Wednesday, December 31, 2008

Áramót 2008-2009

Jebb...árið er liðið í aldanna skaut, sagði einhver hér áður fyrr ;) nú eru bara 8 klst. eftir af árinu 2008 þegar þetta er ritað. Ég og Mikael fórum áðan og keyptum tertu og bombu ;) ákváðum að styrkja björgunarsveitina og kveðja þetta ár með stæl.
Kristján er pínu eirðarlaus, enda er hann vanur að vera í Reykjavík um áramót, en eitthvað lítið hefur heyrst þaðan um þessar mundir...svo meiningin er að aka með stráka, salat og skotflaugar í sveitina á eftir og hrella með látum alla þá sem þar verða ;)
Árni bró og co eru mætt á svæðið og verða einnig í sveitinni...:) fun fun fun :)

Meiningin var að líta um öxl og horfa yfir farinn veg ári 2008, en auðvitað þegar mér dettur það í hug þá dettur mér ekkert í hug...en í stuttu máli þá:
Gekk vorönnin í HA ljómandi vel, tók 17 einingar og fékk ágætis einkunnir að mig minnir, frá 7-9,5
Um páskana þá komu Árni bró og co norður og skírðu yngsta fjölskyldumeðliminn...fékk litli prinsinn nafnið Friðrik sem gat ekki passað betur :)
Eitthvað fór ég nú á skíði, bæði gönguskíði og svigskíði og það var fjör :)
Í mai þá var ég í sveitinni að hjálpa Sverrir bró við sauðburðinn, sem var voða gaman og kærkomin tilbreyting frá skólabókum.
Í júní-júlí var ég að vinna á leikskólanum Iðavelli, sem matráður og það var fínt, var samt hálf lasin í 3 vikur sem var ekki jafn fínt...en lagaðist eftir sterapúst og verkjatöflur ;) Ég hætti í leikskólanum upp úr miðjum júlí og var leyst út með blómvendi ;) aldeilis gott fólk sem vinnur þarna.
Daginn sem ég fór í sumarfrí, þá flaug Kristján til Rvk. en ég og Mikael ókum austur á Egilsstaði. Vorum þar í góðu yfirlæti hjá Árna og Siggu Láru og fjölsk. og Nonni og Kathleen komu líka og þetta var voða skemmtileg helgi. Fórum á Borgarfjörð eystri, þar sem ég var að koma í fyrsta skipti, snilldarstaður...og fórum líka á Skriðuklaustur sem klikkar ekki í fegðurð, góðu veðri og frábærum mat :)
Svo fórum við norður aftur í heyannir ;)og Kristján kom aftur úr Rvk.eftir viku dvöl þar...
Sumarið leið með heyskap, sundferðum og leti...keypti mér svo nýjan (notaðan) bíl í ágúst, nánar tiltekið 12.ágúst og brunaði á honum til Reykjavíkur þann 13.ágúst. Bíllinn VW Passat er rosa krúttlegur og er árgerð 2000
Jamm...ég fór sum sé með strákana í borgina, með Kristján til doksa og þá báða í Kringlu-Smáralindar kaupæði...eyddum peningum hægri vinstri í bæði föt og skemmtun ;)
Fljótlega eftir að norður var komið, þá byrjaði skóli hjá mér og strákunum.
Svo var þetta vanalega, göngur, réttir, sláturtíð og kabarett í Freyvangi.
Ég tók 18 einingar í HA núna á haustönn og gekk það ljómandi vel, fékk eina 7,5 fjórar 8 og eina 8,5 í einkunn...Sum sé 8 í meðaleinkunn og er bara glöð með það. Annars lítur út fyrir árekstra í stundarskrá og púsl á komandi vorönn og kanski get ég ekki tekið þá áfanga sem hugur stendur til, en það kemur í ljós.
Eitthvað hefur maður nú farið á af tónleikum á árinu, einnig í leikhús og bíó og er það alltaf jafn gaman :)

Ég er eflaust að gleyma að minnast á heilan helling sem gerðist skemmtilegt á árinu, en það mjatlast þá bara inn seinna ;) held ég verði bara að fara að brytja í salat og koma mér og mínum í sveitina :)

Vonandi eigið þið öll góð og gleðileg áramót og vonandi verður nýtt ár fullt af gleði og hamingju :)

Till next...adios

Saturday, December 27, 2008

Krúttípúttí

Jólin hafa liðið hratt, eins og vanalega þegar það er gaman og gott :)
Vorum í sveitinni á aðfangadagskvöld í góðu yfirlæti, góðum mat og góðum gjöfum...
Vorum svo bara heima á jóladag í leti leti, eldaði reyndar kalkúnabringu í kvöldmatinn ásamt hangiketinu góða úr sveitinni.
Í gær var svo fjölskylduboð í sveitinni og þar mætti öll nánasta fjölskydan sem er stödd á svæðinu...svo koma Árni bró. og Co á mánud. og þá verður bara enn meira gaman :)
Í dag ætlaði ég að vera voða dugleg og hreyfa mig eitthvað...en úr því varð lítið og í stað þess fór ég bara í kaffi til vinkonu minnar og borðaði meiri kökur :D
Svo kemur krúttlegast hluti bloggs dagsins: ég fór í 10-11 fyrir kvöldmatinn, vantaði eitthvað smotterí, Mikael fékk 500kr. og skrapp í Jón Sprett til að kaupa sér smá nammi...svo bíð ég eftir honum og sé að hann kaupir sér nammi fyrir 150 kr. svo þegar við löbbum út þá biður hann mig að bíða fyrir utan 10-11 og segir að ég megi ekki koma með, eigi bara að bíða, ég verð hálf óþolinmóð og held að drengurinn ætli að kaupa sér meira gotterí þar, "ég verð enga stund" segir hann...og ég sé að hann labbar beint að afgreiðsluborðinu og segir eitthvað við afgreiðslumanninn og svo kemur hann út aftur. Ég spyr hann hvað hann hafi verið að gera þá segir hann: "Ég var að gefa fátæka fólkinu pening" ...ég fór bara næstum að grenja...fanst þetta svo sætt og gott hjá honum, hann hafði þá farið og sett 200 kr.í rauðakross söfnunarbauk :)
Ég er kanski ekki alveg að klúðra uppeldinu á drengunum á allan hátt ;)

Hafði góðar og gleðilegar stundir :)

Till next...adios

Wednesday, December 24, 2008

Gleðileg jól :)

Gleðileg jól allir saman :)
Óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar og friðar á nýju ári
Þakka allt gamalt og gott og vona að ánægjulegar samverustundir með vinum og ættingjum verði enn fleiri á nýju ári...hó hó hó :)

*<:o)


Till next...adios

Saturday, December 20, 2008

Shittttt

Var dugleg í dag...málaði aðra umferð yfir gluggana og eru þeir bara alveg snilld ;) get tekið að mér að mála fyrir fólk ;)
Svo byrjaði ég á að rífa af teppið, ákvað að "drífa" það af og mála svo herbergið snöggvast. Hummmm...ég var voða voða voða bjartsýn þar! Í fyrsta lagi var teppadruslan ógeðslega föst, greinilega ekki verið sparað límið á sínum tíma...púfff, en það hafðist fyrir rest...en ekki tók betra við, það var dúkadrusla undir teppinu og þegar ég reif hann af þá varð eftir brúnt-lím-eitthvað ógeð á gólfinu sem þarf að skafa eða meitla af. Og ég er sum sé búin að meitla af pínuponkulítið horn og sé ekki fram á að klára helv...gólfið fyrir jól. Það er amk ógurleg bjartsýni að ég verði búin að klára að gera gólfið klárt undir parket fyrir þorláksmessu, eins og til stóð!
En ég verð bara að halda áfram að púla á gólfinu, ekkert annað í boði.

Gleymdi annars að geta þess í gær (var svo uppnumin af gerfisveinka) að ég gerði nokkuð sem ég hef ekki gert áður!
Ég fór í húðhreinsun. Og ég held að ég geri það bara ekkert aftur!
Þetta byrjaði ágætlega, en svo byrjaði gellan að misþyrma á mér nefinu...kreisti og kramdi og þjösnaðist á því...sagði svo að það væri ekkert til að kreista!!!
Ég var með hjartslátt í nefinu og eldrauð sem Rúdólf.
En ég fór líka í lit og plokk, svo þetta var ekki alveg vonlaust ;) hehe

Jæja, er búin í bakinu og ætla að vera löt í kvöld...

Till next...adios

Friday, December 19, 2008

Plat

Ég fór með Mikael í jólasund áðan, eða hann fór í sund og ég horfið á, þetta var á vegum sundfélagsins Óðins og var bara ljómandi gaman. Nema það að þegar við komum þá var eitthvað jólasveinaræksni að væflast í anddyrinu, svona pínulítið eins og hann vissi ekki hvort hann væri að koma eða fara. Grindhoraður með augljósa gerfibumbu...
Þegar sundið er búið er hann enn að væflast, býður öllum börnum góðan dag og gefur þeim sundhettu merkta Símanum úr Coca-Cola pokanum sínum. En þar sem ég stóð í anddyrinu á meðan að Mikael klæddi sig, þá fylgdist ég með sveinka góða stund...og er ekki frá því að hann hafi bara verið aðeins við skál! Hann skjögraði annað slagið, og ruglaði hreinlega, var svo búinn að taka af sér húfuna fyrir rest svo að englakrullulufsuskegghárið varð ennþá gerfilegra...og þurfti samt mikið til!
Mikael tók með hálfum huga við bláu Síma-sundhettunni, sem hann sagðist aldrei ætla að nota og tilkynnti mér hátt og snjallt þegar að við vorum komin út að þessi jólasveinn hafi sko verið gerfi!!!
Og ég gat bara hreinlega ekki sagt annað en já...datt ekki í hug að reyna að ljúga að barninu að þessi jólasveinaómynd væri alvöru.
Svo sagði Mikael líka að þessi hefði sagst heita þvörusleikir, og þvörusleikir hefði sko verið í Brekkuskóla í dag og hann leit bara alls ekki svona út!!! ;) hehe
Ég hef bara að ég held, aldrei séð aðra eins veru...nánast ekki hægt að kalla þetta jólasvein...virkaði eins og einhver róni fyrir utan vegg hafi verið dreginn inn og hent í búning...og fengið fleig að launum ;) hehe
Well...hætt að dissa sveinka ;)

Ég málaði gluggana í Kristjáns herbergi í gær, held ég verði að fara aðra umferð í kvöld...eins gott að gera þetta almennilega ;) held samt að það sé bjartsýni að ég geti klárað herbergið, hennt öllu inn í það og lagað til og skreytt fyrir aðfangadag...en sjáum til...í versta falli verður bara lítið skreytt og mikið breytt ;)

Það er djö...kuldi úti, svo það er fínt að vera inni og mála...drakka kakó og liggja undir sæng :)
Hafið það gott í kuldanum krúttin mín :)

Till next...adios

Wednesday, December 17, 2008

Hvolf

Það er ekki hægt að ímynda sér með nokkru móti að það séu jól eftir rétta viku, þegar maður gengur inn í íbúðina mína um þessar mundir.
Það er allt í drasli, svefnherbergið mitt á hvolfi, aðallega legó-kubbar um öll rúm og gólf...stofan full af öllu, parket á stofuborðinu, rúmið hans Kristjáns þar líka (ekki uppá stofuborðinu reyndar, en upp við það) og slatti af dótinu hans, gangurinn er einnig fullur af drasli, hillur og samtíningur úr herberginu hans Kristjáns.
Það jólalegasta hér innandyra er eflaust herbergið hans Kristjáns, ekki af því að það er hreint, fínt og snyrtilegt...nei, vegna þess að nú liggur yfir því hvít-ryk-hula...svona næstum eins og snjór yfir öllu!
Ég er með ryk í hárinu og allsstaðar, búin að juða og juða gluggana í þessu margumrædda herbergi, með, reyndar, ágætis árangri. Nú vona ég bara að ég verði það dugleg í fyrramálið að ég skríð ekki aftur upp í rúm, heldur fari bara að mála :) og kanski...eða ég lifi í þeirri veiku von, að kanski verði ég búin að þessu fyrir jól. En þá á ég reyndar eftir að laga til og þrífa alla hina hluta íbúðarinnar...og úfff púfff, það verður að ég held, bæði erfiðara og leiðinlegara heldur en að juða upp málningarský!

Best að fara að sofa bara og vonast til þess að ryk-skýið verði að einhverju leiti sest í fyrramálið ;) Mjá...

Till next...adios

Tuesday, December 16, 2008

Kærustur

Ég rölti með Mikael á sundæfingu í dag, á leiðinni frá skólanum í sundið þá sagði hann mér þetta: "Mamma, ég veit um einn strák sem á tvær kærustur og hann er búinn að kyssa þær allar!"
Hehe...svo sagði hann reyndar líka að þessi strákur væri dálítið ruglaður, næstum alveg eins og einn sem er með honum í bekk ;) en þess ber að geta að þessi "kærustumargi" ungi drengur er í Lundarskóla ;)
Annars stóð Mikael sig vel í sundi, synti alveg eins og herforingi, af meira kappi en forsjá...sennilega hefur hann það frá mér ;)
Ég fór á ógurlegt skrall sl.laugardagskvöld, á jólahlaðborð með vínklúbb Ak. á RUB23, flottur matur og góð vín og góður félagsskapur...endaði alveg með hressasta móti ;) var samt ekki eins hress daginn eftir, þegar ég var að steikja laufabrauð í sveitnni og þurfti að nota allan minn vilja til að æla ekki ofaní steikarpottinn ;) varð voða fegin þegar Sverrir bró plataði mig upp í fjárhús...það var hressandi þótt það hafi kanski ekki verið alveg jafn mikil hjálp í mér og til stóð...en eitthvað af hrútum komst samt í kindurnar ;)

Ástandi í efnahagsmálum landsins virðist ekkert vera að batna nema síður sé...nú er hver sparnaðaraðgerðin að reka aðra og allir í lausu lofti með allt.
Sumar aðgerðirnar eru samt næstum því meira en lítið skrítnar, það á t.d að moka Keflavíkurflugvöll sjaldnar og lýsa hann minna en verið hefur...samt ekki að minnka öryggið...uuu...ég veit að ég er næstum ljóska, en hefur þá ekki verði mokað og lýst of mikið hingað til, ef það er hægt að minnka þetta án þess að minnka öryggið??? Spyr sá sem ekki veit og lítið vit hefur á flugi.
Svo eiga náttúrulega allir háskólar landsins að spara...en jafnframt að fjölga nemendum, svo að þeir sem að misst hafa vinnuna geti farið í skóla...ekki er ég heldur að fá þetta reikningsdæmi til að ganga upp, enda alltaf verið léleg í stærðfræði.

