Friday, April 26, 2013

Hvað er til ráða?Stundum er erfitt að vera með haus sem er haldinn síhugsunaráráttu.
 Í veikri von um að losa mig við eða létta smá á hugsanaþunganum, þá ætla ég að reyna að skrifa mig örlítið frá þessu.

Núna sækja að mér hugsanir um; hvað það gæti hugsanlega verið sem fær börn til að vera leiðinleg við hvort annað? Þá meina ég bæði í orði,  með gjörðum og skrifuðum athugasemdum á netinu (facebook, youtube).

Ég fór á afar fróðlega Maríta fræðslu um daginn, en þar er verið að fá börn í 5.-6. bekk til að hugsa áður en þau byrja á neyslu áfengis eða annarra vímuefna og helst auðvitað sleppa því. Fyrst var talað við börnin með foreldrum/forráðamönnum, sýnd mynd og svo rætt aðeins um almennt heilbrigði. Ein glæran sýndi magn sykurs í drykkjum, og einnig var komið inn á sætuefni. Fyrirlesarinn sagði þá að venjulegur sykur væri þó skömminni skárri en gerifsæta. Þá heyrðist mótmæli frá einu foreldri (þarna voru börnin enn með) með þeim athugasemdum hvort það væri eitthvað sannað. Eftir smá þref milli fyrirlesara og foreldris, þá tók fyrirlesari af skarið og sagði að fyrir því væru staðreyndir og lýðheilsustöð varaði við neyslu gerfisætu í miklu magni.


Stuttu seinna fóru börnin í aðra stofu, þar sem rætt var við þau þar, en foreldrar/forráðamenn sátu áfram og hlýddu á áframhaldandi hættur vímuefna og allskonar ofbeldis í tölvuleikjum og á netinu. Þar fór aftur af stað umræða um sykur og gerfisætu (hver vill líka missa barnið sitt í massífa sykur- eða gerfisætuneyslu) sem endaði með því að áðurnefnda foreldri og fyrirlesari sættust á að vera ósammála um það mál.
 Svo voru sýndar myndir af hálfberu kvenfólki í auglýsingum og myndböndum. Ein myndin var t.d af konu í bikini, standandi í miðri á að renna fyrir laxi. Viðbrögðin voru nánast blístur og athugasemdir frá karlmönnum á þessa leið: „nú sér maður loksins hvað er spennandi við laxveiðar“.

Þótt að þetta hér á undan komi kannski ekki umhugsunarefni mínu (sem ég minntist á í upphafi) beinlínsi við, þá er það jú kannski lykillinn. Hvernig fyrirmyndir eru við? Og þá á ég ekki bara við hvaða fyrirmyndir erum við eigin börnum heldur almennt. En þó SÉRSTAKLEGA hvernig högum við okkur heimavið og þegar við erum með börnin okkar á almennum svæðum?

Þarna var t.d þetta foreldri/forráðamaður sem mótmælti fyrirlesaranum, að draga orð hans í efa, og þá ekki bara orð hans um gerfisætu, heldur allt sem hann var búinn að segja áður. Hafði hann eitthvað vit á vímuefnaleyslu og annari hættu ef hann hafði ekki einu sinni vit á sykri? Sem 11 ára barn er auðvelt að draga svoleiðis ályktanir.
Þeir karlmenn sem blístra og eru með vafasamar athugasemdir um klæðaleysi kvenna, á fyrirlestri sem er innan veggja skóla barnsins þeirra, hvernig eru þeir þegar vinirnir koma saman að horfa á fótbolta? Hvað segja þeir í auglýsingatímanum þegar svakaleg skvísa kemur labbandi uppúr sundlaug í bikiní (sem varla sést) haldandi á coca cola eða pepsi flösku? Hvar eru eyru barnanna okkar? 


Ég lendi oft í því að ég er að tala við einhvern fullorðin, og nálæg barnaeyru eru kyrfilega falin undir heyrnartólum og að manni finnst á hæsta styrk, eða eru jafnvel staðsett í næsta herbergi en samt fær maður allt í einu spurningu út í það sem um var rætt. Börn eru nefnilega þeim eiginleika gædd að hafa öll skynfæri opin og meðtaka allt sem gerist í kringum þau, jafnvel þótt maður treysti því að þau séu hálf meðvitundarlaus af tölvuleikjanotkunn.


