Friday, November 30, 2007

Veðurfar

Nú er veður ágætt hér á stór-Akureyrarsvæðinu, en virðist vera alveg kolvitlaust alls staðar annars staðar. Ekkert flogið í dag, og þar að leiðandi sýnum við ekki stuttverkið "Hlé" í Freyvangi í kvöld, af því að leikstjórinn/einn leikarinn er staddur í Reykjavík (þetta er sko sami maðurinn). Eitthvað var hann að brasa við að reyna að semja um hærri laun fyrir kennara, sem er náttúrulega tóm vitleysa, því eins og allir vita hafa þeir fín laun fyrir sama og enga vinnu (þetta er sérstaklega skrifað fyrir Öllu mágkonu;).Og svo á fólk náttúrulega ekki að vera að þvælast þetta um há vetur þegar allra veðra er von!
Verð að segja frá því, að ég hitti voða fræga leikkonu hér fyrir utan áðan, man bara ekki hvað hún heitir...hún kynnti sig samt og tók í höndina á mér, en það var ekki fyrr en ég kom inn sem ég fattaði að ég held að ég hafi ekki aulað nafninu á mér út úr mér. Spurning hvor er með stjörnustæla, fræga leikkonan eða ég ;)
Ég er reyndar ekki búin að vera alveg með fulla 5 (ekki einu sinni fulla 3) síðustu daga, (eins og allir sem voru að æfa með mér á miðvikudagskv.geta vitnað um) búin að vera hálf slöpp og asnaleg eitthvað. Verð samt alveg brjáluð ef ég er að fá einhverja pest!
Jæja, ætla að senda Sverri bró rolluritgerðina í tölvupósti og komast að því hvort að eitthvað vit leynist í þessu eða hvort ég þurfi að gera þetta allt upp á nýtt....reyna svo að lesa aðeins meira í hugmmyndasögunni, en það hefur gengið MJÖÖÖÖÖÖG HÆGT í dag.
Komst annars að því í gær að jólabrjálæðið er byrjað...öll bílastæði yfirfull hjá öllum búðum og fólk æðir um með brjálæðisglampa í augum. Þetta er besti tími ársins til að vera heima hjá sér með heitt kakó og BettýCrocker köku ;)

Till next...adios

Thursday, November 29, 2007

Bara smá

Af því að mér þykir svo gaman að láta aðra vita hvað mér finnst ég vera dugleg og hafa mikið að gera, þá ætla ég að láta eftir mér að blogga í 3 mínútur.
Ég er búin að sitja í allan dag (fyrir utan það að fara í klippingu og litun, tók 2 tíma, og skreppa í búðina og elda mat og svoleiðis) og skrifa ritgerina miklu um Íslensku sauðkindina. Og ég get bara alveg sagt það að ég er búin að fá nóg af fjárkláða, sauðasölu og flestu sem varðar kindur fyrr og síðar. Er nú samt að spá í að skjótast í sveitina á morgum, plata Sverrir til að lesa yfir ritgerðina og hjálpa honum smá í staðin.
Svo við fyrsta tækifæri verð ég að byrja á að lesa fyrir hugmyndasöguprófið sem verður á mánudaginn, er jafnvel að spá í að taka aðra bókina með mér í rúmið á eftir og athuga hvað ég get haldið mér lengi vakandi. Var í þjóðfélagsfræðiprófi í gær, og gekk ekkert vel, og er ekkert að ýkja það, verð alveg himinsæl ef ég bara næ þessu prófi....krossa putta og vona það besta.
Jæja, ætla að fara með hugmyndasögubók nr.1 í rúmið, hafið það rosa gott krúttin mín :)

