Sunday, January 16, 2011

Hugleiðing


Oft notar maður tækifæri, eins og áramót, til að setjast niður og líta yfir liðið ár. Hvað hefur maður gert og hvað hefur gerst. Svona nokkurs konar dagbók yfir árið í stuttu máli. Ég hef gert þetta af og til, þegar ég hef munað eftir því eða bara svona til gamans. Núna ætla ég að skrifa örlítið, ekki beint til gamans, heldur aðallega til að reyna að marka nýtt upphaf...nýtt ár.

Í dag er reyndar sextándi dagur janúarmánaðar, og áramótin þar að leiðandi liðin hjá fyrir rúmum tveimur vikum. En áramót eru reyndar tákn um að nú sé að byrja nýtt ár, fyrirfram ákveðinn tímapunktur, og sá tímapunktur sem ákveður að nú sé ár liðið getur verið alla daga ársins. Tilefni þess að ég sest niður og rita þetta er það, að í dag er nákvæmlega ár síðan að Hafþór kvaddi þennan heim. Og því miður kvaddi hann ekki neinn og þar að leiðandi enn sárara og erfiðara að takast á við það að hann sé farinn.

Þetta síðasta ár hefur verið mjög erfitt fyrir Mikael Huga, því eðlilega er erfitt að takast á við föðurmissi þegar maður er aðeins á níunda ári, þó að sjálfsögðu sé það alltaf erfitt. Margar spurningar hafa vaknað og engin svör munu nokkru sinni fást. Þær vonir sem maður hafði um að Hafþór myndi ná sér uppúr óreglu sinni, voru nú slökktar í eitt skipti fyrir öll.

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hlynnt minningargreinum, og í raun aldrei skrifað sjálf minningargrein, nema þá hér á blogginu, já og í hausnum á mér, en það sem er þar fer sjaldnast á blað. En mig langar í örfáum orðum að minnast Hafþórs Heiðarssonar.

Hafþór var ákaflega ljúfur og góður maður, sem vildi allt fyrir alla gera. Myndarlegur og með mikinn húmor. Þegar ég kynntist honum vorið 2000, þá var hann nýkominn úr meðferð og var harð ákveðinn í því að nú væri hann kominn á beinu brautina og lífið var dásamlegt. Hann geislaði af gleði og átti ekki erfitt með að heilla flesta í kringum sig. Við áttum margar góðar stundir saman, sem ég mun alltaf geyma í huga mér.

En því miður þá fara hlutirnir ekki eins og ætlað er, þótt viljinn sé fyrir hendi. Hafþór fór að drekka aftur, og þá fyrst kynntist maður því hversu hræðilegur sjúkdómur alkóhólismi er. Eftir fyrsta „alvöru“ fylleríið hans eftir að við byrjuðum saman, þá var ég alveg miður mín og henti honum út, ákvað að nú væri okkar samskiptum lokið. En það fór þó ekki svo, sem betur fer. Hann fór aftur í meðferð, og þegar hann er búinn að vera í meðferð í einhvern tíma, þá kemst ég að því að ég er ófrísk. Fyrst vissi ég varla mitt rjúkandi ráð, en þegar hann hringir í mig úr meðferðinni, þá segi ég honum frá því og ég hef bara varla fyrr né síðar heyrt í jafn glöðum manni. Honum fannst þetta það besta í öllum heiminum og aðvitað ákváðum við að halda áfram að vera saman og allt yrði nú í himnalagi.

En í stuttu máli sagt, þá kom Mikael Hugi í heiminn þann 18.júní 2001 sem var alveg dásamlegt og hann yndislegasta barn í heiminum...en alltof stuttu eftir það fór Hafþór að drekka aftur. Hann reyndi sitt besta og hann langði svo mikið að vera í lagi og hugsa um strákana sína. Þótt ég tæki þá ákvörðun, stuttu eftir fæðingu Mikaels, að ég gæti ekki búið með Hafþóri lengur vegna óreglu hans, þá héldum við alltaf góðu sambandi eftir það.