Eitt annað stakk mig líka í þessari „fullorðins“ umræðu eftir fyrirlesturinn, en það var að sumum foreldrum fannst það mætti leggja MEIRI áherslu á að kenna börnunum að drekka heldur en að banna þeim það alveg. Því þau myndu hvort sem er drekka einhvern daginn. 

Mér finnst þetta álíka gáfulegt og að kenna barninu sínu að dópa, því það prófar það hvort sem er einhverntíman. Ég held að það detti fáum í hug að segja við barnið sitt: „mundu svo bara að reykja eina hasspípu á dag, eða taka bara eina LSD töflu í hverju partíi“. Við þurfum nefnilega að gera okkur grein fyrir því að þegar börn (og þá meina ég undir 20 ára aldri) eru byrjuð að nota áfengi, þá aukast líkurnar á að þau prófi eitthvað annað. 
Það er því miður svo að allt sem kalla má heilbrigða skynsemi hverfur eins og dögg fyrir sólu þegar áfengisneysla er annars vegar. Þess vegna myndi ég telja vænlegra að hvetja börn til að láta áfengi eiga sig, fremur en að kenna þeim að nota það „rétt“. Og með því að kenna þeim að nota áfengi, þá erum við að segja þeim að þetta sé eðlilegur hluti af lífinu, og eru þá þau sem ekki drekka ekki eðlileg?


Mig langar að hvetja alla foreldra/forráðamenn til að ræða við börnin sín um samskipti, kurteisi og tillitssemi. Koma fram við hvert annað eins og þau vilja láta koma fram við sig. Segja ekkert við aðra sem þau ekki vilja láta segja við sig. Þetta þarf ekkert að vera svo flókið. Hvernig komment eru líka börn að lesa á netmiðlum sem að fólk sem telja á fullorðið lætur frá sér?

Svona í lokin ætla ég að láta fljóta með þá athugasemd sem ég fékk á myndband á youtbue, en þar er sonur minn sem þá var fjögurra ára að syngja lag. Og þetta fannst einum 11 ára viðeigandi að setja inn sem komment: „hann syngur ógeðslega kann ekkert að sínga og kann ekki á fokkíng gítar littli homma hóru-úngi þinn :D“
Þetta var nú svona aðal vakinn að þessum pistli mínum sem ég læt nú lokið í bili.

Till next...adios

Monday, February 11, 2013

Flýttu þér!!!
Snemma sumars á síðasta ári (2012) var ég stödd í stórmarkaði í Narbonne í Frakklandi, það var upplifun á margan hátt. Þarna var til dæmis hægt að kaupa allt sem manni hefði til hugar geta komið, nema kannski flugvél eða togara, en það vakti samt ekki mesta undrun mína.

Eftir að hafa rölt um og skoðað og týnt nokkra hluti ofaní körfu, þá var haldið að langri kassaröð, fjöldi kassa kom mér heldur ekkert á óvart, miðað við stærð búðarinnar. En það sem kom mér á óvart var að þegar við biðum við kassann eftir að röðin kæmi að okkur, hvað allt var rólegt. Afgreiðslukonan renndi vörum viðskiptavinarinns sem var á undan okkur rólega yfir skannan, sagði svo rólega frá því hvað vörurnar kostuðu og rabbaði svo í rólegheitunum við viðskiptavininn á meðan hann borgaði og setti sínar vörur í pokann.

Ég varð afar hissa, þegar afgreiðslukonan hélt bara áfram að rabba við viðskiptavininn á meðan hann gekk frá vörunum, „ætlar hún ekkert að fara að afgreiða okkur? Sér hún okkur ekki?“ En vegna þess að ég er vel upp alin og var uppálögð kurteisi og var þarna gestur í ókunnugu landi, þá sagði ég ekkert heldur horfði betur í kringum mig. Jú, þetta var víst svona á hinum kössunum líka, það var ekki byrjað að afgreiða næsta viðskiptavin fyrr en sá sem á undan var, var búinn að ganga frá sínum vörum og farinn!

Og ég hugsaði: „vá hvað þetta er sniðugt“ ekkert stress og ekkert vesen, fólk bíður pollrólegt og þarf þó ekkert að bíða lengi. En svo hugsaði ég um leið; „þetta gætu Íslendingar aldrei tileinkað sér“.  Og af hverju er það? Af hverju eru Íslendingar alltaf að flýta sér svona mikið? Er það vegna þess að hér er alltaf svo kalt, að ef við stoppum í örskamma stund þá frjósum við í hel? Nei, ég held ekki, það er í það minnsta alltaf funheitt inn í blessuðum verslununum okkar, en samt þolum við ekki að bíða eftir afgreiðslu í eitt augnablik.