Till next...adios

Tuesday, November 27, 2007

Update

Bara örstuttar nýjustu fréttir...eða ekki fréttir.
Ég er að lesa eins og brjáluð kona undir próf á morgun (kanski ekki alveg brjáluð, hummm, væri þá varla að hanga á netinu ha) í þjóðfélagsfræði. Hann var alveg að tapa sér núna kennarinn og lætur okkur taka próf úr eftirfarandi köllum: Freud, Simmel, Cooley, Mead, Parsons, Pareto, Michels, Mannheim, Mills og Merton.
Bara það að lesa um Freud tók mig heilan dag, svo sendi hann póst daginn eftir að ég las um hann og sagði að það yrði mjög lítil áhersla á Freud!!!Argh.
Svo er ég að fara í viðtal upp í skóla á eftir, tala við kennarana í 1.bekk um hann Mikael minn ;) Vona nú bara að það hafi eitthvað lagast með orðbragð og slagsmál síðan síðast.
Svo ætla ég í saumaklúbb í kvöld, þannig að ég verð að reyna að vera dugleg að lesa í dag....hummm.
Það á annars að sýna stuttverkið "Hlé" sem við fórum með í Borgarleikhúsið í haust, í Freyvangi föstudagskvöldið 30.nóv. en þá er víst 1.des hátíð hjá menningarmálanefnd sveitarinnar. Er þetta nú víst gert vegna þess á Freyvangur (þ.e húsið sjálft) á 50 ára afmæli um þessar mundir.
Samt pínu asnalegt að hafa 1.des hátíð 30. nóv. sérstaklega þar sem 1.des er á lögbundnum dajmmdegi-laugardegi. Isss flisss þetta menningar.......eitthvað.
Já svo að ég er líka búin að vera dunda mér við æfingar á þessu litla verki "Hlé-i", en það var líka aðeins bætt við það nokkrum prumpubröndurum!
Gaman að hafa nóg að gera.
Eftir prófið á morgun og á fimmtudaginn þá þarf ég svo að gera eina ritgerð um íslensku sauðkindina því ég þarf að skila henni á föstudaginn og einnig þarf ég að lesa undir hugmyndasöguprófið um helgina, en það er á mánudagsmorguninn...So mutch to do, so little time ;)
Jæja, kanski ráð að fara að byrja á einhverju að viti.
Ha de bra...

Till next...adios

Thursday, November 22, 2007

Fréttir!!!

Jæja, þá er einkunnin mín komin sem ég kvartaði svo mikið yfir að vera ekki búin að fá í síðasta bloggi ;)
Og vitið menn! Ég fékk 88 af 100!!!! Ég brosi í nokkra hringi og er varla að trúa þessu! Tékkaði svona 18 sinnum áður en ég var orðin nokkuð viss um að ég væri ekki að sjá ofsjónir ;)
Ég vissi nú að mér hefði gengið sæmilega á prófinu, en hefði gískað og verði mjög ánægð með 7 ! En það er náttúrulega alger snilld þegar manni tekst að koma sjálfum sér á óvart :)
Svei mér þá, ég held bara að ég sé gáfaðri en ég held ;) hehe.
Svo er ég búin að vera dugleg í morgun, þambað grænt-ginseng te og kaffi til skiptis og er svona nánast að verða búin að sigrast á kaflanum um Freud (ákvað sem sagt að lesa í þjóðfélagsfræði).
En ekki dugir að slóra, þarf að hella upp á meira kaffi og lesa og lesa og lesa :)
Njótið dagsins, lífið er dásamlegt :)

Till next...adios

Arrrrrrgh

Reiti hár mitt og skegg...er ekki ennþá búin að fá þessa blessuðu einkunn í IBH0173 sem ég er búin að bíða eftir leeeengi. En þetta heitir Iðnbylting og hattvæðing á íslensku-skiljanlegu máli og var 50% próf. Alveg óþolandi að fá ekki einkunn á réttum tíma, sérstaklega þegar kennarinn tilkynnir hátíðlega yfir bekkinn sl. mánudag að þetta komi inn fyrir hádegi á þriðjudag. Sendi svo reyndar póst um hádegið í gær (miðvikudag) um að þetta kæmi ekki inn fyrr en seint á miðvikudagskvöld. En núna er klukkan 08:03 á fimmtudagsmorgni og EKKERT komið.:(
En jæja, ætli ég reyni bara ekki að forðast rúmið mitt í dag og byrji á ritgerðinni um Íslensku sauðkindina, eða lesi 2 bækur í hugmyndasögu eða 2 bækur í þjóðfélagsfræði eða 3 bækur um rökfræði....hummm, get ekki ákveðið mig á hverju ég á að byrja ;/ Sennilega best að byrja bara á kaffi ;)

Till next...adios

Wednesday, November 21, 2007

Stundum...

