, þegar ég var að hlusta á þetta lag...geng í það við fyrsta tækifæri;) en finnst það ekki alveg passa í Evróvissíónið. Svo var það lagið eftir hana Svölu svölu Björgvinsd. sem var flott diskó-friskó lag, sem ég vona að verði spilað næst þegar ég fer á Kaffi-Ak. (sem ég er svo sem ekkert viss um að verði endilega neitt á næstunni...).
Jæja, hef lokið gagnrýni minni á þessum laugardagslögum, ég stóð reyndar í þeirri trú að þetta væri einhver úrslitaþáttur þar sem framlag okkar ísl. yrði valið, en það var greinilega allt á missskilningi byggt, greinilega hrikalega ótrúverðugar heimildir sem ég hafði...eða mikið minnisleysi...eða ruglingur....farið að minna svolítið á ruglið í henni Reykjavíkinni hehe...Ef hann Villi litli viðurtan verðu ekki komin í einhverjan leðurklæddan "stjórnarformannsstól" eftir nokkra daga er ég illa svikin. Þeir sjallar hljóta að fara að bjarga hanns rauða rassi flótlega!
Annars finnst mér að í allar svona opinberar stöður, þá meina ég borgarstjóra, bæjarstjóra, forseta og það allt, eigi að velja í með því að halda fegurðarsamkeppni. Og auðvitað eiga bæði kynin rétt á að taka þátt í þeirri keppni, sá sem er svo sætastur/sætust fær sætið :) Þá færi nú fyrst að verða eitthvað vit í þessum fegurðarsamkeppnum ;) það er bara til svo mikið af sprenglærðu/gáfuðu fólki sem stjórnar þessu hvort sem er á bak við tjöldin og þá er mun gáfulegra að hafa sæta fólkið í sjónvarpinu...ég meina það, hverjum finnst Villi viðurtan fallegur??? En Dagur B.E???? ;) og hvorn viljið þið ferkar sem borgóstjó? SEE MY POINTS ?;)
Ég er nefnilega ekki svo vitlaus...því þrátt fyrir mínar skoðanir á þessum málum, þá geta sumir verið bæði sætir og gáfaðir ;) hehehehe...
Ég og STELLA rúllum ;) hikk
Það er verið að spila "never ending story" með Limahl í útvarpinu og ég með netta gæsahúð af flass"langt aftur í tímann"bakki. Ef ég fer ekki að koma mér í rúmið þá klára ég allan bjórinn í ískápnum og enda sitjandi við eldhúsborðið syngjandi: "I´m just a lonley girl, lonley and blue, I´m all alone with notthing to do"..... Ef ég kynni að skrifa "aumkunarvert" á ensku, þá myndi ég gera það núna!

Held ég hætti bara núna...bjórinn búinn sko ;)

Till next...adios

Friday, February 08, 2008

Gleymdi

Það er eins gott að ég er yfirleitt með sjálfri mér, annars myndi ég eflaust gleyma sjálfri mér....hummm.
Ég gleymdi nefnilega að minnast á tvær stór-fréttir áðan.
Sú fyrri er: (og persónulega finnst mér hún merkilegri, sennilega vegna þess að hún snýr beint að mér, og ég er svo sjálfhverf remember ;) að ég fékk 9,5 fyrir ritstjórnarverkefnið mitt og Ellu! :)
Kennarinn var alveg rosalega ánægð með verkefnið, eintómar góðar athugasemdir og ég er næstum viss um að það eina sem stóð í veg fyrir því að við fengum 10 er að kennarinn gefur aldrei 10 ;) hehe...eða það er fínt að hugsa það svoleiðis...er a.m.k alveg himinsæl með þessa einkunn :) Svo gildir hún líka 10% af lokaeinkunn ;)

Sú seinni er: að Kristján minn eignaðist lítin bróðir í gær (nei, ég var ekki ólétt) og vil ég nota tækifærið og óska honum, pabba hans og Þórdísi til hamingju með guttann :)

Ætla að reyna að skúbba frétt ;)

Till next...adios

Fjarlægðin gerir fjöllin blá...