Tunglið veður í skýjum...bókstaflega...jólasveinarnir detta inn um gluggann hver á fætur öðrum. Fór í Toys-R-us í dag, þar er bara ekki hægt að kaupa nokkurn fjára fyrir minna en 2000kr. og ég er ekki að ýkja nema um svona fimmhundruðkall ;)
Eins gott að jólasveinarnir séu vel efnum búnir og fái vinnu næsta sumar í kreppunni ;)
Hætt að bulla í bili...

Till next...adios

Tuesday, December 09, 2008

Próff

Jæja, þá er ég að fara í "prófið" í dag...á ennþá eftir að lesa helling, svo ég ákvað að blogga bara aðeins...ekki virðist prófið ætla að lenda á heppilegum degi, því ég er ða fyllast af hálsbólgu og kvefi...aaaaaaaatjú!!!

Ég fór með Kristján til tannlæknis í dag, tvisvar reyndar, þurftum að bíða svo lengi að við fórum heim og biðum aðeins þar...áttum sum sé að mæta kl.3 en komust að korter fyrir fjögur, eitthvað var þá minn góði vilji til að láta ekkert fara í taugarnar á mér og brosa út í einn farinn að veikjast á þeim tímapunkti. Enda var ég að lesa og lesa og mátti ekkert vera að því að hugsa um tannheilsu drengsins. En það er víst allt í skralli hjá honum, eins og vanalega, glerungseyðing og ves...ég kenni náttúrulega um lyfjanotkun á yngir árum (hummm, þetta hljómar kanski undarlega). En nú er bara drengurinn kominn í gos og safa bann...sem á eftir að verða erfitt...fyrir mig altso ;)
Humanity- An Introduction to cultural Anthropology liggur hér á borðinu og horfir biðjandi á mig...best að lesa eitthvað fyrir prófið á eftir...og hnerra og snýta og aaaaaatjú!

Bless you...

Till next...adios

Thursday, December 04, 2008

Desember

Tíminn líður hratt...
Það er víst kominn desember...
Eitt próf eftir í skólanum, og ég að stinga út með Sverrir.
Það er nú aldeilis fínt að fá útrás í skítnum eftir allt andlega puðið í skólanum.
Þarf reynda að fara að lesa eitthvað undir þetta próf, en er ekki komin í gírinn ennþá...dett sennilega í hann degi fyrir próf...púfff, það væri mér líkt!
Það er allt í rugli ennþá í pólitíkinni, enda skrítin tík þessi pólitík!

Annars gegnur vel að halda mér upptekinni...þegar ég kom heim úr fjárhúsunum áðan þá var aftur allt komið á flot hjá mér...reyndar ekki jafn mikið og um daginn, en nóg samt, eins gott að ég var ekki lengur að heiman, því blessaðir nágrannarnir eru ekki alveg með þeim skörpustu...þau eru ennþá að spyrja hvaðan vatnið komi ;)
En ég hringdi í stíflulosara og mæta þeir eldsnemma í fyrramálið með rörmyndara með sér og alles...nú skal sko tekið á vandanum...amk til lengri tíma en síðast ;)
Bíllinn minn fíni er líka að fara í lækinsskoðun í fyrramálið því eitthvað smálegt þarf að laga fyrir frekar fúlan skoðunarmann hjá bifreiðarskoðunnarstöðinni...hann var greinilega eitthvað pirraður í geðinu kall greiið. En ég ákvað að láta það ekki á mig fá og þakkaði honum bara fyrir græna miðann sem hann límdi á fína bílinn minn :) Ætla svo að mæta aftur í næstu viku og láta hann plokka miðan af ;)

Ég var nefnilega að ákveða að ég ætla að reyna að láta ekkert fara í taugarnar á mér...ég vel bara að brosa og leysa vandann og láta pirrandi og mis heimskt fólk svífa frammhjá með bros á vör :)
Ef þér lesandi góður finnst þetta too mutch þá so what ;) hehe

Læt þessum gleðipistli lokið í bili, ætla að klára heimtökumatinn minn...má ekki vaska upp sko, svo ekki bætist í flóðið ;) og taka ákvörðun um hvort ég nenni á borgarafund í Deiglunni...efa það samt ;)

Till next...adios

Saturday, November 29, 2008

Af bíói og bulluskjóðum

Jamms og jæja,
Ég fór í bíó í dag með Mikael og vin hans, Kristján nennti ekki með og þykist vaxinn upp úr teiknimyndum. Við fórum að sjá Madagaskar II og hún var mjög góð, ég hló eins og strompur oft á tíðum. Komst reyndar að því í upphafi bíósins að ég er djéskotans aumingji, fór næstum að grenja yfir Coca-Cola auglýsingu...er ekki að grínast, fékk tár í augun og alles, er næstum ennþá klökk ;) hehe...ýki smá núna.
Eftir bíóið þá fórum við á Bláu könnuna og fengum okkur kakó, þar sat við næsta borð einn stríðnispúki frá Húsavík, veit engin deili á þessum vinalega kalli, en hann fíflaðist í strákunum og ekki leiddist þeim það :)
Svo átti að kveikja á jólatrénu á torginu, þar var danska fánanaum flaggað sem aldrei fyrr...annað hvort hef ég ekki tekið eftir honum áður, eða bara óvenju mikið að horfa á umhverfið núna...hummmm...vi bliver dansk snart ;)
Tónlistarskólinn var nýbúinn með atriði þegar okkur barr að garði, eða torgi...og við tóku "kynnarnir" sem voru Lápur og Skrápur, ég verð bara að óska þeim til hamingju með það að þeir voru leiðindarskjóður!
Þeir röfluðu og bulluðu en bara alls ekki neitt fyndið kom út úr þeim, því miður. Eftir allt það bull þá kynntu þeir bæjarstjórann til leiks, eða ræðuhalda og þá gáfust nú mínir menn upp og vildu heim í snatri, var nokk sama um þetta jólatré!
Enda voru þessar 15 min eða svo sem við stoppuðum þarna ekki mjög barnhæfar...og varla hefur bæjarstjórinn toppað það ;)

Jæja, er að hugsa um að skrifa bara ekki meir í bili, er einhvernvegin í þannig skapi að ég gæti átt það til að skrifa eitthvað sem ég sæi eftir...og ekki er það nú gott. Er mikið að spá í að fara í sveitina á morgun, stinga út skít og athuga hvort mér líður ekki betur á eftir :)
Það þurfa margir að stinga út hjá sér skítnum þessa dagana ;)

Reyndar fór ég í gær og keypti jólagjöf handa sjálfri mér ;) og búin að opna hana og prufa. Keypti mér snjóbuxur og úlpu...þetta svínvikaði í útiverunni í dag, svo nú er bara að bíða eftir að koamst á skíði :)

Ha de bra :)

Till next...adios

Monday, November 24, 2008

Tja...hvað getur maður sagt?

Það voru umræður á alþingi þegar ég kom heim úr skólanum í dag, var verið að fjalla um vantraust tillögu á ríkisstjórnina. Það var mikið rifist, hróp og köll, þennan tíma sem ég hlustaði með öðru eyranu, þóttist vera að læra með hinu eyranu...en var svona meira að skoða stöðuna á Facebook ;) En svo þurfti ég að drífa mig út úr húsi um sex leitið og þá var enn rifist í útvarpinu.
Eftir síðbúinn kvöldmat og smávegis lærdóm þá sest ég við sjónvarpið, þar var verið að sýna frá borgarafundi í Háskólabíó, þar var líka mikið sagt og klappað og púað...ætlaði reyndar að gera tilraun til að horfa aftur á Heroes-þátt, svo ég skipti yfir á borgarafundinn í auglýsingahléum...veit svei mér ekki hvort var skrítnara á að horfa, Heroes eða borgarafundinn. Fyrir mér var þetta svona álíka raunverulegt.
Verð bara að segja að ég skil ekki neitt í neinu, ég skil ekki afhverju ríkisstjórnin uppfræðir ekki okkur almenning um athafnir sínar, svo við höldum ekki öll að þau séu ekki að gera neitt...ég skil heldur ekki þá sem láta frysta lánin sín til þess að geta notað peninginn sem ella hefði farið í lánaafborganir (eins og áður) til þess að sukka bara pínu meir. Ég hef nefnilega bara lúmskan grun um það að við almenningur (allir nema ég náttlega) séum bara búin að lifa í sukki og svínaríi undanfarin ár og nú eru það timburmenn sem sumir eru að reyna að forðast með að fá sér bara nokkra snafsa í viðbót!
Hverjir hafa ekki farið í utanlandsferðir upp á krít sl.ár?
Hverjir hafa ekki tekið lán algerlega að nauðsynjarlausu? t.d til að kaupa sér flatskjá, risa jeppa, hjólhýsi, hunda eða eitthvað sem við ættum eðlilega að komast af án!
Í fyrsta sinn í laaaangan tíma þá vorkenndi ég þeim greijum, sem sátu á borgarafundinum, úr ríkisstjórninni...það var alveg drullað yfir þau....reyndar vorkenndi ég þeim ekki lengur í fréttatímanum á eftir, þar sem parið "krúttlega" Geir og Ingibjörg Sólrún sögðu að þetta hefði verið fínn fundur...hummm, tala um að skvetta vatni á gæs, ég veit það a.m.k að ef ég hefði setið þarna í þeirra sporum, þá hefði ég löngu verið gengin grátandi á dyr.

Jæja, ég varð bara aðeins að pústa, er að þykjast vera að læra fyrir próf, svo það er best að koma sér bara í rúmið :)
Njótið alls hins besta sem kostar ekki neitt :)

Till next...adios

Tuesday, November 18, 2008

Gaga

Ég hef haft svo mikið að gera undanfarið að ég hafði ekki einu sinni tíma til að blogga á sjálfan afmælisdaginn minn...en ég er nú vön að koma því að hér til að fiska eftir afmæliskveðjum ;)
Annars er Facebookin alveg að bjarga mér þar, því ég hef aldrei á æfinni fengið jafn mikið af kveðjum, svo fékk ég slatta af sms-um líka og líka svona face to face ;)
En afmælisdagurnn 15.nóv. var sum sé bara alveg hinn besti dagur, þótt ég hafi þurft að mæta í skólann kl.12 og taka svo viðtal fyrir jólablað Vikudags og vinna það, þá endaði dagurinn í matarboði, rauðvíni og afslöppun og það var nákvæmlega það sem ég þurfti :) Hefði ekki haft orku í djamm þótt ég hefði reynt það...

Ég er sem sagt búin að klára eitt vídeó verkefni, sem á að sýna í skólanum á morgun og sennilega líka á N4 um jólin ;) og núna er ég á fullu að safna og vinna efni í jólablað Vikudags, þetta er hellings vinna (púl að plata ættingja og vini til að skrifa fyrir sig ;) hehe) en þetta er rosa gaman. Svo þarf ég líka að gera ritgerð sem skila þarf nk.mánudag, eitt heimapróf fyrir þriðjud. og svo verður bara næs tími eftir viku og bara desember próf eftir :) Það sem bjargar mér líka alveg er að við vorum tvær að vinna vídeóverkefnið og verðum tvær að vinna ritgerðina ;) Alltaf gott að vinna með góðu fólki ;)

Það er víst ennþá kreppa, þótt ég gleymi því stundum þegar ég hef engan tíma fyrir fréttir ;) en þó frétti ég af formanni vor, afsögn hans og leyfi á Kanarí ;) Ég skil hann Guðna vel að hafa stokkið úr landi, ekki fengi hann frið hér, vona bara að hann njóti frísins. Það besta í stöðunni núna fyrir framsókn væri að moka þessu gamla liði út, sem er hvort sem er alltaf að rífast, og skella inn nýju orkumiklu fólki :)
Annars er ég alveg komin inn á þá línu að stofna bara nýjan flokk, held að nafn Framsóknarflokksins hafi borði of mikla hnekki til þess að hægt sé að bjarga honum...en það finnst mér reyndar líka um Sjálfstæðisflokkinn!!!