þegar ég hlusta á fréttir, þá dettur mér í hug að það hljóti að vera 1.apríl. En þá staldra ég aðeins við, hugsa um veðurfar, hvað sé nýbúið að vera að gerast í nútíðinni ( t.d er nýlega búið að taka slátur?, eða nýbúin að vera jól? og þh.) og kemst þá oftast að því að 1.apríl er langt undan eða langt að baki.
Eina svona frétt heyrði ég í útvarpinu í dag, ég var að keyra heim úr skólanum og má þakka fyrir að hafa ekki keyrt á, svo hissa og hneiksluð var ég.
Eins og mörg dæmi sanna, þá láta konur oft á tíðum mjög undarlega, og virðast þessi undarlegheit oft ágerast með völdum og frama.
Já, nú er eitthvað kerlingar grei farið að mótmæla því að vera ráðherra!!!! Ekki það að hún vilji ekki vera ráðherra, heldur bara ekki ....herra. Maður segjr nú bara herra minn trúr! Og þessi keeeeeling kemur með þau dásamlegu rök að karlmenn getir ekki verið "frú" og þar að leiðandi getur kona ekki verið "herra" eða ráðherra eins og í tiltekna dæmi. (Sennilega að sýna snilli sína í rökfræði).
Það á náttúrulega bara að taka svona konur og setja þær í búr á Austurvelli öðrum til vítis og varnaðar.
Hvernig í óskupunum eiga konur að ná fram jafnréttindum með svona forpokaða vitleysisbullara við stjórnvöld? Ég veit ekki betur en að ráðherrar séu viss stétt, svona svipað og bændur, læknar , prestar, ruslakallar og s.frv. Reyndar þarf ekki að fara í skóla og læra til ráðherra, enda yrði það sennilega alltof flókið dæmi og gríðarlegt atvinnuleysi í þeirri stétt.
Ég hef amk ekki séð margar konur í læknastéttinni vilja láta breyta starfsheitinu "læknir" í "læknínu" eða eitthvað þessháttar. Enda hver myndi vilja fara til "læknínu" ef maður væri eitthvað veikur? ;)
Nei, þetta finnst mér jafn heimskulegt og þegar jafnréttiskellingin, hérna um árið, vildi láta setja græna-kallinn á umferðarljósunum í pils!
Er ekki líka mun mikilvægara að beita sér fyrir málum eins og hugsa betur um gamla fólkið, stytta biðlista á sjúkrahús, breyta námslánakerfinu þannig að bankarnir hætti að stórgræða á námsmönnum og fleira og fleira...nei, en þessi kelling fer að gera veður út af "herra".
Ekki myndi ég kjósa svona konu á þing. Enda finnst mér og hefur alltaf fundist að það sé persónan, persónuleikinn og framkvæmdarkrafturinn sem skiptir máli ekki kynið.
Kanski bara ég sem er svona forpokuð....OR NOT!

Till next...adios

Tuesday, November 20, 2007

Tímasetning

Búin að bíða eftir einkunn síðán um hádegið í dag. Kennarinn sagði í gær að einkunnirnar kæmu inn fyrir hádegið í dag, en þær eru ekki ennþá komnar, er búin að tékka oft og hef ekki getað einbeitt mér að neinu öðru í dag (smá afsökun fyrir að hafa ekki nennt að gera neitt).
En þetta kemur vonandi inn fyrir kvöldið!
Allt annað; Mikael er í afmæli hjá bekkjarbróður svo það er voða rólegt hérna núna...en það verður kanski ekki alveg jafn rólegt á eftir. Ég þarf nefnilega að taka hann aðeins í gegn þegar hann kemur heim! Fékk bréf frá kennaranum hans í dag, þar sem mér var tjáð að honum hefði lent saman við annan strák í frímínútunum í dag. Hann vildi vera með í einhverjum leik, en þessi strákur bannaði honum það (eða sagði að hann gæti ekki verið með) og þá henti Mikael steini í átt að stráknum. Þá sagði strákurinn að hann ætlaði að segja skólaliða frá og þá sagði Mikael þessa hummm "gullvægu" setningu: "mér er alveg sama, þú ert bara hálfviti"!
Það var nefnilega sendur póstur á foreldra allra 1.bekkinga í gær, og þar var sagt frá því að mikið hefði borið á ljótu orðbragði og slagsmálum meðal krakkanna í haust. Og nú á að fara að senda foreldrum póst heim ef eitthvað bjátrar á og ef foreldrar hafa fengið 5 pósta senda heim útaf barni sínu, þá eiga þeir að gjöra svo vel að mæta í skólann og vera þar eins og kennurum þykir ástæða til!!! Og hananú! Nú reikna ég með að ég sé aðeins 4 póstum frá því að þurfa að mæta í skólann með Mikael ;/

