Friday, April 26, 2013

Hvað er til ráða?



Stundum er erfitt að vera með haus sem er haldinn síhugsunaráráttu.
 Í veikri von um að losa mig við eða létta smá á hugsanaþunganum, þá ætla ég að reyna að skrifa mig örlítið frá þessu.

Núna sækja að mér hugsanir um; hvað það gæti hugsanlega verið sem fær börn til að vera leiðinleg við hvort annað? Þá meina ég bæði í orði,  með gjörðum og skrifuðum athugasemdum á netinu (facebook, youtube).

Ég fór á afar fróðlega Maríta fræðslu um daginn, en þar er verið að fá börn í 5.-6. bekk til að hugsa áður en þau byrja á neyslu áfengis eða annarra vímuefna og helst auðvitað sleppa því. Fyrst var talað við börnin með foreldrum/forráðamönnum, sýnd mynd og svo rætt aðeins um almennt heilbrigði. Ein glæran sýndi magn sykurs í drykkjum, og einnig var komið inn á sætuefni. Fyrirlesarinn sagði þá að venjulegur sykur væri þó skömminni skárri en gerifsæta. Þá heyrðist mótmæli frá einu foreldri (þarna voru börnin enn með) með þeim athugasemdum hvort það væri eitthvað sannað. Eftir smá þref milli fyrirlesara og foreldris, þá tók fyrirlesari af skarið og sagði að fyrir því væru staðreyndir og lýðheilsustöð varaði við neyslu gerfisætu í miklu magni.


Stuttu seinna fóru börnin í aðra stofu, þar sem rætt var við þau þar, en foreldrar/forráðamenn sátu áfram og hlýddu á áframhaldandi hættur vímuefna og allskonar ofbeldis í tölvuleikjum og á netinu. Þar fór aftur af stað umræða um sykur og gerfisætu (hver vill líka missa barnið sitt í massífa sykur- eða gerfisætuneyslu) sem endaði með því að áðurnefnda foreldri og fyrirlesari sættust á að vera ósammála um það mál.
 Svo voru sýndar myndir af hálfberu kvenfólki í auglýsingum og myndböndum. Ein myndin var t.d af konu í bikini, standandi í miðri á að renna fyrir laxi. Viðbrögðin voru nánast blístur og athugasemdir frá karlmönnum á þessa leið: „nú sér maður loksins hvað er spennandi við laxveiðar“.

Þótt að þetta hér á undan komi kannski ekki umhugsunarefni mínu (sem ég minntist á í upphafi) beinlínsi við, þá er það jú kannski lykillinn. Hvernig fyrirmyndir eru við? Og þá á ég ekki bara við hvaða fyrirmyndir erum við eigin börnum heldur almennt. En þó SÉRSTAKLEGA hvernig högum við okkur heimavið og þegar við erum með börnin okkar á almennum svæðum?

Þarna var t.d þetta foreldri/forráðamaður sem mótmælti fyrirlesaranum, að draga orð hans í efa, og þá ekki bara orð hans um gerfisætu, heldur allt sem hann var búinn að segja áður. Hafði hann eitthvað vit á vímuefnaleyslu og annari hættu ef hann hafði ekki einu sinni vit á sykri? Sem 11 ára barn er auðvelt að draga svoleiðis ályktanir.
Þeir karlmenn sem blístra og eru með vafasamar athugasemdir um klæðaleysi kvenna, á fyrirlestri sem er innan veggja skóla barnsins þeirra, hvernig eru þeir þegar vinirnir koma saman að horfa á fótbolta? Hvað segja þeir í auglýsingatímanum þegar svakaleg skvísa kemur labbandi uppúr sundlaug í bikiní (sem varla sést) haldandi á coca cola eða pepsi flösku? Hvar eru eyru barnanna okkar? 