Jæja, var búin að lofa mér að fara snemma í rúmið í kvöld, tek með mér smá lesefni fyrir ritgerðarbrölt á morgun ;)

Góðar stundir allir saman og takk fyrir allar afmæliskveðjurnar :) líka þeir sem gleymdu að senda mér kveðju, veit að það var ekki með vilja ;)

Till next...adios

Saturday, November 15, 2008

Texti

Það er mikið að gera á litlu heimili, en nenni nú ekki að væla yfir því núna. Það var þriðji í kabarett í gærkveldi, en þá vorum við með styrktarsýningu fyrir hann Jón Gunnar, það gekk glimrandi vel, fullt hús og fjör :) Í tilefni þess ætla ég að skella hér inn einum texta sem ég samdi og var notaður í kabarett, það var alltaf verið að glamra þetta lag á píanó á hæðinni fyrir ofan, já píanósnillingurinn hefur tekið talsverðum framförum sl.ár ;) En lagið er sum sé "Slipping through my fingers" með ABBA og var náttlega í ABBA myndinni ógurlegu sem er enn í bíó ;) en nó bull, hér kemur textinn sem by the way er saminn fyrir kreppu ;)

Sól rís á ný
Gyllir fjöll
Fegrar fjörðinn allan
Kindur á beit en kýrnar fjósi í
Ég held af stað geng um tún horf‘á gróður dafna
Og Þarf mér að tilla hér um stund

Sú tilfinning að horfa yfir fjörðinn
Er engu lík og allir þekkja það
Sem átt hér hafa stund og ævi sína
Og alltaf elskað það

Gengur mér úr greipum þessi jörð og þessi dalur einhvertíman?
Nú margs ég sakna
Gengur mér úr greipum þessi jörð?
Sé ég virkilega allt það fagra allt það góða er mér hlotnast
Og ætt að þakka
Gengur mér úr greipum þessi jörð?

Draumaheim í allt er gott, enginn kvíðatregi
Vitjar mín fólk sem hér áður gekk um grund
græddi upp jörð, ól sín börn án allra ofurþarfa
og gerði fagra fjörðinn það sem hann er.

Sú tilfinning að horfa yfir fjörðinn
Er engu lík og allir þekkja það
Sem átt hér hafa stund og ævi sína
Og alltaf elskað það
Gengur mér úr greipum þessi jörð og þessi dalur einhvertíman?
Nú margs ég sakna
Gengur mér úr greipum þessi jörð?
Sé ég virkilega allt það fagra allt það góða er mér hlotnast
Og ætt að þakka
Gengur mér úr greipum þessi jörð?

Sú tilfinning að horfa yfir fjörðinn
Er engu líka og allir þekkja það
Gengur mér úr greipum?

Sól rís á ný
Gyllir fjöll
Þurrkar tár af vanga
Ég áfran held, brosi af tilhlökkun á ný

Lífið er dásamlegt :)

Till next...adios

Monday, November 10, 2008

Crazy days

Svo mikið að gera, svo lítill tími...nú er allt í gangi í skólanum, verkefni og ritgerðir dynja á manni sem aldrei fyrr, auðvitað er mikill léttir að vera þó laus við kabarett...en samt ekki alveg, það verður nefnilega aukasýning á kabarett nk.fimmtudagskvöld kl.21:00 en það verður styrktarsýning fyrir hann Jón Gunnar ofurkrúttfrænda ;) Endilega allir að mæta, sjá frábæra sýningu og styrkja gott málefni og góðan mann :)
Tók reyndar og úrbeinaði heil óksöp af rollum í gær(ekki ein samt), sem voru svo hakkaðar og settar í poka, gott að eiga hakk í kreppunni ;)
Svo er saumaklúbbur í kvöld hjá henni Gústu :) ekki verður það nú leiðinlegt :)
Svo verður bara skóli og verkefnavinna það sem eftir er vikunnar...ég er farin að láta mig dreyma um jólafrí...og er harðákveðin í því að taka alls ekki meira en 17 einingar eftir áramót ;)
Jæja, er stokkin í að elda pasta fyrir strákana og svo í klúbb ;)
Hafið það gott allir saman :)

Till next...adios

Saturday, November 08, 2008

Fyrsti í kabarett

Jæja, það var kabarett sýning hin fyrri í kvöld, gekk bara alveg glimrandi vel...næstum of vel svona fyrir föstudagskvöld segja sumir ;)
Svo verður bara sýning og ball annaðkvöld...svo nú er bara að dusta rykið af góða skapinu og dansskónum og skella sér á skemmtun og ball :)
Annars er ennþá allt á fullu hjá mér, vantar marga tíma í sólarhringinn...var á árshátið í gær hjá Kristjáni mínum, hann stóð sig eins og hetja...rosa flottur strumpur, blár og sætur ;)
Svo var sjóræningjasund hjá Mikael mínum í dag, hann kafaði eftir gulli og gersemum stanslaust í 45 mínútur...hann verður flottur í sundinu einhvern daginn :)
Óskup sem maður á flotta stráka :)
Svo ég hef mest verið að sinna strákunum svona á milli skóla og æfinga þessa dagana, svo er ókristilegur skóli í fyrramálið...á laugardagsmorgun sem er ekki fallegt af kennaranum, en svona varð þetta bara að vera. Svo eftir skóla þarf ég í verkefnavinnu og svo seinni kabarettsýning og ball um kvöldið...og svo heimspekikaffihús og rolluúrbeining á sunnudaginn...dúdíraríra...
Er að leka niður og farin að sofa...
Góðar og glaðar stundir :)

Till next...adios

Wednesday, November 05, 2008

Afmæli Árna

Árni bró á afmæli í dag, og langar mig hér með að óska honum til hamingju með afmælið :)
Til hamingju Árni og hafðu það gott í dag og alla daga :)

Langar einnig að óska Obama til hamingju með að hafa náð kjöri til forseta USA, þetta er greinilega stór dagur í dag ;)

Vona svo bara að alir hafi það sem best í kreppunni...muna bara að besta ráðið við henni er: kreppa - rétta, kreppa - rétta ;)

Till next...adios

Tuesday, November 04, 2008

Allt á fullu

Ákvað að gefa mér örfáar mínútur til að rita hér inn smá bull, bara svona láta vita að ég er ekki alveg hætt að blogga ;)
Nú er rosa törn í skólanum, verkefni og ritgerðir sem þarf að skila...úfff, og svo var ég náttúrulega svo "gáfuð" að taka þátt í kabarett í Freyvangi og þar með eru öll kvöld undirlögð...held að þetta sé kallað að hugsa ekki fram í tímann, enda hef ég aldrei verið þekkt fyrir það ;)
Annars er ég að verða vitlaus á krepputali, finnst þetta hljóma í eyrum mér allan daginn, auðvitað er þetta allt saman slæmt, en ekki batnar það ef maður er komin með gubbu af endalausri umræðu en engum gjörðum.
Heyrði smá umræðu í útvarpinu í morgun, þar sem fólk mátti hringja inn og tjá sínar skoðanir, þar hringdi ein kona með þá alvitlausustu hugmynd sem ég hef nokkru sinni heyrt!
Hún sagi, sem rétt er, að þeir sem skulduðu eins og af húsnæði og annað, væri að taka á sig auknar skuldir vegna kreppunnar, sum sé lánin að hækka eins og allir vita. En þetta fannst henni ekki réttlátt, heldur vildi hún láta senda skuldabréf á alla þá sem ekki skulda svo þeir geti borgað meira líka! Jamm, þetta er kanski pínu ruglingslegt, en svona var þetta. Svo ef ég tæki mig sem dæmi, sem á ekki neitt, en skulda ekki neitt (nema þá námslánin mín) þá væri alveg upplaggt að ég fengi bara að borga kanski eins og 20 millur eða svo, svona bara svo ég geti fengið að vera með í skuldadansinum....dahh...Auðvitað er óréttlátt að skuldir og afborganir á húsnæði sé búið að hækka upp úr öllu valdi, en vonandi skánar það eitthvað einhverntíman og fólk á þó sitt húsnæði eftir sem áður...en á ég bara að borga helling fyrir ekki neitt...eiga ekki neitt eftir sem áður??? Held að þessi kellingarskrukka hafi ekki alveg verið að hugsa heila hugsun...

Jæja, búin að hella úr smá úr skálum reiði minnar...á samt slatta eftir sem ég þori ekki að gusa yfir alnetið ;)

Till next...adios

Thursday, October 30, 2008

Hananú

Fór í ræktina í dag, eftir einn skrítnasta tíma í HA frá byrjun...ætla ekki einu sinni að skrifa um það að svo komnu máli...kanski seinna.
Mikael Hugi kom heim í dag í 4 húfum...mjög ánægður með sig, enda var orðinn talsverður skortur á húfum...nú er næsta skref að ná honum heim í slatta af vettlingum ;)
Annars virðist lesturinn að vera að koma hjá honum, svo það eru jákvæðar breytingar þar á bæ.
Ekki sömu sögu að segja um gelgjuna í augnablikinu...sá að hann hafði ekki unnið í tímum eða skilað heimanámi í stærðfærði síðustu vikuna, var náttúrulega ansi þung á brún...Kristján litli hafði ekki mjög sterka málsvörn, eða eins og hann sagði: "ég er bara ekkert góður í stærðfræði" hummm...ég sagði honum líka það að ekki batnaði það ef hann ynni ekki í tímum og skilaði ekki heimanámi. Svo nú er drengurinn kominn í tölvustraff og er í afar megnri fýlu inni hjá sér!

Kabarett æfingar eru bara öll kvöld núna, brjálað að gera í skólanum, svo þetta er að öllu leiti bara alveg ljómadi allt saman ;)
Fór i skóbúð í dag að leita af kuldaskóm á Kristján, það gekk erfiðlega, því lítið sem ekkert var til í hans stærð! Og bara ekkert væntanlegt...kallinn í skóbúðinni sagði bara að það væri sko ekki von á neinum vörum. Vei vei vei...var svo harðákveðin í því að láta ekki kreppuna pirra mig í dag, að ég hamaðist í ræktinni og hékk á Facebook...;) hehe...þarf samt að klára eina ritgerð við fyrsta tækifæri...well, koma tímar koma ráð ;)
Hafið það gott í snjónum...

Till next...adios

Tuesday, October 28, 2008

Ææææ

Akkúrat núna, þá finnst mér Íslenska ríkisstjórnin og ráðamenn vera aumingjar. Og ef þeir vilja lögsækja mig fyrir meinyrði, þá bara gott og vel.
Var að- lesa það inn á mbl.is eða visir.is að Færeyingar vilji lána okkur aur...eða einhverja milljarða. Mér finnst þetta óskup fallegt af færndum vorum Færeyingum, en um leið hugsaði ég: hvurslags djöfulisns aumingjaskapur og heimskuháttur kom okkur hinum venjulega Íslendingi, í þessa hrikalegu stöðu að við þurfum að fá lán hjá þjóð, sem nb. er ekki einu sinni fullvelda ;)
Mér finnst að ríkisstjórnin geti bara sagt af sér í hvelli og þjóðstjórn Færeyinga tekið við stjórninni...þeim viriðist amk ganga betur en okkur að stýra sínu skipi.
Ég er nú að reyna að hugsa ekki alltof mikið um þetta allt, svo sem nóg annað að hugsa um, en stundum verð ég bara alveg foxill yfir þessum drulluháleistum sem lögðu landi í rúst.
Þetta er bara eins og ef maki manns til fjölda ára, sem maður hefur treyst fyrir börnum, búi og fjármunum öllum, myndi bara berja mann í buff, nauðga og skilja eftir allslausan og nakin á öskuhaugunum!

Skamm Dabbi Odds
Skamm Geir H.H
Skamm ríkisstjórn
Skamm útrásaraumingjar

Já ég er bara fúl!
Það er alveg nógu erfitt að þurfa að búa á skítaköldu landi, með snjó og roki stæstan hluta ársins, þótt maður þurfi ekki að hokra upp á haugum líka!
Það verða engin knús og faðmlög til þess að bjarga málunum...
Eflaust verður runnin reiðin af mér eftir smá stund og ættjarðarástin kviknar á ný...en þangað til...skrambans!

Till next...adios

Monday, October 27, 2008

Músagildran

Maður var reyndar í hálfgerðri músagildru í gærmorgun, bíllinn á kafi í snjó og maður lét ýmislegt fara í sínar fínu pirrur, eins og fasta bíla sem voru fyrir manni og stelpur sem vissu ekki einu sinni hvort fasti bíllinn þeirra væri framhjóladrifinn eða ekki ;) en það er allt önnur saga sem verður ósögð látin hér ;)
Leikhús ferð var farin í LA, í alvöruleikhúsið, þá meina ég samkomuhúsið, en ekki rýmið sem er í Dynheimahúsinu og innifelur í sér slagsmál um sæti og þh. En þetta var sum sé ALVÖRU leikhúsferð...nema kanski það að leikararnir flestir, voru ungir og nokkuð óreyndir. Nú er ég alls ekki að lasta áhugaleikhús þegar ég segi að þessi ferð í LA minnti mikið á leikhúsferð í áhugaleikhús :)
Kanski sýnir það bara hversu áhugaleikfélög mörg hver (og þá auðvitað sérstaklega Freyvangsleikhúsið) standa framarlega í leiklistarheiminum. Kanski á þetta efir að slípast hjá þeim, en mér fanst þau mörg hver ekki sannfærandi í leik sínum. Og sýningin datt niður dauð á tímabili...og þá er ég ekki að tala um morð, heldur bara þegar ekkert er að gerast...sem er arfaslæmt þegar um morðgátu-leikrit eftir Agöthu Cristie er að ræða ;)
"Gamla" fólkið í sýningunni fær plús hjá mér, meira að segja Alli Bergdal sem ég er ekkert rosa skotin í ...var bara nokkuð góður.
Nú var ég víst búin að lofa honum Þránni Karlssyni að kjafta ekkert um söguþráð verksins, svo ég fer ekki meir út í það...nema það að í miðri sýningu mundi ég allt í einu hver morðinginn var ;) sá þetta í sjónvarpinu fyrir margt löngu...held ég...hafði amk rétt fyrir mér ;) enda svo svakaleg rannsóknarlögga í mér ;)
Mæli samt algerlega með því að allir farí leikhús...því það er gaman ;) held samt að það verði betra og skemmtilegra stykki á fjölum Freyvangs í vetur en þetta ;) Gaman að segja frá því að við vorum á tímabili að spá í Músagildruna í Freyvangsleikhúsinu og hefðum potttttþéttttt gert það betur en LA ;) ekkert mont...nei, bara veit það ;)

Jæja, hætt að bulla...ætla að elda kvöldmat og fara á kabbaæfingu í kvöld...og mæta ólesin í tíma á morgun...old news ;)

Till next...adios

Thursday, October 23, 2008

Í fyrsta skipti...

