Wednesday, December 30, 2009

Áramót 2009-2010

Sælt veri fólkið :)

Já ég vona sko sannarlega að allir séu sælir og glaðir eftir jólin, já og að árið hafi verið sem best. Ég var að velta fyrir mér að skrifa svona annál, fyrir árið sem er að líða, hvað hefur gerst merkilegt og hvað ég hef gert merkilegt...en þegar ég fór að hugsa meira um það, þá datt mér rosalega lítið í hug!

Ég var náttúrulega í skóla nánast allt árið...tók sumarnám, sem reyndist svo talsvert mikið minna gáfulegt en stóð til. Ég fór til Reykjavíkur 1 sinni á árinu, í febrúar og ég fór 1 sinni til Egilsstaða, í júlí. (Ferðalög ekkert alveg að fara með mig).

Mikael Hugi æfði fótbolta í sumar og ég fór með hann á eitt fótboltamót á Ólafsfirði og annað á Árskógsströnd. Kristján var í unglingavinnu og vann á Minjasafninu á Ak.já og byrjaði svo í VMA nú í haust! Orðinn stór strákur ;)
Svo eins og sést hefur þetta ár liðið tiltölulega átakalaust, en einnig verið afar skemmtilegt, uppfullt af skemmtilegu fólki og góðum stundum með góðum vinum :)

Sumarið var ljúft, byrjaði með hita og sól, sem leiddi af sér margar sundlaugarferðir og heitupottasólbaðsstundir ;)

Já og svo var ég með í haustverkefni Freyvangsleikhússins, en þá var sett um Memento mori eftir Hrefnu Friðriksdóttur. Það var klikk gaman að taka þátt í því :)

Það hefur svo sem alveg verið nóg að gera hjá manni, þótt maður hafi ekki verið að flengjast út um allar trissur :)

Það sem situr eftir í huga mér, þegar ég lít til baka, þá er það allt það góða fólk sem er í kringum mig :) Bæði fjölskylda og vinir, mér finnst ég endalaust heppin að þekkja svona mikið af yndislegu fólki :)
Svo ég vil enda þessar hugleiðingar mínar á því að þakka öllum liðið ár og vona að hið nýja verði ykkur öllum uppfullt af gleði og hamingju :)
Knús á ykkur öll!

Till next...adios

Friday, December 25, 2009

Gleðileg jól og farsælt komandi ár :)



Gleðileg jól til ykkar allra :) knús og kærar kveðjur,
þakka allt gamalt og gott og vona að nýja árið verði uppfullt af gleði og hamingju :)

Till next...adios

Monday, December 21, 2009

Jólajólajóla

Þetta er reyndar frekar villandi titill á bloggi, þar sem ég er voða voða lítið búin að jóla og er einhvernvegin fremur afslöppuð með þetta allt saman ;)
Er svo sem búin að kaupa einhverjar gafir, svo þetta verður allt í góðu :)
Svo koma Nonni bró og Kathleen um jólin frá Liverpool og það verður nú gaman :)

Enda eiga jólin að snúast um að hafa það gott, vera með ættingjum og vinum og borða góðan mat ;)en ekki missa sig í þrifnaðaræði og bakstursbrjálæði...nóg er nú af áreiti og stressi í kringum mann þótt maður taki ekki þátt í því ;)

Annars fékk ég inn síðustu einkunnina mína í dag...svo niðurstaðan var eftirfarandi:
Hagnýt íslenska: 8,5
Íslensir fjölmiðlar I: 8,5
Sjónlist-tónlist: 8,5
Málstofa í nútímafræði: 8
Nútímahugtakið: 8

og ég er bara reglulega sátt við þessar einkunnir :)

Svo nú er bara að tækla ræktina fyrir jólin, borða um jólin og njóta þess að vera til og knúsa strákana mína :)

Gleðileg jól allir saman og megi nýja árið færa ykkur endalausa hamingju og gleði :)

Till next...adios

Monday, December 07, 2009

Jólafrí ;)