Ég hef staðið í röð við kassa og hlustað á fólk fussa og sveija og jafnvel verið afar dónalegt við saklaust afgreiðslufólk, bara vegna þess að það þarf að standa í örstutta stund og bíða eftir afgreiðslu. Ef það eru komnir tveir í röð (sem er samt alveg á mörkunum að geta kallast röð) þá er farið að góla „Halló! Er enginn að afgreiða hérna!“

Svo kunna íslendingar heldur ekki að vera í röð, eða ef það er röð þá er varla hægt að kalla það röð, það myndast frekar svona óreglulegur hópur þar sem allir hugsa um það eitt að verða næstir í röðinni! Svo þegar afgreiðslumaðurinn kallar „hver er næstur“ þá er oftar en ekki frumskógarfrekjulögmálið sem gildir, heldur en að sá næsti í röðinni sé næstur í röðinni.
En já...þá spyr maður sig; af hverju eru íslendingar alltaf að flýta sér? Þurfum við alltaf að flýta okkur svona mikið?

Íslendingar eru að flýta sér svo mikið að þeir aka hratt í umferðinni, þeir aka yfir á rauðu ljósi og þeir blóta fábjánanum í sand og ösku sem er ekki nógu fljótur og hafa þar að leiðandi ALLS ekki tíma til að gefa stefnuljós, því þeim liggur of mikið á til þess. Svona fyrir utan það að auðvitað kemur öðru fólki ekkert við hvert það er að fara!

En að sjálfsögðu koma stundum upp aðstæður að maður þarf að flýta sér, til dæmis koma fóki til hjálpar sem hefur slasað sig, að bjarga heyi í hlöðu áður en það rignir og svoleiðis óvæntir atburðir, þegar þarf að bjarga mannslífum eða verðmætum. En það eru algerar undantekningar.

Þegar ég er í stórmarkaði (matvöruverslun) þá hef ég það yfirleitt á tilfinningunni að ég sé fyrir. Ég er fyrir fólki sem er að versla og fyrir þeim sem setja nýjar vörur upp í hillur, en mest er ég þó fyrir þegar kemur að kassanum og ég hamast við að setja í poka án þess að taka mikið af þeim vörum sem næsti viðskiptavinur á, því afgreiðslufólkið er að flýta sér svo mikið að afgreiða næsta til þess að það myndist ekki tveggja manna röð. Ég held að það sé að stórum hluta út af þessu sem mér finnst leiðinlegt að fara í búð. Maður þarf alltaf að haska sér svo agalega mikið.

En þar sem ég hef verið alveg fullkominn þátttakandi í þessari „flýtimeðferð“ stórmarkaðanna, þá get ég ekki verið með neinn derring. En aftur á móti ætla ég að reyna að flýta mér hægar. Draga djúpt andann og taka því rólega. Hvort sem ég er í umferðinni á Miklubrautinni eða í einhverjum stórmarkaðinum...hvað liggur okkur svo sem á?

Till next...adios

Saturday, December 29, 2012

Að vera eða vera ekki...
Núna er árið 2012 að renna sitt skeið á enda og þá er tvennt árlegur viðburður; að fólk prufi flugeldana fyrir áramótin (væri verra ef þeir virkuðu ekki á ögurstundu) og hinir ýmsu miðlar hamast við að kjósa „mann ársins“ (og sumir taka fram að með orðinu „maður“ sé að sjálfsögðu átt við konur líka – skemmtilegt).

Hér ætla ég ekki að ræða flugeldaskotæði landans, heldur rétt velta upp hugsunum um þá þörf okkar að finna einhverja hetju á meðal vor, að hylla einhvern sem borið hefur af eða hvað?
Við erum að sjálfsögðu ekki sammála um hver ber af, hver er hetja eða sönn hetja og loga nú netmiðlar af misjafnlega gáfulegri umræðu um þessi hetjumál. Persónulega finnst mér það margar hetjur á landinu að alger óþarfi sé að gera upp á milli og velja einhverja eina „aðal hetju“. Hver er til dæmis tilgangurinn með því? Erum við að velja hetju eða mann ársins til að hvetja hina til að verða meiri „menn ársins“ á næsta ári? Eða vantar okkur einhvern til að hylla?