Fyrir rétt um ári síðan, var ég í fyrsta skipti með debetkortareikninginn minn réttu megin við núllið. Í fyrsta skipti síðan ég fór að hafa eigin stjórn á fjármálum mínum (samt ekki beint eigin stjórn, þar sem maður var í einhverju kallastússi) þá var ég ekki með yfirdráttarheimild í notkunn. Og oftar en ekki talsvert mikilli notkunn...Góðærið sem Dabbi kóngur predikaði svo oft um var svona álíka raunverulegt fyrir mér og keisarinn í Kína á 17. öld, vissi að þetta snerti einhverja en það var laaaaangt í burtu frá mínum veruleika.
Svo loksins...loksins....LOKSINS...þegar mér tekst að vera skuldlaus og jafnvel eiga smá afgang og leggja fyrir og sjá fram á bjarta framtíð peningalega séð...þá hrynur hagkerfi lanskins með stæl!
Og hver á að redda því??? Jú, hún litla ég og allir þeir ótal ótal mörgu sem eru í nákvæmlega sömu sporum og ég...og þá meina ég, fólk sem hefur lifað spart í ótal ár en rétt komið yfir erfiðasta hjallann...fólk sem hefur ekki hendst til útlanda oft á ári og ekið um á jeppum og hagað sér eins og þeir sem valdið hafa.
Er þetta réttlátt?
Ég bara spyr.
Sorry barlóminn núna, þarf að skrifa 2.kafla í ritgerð og taka eitt próf í dag...og kaupa kuldaskó á gelgjuna og þar sem mánuðurinn er alveg að verða búinn en samt ekki búinn þá verður maður ennþá fúlli útí ástandið...ekki það að ég hafi tapað pening, heldur er bara ca.helmingi dýrara að fara út í búð í dag en það var fyrir mánuði síðan...þannig að ég sé fram á að klára þessar krónur sem ég á bæði hratt og örugglega ;) þökk sé þessum ótrúlega hæfileikaríku stjórnmálamönnum okkar sem stýra landinu....væri ekki í lagi að svifta þá þessum stjórnunarréttindum sínum?


Farin að læra...

Till next...adoios

Tuesday, October 21, 2008

Mikil viska

Ég fékk þetta sent í tölvupósti í dag, og ákvað að skella því hér inn í stað þess að forvarda þetta á einhvern fjölda ;) það fylgdi ekki með hver höfundurinn er, en mikil er sú viska sem hér fer á eftir:

Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður
vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður
ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.

Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti
ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.

Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur
faðma þennan morgun og allar hans rætur
hita mér gott kaffi af kærleik þess ég nýt
kex smyr með osti í blöðin svo ég lít.

Að endingu ég segi við þig sem þetta lest
þetta er góður dagur, hafðu það sem best
ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni
ég faðmlag þér sendi og kveð þig að sinni.

Till next...adios

Það var allt á floti allstaðar....

Það var ekkert spes að koma heim úr skólanum í gær...en fram að því hafði gærdagurinn verð alveg stór fínn. Fór á fund með forseta Íslands, Hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, sem var fínt, spurði hann að spurningu og tók í hönd hanst á eftir...en fram að þessu hafði ég aðeins séð kallinn í sjónvarpinu ;)
Svo fór ég á fund í Brekkuskóla og hitti eina fína konu sem er að kenna honum Mikael Huga mínum að lesa ;) það var fínt og við báðar ánægðar með kappann ;)

Svo kom ég heim og þar var bara allt á floti! En niðurfallið hafði stíflast út úr húsinu og bæði vatn úr þvottavél efrihæðarinnar og svo gegnumrennsli úr ofnum búið að fylla þvotta húsið og hálfa íbúðina mína...eldhúsið, gangurinn, baðið og forstofan...allt á floti!
Eftir að ég var búin að snúast í nokkra hringi og bjarga gellustígvélunum mínum úr flóðinu, þá hringidi ég í Friðbjörgu og af góðsemi sinni kom hún og hjálpaði mér :) væri sennilega annars ennþá að þurrka ;)
Dúkurinn í eldhúsinu fékk að fjúka út og einnig teppi fram á gangi, en þetta var gersamlega gegnsósa og hefði eflaust ekki þornað fyrir jól!
Svo það var svo pöntuð pizza í kvöldman og svo brunað á kabarett æfingu...fun fun fun.

Till next...adios

Friday, October 17, 2008

Gjaldþrot

Það hlaut að koma að því að ég færi sömu leið og bankarnir og yrði gjaldþrota...þó kanski eini munurinn að ég er ekki búin að eyða helling af peningum sem ég átti ekki...bara öllum sem ég átti, eða því sem næst ;) Nú sé ég bara til hvort ríkið geti ekki bara þjóðnýtt mig svona eins og bankana ;)
Annars kemur þetta væl mitt til af því að ég fór í dag og keypti nagladekk undir kaggann...púfff, ég held bara að þau hafi hækkað eitthvað í verði síðan síðast...það kostaði mig sum sé rúman 61.000 kr. að setja bílinn á vetrardekk...samt fékk ég 10% afslátt.
Svo þarf ég að kaupa sumardekk í vor, því kallarnir spurðu mig hvort ég ætlaði virkilega að hirða þessi dekk...enda voru hundgömul og slitin vetrardekk undir bílnum, svo ég bað þá bara að henda þessum druslum...hlýt að vera búin að safna fyrir sumardekkjum í vor ;)

Jæja, best að væla ekki meira í dag, heldur hafa bara gaman að þessu, ég er amk fær í flestan snjó ;)

Till next...adios

Tilraunir

Hann Mikael Hugi minn er rosalega duglegur að leika sér við aðra stráka og þarf helst að vera að leika sér við aðra frá því að hann kemur heim og fram að kvöldmat. Þetta er alveg gott og blessað, nema að uppátækin geta orðið anski skrautleg.
Mikael og vinur hanns eru t.d búnir að grafa heljarinnar holu í garðinum, sem var svo voða voða erfitt að moka ofaní þegar ég komst að þessum uppgrefti þeirra...enda voru þeir bara að grafa eftir fjársjóði, svo þetta var mjög eðlilegt! Svo í gær þá laumuðust hann og þessi mest uppátækjasamasti vinur hans inn í eldhús, náðu sér í mjólk og nesquikk í krukku og fundu haus af fugli úti sem þeir skelltu út í koktelinn! Kristján greiið fann krukkuna út á tröppum, sér haus af fugli í kakógumsinu og bregður svo að hann missir krukkuna og glerbrot, kakó og fuglshaus út um allar tröppur! Ég varð bara ekkert rosa glöð, æsi mig aðeins við strákana sem taka á rás út og hafa vit á að láta ekki sjá sig í svona korter...svona á meðan ég var að þrífa upp ógeðið og afæsast aðeins.
Svo komu þessi grei, til mín inn í eldhús, ekkert nema skömmustulegheitin uppmáluð og lofuðu öllu fögru....og ætla að sjálfsögðu ekkert að gera þetta aftur. Þeir mokuðu meira að segja aðeins betur ofaní fjársjóðsholuna sína, einnig virðist hluti af moldinni hafa gufað upp eða verið tröðkuð niður ;)

Jæja, nóg af prakkarasögum. Ég fór á KEA í gærkveldi, á vínkynningu, drakk þar slatta af misgóðum rauðvínum og fann svo á mér þegar ég labbaði heim...kláraði svo kafla í ritgerð og sendi frá mér, það á svo alveg eftir að koma í ljós hversu gáfulegt það hefur verið ;)
Núna er planið að leggja sig og fara svo með bílinn í dekkjaskipti...held að það sé bara komin tími á nagla...það er bara rétt ókominn snjór ;)

Till next...adios

Wednesday, October 15, 2008

Annaðhvort

Annaðhvort er öllum sem lesa þetta blogg sama um efnahagskreppu Íslendinga, eða þá að það les bara enginn þetta blogg....ég hélt amk að ég fengi alveg svakaleg komment eftir síðustu færslu, en nei, nei....ekki orð ;(
En ekki dugir að gráta það, heldur halda bara ótrauður áfram og hella út skálum sínum, hvort sem þær eru fullar af reiði eða gleði ;)
Það er búið að vera svolítið mikið að gera undanfarið, próf, verkefni og svo á ég að skila fyrsta kafla af ritgerð sem ég er ekki byrjuð á....hummm, já á morgun ;) En ég slæ þessu bara upp í kæruleysi og ætla á fund í Freyvangi í kvöld ;)
Svo tók ég svo hrikaleg á því í ræktinni í dag að ég er að farast úr strengjum og all svakalega þreytt...svo ég bara dæli í mig súkkulaði og kaffi :) Annars hef ég ekki farið svo lengi í ræktina að það var alveg komin tími á svakaleg átök ;) verð að reyna að vera duglegri að fara...reyndar er þetta einungis tímaleysi að kenna en ekki því að ég sé löt...

Jæja, landi er sennilega ennþá í rúst efnahagslega séð...og fíflin sem komu okkur oní skítahauginn eru að semja fyrir okkar hönd um lán...verð að segja að ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Ríkisstjórnin og Dabbi Odds eiga að skammast sín og segja af sér ekki seinna en í gær!!!
Annars verð ég bara að fara að gera eitthvað í málunum...
Við eigum að sjálfsögðu að ganga bara Norðmönnum á hönd og hreinsa fyrir þá olíu (þeir vilja jú fá olíuhreinisstöð á Vesfjörðum) og veiða fyrir þá fisk og þeir gefa okkur af olíugróða sínum í staðin ;) þeir eru jú frændur okkar :)

Jæja, ætla að tjilla í hálftíma áður en ég göslast fram í Freyvang...geysp...

Till next...adios

Monday, October 13, 2008

Áríðandi skilaboð til allra Íslendinga!!!

Ég er með mjög áríðandi skilaboð sem snerta alla landsmenn:
Þau fyrri eru þau að það er okkur beinlínis stór hættulegt að taka lán hjá alþjóða- gjaldeyrissjóðnum. Það verður til þess að þeir beinlínis stjórna landinu og neyða okkur inn í einkavæðingu til að við getum borgað þeim lánið aftur...myndum stefna hraðbyr inn í það að verða þriðja-heimsríki!!!
Það er mun skárri kostur að fá lán hjá Rússum, sem myndu jú hafa ítök hér á landi, jafnvel skella hér niður herstöð og við myndum kanski bara vera bombuð í burtu einn slæman veðurdag, en það yrði amk (vonandi) nokkuð sársaukalaust og taka fljótt af.
Lang besti kosturinn er að fá lánaðan aur hjá vinum og frændum okkar Normönnum :) Við myndum þurfa að standa með Norðmönnum í öllum ákvörðunum og okkur yrði stjórnað dálítið þaðan, en ég hugsa að það sé bara mun betra en þessi fukking stjórn sem við höfum yfir okkur núna!!!

Svo ég vona að landsmenn taki höndum saman og klikkist algerlega ef sjallaliðinu dettur í hug að fá hörmungarlán hjá alþjóða gjaldeyrissjóðnum!!!!!

Önnur mikilvæg tilkynning er:
Að ég hef tekið að mér umboðssölu á klósettpappír fyrir gelgjuna mína sem er að fara í 10.bekkjar skólaferðalag í vor :)
Þetta er klassa pappír, og algerlega nauðsynlegt að eiga góðan mjúkan pappír á bossann í kreppunni ;) Það eru 48 rúllur í pakkningunni og kosta aðeins kr. 5.600 :)
Ég tek við pöntunum í síma 699-0817 milli kl.8-20 alla daga :)

Látum í okkur heyra og leyfum ekki ribböldum í sjallaflokknum að rústa landinu ;)
Og svo brosa líka til hvers annars ;)

Till next...adios

Thursday, October 09, 2008

Reykjavík - Rotterdam

Var að koma heim úr bíó, og fyrst ég þurfti hvort sem er að kveikja á tölvunni þá ákvað ég að henda inn smá kommenti um myndina.
Reykjavík-Rotterdam er bara ein besta íslenska mynd sem ég hef séð!!! Hún er vel gerð, góðir leikarar, spennandi, fyndin og bara snilld :)
Mæli með því að fólk streymi á þessa mynd og gleymi krepputali í 90 min eða svo.

Það var viðtal við einhvern kall (ritstjóra viðskiptablaðsins minnir mig) í útvarpinu í dag, og hann sagði að "nú væri tími til að eyða en ekki spara" sem er svo sem alveg lógíst...eins og ég hef alltaf sagt; fólk þarf að fara út að borða, kaupa sér föt og allt það sem fólk gerir vanalega, svo að það fari bara ekki allt á hausinn!!!
Ég ætla sko ekki að láta mitt eftir liggja í að halda þessu landi á floti og mun eyða af fremsta megni...bíóferð, leikhúsferð, veitingastaðaferð..... þetta eru góðar fjárfestingar sem stuðla að góðu skapi sem er algerlega nauðsynlegt um þessar mundir :)

Brostu og allur heimurinn brosir með þér......gráttu og þú verður blautur í framan ;)
Góðar stundir :)

Till next...adios

Í tilefni dagsins

Venjulegur bankastarfsmaður misreiknar sig um 20.000.- krónur árlega.