Till next...adios

Friday, November 16, 2007

Föstudagur

Jæja, þá er bara venjulegur dagur í dag, föstudagur og helgin að skella á. Jónas Hallgrímsson átti víst afmæli þennan dag og hefði orðið 200 ára eða eitthvað svoleiðis. Ég er búin að vanda málfar mitt sérstaklega í dag, það sem það er dagur íslenskrar tungu og mun það gjöra áfram.
Minn eldri sonur hann Kristján er að fara til fögnuðar í kvöld, það ætla að hittast nokkrir félagar í húsi eins þeirra, borða flatbökur, drekka límonaði og horfa á kvikmynd um galdradreng af engilsaxnensku bergi brotinn sem ku heita Harry Potter. Ég vona bara að þetta sé ekki yfirskyn og í reynd sé brjáluð gleði með stúlkum og alkahóli ;) hehe, nei ég hef annars engar áhyggjur af því, þar sem sonnur minn er prúður drengur og einnig hans kumpánar.
Svo nú er ég að sjóða fisk, handa mér og Mikael, svona í tilefni dagsins ;)
Ég gerði annars það í dag sem ég hef eigi gjört áður, en það var að kaupa jólagjöf fyrir mánaðarmót nóv.-des. Og meira að segja hugsa ég að ég hafi hingað til ekki keypt jólagjafir fyrr en í fyrsta lagi eftir 15.des. En núna dreif ég mig í verslun og keypti jólagjöf handa Mikael og meira að segja pakkaði henni inn í jólapappír! Mjög ánægð með sjálfa mig núna :)
Svo byrjaði ég líka á jólahreingerningunni í dag, þar að segja, það var farin pera í stofunni og ég skipti um og þvoði ljóskúpulinn í leiðinni :) og þar með er ég byrjuð að gera hreint, þótt að ég stór efi að ég haldi því áfram fyrr en í fyrsta lagi eftir próf, eða um 15.des.
Svo núna liggur fyrir að gera eina ritgerð um Íslensku sauðkindina og lesa fyrir próf á mánudaginn. Ég fékk reyndar til baka í dag efnisgrindina af ritgerðinni minni, þar hafði kennarinn sett út á það, að heiti ritgerðarinnar: "'Íslenska sauðkindin fyrr og nú" væri "frekar ófræðilegur titill" svo ég auglýsi hér með eftir fræðilegri titlum :) og svo sagði ég að ég: "myndi taka mjög jákvæða afstöðu til Íslensku sauðkindarinnar" og það þótti honum einnig: "frekar ófræðilegt að orða þetta svona". Hummm, ég er greinilega bara frekar ófræðileg! En ég fékk a.m.k að halda áfram með ritgerðina mína, verð bara að verða svolítið fræðilegri.
Jæja, ætla að draga ýsuna upp úr pottinum og fara svo að lesa um efnahagsþróun á Íslandi ;)
Hafið það gott.

Till next...adios

Thursday, November 15, 2007

Afmæli :)

Ég á afmæli í dag
ég á afmæli í dag....og svo frv.