Við þurfum ekki að líta langt til að finna sannar hetjur:  það eru börn sem berjast fyrir lífi sínu á hverjum degi, vegna veikinda eða annarra erfiðleika, það eru bæði konur og karlar sem basla við það á hverjum degi að hugsa um börnin sín, ein og óstudd og fá sjaldnast annað en gagnrýni annarra í staðin. Það er fólk sem býr við kröpp kjör, en lætur ekki bugast. Það eru unglingar sem falla á prófum í framhaldsskólum en halda samt áfram og reyna aftur og aftur. Það er fullt af fólki út um allt land sem þarf að hafa meira fyrir hlutunum en aðrir, en halda ótrauð áfram, án þess að kvarta og berjast jafnvel fyrir auknum réttindum annarra í leiðinni. Ég gæti haldið áfram með mun lengri lista af fólki sem mér finnst uppfylla þau skilyrði að teljast menn ársins.

Landið er fullt af góðu fólki sem gefur af sér án þess að ætlast til nokkurs í staðin, fólk sem hjálpar og huggar með hjartað fullt af kærleika.

Skólar landsins eru fullir af börnum og ungmennum sem þurfa að hafa misjafnlega mikið fyrir námi sínu. Við hömpum þeim sem vel gengur, en hinir sem strita við og ströggla til að ná því marki að vera í meðaltalinu, þeir eru bara meðaljón sem aldrei vinna nein  verðlaun, jafnvel þótt þeir hafi lagt mun meira á sig en þeir sem verðlaun hljóta.

Er ekki allt í lagi að hugsa þetta allt aðeins upp á nýtt? Eða í það minnsta verið sammála um að vera ósammála og hætta að rífast yfir hver er mestur og bestur?

Kannski er þetta allt svo bara öfund í mér, þar sem ég er of mikil meðal-Jóna til að vinna nokkurntíman til hetjuverðlauna, en ég hef líka ofboðslega lítið fyrir því að vera meðal-Jóna, á meðan það er fullt af fólki sem hefur mikið fyrir því, og allt það fólk eru menn ársins að mínu mati, fólk sem gefst ekki upp og heldur áfram no matter what!

Megi nýja árið færa ykkur öllum gleði og kærleika, ást og frið!
Till next...adios

Saturday, November 10, 2012

Samkennd

Á snara.is er samkennd útskýrð sem: samúð, meðaumkun eða félagstilfinning. Hér ætla ég að velta vöngum yfir samkennd út frá því að hún sé félagstilfinning sem er til þess ætluð að stuðla að betra samfélagi.

   Hinn andlegi vinur minn Aristóteles, skrifaði um samkennd og dygð. Hann sagði að hana þyrfti að kenna börnum, því að uppeldi skifti öllu máli þegar kemur að samkennd. Dygð er meðalhóf milli tveggja öfga, til dæmis er hugrekki meðalhóf milli fífldirfsku og hugleysis. Aristóteles segir: „Þannig er þessu háttað með dygðir, því með athöfnum okkar í samskiptum við annað fólk verðum við ýmist réttlát eða ranglát. Við verðum ýmist hugrökk eða huglaus af athöfnum okkar við hættulegar aðstæður með því að venja okkur á ótta eða djörfung. Sama máli gegnir um langarnir og reiði, því manneskja verður ýmist hófsöm og geðprúð eða hóflaus og geðvond, allt eftir athöfnum og aðstæðum. Hneigðir verða til, í stuttu máli, fyrir samsvarandi virkni. Þetta er ástæða þess að virknin í hverju tilviki verður að vera af ákveðinni gerð, því hneigðirnar laga sig að virkninni. Af þeim sökum skiptir ekki litlu máli hverju við venjumst frá blautu barnsbeini, heldur miklu og reyndar öllu.“

 Aristóteles sagði einnig að til þess að geta fundið meðalhófið þá þyrftum við bæði hyggindi og visku. „Það telst vera til marks um hygginn mann að geta ráðið ráðum sínum vel um eigin gæði og hagsmuni, en þó ekki í eistöku máli, eins og hvað leiði til heilbrigðis eða líkamsstyrks, heldur hvað leiði til almenns velfarnaðar.“