Ég vildi að Davíð Oddsson væri venjulegur bankastarfsmaður


Till next...adios

Wednesday, October 08, 2008

Útrás

Ég ætla ekki í neina útrás eins og bankarnir, maður er nú aldeilis að fá að finna fyrir þessu einkavæðinga-mikilmennskubrjálæði sjálfstæðisflokksinns og félaga hans!
Nei, ég ætla mér hinsvegar að fá smá útrás!!!!
Fór í búðina áðan, held að fólk hljóti að hafa haldið að ég væri að hamstra fyrir krepputímana, en það var bara orðið svo langt síðan að ég fór í búð að það vantaði bara allt mögulegt...og það kostaði sitt....shitt!
Svo tróð ég öllu saman í 4 poka og skellti í skottið á bílnum, fór út í Húsasmiðju og keypti ól á köttinn og tók svo bensín á bílinn (náði að eyða 24.000 kr. á hálftíma). Þetta allt gekk reyndar óskup pirringslaust fyrir sig...það var ekki fyrr en heim var komið. Fukking drusla (þá meina ég ekki bílinn) var búinn að leggja í bílastæðið mitt og bílar í löngum röðum niður allt bílastæði. Ég var komin hálfa leið niður að löggustöð þegar ég fann stæði! Og þurfti tvær ferðir með troðfulla poka úr bílnum og heim! Mikið afskaplega var eigandi bílsins heppinn að vera ekki nálægur þegar ég var að rogast heim með pokana....og fólk yfirleitt bara heppið að verða ekki á vegi mínum!

En jæja, það tók svo langan tíma að ganga frá vörunum að ég var nú farin að róast töluvert, sem betur fer, þegar strákarnir komu heim ;) Nú er meiningin að reyna að læra eitthvað þangað til ég skelli pylsum í strákana og mér í saumaklúbb :)
Það verður nú gaman :)

Till next...adios

Tuesday, October 07, 2008

Jammogjæja

Mig dreymdi í nótt að ég keypti mér hamstur eða naggrís...hann var stór og feitur og hljóp svo eitthvað í burtu frá mér. Var einnig að spá í að kaupa hvolp, en hætti við það og skellti mér á hamsturinn...fanst það eitthvað gáfulegra á þessu augnabliki.
Einnig dreymdi mig að ísskápurinn minn var tómur, átti bara háfan líter af mjólk og einn líter af AB mjólk en var viss um að ég ætti miklu meira!
Skyldi þessi draumur tengjast eitthvað efnahags/bankamálunum á Íslandi í dag?
Ég bara spyr ;)

Till next...adios

Monday, October 06, 2008

úúúúú...efnahagsástand

Ég þorði ekki annað en að fara inn á einkabankann minn, rétt í þessu, til að athuga hvort "allir" peningarnir mínir væru ekki örugglega þarna ennþá ;) ...jú að megninu til voru þeir það, reyndar búið að draga af mér eitthvað þjónustugjald fyrir enga þjónustu!!!
En það er þá bara vonandi að þetta þjónustugjald stuðli að því að bankinn fari ekki á hausinn :)
Ég er alveg dottinn oní umræðurnar á alþingi og get enganvegin einbeitt mér að því að lesa undir prófið á morgun...svo ef mér gengur illa þá er það fokking ríkisstjórninni að kenna (já, ég er bara ein af þeim sem getur ekki tekið ábyrgð á mínum málum, það er ALLTAF einhverjum öðrum að kenna ef illa fer ;)
Annars ætla ég bara að bjóðast til að geyma pening fyrir fólk sem á of mikið af honum...tek aðeins smávægilega þóknun fyrir ;) áhugasamir vinsamlegast kommentið endilega á bloggið og ég hef samband ;)

Till next...adios

Sunday, October 05, 2008

Dauðasyndirnar

Snilld - frábært - æðislegt...þetta er svona mín gagrýni í mjög stuttu máli á leikverkinu Dauðasyndirnar sem er verið að sýna hjá LA núna. Reyndar er þetta gestasýning frá Borgarleikhúsinu, en hún verður ekkert verri við það :)
Þetta var frábær uppsetning og svaðalega vel leikin...greinilegt að þarna var fagfólk á ferð sem var ekkert að gleyma sér í "of margar sýningar" komplexum, heldur nýttu sér út í ystu æsar hversu vel þau kunnu textann sinn og höfðu vakandi auga með öllu sem gerðist í kringum það!
Ætla ekki að segja of mikið til að skemma ekki fyrir þeim sem eiga eftir að sjá þessa sýningu. Ég mæli amk algerlega með henni :)

Jæja, verð víst að fara að læra, er búin að vera í sveitinni í allan dag...mest að borða og horfa á Liverpool vinna Man.C....jiiiiiiha :)
Svo var maður náttlega að segja bless við Nonna bró sem er að arka af stað til Liverpool með viðkomu í Reykjavík. Óska honum og Kathleen velfarnaðar á nýjum slóðum :)

lesa...lesa...

Till next...adios

Saturday, October 04, 2008

Kreppan er öllum til góðs

Ég var í snilldar matarboði í gær, þar sem niðurstaða umræðna kvöldsins var sú að kreppan væri bara af hinu góða. Hún mindi að lokum leiða til þess að smá þjóðhreinsun verður af þessum sveppum sem þykjast sjórna og ráða öllu....og í næstu kosningum mun vonandi enginn kjósa sjálfstæðisflokkinn ;)

Ég fór í ræktina í fjórða skiptið á fimmtudainn...var svo hryllilega sniðug að fara fyrst á Bautann með bekknum, þar sem ég tróð í mig kjúklingaloku, frönskum og salati...í stuttu máli þá var ræktartíminn erfiður og ég bara fitnaði ef eitthvað var!
Eitthvað var greinilega búið að gera fyrir sturturnar á svæðinu, því síðast þegar ég fór þá rétt lak vatnið úr sturtunni, svo ég þurfti nánast að hlaupa á milli dropanna til að blotna. En í þetta skiptið var krafturinn svo mikill að það lá við að það væri ekkert skinn eftir á mér eftir sturtuna...varð að halda mér í svo ég þeyttist bara ekki oní niðurfallið!
Annars var þetta fínt :)

Mikael kom heim úr skólanum í gær án tösku, án úlpu, án húfu og án leikfimisfata...ótrúlegt að hann skuli ekki gleyma sjálfum sér í skólanum einhvern daginn....ég rak hann með harðri hendi af stað aftur í skólann og sagði honum að sækja það sem á vantaði. Plataði Kristján til að fara með honum...þeir komu svo með flest til baka nema úlpuna...svo ég vonast bara eftir góðu veðri á mándudaginn :)

Well...er á leiðinni í leikhús í kvöld að sjá Dauðasyndirnar...fun fun fun...

Till next...adios

Friday, October 03, 2008

Fyndið :)

Rakst á þessar samræður, sem hafa átt sér stað fyrir nokkru, milli Winston Churchill og Lafði Astor, og finnst þetta fyndið :)

Lafði Astor: "Ef ég væri gift þér myndi ég setja eitur í kaffið þitt."

Winston Churchill: "Ef þú værir konan mín, þá myndi ég drekka það."

Lafði Astor: "Þú ert fullur"

Winston Churchill: "Já, frú. Ég er fullur. En á morgun verður runnið af mér en þú verður ennþá ljót."

He he...

Annars er ég að reyna að lesa, en það gengur nokkuð hægt, en samt örugglega...hehe. Ég fór á styrktartónleika Aflsins í Sjallanum í gærkveldi, það var rosa gaman. Skil ekkert í öllu þessu fólki sem mætti ekki...það var fullt af fínum hljómsveitum og til styrktar góðu málefni. Veit ekki hvort að Akureyringar eru svona menningarlausir...hummm!
Það var líka uppboð á tónleikunum, margt eigulegt boðið upp...ég missti mig aðeins í uppboðinu og keypti forláta eyrnatól...eða Professional Reference Earphones eins og það útleggst á engilsaxneskunni...Þau ku víst vera snilld, en mér gengur hálf illa að láta þetta hanga inn í eyrunum á mér...kanski er ég bara með svona lítil eyru ;/
Jæja, best að lesa meira, er að fara í miðannapróf á þriðjudaginn og á eftir að lesa heilan haug...svo er ég náttúrulega voða upptekin alla helgina, matarboð í kvöld og leikhús og partý annaðkvöld...buzy byzy...:)
Gleðilega helgi :)

Till next...adios

Wednesday, October 01, 2008

Dah!

Ég var að horfa á fréttir núna kl.22:00, ég bara varð að sjá fréttirnar aðallega vegna þess að ég hef ekki haft neinn tíma (eða gefið mér hann) til að læra í dag, og á eftir að læra helling...þess vegna fór ég náttúrulega að horfa á seinni fréttir. (Ekki spyrja mig nánar út í þessa röksemdarfærslu mína, því hún heldur hvorki vatni né vindi).
Það sem vakti athygli mína í þessum fréttatíma var að nú ætlar Akureyrarbær að hækka allar gjaldskrár sínar um A.M.K. 10% (sem eftir mínum skylningi verður ekki minna en 15%...maður er nú farinn að þekkja þetta pakk sem situr í bæjarstjórn)...svo var talað við bæjarstjórann...og eins og vanalega var það aumkunarvert.
Auðvitað þótti henni alveg hræðilegt að velta þessari hækkun yfir á heimilin/fjölskyldur í bænum sem mega náttúrulega ekkert við meiri hækkunum en verið hafa (nema náttúrulega launahækkunum) en þetta var og verður bara svona. Hún hefði næstum geta sagt: "Sorry guys, get ekkert að þessu gert". En ég spyr: Getur þetta fukking bæjarfélag ekki bara tekið á sig hækkanir alveg eins og heimilin í bænum??? Getur bæjarfélagið ekki bara þraukað og tekið lán og hjálpað vaxtarpíndu fólki í bænum??? Á bæjarfélagið ekki að hjálpa í stað þess að velta öllum hækkunum yfir á okkur???
Ég segi bara fuss og svei!
Ef ég væri bæjarstjóri þá væru hlutirnir nú ekki svona, sei sei nei...hér væri allt í blóma og allt annað gert en að hækka útgjöld þeirra sem minnst mega við því :)
Ég er nefnilega svo sniðug ;) og ætla líka að verða bæjarstjóri þegar ég er orðin stór :)

Well...verð víst að senda einhver verkefni frá mér fyrir háttinn...og þá kanski betra að fara að vinna eitthvað í þeim ;)

Á meðan að allt hækkar sem hækkar getur þá getum við þó brosað til hvors annars...það kostar ekki neitt og ber góðan ávöxt ;)
Vá hvað ég er góð í spakmælunum...múhahaha :)

Till next...adios

Tuesday, September 30, 2008

The snow is falling....

Ef mig misminnir ekki, þá var bara kominn hellings snjór og kuldi og alles á sama tíma fyrir ári síðan...svo þótt það sé smá slydda og kuldi úti, þá glottir maður bara við tönn og leitar að vettlingunum sínum :)
Nú á rikið banka...aftur...mér finnst þetta pínu skrítið allt saman, enda hef ég lítið sem ekkert fjármálavit....múhahaha.
Þetta er samt pínu svona eins og ef ég sel bíl...og sá sem kaupir bílinn af mér keyrir hann í klessu nokkrum árum síðar...og heimtar að ég kaupi aftur af honum bílinn!!! (eða amk að ég láni honum fyrir nýjum).
Annars virðist bankinn minn (já já auðvitað á ég banka...) ætla að koma sterkur inn og bjarga málunum. Kaupa bara Glitni og leyfa ríkinu að eiga smá part, bara svona til að það líti ekki út fyrir að landsbankinn eigi meiri pening en seðlabankinn...hehehe!
Þetta er Ísland í dag :)

Till next...adios

Monday, September 29, 2008

Hann á afmæli í dag :)

Hann Kristján Esra minn á afmæli í dag og er (eða verður kl.17:19) orðinn 15 ára :) Þetta er náttúrulega alveg ótrúlegt...og ég sem bara yngist með hverju árinu sem líður ;) hehe...Hér er hann við uppáhalds iðju sína...þessi mynd er nú sennilega tekin í sumar, og hann hefur alveg stækkað helling síðan ;)

Það er allt að gerast í banka/peninga/stjórnmálum landsins núna, virðist vera...allir á fundum og feykilegt fjör. Ég segi nú bara eins og þeir sögðu í spaugstofunni á laugardaginn...hvar eru allir peningarnir sem bankarnir eru búnir að græða síðustu ár??? Nú geta þessir háu herrar sagt að þeir voni að fólk hafi verið "svo fyrirhyggjusamt" að leggja fyrir pening þegar "allir áttu nóg af honum" ...en áttu bankarnir ekki að vera svo gáfulegir? Nei, þeir máttu náttúrulega bara setja allan sinn gróða í að kaupa hluta í félögum og fyrirtækjum sem eru löngu farin á hausinn...og núna eiga bankarnir bara engann pening til að lána Jóni eða séra Jóni!!! Sniðugt á Íslandi ;)
Ég las snilldar pistill eftir Illuga Jökulsson í Fréttablaðinu um helgina, þar sem hann var að benda Dabba dúdda á að hætta bara sem seðlabankastjóri, mikið var ég svakalega sammála Illuga, eins og ég er reyndar oft. Ætti að gera þennann mann að forsætisráðherra ;)hehe...
Well, hætt að bulla og farin í skólann...
Njótið dagsins í dag og bara sem allara flestra daga :)

Till next...adios

Sunday, September 28, 2008

Djamm jamm

Sá fáheyrði atburður gerðist í gær að ég fór á ball...það var nú skrall....:)
Annars var voða gaman, ég var nefilega ekkert á leiðinni neitt og ekki í einum einasta djamm/ball gír, en mér var bara ekki gefinn kostur á að segja nei ;) og sé heldur ekki eftir því að hafa farið...langt síðan að ég hef dansað svona svaðalega mikið. Árni bró var á djamminu með bekkjarfélögum sínum úr Hrafnagilsskóla svo við systkinin vorum í rosa stuði...svo kom Sverrir bró og keyrði okkur heim...krúttleg fjölskyldustund ;)
Svo í dag er ég þreytt og örlítið þunn og er alvarlega að spá í að rölta i búð og kaupa haug af snakki og gosi :)
Einnig þarf ég að reyna að lesa svolítið fyrir skólann...geysp...ég hlýt að hressast ef ég rölti í búðina...góða skemmtun í dag everyone :)

Till next...adios

Friday, September 26, 2008

Lærdómur

Ég var búin að hugsa mér að sitja sveitt og læra í allan dag...svo uppgötvaði ég það að strákarnir áttu bara að eiga frí í dag, svo það er viðbúið að eitthvað verði minna úr verki en til stóð.
Ég skrapp í ræktina í gær, í 4 skiptið, já já, þið komist ekkert hjá því að lesa um ræktartímana mína...hehe...var svo sem tíðindalítið í ræktinni...engir sýniþarfargaurar í þetta skiptið.