Og enn á ný er kominn föstudagur! Ég held að það hljóti að vera búið að kippa út einum degi í vikunni (er ég alltaf að tala um þetta...). Ég skoppaði í skólann eldsnemma í morgun (eða keyrði sko) og var vöknuð strax í öðrum tíma eftir að ég hafði sturtað í mig tvöföldum expressó í fyrstu frímínútunum! Ég fékk nefnilega þennan fína gest í gærkveld og varð að mýkja hana með hvítvíni, eftir að ég hafði látið út úr mér einhver ógætileg orð um nöldur og tuð í kvenfólki ;) og okkur tókst bara að blóðmjólka kúna ;) . Svo ég var sybbin í morgun. Eftir skóla fór ég og skilaði einum pössunarkettinum (núna eru "bara" tveir kettir á heimilinu) og sá svo auglýsta útsölu í Eymundsson, sem ég gat ekki horft framhjá...ætlaði nú reyndar bara að kaupa mér penna (það er eitthvað pennasvarthol hér á heimilinu fullt af horfnum pennum) en endaði með 3 bækur og nokkra penna, (og tvær bókanna voru ekki einu sinni á útsölu)! Svo skutlaði ég Mikael til vinar síns og við Kristján fórum í verslunarleiðangur í Nettó. Kristján var voða fegin að komast aðeins út úr húsi, enda búinn að vera veikur í viku.
Ég velti því svolítið fyrir mér í búðarferðinni, hvað stór hluti fólks (og þá er ég að tala um fullorðið fólk) er ofsalega ótillitsamt við náungann. Það væri allt miklu auðveldara ef fólk væri aðeins meira meðvitað um það að það er annað fólk í kring um það!
Kurteisi kostar ekkert :) svo ég held að allir ættu að vera örlátari á hana, lífið yrði svo miklu skemmtilegra fyrir vikið.
Hef lokið eystri úr viskubrunni mínum í bili ;)
Góða helgi Helgi :) og þið öll hin líka ;)

Till next...adios

Thursday, February 07, 2008

Letidagur

Mér tókst að skjótast í skólann í morgun, skila verkefni og sitja einn umræðutíma, svo fór ég heim og þar sem allt var svo rólegt, strákarnir sofandi og ég ennþá varla vöknuð hvort sem var, þá skreið ég bara aftur í rúmið og svaf fram (yfir) að hádegi! Usss! Enda fel ég mig á bak við þá afsökun að ég sé búin að vera smá slöpp...hóst hóst
Annars er heilsa Kristjáns óðfluga að batna, svo nú getur hann aftur legið yfir tölvunni ;) þetta voru erfiðir dagar þegar hann hafði ekki einu sinni heilsu í tölvuleiki...núna finnst honum að hann hafi látið kjánalega og gert mikið úr þessu þarna um kvöldið þegar við enduðum upp á slysó. En ég hef nú veri að telja honum í trú um að það sé ekkert skrítið þótt hann hafi ekki verið alveg rólegur yfir því að finnast hann vera að kafna. Það hefðu nú sennilega fleiri panikkað en hann. Núna ætla ég bara að banna honum að verða meira lasinn í vetur, er orðið ágætt takk :)Þetta er hann Kristján voða voða lasinn...svona klukkutíma áður en það versta skall á.
Eins gott að hann frétti ekki af þessari mynd hér inni....hehe, ansi hrædd um að ég fengi ekki fallegt augnaráð þá ;)
En jæja, kjúklingurinn mallar í ofninum, ég hef ekki gert nokkurn skapaðan hlut af viti í dag, svo nú er mál að fara að lesa smávegis fyrir morgundaginn!
Bíð svo spennt eftir þessum hlýindum sem eiga að hellast yfir okkur á morgun og standa laaaangt fram í næstu viku! Alveg upp í 7 gráðu hita!!!