Þarna erum við þá komin að lykilatriðinu; það sem leiðir til almenns velfarnaðar. Til þess að geta unnið að velferð samfélagsins, þá þurfum við samkennd og við þurfum að kenna samkennd og við þurfum að rækta hana með okkur.
 Ég ætla hér að halda því fram, að hnignun samfélagsins, hvort sem við tölum um bankahrun, hvítflibbaglæpi, einelti eða aðra neikvæða þætti, eigi rætur sínar að rekja til skorts á samkennd. Það er skortur á samkennd og það er skortur á dygðum, það er skortur á meðalhófi og það er skortur á hyggindum og visku. Við höfum undanfarna áratugi unnið að því að ala á einstaklingsframtaki, og hvernig er það gert? Jú, með því að hampa þeim sem skara framúr, og skiptir þá engu hvaða leiðir eru farnar til þess. Í dag má enginn verða undir, það er ekki gott að vera meðal-Jóninn, það er ekki gott að sýna tilfinngar og það er algert tabú að sýna tilfinningar á almannafæri. Við eigum að vera köld og klár, kunna utanbókar allskyns fræði og skiptir þá skilningurinn minna máli. Við eigum að svara fyrir okkur og aldrei að víkja frá málstaðnum, hver sem hann kann að vera. Að viðurkenna mistök, eru talin mestu mistökin. Að eiga nógu margar táknmyndir auðs er það sem öllu skiptir. Hvað skipta þá nokkrar verðlausar sáli máli?

 Fyrir langa langa löngu þá gerði mannskepnan svokallaðan samfélagssáttmála, en hann byggðist á því að fólk setti sér reglur sem voru þeim í hag sem hópur. Þetta voru einfaldar reglur eins og bann við því að drepa, stela, svíkja og þess háttar. Þá þurfti fólk ekki lengur að óttast gjörðir annarra.
Alltaf eru þó einhverjir sem skera sig úr, gera uppreisn gagnvart „kerfinu“, mótmæla „forræðishyggju“ og vilja haga lífi sínu eins og þeim sýnist. Eru þetta þá einstaklingar sem kjósa að búa utan samfélaga? Nei, yfirleitt eru þetta aðilar sem kjósa að búa í samfélögum og njóta þeirra réttinda sem því fylgir en um leið maka sinn eigin krók. Það má segja að þetta sé fólk sem vill bæði halda og sleppa.
 En af hverju er þetta svona? Jú ég hygg að þetta sé vegna þess að þessum einstaklingum hefur ekki verið kennd samkennd. Þeim hefur ekki verið kennt að bera virðingu fyrir öðrum og að koma fram við aðra eins og þeir vilja láta koma fram við sig.

 Að kenna þetta er alls ekki á færi eins eða tveggja einstaklinga. Það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn segir gamalt málætki og það er alveg hárrétt.
Við erum öll fyrirmyndir í samfélagi okkar, annarra manna börn sjá okkur úti á götu, sjá okkur í umferðinni, sjá okkur úti í búð, sjá okkur tala við annað fólk og hverngi við komum fram við aðra. Í samfélögum skipta allir máli og ég hygg að það sé löngu tímabært að rifja það upp og vinna að því hörðum höndum að stuðla að bættri samkennd, sterkari siðferðisvitund og betra samfélagi fyrir alla.

Till next...adios

Wednesday, June 20, 2012

Í pokann með hrokann ;)

Hvað ungur nemur, gamall temur. Í þessu felst mikil viska – hvað getum við lært ef enginn er til að kenna okkur og leiðbeina? Nú tala ég eingöngu frá eigin reynslu og áliti, en ég segi að maður sé óttarlega vitlaus fyrstu 30 ár ævinnar eða svo, jafnvel dálítið lengur. Kannski er ég með endæmum seinþroska, en einhverra hluta vegna hafa skoðanir mínar breyst gríðarlega bara síðustu tíu árin. Svo ég myndi segja að 42 ára ég væri afar ósammála 32 ára mér.
Kannski kemur þetta til af þroska, en þroskinn kemur sennilega af reynslu og reynslan er það sem ungdóminn skortir (og þegar ég tala um ungdóm, þá meina ég flesta undir 35 ára aldri).