Ég er annars voða andlaus eitthvað, var að koma úr búiðinni, er þreytt og nenni ekki að læra...sennilega vegna þessa að það liggur svo mikið fyrir að ég veit ekkert á hverju ég á að byrja!

Kanski ég lakki bara á mér neglurna og sjái svo til hvort ég fyllist ekki dugnaði og andagift ;)

Till next...adios

Wednesday, September 24, 2008

How to Argue and Win Every Time...

Mig bráðvantar þessa bók: How to Argue and Win Every Time eftir G.Spence. Svona ef einhver lúrir á henni þá þætti mér vænt um að fá hana lánaða :)
Hún er sko ekki til á Amtinu og þetta eina eintak sem bókasafn HA hafði er í útláni og Lögberg lánar þessa bók ekki út!!!
Ekki það að ég ætli að sökkva mér niður í rökræður og hafa alltaf betur ;) heldur er meiningin að skrifa um hana ritgerð.
Annars er fullt að gera hjá mér í lærdóm...geysp...drakk mér til óbóta af kaffi í dag, þetta átti að vera svo fínt til að halda mér vakandi, en þá varð mér bara svo illt í maganum að ég þurfti að leggja mig seinnipartinn ;/
Svo er netið eitthvað að stríða mér...kemst ekki inn á msn og ekki inn á Facebook...svo ég sennilega bara neyðist til að lesa skólabók í kvöld ;)
Það var sláturgerð í sveitinni í gær...sennilega var sett nýtt hraðamet í sláturgerð...enda fagmenn á ferð ;) tókum ein 20 slátur á 2 tímum...er bara ekkert að ýkja núna...

Jæja, hef ekki meira að tjá mig um í bili...var jú reyndar á kynningarfundi hjá 8.-10. bekk í Brekkuskóla í morgun, svo var farið til umsjónakennara, ég lét plata mig í bekkjarráð...hugsaði greinilega ekki nógu skýrt á þessum tímapunkti...var sennilega í einhverju sykur sjokki eftir allt kökuátið...en 10.bekkur var að selja kaffi og kökur...og það er bara ekki hugsunarvænn morgunmatur ;) en ég humma þetta einhvernvegin fram af mér ;) hehe...

Till next...adios

Tuesday, September 23, 2008

Amerískt...

Ég ákvað að sinna bandarísku genunum í Kristjáni í gær og fara með hann á Ameríska-daga í Hagkaupum! En hann var búin að biðja um það síðan fyrir helgi...svo heim var komið með sælgætis-epli, eplakanil-muffins og einhvern hræðilega vondan djús í risa flösku, ásamt öðru eðlilegu fæði ;) kjúllabitum og svoleiðis :) Það er nú aldeilis gott að gelgjan fái smá nasaþef af þessum hluta uppruna síns svona eins og einu sinni á ári ;)
Annars er hann orðinn svo hryllilega duglegur að vakna á morgnana, alveg sjálfur, að það hálfa væri nóg! Þegar hann loksins tekur sig til, þá líka vaknar hann fyrir allar aldir eða kl.06:10 og ég er sum sé vöknuð við hann ca. 06:11 en þá er hann að brasa við að fá sér morgunmat í eldhúsinu og það fer ekki hljóðlega fram. En auðvitað á maður ekki að kvarta...það sem áður tók mig u.þ.b. 45 min að koma honum á fætur, tekur hann sjálfan 1 min. :) Vona bara að hann haldi þessu áfram sem allra lengst :)

Ég náði þeim áfanga í gær að fara í 3 skiptið í ræktina, svo ef ég gefst upp núna þá hefur tíminn ekki kostað nema 15.000 kr. ;) hehe...nú verður maður bara duglegur og kemur út í plús :)
Annars held ég að það sé ekkert hætta á að ég nenni ekki í ræktina, mér finnst þetta nefnilega bara pínu gaman...svo er svo mikið af spaugilegu fólki þarna. Í gær var t.d einn sem sennilega var kraftlyftinga stússari, því hann var með sæmilega bumbu og svaka grifflur og labbaði framhjá tækjunum reglulega (var sennilega inn í horni þar sem eru bara lóð og jötna dót). Mér fannst aðallega fyndið hvað hann var alltaf að rölta þetta fram og til baka...held að hann hafi kanski bara pínu verið að sýna sig með flottu grifflurnar sínar ;)
Svo var þarna líka einhver ofurkrafta kona...var búin að sjá hana hamast inn í jötnahorninu í lóðum, svo kom hún og stökk í eitt tæki rétt hjá mér og dróg að sér einhverja stöng nokkrum sinnum af miklum móð. Ég auðvitað ætlaði líka að prufa sama tæki og settist og reif í stöngina...en hefði nú sennilega fyrr rifið vöðva en að rífa upp þessi lóð sem héngu á stönginni!!! Var ekki pinninn í einum 60 kg. Þegar ég var búin að setja pinnann í 40 þá rétt drullaði ég stönginni að mér...en ekki meira en svo ;)
Ég held samt að ég vilji ekkert verða svona ofurkrafta kelling...fínt að geta opnað krukkur nokkurnvegin hjálparlaust...bið varla um meir ;)

Jæja, þarf að fara að drífa mig í skólann...svo í sláturgerð...bissý Krissý :)

Till next...adios

Sunday, September 21, 2008

Partýstúss og Skriðjöklar

Þar kom að því að ég færi í partý!
Gústa bauð gömlu og nýju eldhúsliði í partý í gær og þar var náttúrulega vel veitt til hægri og vinstri :)
Ég lét auðvitað ekki mitt eftir liggja í að eta, drekka og tala...mest tala samt!
Held að ég hafi ekki átt mikið eftir ósagt eftir partýið hjá Gústu, því ég talaði svo hryllilega mikið...hún verður sennilega að reyna að halda annað partý svo að hinar geti komist að líka ;) hehe...
Svo tókst mér að draga stuðboltana Evu og Svanhvíti með á hótel KEA þar sem Skriðjöklarnir voru að spila...það var fínt, dansaði smá og drakk smá, gekk svo heim og það gekk vel :)
Við vorum náttúrulega svo miklar prinsessur við gellurnar að við bara gengum inn á ballið þótt við værum miðalausar og allt...en við vorum bara svo glæsilegar ;) tíhí.
En ég entist nú ekki alveg allt ballið...veit ekki hvort ég var svona þreytt eftir að hafa hlaupið um "öll fjöll" fyrr um daginn...eða eftir að hafa talað frá mér allt vit í partýinu ;) en eitthvað var það!

Í dag er ég líka búin að vera þreytt og löt...og ætla að auka enn meira á leti mína með því að panta pizzu í kvöld :)

Mér reyndar tókst að láta Kristján taka mynd af mér fyrir málstofuverkefni í fyrramálið, en við áttum að taka myndir af okkur og reyna að ná til áhorfandans og vekja upp umræður og eitthvað blabla...best að henda inn myndinni...augnablikk...here it is :)
Fyrirmyndin er sum sé Frelsisstyttan ef einhverjir hafa ekki fattað það ;) en hugmyndin er að túlka togstreitu kvenna við að sinna heimilisstörfum, vera flottar og fínar og vera einnig hlaupandi upp um öll fjöll :)
Ég held á bókinni Örvænting eftir Stephan King í annari hendinni og pizzuskera í hinni ;) en það er svona kyndill nútímakvenna ;) hehe...

Leti er í lagi...stundum ;)

Till next...adios

Friday, September 19, 2008

Fool for Love

Ég fór í leikhús í gær og sá "Fool for Love" sem var fín sýning sem hafði þó einn stóran galla.
Sá galli er KK, sá kappi er aldeilis ljómandi góður söngvari og lagasmiður, en leikari er hann ekki og hefur ekki meiri hæfileika á því sviði en fuglahræða í roki. Það vakti furðu mína að þessi ágætu lög hefðu ekki bara verið leikin af bandi (þetta litla sem hann spilaði "læv" þar að segja) og fenginn "alvöru" leikari í hlutverkið. Ég sá alveg fyrir mér Þráinn Karlsson eða Árna Tryggvason...hefði verið snilld að sjá þetta hlutverk amk leikið af manni sem getur leikið. Hannes Örn Blandon hefði líka rúllað þessu upp, og hann kann líka á gítar ;) hehe....Jæja, best að blammera ekki KK í spað. Hinir 3 leikararnir sem ég man ekkert hvað heita (gleymdi alveg að kaupa mér leikskrá) voru fínir, samt hafði maður á tilfinningunni stundum að þeir væru búnir að leika þetta svo oft, og kynnu rulluna sína svo vel, að stundum var full mikil værukærð yfir þeim. Hefði viljað halda spennunni allan tímann, það var eins og þau dyttu út stundum. En þetta var alveg fínt, ekki eins gott og "Killer Joe" en ég sé alls ekkert eftir því að hafa farið í leikhúsið...alltaf gaman í leikhúsi :)

Annars er lítið að frétta, ég fór í sveitina á miðvikud. að hjálpa til við smölun og frádrátt sláturlamba. Á eftir að bera þess merki enn um stund, þar sem lærin á mér eru þakin marblettum, meira stórum en smáum. Ætlaði í ræktina í gær, en ákvað að láta það bíða aðeins meðan mesta marið væri að jafna sig...kanski reyni ég að ýta sjálfri mér af stað í dag ;)

Jæja, ætli ég reyni ekki að lesa eitthvað...geysp...stefnir í brjálaða djamm helgi um helgina, Pub-Quis í kvöld (ef ég hundskast af stað) og brjálað partý annaðkvöld...

Góða helgi gott fólk :)

Till next...adios

Wednesday, September 17, 2008

Að hella úr skálum...

Ég er algerlega búin að ákveða að fara aftur í ræktina á morgun...ætlaði í dag, en þar sem ég fer í sveitina seinnipartinn að reka inn og draga úr sláturlömb, þá verð ég náttúrulega að hvíla mig svolítið mikið í dag! ;)
Ég fór á fund í gærkveldi hjá sundfélaginu Óðni, þar sem Mikael er byrjaður að æfa sund, þá verður maður nú að reyna að sýna áhuga og stuðning....Það er skemst frá því að segja að fundurinn var hrútleiðinlegur (með fullri virðingu fyrir hrútum) og var mér að engu gagni. Það var aðallega verið að tala um þau börn sem eru farin að keppa og dúdderí varðandi það. Geysp, hvað ég var fegin þegar þessi fundur var búinn...það vakti reyndar furðu mína hversu fáir foreldrar voru þarna, miðað við að þetta er víst svo vinsælt að það eru langir biðlistar af krökkum sem langar í sund!
Svo var annar fundur í morgun, kynningarfundur fyrir 2.og 3. bekk í Brekkuskóla. Eitthvað var það nú svipað gaman...engar nýjar fréttir, en svo sem allt í góðu að kíkja í skólann og svoleiðis. Mæting foreldra var ekkert til að hrópa húrra fyrir heldur, eða u.þ.b. helmingur.
Svo á víst að fara að skylda mann til að koma í skólann og vera inn í bekk eða í frímínútum í 2 klst. á önn...(eða vetri, man það ekki). Mér finst þar reyndar frekar kjánalegt, finst í góðu lagi að kíkka við, en að vera píndur í það...hummmm...ekki þarf kennarinn hans Mikaels að koma í vinnuna til mín ;) hehe...nú geri ég alla kennara ættarinnar brjálaða ;)

Vaknaði við voða mikið rok í nótt...fór fram og þar sem stofuglugginn, sem snýr í suður, var opinn upp á gátt þá voru öll laufblöð og sandur bæjarins komin inn í stofu til mín...ekkert spes gaman, reyni kanski að ryksuga þegar ég nenni ;)

Jæja, ætli ég dembi mér ekki í verkefni sem ég er búin að humma fram af mér í allan morgun...hafið það gott....rok(-k) og ról :)