Ég lendi oft í því að ég er að tala við einhvern fullorðin, og nálæg barnaeyru eru kyrfilega falin undir heyrnartólum og að manni finnst á hæsta styrk, eða eru jafnvel staðsett í næsta herbergi en samt fær maður allt í einu spurningu út í það sem um var rætt. Börn eru nefnilega þeim eiginleika gædd að hafa öll skynfæri opin og meðtaka allt sem gerist í kringum þau, jafnvel þótt maður treysti því að þau séu hálf meðvitundarlaus af tölvuleikjanotkunn.


Eitt annað stakk mig líka í þessari „fullorðins“ umræðu eftir fyrirlesturinn, en það var að sumum foreldrum fannst það mætti leggja MEIRI áherslu á að kenna börnunum að drekka heldur en að banna þeim það alveg. Því þau myndu hvort sem er drekka einhvern daginn. 

Mér finnst þetta álíka gáfulegt og að kenna barninu sínu að dópa, því það prófar það hvort sem er einhverntíman. Ég held að það detti fáum í hug að segja við barnið sitt: „mundu svo bara að reykja eina hasspípu á dag, eða taka bara eina LSD töflu í hverju partíi“. Við þurfum nefnilega að gera okkur grein fyrir því að þegar börn (og þá meina ég undir 20 ára aldri) eru byrjuð að nota áfengi, þá aukast líkurnar á að þau prófi eitthvað annað. 
Það er því miður svo að allt sem kalla má heilbrigða skynsemi hverfur eins og dögg fyrir sólu þegar áfengisneysla er annars vegar. Þess vegna myndi ég telja vænlegra að hvetja börn til að láta áfengi eiga sig, fremur en að kenna þeim að nota það „rétt“. Og með því að kenna þeim að nota áfengi, þá erum við að segja þeim að þetta sé eðlilegur hluti af lífinu, og eru þá þau sem ekki drekka ekki eðlileg?


Mig langar að hvetja alla foreldra/forráðamenn til að ræða við börnin sín um samskipti, kurteisi og tillitssemi. Koma fram við hvert annað eins og þau vilja láta koma fram við sig. Segja ekkert við aðra sem þau ekki vilja láta segja við sig. Þetta þarf ekkert að vera svo flókið. Hvernig komment eru líka börn að lesa á netmiðlum sem að fólk sem telja á fullorðið lætur frá sér?

Svona í lokin ætla ég að láta fljóta með þá athugasemd sem ég fékk á myndband á youtbue, en þar er sonur minn sem þá var fjögurra ára að syngja lag. Og þetta fannst einum 11 ára viðeigandi að setja inn sem komment: „hann syngur ógeðslega kann ekkert að sínga og kann ekki á fokkíng gítar littli homma hóru-úngi þinn :D“
Þetta var nú svona aðal vakinn að þessum pistli mínum sem ég læt nú lokið í bili.

Till next...adios

Monday, February 11, 2013

Flýttu þér!!!




Snemma sumars á síðasta ári (2012) var ég stödd í stórmarkaði í Narbonne í Frakklandi, það var upplifun á margan hátt. Þarna var til dæmis hægt að kaupa allt sem manni hefði til hugar geta komið, nema kannski flugvél eða togara, en það vakti samt ekki mesta undrun mína.

Eftir að hafa rölt um og skoðað og týnt nokkra hluti ofaní körfu, þá var haldið að langri kassaröð, fjöldi kassa kom mér heldur ekkert á óvart, miðað við stærð búðarinnar. En það sem kom mér á óvart var að þegar við biðum við kassann eftir að röðin kæmi að okkur, hvað allt var rólegt. Afgreiðslukonan renndi vörum viðskiptavinarinns sem var á undan okkur rólega yfir skannan, sagði svo rólega frá því hvað vörurnar kostuðu og rabbaði svo í rólegheitunum við viðskiptavininn á meðan hann borgaði og setti sínar vörur í pokann.