 Öll göngum við í gegnum ólíka hluti í lífinu, sem þroska okkur mis hratt og mis mikið, en við eigum það sameignilegt að við þurfum tiltal og handleiðslu til þess að okkur gangi betur og fáum tækifæri til að reyna nú að feta hin mjóa veg dygðanna. Sumir taka reyndar aldrei tiltali og hlusta ekki á nein rök, æða bara áfram í fullu trausti á sjálfan sig með óbilandi trú á eigin ódauðleika og réttsýni. Hjá sumum er mottóið: það sem mér finnst rétt er rétt! Og virka þá öll rök á viðkomandi jafn vel eins og að skvetta vatni á gæs; áhrifin eru engin.
 En fyrr en seinna þá reka þessir einstaklingar sig á, og því meiri sem trúin hefur verið á eigið ágæti því harkalegri verður áreksturinn. Eflaust gæti ég týnt til eitt eða tvö dæmi um þetta, en ég læt það ógert. En eitt er víst, að margir af þeim óhörnuðu unglingum sem eru önnum kafnir á þroskabrautinni (35 ára og yngri), freistast til að líta upp til þessara sjálfsöruggu, kokhraustu aðila með oft miður góðum afleiðingum. Þess vegna þurfum við fleiri hógværa, hjartgóða og réttsýna einstaklinga sem fyrirmyndir fyrir unga fólkið okkar. Við þurfum að læra að tala saman, ræða í bróðerni þau mál sem upp kunna að koma og taka sameiginlega ákvörðun. Við þurfum að kenna jákvæðni en ekki yfirgang, við þurfum að leiðbeina en ekki skammast, við þurfum að kenna samkennd en ekki hroka.

Það má heldur ekki misskilja mig, margt ungt fólk undir 35 ára er bæði miklum gáfum gætt og dygðum prýtt, en það vantar reynsluna og skilninginn sem því fylgir. Þegar við erum ung, þá finnst okkur við geta sigrað heiminn, þegar við þroskumst þá sjáum við að það er hin mesta vitleysa að sigra heiminn, við eigum að lifa í sátt við hann. Ég treysti ungu fólki mjög vel og þekki margt ungt fólk sem eru allir vegir færir og geta ekki annað en gert heiminn betri sem við búum í.

En þrátt fyrir það allt, þá megum við aldrei hundsa visku hinna eldri og reynslumeiri og ef eitthvað á að geta sætt sundurlyndi þá er það speki þeirra sem reynsluna hafa. Mannskepnan fór ekki að þróast að neinu viti fyrr en það tókst að færa skilaboð í orð og letur, þannig var hægt að koma vitneskju áfram til komandi kynslóða og ekki þurfti lengur að finna upp hjólið aftur og aftur. Notum þessa visku, lesum okkur til, lesum speki þeirra hugsuða sem uppi voru löngu fyrir árið 0. Lesum Sókrates, Plató, Aristóteles og Bókina um veginn eftir Lao Tse. Lesum, tölum saman í sátt, hugsum okkur hvernig við viljum hafa framtíðina og lifum í núinu.

Till next...adios

Tuesday, May 22, 2012

Íslendingar - einnota þjóð?

Ég fór á sushi veitingastað fyrir nokkru með strákunum mínum, sem er svo sem ekki í frásögur færandi, nema að það fékk mig til að hugsa enn meira um hversu einnota-vædd við íslendingar erum að verða.

 Ég vissi ekki betur en að þetta væri venjulegur sushi staður, og þarna inni voru mörg borð og stólar fyrir talsverðan fjölda fólks. En strax og inn var komið, var allt sushi-ið í plastbökkum, svona eins og maður getur keypt í sumum matvöruverslunum. Ég hélt að þetta væri kannski líka fyrir heimtöku og spurði hvort ekki væri hægt að fá sushi-ið á disk, en nei, þetta var það sem til var. Jæja, við völdum okkur þá bara stóran bakka saman og ég ákvað að kaupa þá einnig heitan rétt og súpu, sem afgreiðslukonan sagðist myndi koma með á borðið. Ekki leið löng stund þar til maturinn kom, kjúklingarétturinn í hólfaskiptum plastbakka og súpan í frauðplastglösum með loki! Einnig voru öll áhöldin úr plasti, nema prjónarnir en þeir voru svona hefðbundnir einnota úr tré.
 Og ég spurði mig: Eru margir veitingastaðir hættir að nenna að vaska upp og nota bara einnota áhöld? Hversu mikið af því einnota dóti sem borðað er úr á staðnum ætli fari í endurvinnslu? Er þetta það sem við viljum? Erum við alveg hætt að gefa okkur tíma til að setjast niður og njóta matarins? Viljum við bara taka með okkur matinn og troða honum í okkur á hlaupum?