Till next...adios

Monday, September 15, 2008

Ræktin

Í dag fór ég í líkamsrækt.
Það er flóknara heldur en að fólk heldur.
Ekki sjálf athöfnin, heldur að undirbúa sig undir það að fara í ræktina.
Ég byrjaði á því að reyna að finna mér föt til að fara í.
Íþróttabuxur: Ekki gat ég farið í hlaupabuxunum mínum, því þær eru ansi þröngar, en þegar maður er á hlaupum er það í lagi, en ekki þegar maður er í nágvígi við annað saklaust fólk! Það endaði með því að ég rændi íþróttabuxum af Kristjáni, svörtum og víðum Nike :)
Bolur: Þar versnaði í því. Ég á bara gamla ljóta slitna boli. Ekki gekk nú að fara í "Reykjavíkurmaraþon" bolnum mínum,(frá í fyrra) þá hefði ég eflaust virkað of "pró" sem gekk náttúrulega ekki í fyrsta tíma...maður má ekki gefa saklausu fólki ranga mynd af sér. Ekki gekk að fara í kvennahlaupsbolnum fjólubláa, það var bara eitthvað svo of kellingalegt! Sorrý, get bara ekkert að því gert, þetta eru flottir bolir, en ekki í fyrsta tíma í ræktinni. Að endingu rændi ég hvítum bol af Kristjáni- Addidas :)
Skór: Ég á náttúrlega þessa forlátu góðu hlaupaskó, en þar sem þeir eru úti-hlaupnir og skítugir, þá gekk það ekki...fann eldgamla skó (sem ég notaði þegar ég fór í ræktina með Gústu fyrir ca.10 árum, og entist í ca. 10 tíma ;) dustaði rykið af þeim og reyndi að ná af þeim mesta kattarhárinu og þá var ég bara nokkuð klár. Þessi ferill tók samt u.þ.b. 20 min.
Held að það hafi verið einfaldasti hluti ræktarinnar að kaupa blessaða kortið og eyða þar með langt um efni fram...en maður verður nú að reyna að fíla kreppuna ;)
Svo fór ég í ræktina sem tók mig um 45 min. Ákvað að vera nú ekkert að ofgera mér og mínum strengjum :)
Svo þarf náttúrulega að þvo öll þessi föt fyrir næsta tíma...þetta tekur allt sinn tíma ;)
Þetta er ég, voða hissa á hvað ég var dugleg í ræktinni ;)

Ræktum sjálf okkur :)

Till next...adios

Strengir

Það er best að hætta að hneikslast á bloggleti annara og skrifa bara sjálfur ;)

Það bar svo við um þessar mundir, eða nánar tiltekið síðustu helgi, að smala átti saman öllu fé á fjalli...og var það gert, nema náttúrulega þær sem urðu eftir, þær urðu eftir.
Á föstud. skrapp ég í sveitina og smalaði Kaupangstúnið með Sverri bró og Friðriki Inga frænda, gekk það með ágætasta móti, ég þurfti amk ekki að hlaupa mikið, þótt Sverrir hafi þurft að hlaupa talsvert ;)
Á laugard. var svo fjallið smalað, frá Fiskilæk að Bíldsá og gekk það sæmó, frekar var féið tregt til túns að taka og vildi heiðar heimsækja enn um hríð...(alveg að farast úr skáldmæli og er að reyna að auka við málskrúð mitt...vona að fólk fyrrist ekki við;).
En fyrir rest komum við kindunum í hús og eftir smá matarhlé, þar sem einnig var horft á seinnihálfleik Man.United og LIVERPOOL, þar sem Liverpool vann náttúrulega ;) þá var farið að draga í sundur. Gekk það bara ljómandi.
En svo voru náttúrulega þeir sem fæst fé eiga en vilja stjórna mest, búnir að færa til smölun í Fnjóskadal, svo að ég og Sverrir stukkum þangað (eða fórum á pikkuppnum) til að draga í sundur þar. En svo skemmtilega vildi til að kindabílsbílsstjórinn gat komið þá um kvöldið og við náðum að troða öllu okkar fé (eða Sverris) á bílinn. Svo þótt við værum ekki að koma í sveitina fyrr en klukkan var farin að ganga ellefu, þá vorum við nú bara sæmilega ánægð yfir því að þetta væri búið :)
Svo ég bruna af stað í bæinn með Mikael Huga og Guðrúnu Mist innanborðs, en þá vill nú ekki betur til en svo að ég keyri á heimaganginn, hana Esmeröldu litlu :( Hringi alveg skelfingu lostin í Sverrir, sem kemur hlaupandi og bjargar geðheilsu minni...ég gat nú reyndar ekki mikið gert, þar sem lambið kom stökkvandi út úr háu grasi og nánast hljóp á bílinn...en samt leiðinlegt að kála lambinu sem ég hafði mikið fyrir að halda lífinu í í vor...en þessu verður víst ekki breytt.
Í gær var svo frekar rólegur dagur, ég skrapp í sveitina og náði í nokkrar kindur með Sverri, sem voru á Króksstöðum, en fór svo í bæinn og lagaði pínu til...og planaði heil óskup...nú verður herbergið hans Kristjáns tekið í frumeindir fljótlega :)

Reyndar vour merkilegustu fréttir helgarinnar þær, að ég KEYPTI MÉR KORT Í LÍKAMSRÆKT á föstudaginn !!! Er reyndar ekkert farin að nota það, þar sem ég er alveg að farast úr strengjum eftir átök við kindur, en það er best að drolla ekki lengur og drífa sig af stað :)

Till next...adios

Wednesday, September 10, 2008

Jón Gunnar krútt :)

Ákvað að skella hér inn bréfi, sem fer í sveitapóst Eyjafjarðarsveitar nk.laugardag, en það er varðandi hann Jón Gunnar sæta frænda :) Þar sem ég held að margir sem kíkja hér inn á bloggið (þótt ég hafi ekki hugmynd um fjölda þeirra) kannist við kauða og vilja gjarnan leggja sitt af mörkum til að hjálpa honum. En hér er bréfið:

Veitum Jóni Gunnari lið !!
Eins og flestir vita þá varð Jón Gunnar Benjamínsson á Ytri Tjörnum fyrir alvarlegu slysi fyrir tæpu ári og er eftir það bundinn við hjólastól. Jón Gunnar hefur sýnt ótrúlegan dugnað við að koma sér út í lífið á nýjan leik en betur má ef duga skal. Hann er nú að fara í kostnaðarsama endurhæfingu til Frakklands þar sem vonir eru bundnar við að ný meðferð geti hjálpað honum til að ná frekari bata.

Jón Gunnar hefur um árabil verið gleðigjafi í lífi okkar sem búum í þessu sveitarfélagi og aldrei horft í tíma eða fyrirhöfn þegar þurft hefur að taka til hendinni. Nú höfum við tækifæri til þess að greiða örlítið inn á þessa skuld. Ef við tökum okkur saman og leggjum hvert og eitt örlítið af mörkum getum við létt undir með honum í baráttunni sem er framundan.

Hært er að leggja inn á reikning sem hefur verið stofnaður í hans nafni í Landsbankanum, rekningsnúmer: 0162-05-270209, kennitala 270375-3679. Við hvetjum ykkur til þess að koma þessu einnig á framfæri við þá sem ekki fá sveitapóstinn okkar og þið vitið að vildu leggja málefninu lið. Ef fólk vill hafa annan hátt á er hægt að hafa samband í síma 463 1236 eða 868 7121 og við nálgumst framlagið til ykkar.

Vinir og velunnarar Jóns Gunnars


Með fyrirfram þökk fyrir ykkar framlag :)

Till next...adios

Tuesday, September 09, 2008

Af handbolta og heimsendi

Mikael Hugi kom galvaskur heim úr skólanum í gær, dróg upp þetta fína plakat af Ísl.handboltalandsliðinu (áritað og alles) og tilkynnti mér það að hann ætlaði að æfa handbolta!!!
Ég tók nú ekkert alltof vel í það, þar sem drengurinn er nýbyrjaður að æfa sund og einhverra hluta vegna þá finnst mér bara alveg nóg að 7 ára börn æfi bara eitt í einu (bara einhver sérviska í mér...náttlega). En ekki vildi hann láta það stoppa sig, og sagði það ekkert mál að æfa 4 daga vikunnar, 2x sund og 2x handbolta...ég var svona næstum orðin fortöluð um þetta og á fremsta hlunni með að samþykkja allt saman, þegar ég rak augun í það að strákarnir í hans aldursflokki æfa mánudaga og fimmtudaga, eða nákvæmlega sömu dagana og sundið er...og næstum á sama tíma, eða handb.æfingunum lýkur á sömu mínútu og sundið byrjar. Þannig að ég slapp fyrir horn, og ekki verður minst á handbolta hér á þessu heimili í nokkra daga....svo vona ég bara að hann jafni sig á þessu :) Plakatið fína er samt komið upp á vegg, rækilega límt með límbandi...þarf sennilega bara að mála yfir það eftir einhver ár ;)

Kristján tilkynnti mér hinsvegar, þegar ég kom heim úr skólanum í dag, að heimsendir yrði á morgun! Ekkert voða gaman að koma heim og fá þær fréttir, ekki einu sinni komin úr útiskónum. Reyndar fór hann að lesa sér til um þetta á netinu (og er kanski enn að því) og sagði nokkru seinna að það væru 0% líkur á heimsendi á morgun, því að þetta "svarthol" eða eitthvað sem "kremur öll atóm" byrjar ekki að virka fyrr en 21.október eða svo...
Þetta var víst rætt fram og aftur í skólanum hans í dag...ekki gott að fylla gelgjuhugann heimsendahugsunum, nóg er nú að gerast þar samt ;)

Jæja, Mikael sofnaði í sófanum...(var samt ekki á neinum æfingum í dag) svo ég er að spá í að reyna að vekja hann og gefa honum og Kristjáni kvöldmat, hengja upp úr þvottavélinni og kanski lesa eitthvað í skólabókum...Verum nú góð við hvort annað :)

Till next...adios

Monday, September 08, 2008

Réttar réttir

Dreif mig og strákana eldsnemma á fætur í gærmorgun og svo brunuðum við austur í Fnjóskadal, eftir morgunmat og eftirrekanir ógurlegar.
Dásamlegt veður, sól og blíða og fullt af kindum í Illugastaðarétt...sem allir aðrir áttu! Sjaldan eða aldrei höfum við (ok, Sverrir bró.) átt svona fátt fé á réttinni eða tvær fullorðnar og fjögur lömb ;) En þetta var nú samt bara gaman og næstu helgi verða svo göngur og meiri réttir...og hellings fleira fé til að draga ;)

Ég á við alvarlegt vandamála að stríða, veit ekki alveg hvernig ég á að höndla það. Ég þarf nefnilega að lesa heila djö...kássu af bókum, greinum og þh. fyrir skólann, sem væri kanski í lagi ef ég yrði ekki alltaf svo hryllilega þreytt þegar ég er að lesa...sem endar yfirleitt (næstum undantekningalaust) með því að ég sofna!
Jafnvel þótt ég sitji á hörðum stól með kaffibollann límdan á hendina...þá sofna ég samt!
...var ég ekki eitthvað að skrifa um þetta á síðasta skólaári líka...hummm!
Sé fram á að sofa mikið í vetur ;)

Jæja, ætla að halda áfram að lesa fyrir kynjafræði, reyna að byrja að lesa fyrir mannfræðina og elda mat í leiðinni...buzy buzy days :)

Till next...adios

Saturday, September 06, 2008

Sláturhús 5

Vaknaði í morgun við fyrsta hanagal...eða við síðasta þrastartíst! Þetta var alveg eldsnemma, löngu fyrir fyrstu mjaltir og allt. Stökk fram í eldhús, sá nokkra fiðurskúfa á flögir, grimma ketti dansa stríðsdans í kring um öskrandi þröstinn. Ég næ í sóp og sópa kattaróhræsunum í burtu, tek skelkaðan fuglinn og hendi honum út um eldhúsgluggann, hann virðist vera í lagi, þótt ekki flygi hann langt. Ákvað að geyma að ryksuga upp þetta smá fiður þar til dagrenning væri opinberlega viðurkennd, og skreið aftur upp í rúm.
Var vakin aftur miklu seinna af skelkuðum unglingi. Hann sagði að það væri allt út í fiðri og blóðslettum á ganginum og eldhúsinu. Þar sem unglingurinn er mjög dramatískur, þá hélt ég að hann væir bara að gera mikið úr þessum örfáu dúskum á eldhúsgólfinu. Reyndist ekki vera raunin. Kattarófétin höfðu farið aftur og náð sér í annan þröst, eða þann sama, (gleyndi að merkja þann sem ég henti út) slátrað honum á hrottafenginn hátt svo að fiður og blóðslettur voru út um allan gang og allt eldhús, hafa samt farið mun hljóðlegar í þetta skiptið. Svo lá næstum ónartaður fuglinn við matardallinn.
Unglingurinn ryksugaði, ég fór út með líkið og henti því í tunnuna (ekki endurvinnsluna samt) og unglingurinn þvoði líka upp blóðsletturnar. Ætla í tónabúðina og kaupa risa stjóra bjöllu og hengja um háls kattarins. Er líka að spá í að koma á laggirnar dún og fiðurhreinsun og reyna að græða eitthvað á þessu...

Till next...adios

Friday, September 05, 2008

Lesleti

Er búin að vera löt hér inni undanfarið, enda svo sem ekki haft mikið að segja...og hef ekki enn ;)
Skólinn náttúrulega byrjaður á fullu og ég engan vegin komin í lestrar-lærdóms gírinn...vona að það fari nú samt að bresta á ;)

Aðafundur Freyvangsleikhússins var sl. miðvikudagskvöld, þar náði ég að koma mér út úr stjórninni og ætla nú bara að njóta þess að kvabba í nýrri stjórn...hehe...

Svo eru Illugastaðarréttir á sunnudaginn...svo hauststörfin eru að bresta á af fullum þunga ;)

Mikael er voða duglegur við að skilja eftir fötin sín og annað lauslegt í skólanum eða í sundi, svo ég fór í göngutúr með hann í dag og fann tvennar peysur ;) kom við í Vaxtarræktinni og spurði um verð á árskortum...þetta er amk fyrsta skrefið í að koma sér í ræktina...búin að vera á leiðinni þangaði í ...hummm....einhver ár ;)
Núna er bara að láta vaða...verð að gera eitthvað, ligg bara á meltunni og hreyfi mig ekki neitt...ekki get ég hlaupið fyrr en hnéið á mér "lagast" :) Svo nú á bara að taka á því!!!