Ég setti honum þau skilyrði að hann mætti ekki hringja eða hitta Mikael ef hann væri drukkinn, en annars var honum alltaf frjálst að hafa samband. Ég veit að margir voru hissa á að ég skyldi ekki loka á hann alveg, en ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun minni.

Mikael Hugi elskaði pabba sinn ákaflega mikið og þótt það liðu stundum nokkrir mánuðir á milli þess sem þeir hittust, þá stökk hann alltaf upp í fangið á honum og það var eins og þeir hefðu hittst í gær. Þeirra samband var mjög sterkt, enda finna börn oftast best hvernig fólk er innrætt, og Hafþór hafði ákaflega fallega innviði, þótt hann væri smátt og smátt að leggja sjálfan sig í rúst. Hann var sjálfum sér verstur. Hann sagði mér oft hversu mikið hann langaði að vera heill. En honum fannst hann líka hafa brugðist svo mörgum að samviskan kvaldi hann, og áfengi deyfir...
Ég sá hann síðast í lok nóvember árið 2009, hann kom hingað í heimsókn, hitti Mikael og drakk kaffi og spjallaði. Þá hafði hann verið inni á meðferðarheimili og fannst allt ganga í rétta átt. Hann var afar þakklátur í hvert skipti sem hann hitti Mikael og þegar við kvöddumst, þá þakkaði hann mér fyrir hvað ég væri góð móðir og hversu vel ég hugsaði um drenginn hans. Honum fannst gott að vita að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af honum.

Stuttu síðar fór hann aftur suður og stuttu fyrir jólin féll hann. Ég átti alltaf von á því að heyra frá honum, að hann myndi hringja um jólin, eða á nýja árinu (2010), því hann var vanur að hafa samband annað slagið, fá að heyra í Mikael og bara spjalla. Hann sagði oft að honum finndist svo gott að tala við mig, því ég kæmi honum alltaf í svo gott skap. En ég lét hann líka oft heyra það. Ég held að Hafþór sé eini maðurinn sem ég hef rifist við, öskrað á, lamið, hent út úr bíl og grátið með.

„Stundum þarf maður að vera vondur til að vera góður“ er sagt, ég reyndi þetta oft, ýtti honum oft frá mér og hélt honum í vissri tilfinningarfjarlægð, þrátt fyrir samskipti okkar. Í þessi tæp níu ár, þá passaði ég mig á því að hleypa honum ekki of nærri mér, og svo allt í einu er hann ekki lengur hér og manni fannst að allt sem maður hafði gert í von um að hjálpa, hefði kannski gert illt verra. En auðvitað veit ég að ég hefði engu getað breytt, sama hvað ég hefði gert...en samt...
Snemma morguns, þann 16.janúar 2010 lagði hann Hafþór af stað í sína hinstu sjóferð.
Ég mun alltaf minnast hans með hlýhug og halda góðu minningunum. Hann var góð sál, en því miður eru það einmitt þeir hinir hjartgóðu sem eiga undir högg að sækja í lífinu.

En nú er liðið ár og tími til kominn að horfa fram á veginn, sleppa tökum á því sem maður ræður ekki við og getur ekki stjórnað.
Núna síðustu jól voru Mikael frekar erfið, hann saknaði pabba síns og talaði of um hann. Ég gaf Mikael snjóbretti og fleira í jólagjöf og hann var mjög ánæður með það, en sagði við mig á jóladag: „mamma þú getur ekki gefið mér bestu jólagjöf í heimi“ og ég spurði þá hvað það væri, þá sagði Mikael: „að fá pabba minn aftur“.
Mikael á sem betur fer margar góðar minningar um pabba sinn og engar slæmar, það finnst mér mjög mikilvægt og er þakklát fyrir. En sorgin á eftir að sitja lengi í hjarta hans, því að tíminn læknar engin sár, bara kennir okkur að lifa með þeim.

Takk fyrir allt Hafþór minn, vona að þú hafir fundið þá ró í hjarta þér sem þú þráðir svo mjög. Samverustundir okkar voru góðar, viðburðaríkar og stundum stormasamar, en þó fyrst og fremst lærdómsríkar. Þú átt alltaf stað í hjarta mér.

Till next...adios