Ég skil vel að oft er afar þægilegt og jafnvel eina leiðin til að fá „alvöru“ mat að taka hann með í plastbökkum. Ég hef sjálf oft fengið mér „take a way“ kaffi og gripið sushi-bakka í matvöruverslun til að borða heima. En erum við ekki aðeins að missa okkur í einnota-notkun?

 Í Háskóla Íslands er Háma, ef maður svo mikið sem röltir framhjá byggingunni sem það hýsir, þá mætir maður talsverðum fjölda fólks með plastbakka með mat. Ég held að það sé svipuð saga í flestum stærri mötuneytum landsins. Ég hef grun um að oft sé þetta af þægindarástæðu en ekki vegna þess að annað var ekki hægt. Ég er ekkert að tala um að hætta alfarið notkun einnotaumbúða, en ef fólk myndi aðeins reyna að stilla henni í hóf, þá væri hálfur sigur unninn. Já og ég tala nú ekki um að setja svo einnota umbúðirnar í endurvinnslu eftir notkun. Þetta er nefnilega að lang stærstum hluta aðeins hugsunarleysi, en ég hygg að það sé betra að huga að þessu strax, nema okkur langi mikið að flytja út á einhverja plasteyjuna sem fljóta nú um flest heimsins höf.

Till next...adios

Monday, March 05, 2012

Hvaða hvaða...

Íslendingar eru ótrúleg þjóð. Ekki það að ég hafi mikið vit á öðrum þjóðum, enda heimóttaleg með afbrigðum. En ég held þó að ég geti með sæmilegu móti fullyrt að við erum heimsmeistarar í þrasi og þrætum. Það er hreinlega eins og afar mörgum finnist þeir vera að játa sig sigraða að einhverju leyti ef þeir þurfa einhverntíman að skipta um skoðun.

Hvað ætli valdi þessu?

Ég hitti gamlan kennara (ekki að hann sé neitt gamall...bara langt síðan hann kenndi mér, rúm 25 ár eða svo) nú á haustdögum þegar fyrir lá að ég væri að skella mér suður yfir heiðar að hefja meistaranám í siðfræði. Ég rakst á hann fyrir hreina tilviljun og sagði honum frá þessari fyrirætlan minni í spurðum fréttum. Hann brosti að þessari vitleysu í mér og sagði að ekki væri neitt vit í að læra siðfræði á Íslandi, því siðleysi væri svo rótgróið í landanum að það tæki nokkra mannsaldra að breyta því.
(Ég færi þetta samtal kannski örlítið í stílinn, en ekkert rosa mikið).

Núna síðustu daga, þá hefur mig nokkrum sinnum verið hugsað til þessara orða, míns djúphugsa kennara. Ekki er það eitt sem því veldur, heldur næstum öll almenn umræða sem fer af stað í þjóðfélaginu. Það er eins og allir geti leyft sér að hnýta í alla, hreyta skít í aðra og tala niður til allra. Sumir reyna að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra. Aðrir drulla yfir skoðanir annarra sem svo drulla yfir skoðanir hinna sem svo drulla yfir skoðanir þeirra sem drulluðu yfir skoðanir þeirra.
Sem sagt, í stuttu máli; við erum óendanlega góð í því að vera ómálefnaleg.

Það virðist heldur ekki vera hægt að vekja máls á neinu, nema grípa til róttækra aðferða, sem svo vekja upp enn róttækari aðferðir, gegn róttæku aðferðunum, þannig að róttæklingarnir verða alveg rasandi.
Svo veit enginn hver kastaði fyrsta grjóthnullungnum úr glerhúsinu og ekkert að sjá nema glerbrot um allt og sundurskornar sálir.

Stundum langar mig til að öskra út um gluggann: „GETUM VIÐ EKKI HÆTT AÐ RÍFAST OG FARIÐ AÐ TALA SAMAN?“ En ég er bara orðin svo kvefuð af öllum þessum skít í þjóðfélaginu að ég kem ekki upp orði...enda væri það víst lítið skárra að öskra á aðra til að ná fram málefnalegri umræðu.

Kannski er bara réttast að byrja að hvísla, reyna svo að hækka róminn smátt og smátt og athuga hvort að það sé einhver að hlusta.
Ef enginn hlustar, þá er það er versta falli orð sem fjúka burt í tómið, ég hygg að það sé betra en að sitja eftir með ráma rödd og rifin raddbönd.

Till next...adios