Jæja, búin að ausa full mörgum loforðum núna út á alheimsnetið ;) læt þetta duga í bili...

Till next...adios

Monday, September 01, 2008

Sölukaup

Ætla að byrja á að óska sjálfri mér til hamingju með að hafa selt gamla grána (sum sé gamla bílinn, Renault 19 módel 1990) á 30 þús. kall, í dag :)
Þessi peningur dvaldi reyndar stutt við í veskinu, því ég fór nánast beint í BIKÓ og keypti baðvask og blöndunartæki fyrir sambærilega upphæð ;)
Kom einnig í fyrsta skipti inn í Europrice og það er búð sem kemur skemmtilega á óvart...þarna er bara hægt að kaupa allt milli himins og jarðar (ekki gæludýr samt) á ótrúlega óokruðu verði :) þarna náði ég sum sé að eyða meiri pening ;)...Ég kom nefnilega bara miklu í verk í dag, nema náttúrulega að lesa allt sem ég á að lesa fyrir morgundaginn...sem er alveg slatti ;/
Mikael er á sínu fyrsta sundnámskeiði, eða sinni fyrstu sundæfingu...byrjaður að æfa sund með Óðni, vona bara að það gangi vel og hann verði næsti Michael Phelps ;) Nafnið hlýtur amk að vera ágætis byrjun ;)
Jamm, jamm...þarf að fara og gera ofurinnkaup á Kristján, sundskýlu, leikfimisföt og skó...það er alltaf eitthvað...ótrúlegt hvað lappirnar á drengnum hafa stækkað í sumar!!! Allt skótau orðið of lítið...
Svo er leynifélagsfundur í kvöld....ekki lesa þetta...rosa leynilegt...usss..usss.....;)

Hafið það gott í haustblíðunni...já, það er komið haust...liggur í loftinu....en það þarf ekkert endilega að vera slæmt...göngur og réttir....sláturgerð og gæsamergð ;)

Till next...adios

Thursday, August 28, 2008

My mind is clear ;)

Ég er búin að vera hálf heyrnarlaus í nærri tvær vikur (fyrst ég er hálf sjónlaus þá var þetta lítið að bögga mig) en ákvað loks að gera eitthvað í því í gær og skrapp til læknis. Í stuttu máli var hausinn á mér fullur af skít...eða eyrað af merg...og það var skolað út í snarhasti. Mér leið pínulítið eins og það væri verið að sprauta vatni lengst inn í hausinn á mér og núna er ég sum sé með hreinan huga...no dirty thougts now ;) reyndar var eyrað sem ég heyrði með líka fullt af merg, og sá mergur var svo pikk fastur að ég þarf að hella olíu í eyrað á mér til að losa eitthvað um það...og mæta svo aftur hjá góða lækninum í næstu viku. En þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig mínar hugsanir eru í dag...búið að smúla á mér heilann og með hausinn fullan af extra virgin ólífuolíu ;)

Strákarnir okkar mættu til landsins í gær, eins og sennilega allir vita, bein sjónvarpsútsending í 5 tíma var kanski aðeins ýkt, en svo sem allt í lagi, maður gat þá bara gert eitthvað gáfulegt á meðan. Annars er þjóðarstoltið alveg að sliga mann þessa dagana, það komu bara næstum tár þegar Óli forseti hnýtti stórriddarakrossinn um háls Óla heimspekings. Yfirmáta stórkostleg stund.
Ég gerði nú ekki beint fræðilega úttekt á því, en í fljótu bragði fanst mér eins og konur allra handboltakappanna væru ljóshærðar, og fór þá að hugsa um að konur flestra "frægra" kappa, t.d. íþróttamanna, Formúlu gauka og allsskonar dúdda, eru ljóshærðar! Og þar af leiðir að eina leiðin til þess að ná sér í "frægan" mann er að vera ljóshærð...
Endilega reynið nú að vera eitthvað ósammála þessum fræðum mínum ;)

Till next...adios

Wednesday, August 27, 2008

Fastar skorður

Nú eru strákarnir líka byrjaðir í sínum skóla, svo allt er að færast í fastar skorður, sem veitir hreint ekki af eftir stanslausar slæpur sumarsins...

Kristján byrjaði reyndar skólaárið (það tíunda!!!) á því að fara út í Hrísey með bekknum sínum, þau fóru frá skólanum í morgun og koma ekki aftur fyrr en á morgun. Svo hann þurfti nesti og viðlegubúnað fyrsta skóladaginn sinn...fannst reyndar með ólíkindum hvað drengurinn vildi taka með sér mikið nesti, hann er nú vanur að borða lítið sem ekkert, en tók núna með sér nesti sem ég gæti trúað að dygði honum í viku! Hann verður sennilega orðinn stór og sterkur þegar hann kemur heim á morgun ;)

Aftur á móti byrjaði Mikael sinn skóladag þetta haustið, á því að reyna að smygla leikjatölvunni sinni í skólann...sem tókst nærri því, bara fyrir einhvera tóma tilviljun ákvað ég að taka litina hans upp úr töskunni og sá þá blessaða tölvuna...hélt honum smá fyrirlestur en held að honum hafi verið nokk sama...bara svekktur yfir því að planið hafi klikkað hjá sér!
Hef það einhvernvegin á tilfinningunni að hann verði ekki lengi að koma sér í einhver vandræði í skólanum...einnig skyldi hann ekkert í því hvað væri verið að senda svona litla stubba í skólann, eins og fyrstu bekkinga! Þetta væri nú óttaleg smábörn sem hefðu lítið þangað að gera...minn svolítið fljótur að gleyma að hann var í þessum sömu sporum fyrir réttu ári síðan!


Þreyttir bræður ;) það er ekki alltaf svona rólegt í stofunni hjá mér ;)

Till next...adios

Monday, August 25, 2008

Skólinn byrjaður

Þá er alvara lífsins tekin við á ný eftir slæpur sumarsins og skólinn byrjaður ;)
Það er annars gaman að vera byrjaður aftur, gaman að sjá hvað allir koma yndislega óbreyttir undan sumri, enda gott mál að halda svona frábæru fólki eins og það er :)
Ég er líka í einhverjum bjartsýnisgír eftir sumarfríið og er að spá í að taka 18 einingar nú á haustönn...bara svo margt sem mig langar að taka og erfitt að velja...og þá velur maður bara allt :)
En þetta kemur allt í ljós, ef þetta verður of mikið, þá segi ég mig bara úr einum áfanga. Svo held ég að það geti alltaf komið sér vel að eiga auka einingar í handraðanum ;)

Jæja, er að hugsa um að kíkja í bók...spurning hvort það verður skólabók eða reyni að klára "Skuggi vindsins" eftir Carlos Ruiz Zafón, á ekki eftir nema rétt um 500 bls. og hreinlega veit ekki hvort ég hef tíma fyrir hana þegar skólinn verður byrjaður á fullu ;)

Till next...adios

Sunday, August 24, 2008

Silfur

Til hamingju Ísland með glæsilegan sigur handboltalandsliðsins...já það er sko sannarlega sigur að fá silfurverðlaun á ÓL!
Og skemmtilegt að verðlaunin séu í sama lit og nýji bíllinn minn ;) tí hí... jamm...silfur er fallegt :)
Ég meira að segja reif mig upp í morgun og horfði...dottaði nú samt aðeins yfir seinni hálfleiknum, en það kom ekki að sök.

Nú er svo skólinn að byrja í fyrramálið hjá mér, ég hlakka bara mikið til og það verður gaman að sjá allt skemmtilega fólkið sem ég er með í bekk aftur eftir langt hlé...


Skellti inn einni mynd af honum Mikael Huga krúttí púttí...er að fara að horfa á dvd með honum og Kristjáni...hver stenst svona biðjandi augnaráð???

Hafið það gott... og munið að :"Ísland er stórasta land í heimi" ;)

Till next...adios

Friday, August 22, 2008

Nýji kagginn :)

Nýji bíllinn :


og aftur nýji bíllinn ;)

eins og glöggir lesendur sjá er númer bílsins UO-580 en þessi skammstöfun stendur fyrir "ungleg ofurkona" eða "ungleg ofurgella" get bara ekki ákveðið mig hvort passar betur við mig ;) hehe...
Ábendingar vel þegnar ;)

Íslendingar eru aldeilis að gera það gott í handbolta á ÓL...ég sá síðustu 5 min. af leiknum í dag, þegar þeir rúlluðu yfir Spánverja ;) var með strákana í viðtölum í skólanum, ekki góð tímasetning en slapp til. Nú verður maður bara að rífa sig upp eldsnemma á sunnudagsmorguninn og horfa á úrslitaleikinn...eða bara vera ekkert farinn að sofa...er náttúrulega að fara í mjög merkilegt brúðkaup kvöldið áður :)

Farin að sópa upp glerbort...tveir skylmingaguttar voru að rústa ganginum :/
Áfram Ísland :)

Till next...adios

Wednesday, August 20, 2008

Í berjamó

Að tína tína ber...



Mér tókst að draga strákana með í berjamó í dag...held að þeim hafi ekki leiðst það neitt sérstaklega þegar til tók. Annars var svolítið sniðugt hversu ólíkir þeir bræður voru í tínslunni. Mikael tínir ber eins og herforingi...bara moka moka og ekki svo nauið þótt það slæðist með dálítið mikið af óþarfa greinum og stráum. Kristján aftur á móti fór mjög varlega í þetta, grandskoðaði hvert einasta ber og gerði þetta af mikilli nákvæmni...þurfti ekki mikið að hreinsa hans ber, en Mikael var ólíkt afkastameiri ;)
Svo voru köngulóavefir líka að þvælast eitthvað fyrir Kristjáni, en hann gat ómögulega tínt ber þar sem þeir voru...er jafn illa við vefinn eins og köngulærnar ;)
Það hvarflar stundum að mér að þeir geti bara ekki verið aldir upp á sama staðnum og af sömu manneskjunni...hummm...en það bjargar því að þeir eru báðir sætir og góðir eins og ég ;)

Fór í bókaleiðangur í Eymundsson í dag, tók með nokkrar gamlar bækur síðan í fyrra á skiptibókamarkaðinn, ekki vildu þeir nú taka nema 3 af þeim...alltaf verið að skipta um bækur...en mér tókst að skila 3 og kaupa 3 :) annars var svo brjálað að gera að ég þurfti að bíða í biðröð í hálftíma í skiptibókunum...til að skila sum sé!
Nú er ég bara að bíða eftir að skólinn hjá strákunum setji inn innkaupalista fyrir 10.bekk svo ég geti keypt skóladótið fyrir strákana, nenni ekki margar ferðir í bókabúð...

Till next...adios

Áfram Ísland :)

Ég reif mig náttúrulega upp eldsnemma í morgun og studdi rækilega við bakið á strákunum okkar í Íslenska handboltalandsliðinu ;) Hefur eflaust verið spaugileg sjón að sjá mig aleina hálfsofandi fyrir framan sjónvarpið að öskra "JESS" og "ÁFRAM SVONA" út í morgunsárið.
Áfram Ísland...og taka svo bara restina ;)
Var annars búin að spá Ísl. 4. sæti...en eitt af þremur efstu væri nú snilld :)

Komum við hjá Goðafossi um daginn...Mikael er svolítið berjablár þarna ;)

Þú átt að vernda og verja,
þótt virðist það ekki fært,
allt, sem er hug þínum heilagt
og hjarta þínu kært.

Fann þetta í krotað á bréfsnifsi þegar ég var að laga til, veit ekki hver höfundur er, en held að ég hafi fengið þetta sent í sms einhvertíman fyrir margt löngu...krúttlegt :)

Þetta er næstum eins krúttlegt:

Þetta er lítið og lélegt bú
og langt á milli bæja
drukkinn bóndi og digur frú

drullug börn o jæja.


Veit heldur ekki eftir hvern þetta er...fann þetta í sama draslinu og hitt...hehe, nú get ég hennt þessu drasli ;)

Það er sól og blíða...er að spá í að draga strákana með í berjamó...með góðu eða illu ;)

Till next...adios

Monday, August 18, 2008

Brokkgengur skokkari

Ég hnýtti á mig skokk skóna "eldsnemma" í morgun í sól og blíðu og hljóp af stað...en svo fór að halla undan fæti, eða eins og er sagt um íþróttamennina: "það tóku sig upp gömul meiðsl" ég fékk í hnéið og er búin að haltra um eins og gömul hæna í allan dag!
Spurning um að leggja bara hlaupaskóna á hilluna og reyna bara að fara í ræktina í vetur og styrkja þetta blessaða hné eitthvað...ekki dugar þetta svona kona!

Ég gleymdi annars að segja frá því um daginn, að á ferðalagi mínu til höfuðborgarinnar, sum sé bæði til og frá Rvk. þá varð ég vitni af þvílíkum glanna-rugl-akstri að ég bara á ekki til orð. Það eru greinilega margir hálfvitar á ferð um vegi landsins, fólk tekur framúr við fáránlegar aðstæður bara til að koma 1 min fyrr á áfangastað...ég hugsa að það sé frekar einskær heppni en hitt að ekki skuli vera fleiri slys á þjóðvegum landsins, og þá sérstaklega þessum spotta milli Rvk og Ak.
Voðalega væri nú gaman ef fólk æki bílum sínum gáfulega og eftir aðstæðum...og margir þurfa greinilega að rifja upp umferðarreglurnar, eins og að taka ekki framúr þegar það er óbrotin lína...það virðist svona smotterí hafa dottið út úr heila sumra!!!

Ökum varlega en snarlega ;)
Áfram Ísland

Till next...adios