Það er orðin hefð hjá mér í þessu bloggi að óska sjálfri mér til hamingju með afmælið og ég geri það hér með :) Til hamingju með afmælið ég sjálf :) tata!
Þetta er nú annars búinn að vera fínn dagur.
Fékk slatta af "til hamingju með afmælið" sms-um, fékk afmælisgjafir frá strákunum mínum; myndaramma og kertastjaka. Fékk afmælisgjafir frá 2 bekkjarsystrum mínum, kók og toffy crisp frá annari og crispís-nammistöng frá hinni ;) þær eru greinilega að reyna að fita mig!
Svo fórum ég og Friðbjörg á Greifann með strákunum okkar og þau (hún og guttinn hennar) gáfu mér voða flotta könnu sem á stendur: "I love sex". Á Greifanum fékk ég mér kengúrukjöt, og það var hrein snilld :) rosa gott, mæli með því. Og núna kl.19:20 sit ég hér við tölvuna mína (djásnið mitt), örlítið rauðvínslegin, og rita þetta blogg. Hugsa að mesta fjörið sé búið í dag...hehe.
Man að á sama tíma í fyrra var allt fullt af snjó, núna er 10° hiti. Á sama tíma í fyrra var ég á leiðinni niðrá Bláu könnu og sat þar í góðum félagsskap og sötraði hvítvín, núna er ég búin að drekka 2 rauðvínsglös og komin heim....farin að geyspa og hugsa um rúmið mitt. Ætli þetta sé aldurinn??? Nei, neita að viðurkenna það, ætla að skella í mig kaffi og reyna að vaka a.m.k til kl 23:00 hehe...góðar stundir :)

Till next...adios

Wednesday, November 14, 2007

jamm

Veit næstum ekki afhverju ég loggaði mig inn á bloggið. Er alveg lens og veit ekkert hvað ég á að skrifa um hummm...
Fékk reyndar "skemmtilegan" póst inn um lúguna hjá mér áðan: jólakort frá Barnaheill, sem maður ræður hvort maður borgar eða ekki (en hver hefur samvisku í að nota þau og borga ekki...hummm ekki alveg jólaandinn) og svo bækling "Hvernig get ég aukið árangur minn í fjármálum"? Ja há! Þegar stórt er spurt....annars er þetta boð frá SPRON um að koma á þessa fínu ráðstefnu um fjármál. Þar verður manni eflaust sagt að spara og borga niður skuldir, og verð ég bara að segja að ég nenni ekki að eyða 3klst. af dýrmætum degi í að hlusta á það. Enda eina ráðið fyrir mig til að auka árangur í fjármálum það að hætta í skóla og fara að vinna ;) en það ætla ég sko ekki að gera.
Verð samt að koma því að, að sl. mánaðarmót voru mjög merkileg í mínu lífi (talandi um fjármál) en það er í fyrsta sinn, síðan OMG veit ekki hvað langt síðan, (þegar ég fór að búa með karlmanni, tja, svona 21.árs) sem ég er ekki með yfirdrátt á heftinu mínu...heitir reyndar debetkortareikningur núna, hehe, þykir eflaust hallærislegt að tala um hefti ;)
Já, mér tókst sum sé að greiða loksins niður 100 ára heimild!
Og þar með lýsi ég því yfir að ég sé búin að gera mitt í bili til að auka árangur minn í fjármálum ;)
Núna bíð ég bara róleg eftri því að peningarnir fari að raðast inn á reikninginn minn :) hlýtur að vera í réttu hlutfalli við þessa yfirdráttar-vexti sem maður var alltaf að borga...hummm ekki satt? ;)

Tíminn líður ógurlega hratt þessa dagana, og maður fær nettan fiðring í magann þegar maður áttar sig á því að það eru aðeins eftir rúmar 2 vikur af skólanum!!! Kræst, og þá koma próf og ritgerðarskil og alles...úff, nei þetta verður annars bara gaman. Ætla að reyna að vinna eitthvað í desember, en annars bara að slæpast í fríi með guttunum mínum og baka kanski eina sort eða svo ;)
Maður verður farinn að syngja með henni Svölu Björgvins áður en maður veit af: "Ég hlakka svo til, ég hlakka alltaf svo til..."
Rosalega er ég oft búin að skrifa maður í þetta blogg mitt! Uss, maður, nú er mála að hætta maður og drífa sig á einn fyrirlestur eða svo :)