Já, nú er maður bara dottinn í jólafrí ;) fun fun fun :)
Skilaði síðustu ritgerðinni fyrir helgi og hélt upp á það að fara í sveitina og hjálpa til við rúning á fimmtud. og föstudag :)
Gott að hreyfa sig aðeins eftir endalausar setur yfir facebook...nei ég meina yfir ritgerðarskrifum ;)

En hann Mikael er amk með tímasetningar nokkuð á hreinu, því hann varð svo lasinn seinnipart föstudag...og er búinn að vera slappur síðan litla skottið mitt :) En þetta er allt að koma, og ég vona að hann komist í skólann á morgun svo ég geti hætt að vera svona löt ;)

Svo var Kristján minn í stærðfræðiprófi í dag...og ég búin að krossa alla putta og vona að hann hafi náð þessu...finnst annars að það ætti að banna stærðfræðipróf, amk fyrir aðra en stæðrfræðinga eða þá sem virkilega vilja læra þetta ;)

Þannig að framundan er að kaupa jólagjafir, laga til, þrífa og fara í ræktina eins oft og ég mögulega get ;)

Látið ekki jólastressið fara með ykkur ;)

Till next...adios

Tuesday, December 01, 2009

Ritgerðir

Já, þegar maður ætti að vera að skrifa ritgerð, þá er mun meira freistandi að skrifa bara blogg í staðin ;) En það er ein af mínum mörgu snilligáfum að ýta stöðugt á undan mér því sem ég á að gera...er alltaf á síðustu stundu og dunda mér frekar við ekki neitt heldur en gera það sem ég ætti að vera að gera; skrifa ritgerð ;)
Annars tókst mér að klára eina í dag og sendi hana yfir í alnetið áðan, svo er bara að vona það besta. Svo núna á ég bara eftir að skrifa eina ritgerð...en hana þar ég samt að skrifa á morgun ;)en það er svona að vera ekki lögnu búin að því sem maður gat löngu verið búin með ;)

Svo er ég næstum búin að liggja í rúminu síðan á afmælinu mínu...endalaust flensuves...kannski ekki búin að vera nógu dugleg að liggja í rúminu og þess vegna búin að vera hálf-drusluleg í tvær vikur...hummm...en vona að þetta fari nú að lagast allt saman. Veit ekki hvort þetta er aldurinn eða bara tilviljun ;)

Svo núna planar maður að gera heilan helling í jólafríinu, sem er alveg að bresta á, eins og að mála bæði bað og eldhús, þrífa og tjilla :) Nenni samt ekki að missa mig í einhverju 12 sortum og rugli...baka bara með honum Kristjáni bakara ;) lukkast alltaf vel kökurnar hjá honum...eða reyni að halda kökuáti í lágmarki og taka ræktina með stæl í desember, það er sennilega eina vitið :)

Jæja, best að fara að sofa og safna orku fyrir ritgerðarskrif morgundagsins ;)
Knús á ykkur öll frábæra fallega fólk :)

Till next...adios

Tuesday, November 17, 2009

40


Allt er fertugum fært, segir einhversstaðar, og ég vona bara að svo sé ;)
Ég átti nefnilega afmæli í gær og þótt ótrúlegt megi virðast þá var ég bara að detta í fertugt...ég á sennilega aðeins eftir að venjast þessari tugabreytingu, en so far so good ;)
Að tilefni þessa merka áfanga, þá hélt ég partý á laugardagskvöldið...það kom fullt af frábæru fólki og bara gaman! Eins og í öllum alvöru partýum þá kom löggan en það var bara gaman, þeir voru hressir og sætir ;)
Svo að afmælisdagurinn sjáflur, 15.nóvember var afar rólegur ;) enda vissara að taka því rólega komin á þennan aldur ;)
Svo ég vil bara nota tækifærið og þakka öllum fyrir góðar gjafir og góðar kveðjur :) þið eruð aldeilis frábær :)

Annars er ennþá fullllllt að gera í skólanum, og verður út þennan mánuð, en reyndar er ekkert svo mikið að verða eftir af þessum mánuði, svo nú er bara að bretta upp ermarnar og klára dæmið ;)

Jæja, best að reyna að skrifa bara pínu oftar hér inn, en hætta að bulla í bili ;)
Er ég ekki annars alltaf að tala um að skrifa oftar hérna ;) hehe...eitthvað minna um efndir ;=)

Take care :)

Till next...adios

Wednesday, October 21, 2009

Hér er skóli um skóla frá skóla til skóla...