Till next...adios

Wednesday, February 06, 2008

Öskudagur

Það fór þá svo að ég fór hvorki á fund, ná á fatakynningu í gærkveldi, heldur lá leið mín upp á slysó. Kristjáni versnaði svo rétt eftir kvöldmat (náði reyndar ekki að borða nema hálfa kartöflu) fanst erfitt að anda og var alveg ómögulegur. Þegar það virtist bara versna þá reif ég bara Mikael upp úr rúminu (en aldrei þessu vant var hann sofnaður snemma) og brunaði með Kristján upp á slysó. Þar kíkti fyrst hjúkka á hann og þegar hún ætlaði að kíkja á kokið á honum þá kúgaðist hann og ældi svo heil óskup...Svo kom doktor og skoðaði hann og var nánast viss um að hann væri með Einkyrningssótt, hafði amk öll einkenni, bólgna eitla (eða kirtla...man ekki hvort nema hvorutveggja sé) hita, eyrnabólgu og ógurlega slappur. Kristján var þessu nú hálffegni (þótt hún, læknirinn, segði að það gæti tekið hann hálft ár að jafna sig alveg) því hann hafði verið þess full viss að þetta væri hans hinsta stund. En svo kom "góða hjúkkan" (þetta var reyndar alveg afskaplega góð hjúkka sem sá um okkur) og tók blóðprufu úr Kristjáni, og það fannst honum ekki gott...en lét sig hafa það, þar sem hann taldi þetta sennilega vera eina færa leiðin til að bjarga lífi sínu. Svo tók við löööööööööööööööööng bið eftir niðurstöðum úr blóðprufunum En svo rétt fyrir miðnættið þá kom doktorinn og sagði að blóðprufurnar hefðu bara komið ótrúlega vel út. Einkyrningssóttarprófuð hefði komið út neikvætt, svo allar líkur væru á að hann væri bara með svona heiftarlega pest og bólgur í eitlum út af einhverri veiru og hann myndi bara jafna sig á nokkrum dögum. En sagði jafnframt að við ættum að koma aftur ef að þetta versnaði eitthvað.
Svo að því búnu fórum við heim, algerlega búin á því öll sömul.
Svo nú fer bara öskudagurinn í hjúkrunarstörf (hefði átt að vera búin að kaupa mér hjúkkubúning ;) og lestur námsefnis sem er algerlega búið að sitja á hakanum undanfarna daga. Svo krossar maður bara fingur og vonar það besta, væri voða gott að geta komist í skólann í fyrramálið, bæði er skyldumæting og svo þarf ég að skila einu verkefni...
En þetta kemur allt í ljós, Kristján er rosalega þakklátur fyrir að hafa lifað þetta af, þótt hann sé ennþá hundlasinn, þá er hann skárri og sér lífið í alveg nýju ljósi eftir þennan hildarleik! Hann má nú alveg eiga það hann Kristján minn að hann er svolítil "dramadrottning" inn við beinið ;) en það er bara allt í lagi :)

Till next...adios

Tuesday, February 05, 2008

Sprengidagur

Já, nú á að taka á því í átinu, er að reyna að troða í mig bolluafgöngum gærdagsins (rop) svo sýður saltkjötið í pottinum, og baunirnar fara að sjóða bráðum :) Nammi nammi namm :)
Annars er þetta búinn að vera annasamur dagur, eins og oft (kanski þess vegna sem að vikurnar fljúga framhjá...;)) Kristján er ennþá lasinn, en ég held að þetta sé nú allt á réttri leið hjá honum, núna er hann "bara" fullur af kvefi, hósta og með svaðalega hálsbólgu. Er annars pínu hrædd um að honum hafi tekist að smita mig af einhverju, því ég er að fyllast af kvefi og hálf asnaleg...ok, asnalegri ;)
Eins og mín var von og vísan, þá gleymdi ég náttúrulega að kaupa saltkjötið og baunirnar þegar ég arkaði í búðina í gær, svo ég skrapp í Nettó í dag! Já og meðan ég man: ég er aftur komin á bíl :) þurfti reyndar að moka hann aftur upp í dag, því þegar planið var mokað var skilinn eftir vænn haugur af snjó fyrir aftan bílinn minn :( (reyndar virkar ekki miðstöðin frekar en fyrri daginn, svo það er bæði kalt inn í bílnum og ég sé ekkert út um framrúðuna, en það er aukaatriði, bara að ég geti keyrt kaggann :)
Mér finnst annars Nettó yfirleitt ágætis búð, en stundum er hún full mikið að spara fyrir mann...eða með öðrum orðum; selja manni eitthvað drasl á slikk! Það gera þeir t.d með saltkjötið, það var bara hægt að kaupa "spar saltkjöt" sem mér fannst aðallega vera hálskyrtlar, fita og bein. Og mig sem langaði bara í 2-3 góða bita. Svo það endaði með þvi að ég varð að kaupa 2 poka af sparkjötinu til að eiga kanski nóg kjöt handa mér og Kristjáni, (Mikael er nefnilega í afmæli og fékk líka saltkjöt í skólanum). Svo þetta fer að verða spurning um sparnað....en ég nennti bara ekki í fleiri búðir.
Svo þyrfti ég helst bæði á fatakynningu og fund í kvöld en hef varla orku í annað! Það er spurning hversu hress ég verð eftir saltkjöts átið...hvort ég fer eða verð heima í kvöld :)
Verð að láta það koma fram, afþví að ég var eitthvað að bölsótast út í snjómoksturinn í gær, að ég dáist að þolinmæði mokstursmannanna :) Að þurfa að moka göturnar í allri umferðinni og bíla hér, þar og allstaðar...þeir fá hrós dagsins :)