Till next...adios

Monday, November 12, 2007

Slappleiki

Það varð lítið úr þessari fyrirfram plönuðu partý-djamm-helgi!
Hélt ég væri bara haldin ógurlegri leti á laugardaginn og lá mest og góndi á imbann, en þegar ég ætlaði að rífa mig upp úr þessu ógurlea sleni um kvöldið og henti mér í sturtu, þá komst ég að því að þetta var ekki bara leti. Ég rétt náði að klára að skola sjampóið úr hárinu vefja um mig handklæðum og skríða (næstum bókstaflega) upp í rúm! Það var næstum liðið yfir mig og mér leið hræðilega illa, hausinn að springa og allt í volli. Komst svo að því að ég var komin með hita og lá svo bara og fann beinverkina læðast um öll mín bein. Ætli ég hafi ekki legið í rúminu í 2 tíma þegar ég hafði safnað nægjanlegum kröftum til að fara í náttföt og bursta tennurnar :/
Sunnudagurinn var einnig "hvíldardagur" og ég í rúminu nánast allan daginn, eða það sem ég komst upp með. Strákunum fannst þetta hreint ekki skemmtileg helgi og reyndar mér ekki heldur. En nú er komin mánudagsmorgun, ég er ögn hressari og ætla að reyna að skrölta í tíma á eftir (er bara ekki nógu gáfuð til að geta sleppt úr tímum) en hann Kristján minn er tekinn við og liggur nú í rúminu með dúndrandi hausverk. Mikael var aftur á móti rekinn af stað í skólann með harðri hendi og ég vona að hann sleppi við þessi óskup!
Svo það var hvorki bekkjarpartý né Páll Óskar hjá mér þessa helgina :(
Gengur vonandi betur næst, og núna ætla ég að hætta þessu væli...

Till next...adios

Saturday, November 10, 2007

Letistuð

Ætla bara að lýsa yfir leti-stuði! Nenni ekki neinu og er meira að segja ennþá í náttfötunum.
Strákarnir hamast, slást og hamast meira og ég bara sit í eldhúsinu og væflast um veraldarheiminn og fylgist með fólki úr fjarðlægð!
Það er svo bekkjarpartý í kvöld og svo stefnan að fara í Sjallann á Pál Óskar á eftir, en ég verð að viðurkenna það að ég nenni ómögulega að fara á hvorugan staðinn. Ekki það að ég haldi ekki að það verði gaman, heldur bara það að ég er löt og vill bara vera heima í ólátunum hér ;)
Kannski eru þetta bara eftirköst eftri kabarett annirnar, sem tóku náttúrulega 2 vikur og ég var mjög lítið heima við þann tíma.
En kanski verð ég svo bara voða hress og fersk í kvöld, dríf mig í partý og skoppa svo um með "hinum krökkunum" undir dillandi tónlist Palla litla ;).....þótt að núna sé ég í besta falli til í að fara í sveitina og hjálpa Sverrir bróðir að svíða svið ;)
Jæja, það eru farin að hrúgast hér inn annara manna börn, svo ég kann ekki við annað en að klæða mig, kanski ég setji líka í þvottavél og geri eitt verkefni eða svo.

Ætlaði að setja inn eina mynd í tilefni snjókomu og hugmyndaleysis míns, en upp kom vandamálið: bX-6tj0s5 svo það verður að bíða betri tíma.

Till next...adios

Tuesday, November 06, 2007

Eftir 2 ár...

Ætla ég að setja þetta inn á bloggið mitt (er ekki alveg orðin nógu gömul ennþá;)
Fékk þetta sent og finst þetta sniðugt, njótið vel :)
Hugleiðing frá Andy Rooney:

Eftir því sem ég eldist, met ég mest konur yfir fertugt og her eru nokkrar ástæður fyrir því:

Kona yfir fertugt mun ekki vekja þig um miðja nótt og spyrja þig "hvað ertu að hugsa?"
Henni gæti ekki verið meira sama.

Ef kona yfir fertugt vill ekki horfa á leikinn með þér vælir hún ekki yfir því.
Hún gerir eitthvað sem hana langar til og yfirleitt er það áhugaverðara en leikurinn.

Konur yfir 40 eru virðulegar í framkomu. Þær fara sjaldan í öskurkeppni við þig í óperunni eða á fínum veitingastað.
Nema þú eigir
það skilið, þá hika þær ekki við að skjóta þig ef þær halda að þær komist upp með það.