Ég varð afar hissa, þegar afgreiðslukonan hélt bara áfram að rabba við viðskiptavininn á meðan hann gekk frá vörunum, „ætlar hún ekkert að fara að afgreiða okkur? Sér hún okkur ekki?“ En vegna þess að ég er vel upp alin og var uppálögð kurteisi og var þarna gestur í ókunnugu landi, þá sagði ég ekkert heldur horfði betur í kringum mig. Jú, þetta var víst svona á hinum kössunum líka, það var ekki byrjað að afgreiða næsta viðskiptavin fyrr en sá sem á undan var, var búinn að ganga frá sínum vörum og farinn!

Og ég hugsaði: „vá hvað þetta er sniðugt“ ekkert stress og ekkert vesen, fólk bíður pollrólegt og þarf þó ekkert að bíða lengi. En svo hugsaði ég um leið; „þetta gætu Íslendingar aldrei tileinkað sér“.  Og af hverju er það? Af hverju eru Íslendingar alltaf að flýta sér svona mikið? Er það vegna þess að hér er alltaf svo kalt, að ef við stoppum í örskamma stund þá frjósum við í hel? Nei, ég held ekki, það er í það minnsta alltaf funheitt inn í blessuðum verslununum okkar, en samt þolum við ekki að bíða eftir afgreiðslu í eitt augnablik.

Ég hef staðið í röð við kassa og hlustað á fólk fussa og sveija og jafnvel verið afar dónalegt við saklaust afgreiðslufólk, bara vegna þess að það þarf að standa í örstutta stund og bíða eftir afgreiðslu. Ef það eru komnir tveir í röð (sem er samt alveg á mörkunum að geta kallast röð) þá er farið að góla „Halló! Er enginn að afgreiða hérna!“

Svo kunna íslendingar heldur ekki að vera í röð, eða ef það er röð þá er varla hægt að kalla það röð, það myndast frekar svona óreglulegur hópur þar sem allir hugsa um það eitt að verða næstir í röðinni! Svo þegar afgreiðslumaðurinn kallar „hver er næstur“ þá er oftar en ekki frumskógarfrekjulögmálið sem gildir, heldur en að sá næsti í röðinni sé næstur í röðinni.
En já...þá spyr maður sig; af hverju eru íslendingar alltaf að flýta sér? Þurfum við alltaf að flýta okkur svona mikið?

Íslendingar eru að flýta sér svo mikið að þeir aka hratt í umferðinni, þeir aka yfir á rauðu ljósi og þeir blóta fábjánanum í sand og ösku sem er ekki nógu fljótur og hafa þar að leiðandi ALLS ekki tíma til að gefa stefnuljós, því þeim liggur of mikið á til þess. Svona fyrir utan það að auðvitað kemur öðru fólki ekkert við hvert það er að fara!

En að sjálfsögðu koma stundum upp aðstæður að maður þarf að flýta sér, til dæmis koma fóki til hjálpar sem hefur slasað sig, að bjarga heyi í hlöðu áður en það rignir og svoleiðis óvæntir atburðir, þegar þarf að bjarga mannslífum eða verðmætum. En það eru algerar undantekningar.

Þegar ég er í stórmarkaði (matvöruverslun) þá hef ég það yfirleitt á tilfinningunni að ég sé fyrir. Ég er fyrir fólki sem er að versla og fyrir þeim sem setja nýjar vörur upp í hillur, en mest er ég þó fyrir þegar kemur að kassanum og ég hamast við að setja í poka án þess að taka mikið af þeim vörum sem næsti viðskiptavinur á, því afgreiðslufólkið er að flýta sér svo mikið að afgreiða næsta til þess að það myndist ekki tveggja manna röð. Ég held að það sé að stórum hluta út af þessu sem mér finnst leiðinlegt að fara í búð. Maður þarf alltaf að haska sér svo agalega mikið.

En þar sem ég hef verið alveg fullkominn þátttakandi í þessari „flýtimeðferð“ stórmarkaðanna, þá get ég ekki verið með neinn derring. En aftur á móti ætla ég að reyna að flýta mér hægar. Draga djúpt andann og taka því rólega. Hvort sem ég er í umferðinni á Miklubrautinni eða í einhverjum stórmarkaðinum...hvað liggur okkur svo sem á?

Till next...adios