Hef ekki orku í meiri skrif í bili...

Till next...adios

Monday, February 04, 2008

Bolludagur

Ég var náttúrulega búin að steingleyma því að það væri bolludagur í dag, þangað til að einhverjir morgunhanar í útvarpinu fóru að gagga um það að þau þyrftu að ná í rassinn á einhverjum bakarísköllum - fanst það nú bara hljóma eins og ávísun á salmonellu eða eitthvað álíka spennandi. Svo þegar skólinn var búinn hjá mér þá arkaði ég bara niður í Nettó (ég mokaði jú bílinn upp í gær, en færðin á götunum er ennþá full flókin fyrir hann grána gamla) og hugðist næla mér í nokkrar bollur. Þar voru jú bollur í stórum stöflum, en engar svona tilbúnar til átu. Ég hafð nefnilega ætlað mér að kaupa nokkrar gerbollur rjómalausar, fyrir strákana, en svo nokkrar vatnsdeigsbollur með rjóma og alles handa mér. En þá voru bara ekki til neinar bollur með rjóma! Svo ég þurfti að kaupa sitthvora pakkninguna - gerbollur með 5 í pakka, vatnsdeigsbollur með 5 í pakka og svo keypti ég 4 berlínarbollur (en auðvitað voru 2 saman í pakka þar, svo ég þurfti að kaupa 2 pakka). Þannig að nú á ég 14 bollur handa okkur 3 :) Alveg ótrúlega skynsöm í innkaupum...hehe. Annars frysti ég bara restina, nema einhverjir kíki í kaffi, svo nú er bara að dusta rykið af þeytaranum og þeyta rjóma...vona bara að ég hafi keypt nógan rjóma!

Annars var mér nóg boðið og oggolítið pirruð í morgun. Ég ákvað sem sé af minni alkunnu góðmennsku að labba með Mikael í skólann í morgun (Kristján er sko ennþá lasinn og bíllinn...já þið vitið allt um það) og það var nú bara eins gott að ég ákvað að fylgja barninu. Því allar gangstéttar voru vel faldar undir nokkrum metrum af snjó (ég ýki ekki einusinni mikið). Svo ég labbaði á undan, óð snjóinn upp fyrir hné og ruddi brautina fyrir Mikael. Hann væri sennilega ennþá fastur í skafli ef ég hefði sent hann einan! Þetta blessaða bæjarfélag má skammast sín þegar kemur að snjómokstri, ég held að það sé haldið full fast um budduna í þeim málum. Í gær hefði t.d verið alveg upplagt að nota rólegheitaumferðarleysið sem einkennir oft sunnudaga, til að moka, en nei þá sá maður ekki votta fyrir neinum sjóruðningstækjum! Það má náttúrulega ekki borga þessum greyjum yfirvinnu, nei, hér skal mokað á milli 8-16 og ekkert bruðl! Svo núna er verið að moka einhverjar götur og fullt af bílum fyrir ruðningstækjunum og ruðningstæki fyrir bílunum!
Ég vil bara hafa allar götur auðar þegar ég kem út á morgnana og gangstéttarnar líka takk! Þannig verður það þegar ég er orðin bæjarstjóri :)

Þetta er mynd af slóð eftir að ég og Mikael "ruddum brautina" ;) Það er víst gangstétt þarna undir:


Jæja, þessi rjómi þeytir sig víst ekki sjálfur...kálfur :)