Eldri konur eru örlátar á hrós, oft óverðskuldað. Þær vita hvað það er að vera ekki metin að verðleikum.

Konur verða skyggnar með aldrinum. Þú þarft aldrei að viðurkenna misbresti þína fyrir þeim.

Þegar þú getur litið framhjá einni eða tveimur hrukkum er kona yfir 40 langtum kynþokkafyllri en yngri kynsystur hennar.

Eldri konur eru hreinar og beinar. Þær segja þér eins og skot að þú sért asni ef þú hagar þér sem slíkur.
Þú þarft aldrei að fara í grafgötur með hvar þú hefur þær.

Já, við dásömum konur yfir fertugt af mörgum ástæðum.

Því miður er það ekki gagnkvæmt. Því fyrir hverja glæsilega, smarta og vel greidda konu yfir fertugt, er sköllóttur,
vambmikill forngripur í gulum buxum gerandi sig að fífli fyrir 22gja ára gengilbeinu. Konur, ég biðst afsökunar.

Til allra þeirra karla sem segja; "Afhverju að kaupa kúna þegar þú getur fengið mjólkina frítt?" þá eru hér nýjar upplýsingar:

Nú á tímum eru 80% kvenna á móti giftingum.

Hvers vegna?

Vegna þess að konur gera sér grein fyrir að það borgar sig ekki að kaupa heilt svín þótt þær langi í smá pylsu!

Andy Rooney


Till next...adios

Eftir á að hyggja...

...var þetta bara með eindæmum góður kabarett. Og til að rökstyðja mál mitt enn frekar, þá hugsa ég að aldrei áður hafi þurft að sleppa svona mörgum góðum atriðum, eingöngu vegna tímaskorts. Samt var kabarettinn 80 min. sem er alveg í lengra lagi.
En þetta tókst bara ljómandi vel, bæði kvöldin, ég sló í gegn og var best eins og alltaf ;) (hehe...sko, það er enginn annar að hrósa mér svo það er best að ég geri það sjálf) hógværðin uppmáluð!
Eftir kabarettinn á laugardagskvöldinu var tekið hraustlega á því og drukkið, daðrað og dansað langt fram á nótt (ekkert endilega í þessari röð samt). Voða gaman, enda var maður að skemmta sér með svo skemmtilegu fólki að þetta gat ekki orðið annað en skemmtilegt :)
Svo átti Árni næst-litli bróðir afmæli í gær :) til hamingju með það enn og aftur! Orðinn 35 ára kappinn, hann er alltaf við það að ná mér á þessum árstíma, en ég næ að jafna bilið aftur 10 dögum seinna ;)
Jæja, ætla að fara að koma mér og strákunum í rúmið, þeir búinir að snúa sólarhringnum við, eftir vetrarfrí síðustu tvo daga, og ég er þreytt eftir úrbeiningu í sveitinni í dag!
Býð góða nóða nótt og lifið heil :)

Till next...adios

Friday, November 02, 2007

Smáauglýsingar

Það er kabarett í kvöld og annaðkvöld.
Í kvöld byrjar kabarettinn kl.20:30 og kaffi og með´í
Annaðkvöld byrjar kabarettinn kl.21:30 og ball á eftir og allir geta haft eitthvað með sér til drykkjar ;)
Annars heitir kabarettinn því "skemmtilega" nafni "Brátt sáðlát"...en gengur samt undir heitinu "í beinni" sem fær mann ekki til að roðna jafn mikið þegar maður segir fólki á förnum vegi hvað sé um að vera í Freyvangi.
Allir að mæta í Freyvang :)
Svo er ég sjálf með fiskabúr til sölu, 56 L og það fylgja allir fylgihlutir, sandur, dæla, hitari, og skrauterí, sem sé allt nema fiskar og vatn!
Fiskarnir mínir fengu nefnilega fiskaflensu og drápust og ég bara nenni ekki að fara í meira fiskeldi í bili. En búrið er flott og eigulegt :) fæst á algeru afsláttarverði eða kr. 10.000

Ætla að fara að lesa núna í Iðnbyltingu og kíkja á línurnar mínar fyrir kabarettinn ;)
Lifið heil.

Till next...adios