Till next...adios

Sunday, February 03, 2008

Litli frændi

Ég var að eignast lítin frænda í morgun :) prinsinn kom í heiminn kl.07:24 í morgun og var 13 merkur og 48,5 cm. Og öllum heilsast vel :) Til hamingju Árni og Sigga Lára :)
Af allt öðru, gamlar fréttir að allt er á kafi í snjó. Nýjar fréttir að ég er að safna kjarki til að moka upp bílinn og athuga hvort hann fer í gang.
Annars var dagurinn í gær leti dagur mikill, það var samt gerð tilraun til að fá mig á tvenna tónleika/viðburði í gærkveldi, en þar sem heilsufarið hanns Kristjáns breyttist á 5 min. fresti þá endaði nú kvöldið bara með hausverku upp í sófa hálf sofandi yfir "TMNT" ! Glæææææsi legt ;/
En ég lifi í voninni um batnandi heilsufar, svo ég komist aðeins út úr húsi og geti hresst upp á andlegu hliðina :)
Jæja, strákarnir eru búnir að skipta tölvunum "bróðurlega" á milli sín, svo þá er komin tími á að ég hendi mér í eitthvað hlýlegt og moki eða eins og segir í laginu: "mokum, mokum, mokum, mokum, mokum meiri snjó, mokum, mokum, mokum, mokum, mokum meiri snjó, tralllala....;)

Já og af leikfélagsmálum er fínt að frétta, rífandi gangur í æfingum í Freyvangi, ég fór í fýlu þegar ég fékk ekki að leika Jörund og ákvað að vera bara ekkert með :) nema kanski stússast í leikskrá og svoleiðis....þar get ég líka misnotað aðstöðu mína og komið nafni mínu að á hverri blaðsíðu ;)

Gon skófling ;)

Till next...adios

Saturday, February 02, 2008

Ekkert fyndið

Já það er alveg hætt að vera fyndið hvað það snjóar mikið! Það bara snjóar og snjóar og snjóar svo meira, og mig óar alveg við þessu!
Annars lítið við þessu að gera. Vona bara að ég nái bílnum upp fyrir vorið ;) Svo eru bara allir með hor og hósta...usss ekki gott ástand.
Veit ekki afhverju ég settist hér niður fyrir framan tölvuna, á eftir að gera helling af almennum heimilisstörfum, vaska upp, þvo þvott og fleira skemmtilegt. Best að drífa í því meðan ég man ;)

Till next...adios

Friday, February 01, 2008

Og aftur komin helgi

Verð að segja að ég er bara alveg afskaplega fegin því að það er komin helgi! Þótt mér ói stundum hversu vikurnar eru fljótar að líða. Ég reif mig upp eldsnemma í morgun og þar sem Mikael var hóstandi og sjúgandi upp í nefið í alla nótt og Kristján ennþá slappur þá ákvað ég bara að leyfa þeim að vera heima. En sjálf arkaði ég af stað í skólann, í blindbyl og fimbulkulda. Þurfti að skila af mér einu verkefni og svo vera með ritstjórnarfund, þar voru blaðamennirnir teknir á teppið. Einhverja held ég samt að okkur Ellu, meðritstjóra mínum, hafi tekist að móðga. Það voru a.m.k nokkur reiðileg andlit í stofunni þegar við vorum að gagnrýna fréttirnar. En það er bara svona þegar fólk vandar sig ekki! hehe...
Ég er a.m.k mjög þreytt eftir vikuna, búið að vera fullt að gera og er alvarlega að spá í að liggja í all svakalegri leti þessa helgina. Jafnvel bara gera ekki neitt....panta pizzu og hvítlauksbrauð í kvöld, panta pizzu og franskar á morgun og panta pizzu og brauðstangir á sunnudaginn! Skemmtilegur og fjölbreyttur matseðill, sem er litaður af því að ég fékk: námslán, útborgað frá FSA, barnabætur og að ógleymdu hinu ómissandi meðlagi í dag! Svo nú á ég fullt af peningum sem ég veit ekkert hvað ég að gera við ;)
Jæja, ætla að koma Mikael í afmæli og leggja mig svo á meðan að hann er þar ;) gott plan. Svo verður það pizza nr.1

Till next...adios