Já, þessa dagana snýst bara allt og þá meina ég ALLT um skólann. Endalaus verkefnavinna, lestur, fyrirlestrar og ritgerðarvinna...og sér bara ekkert fyrir endann á því fyrr en í lok annarinnar...
Ég ásamt þremur öðrum skvísum, vorum með fyrirlestur um Tímann (já hið yndislega blað Framsóknarflokksins, en það er því miður ekki lengur gefið út...snökt snökt) í síðustu viku, og það tók bara hellings tíma að undirbúa það. En auðvitað var þetta klikk flottur fyrirlestur hjá okkur ;)

Svo byrjaði strax (og var reyndar byrjaður) undirbúningur undir næsta fyrirlestur, sem ég var með í dag, ásamt Ellu gellu. Þar var gerólíkur fyrirlestur á ferðinni, eða um Rousseau og eitt af verkum hans. Mikið hafði nú Rousseau kallin margt skynsamlegt til málanna að leggja, þótt hann endaði svoldið klikkaður...kannski varð hann einmitt bara klikk út af græðgi og vægðarleysi fólks, en honum fannst eignarhald af hinu illa og aðeins leiða til slæmra hluta...eins og er að sýna sig aftur og aftur og aftur...þeir sem eiga peninga, eignir og hafa völd, eru endalaust að traðka á hinum. En auðvitað rúlluðum við Ella þessum fyrirlestri upp, án teljandi taugaáfalls ;)en það tók líka laaaaaaangan tíma að lesa, pæla og koma þessu saman...

Í dag er LETIDAGUR...eða þar að segja eftir að ég kom heim úr skólanum...var alveg harð ákveðin í því að læra ekki neitt eftir allt fyrirlestrarbröltið :)

En á morgun reynir maður að grynnka eitthvað á þeim verkefnum sem hafa setið á hakanum...af nógu er að taka...svo eru "bara" eftir 4 ritgerðir plús verkefnasúpa ;)

Núna á föstudaginn, 23.október kl.20:30 er lokasýning á Memento Mori...svo nú er síðasti séns að drífa sig í leikhús og horfa á þetta snilldarverk, sem vekur upp spurningar um mannlega hegðun, tilfinngar, gleði og sorg...allur pakkinn á 1500 kr. það gerist ekki betra en það ;)

Svo styttist í að ég eigi afmæli...og ég er mikið að spá í að hafa bara "opið hús" þar sem allir gætu kíkt við sem vilja þekkja mig :) Þetta er planað 14. nóvember...svo takið frá daginn, en nánari upplýsingar verða settar á facebook þegar nær dregur...já og kannski bara hingað inn líka ef ég man ;)

Jæja, ekki gengur að skrifa bara og skrifa hér, fyrst ég ákvað að vera löt og læra ekkert núna seinnipartinn ;) reyndar vorum við litla fjölskyldan frekar þreytt og tókum smá síðdegisblund...sjaldan verið jafn rólegt í kotinu ;)
Svo komst ég að því að ég er ekki lengur ein fullorðin á heimilinu...það var nefnilega hringt frá Gallup áðan og spurt eftir Kristjáni Esra! Ef það er ekki skýrt merki um að fullorðinsárum sé náð, þá veit ég ekki hvað ;)...smá högg bara ;)

Till next...adios

Thursday, October 08, 2009

hummm...

Nú ætlar ríkið að spara, sem kom svo sem ekki á óvart, en manni finnst helv...hart þegar verið er að taka afar lágar upphæðir af félagasamtökum, upphæðir sem skipta ríkið ekki miklu máli, en viðkomandi félög öllu máli.

Þarna er ég t.d að tala um styrki til áhugaleikfélaga, sem eru ekki háir, en hafa hingað til dugað svona eins og fyrir hálfum leikstjóra...já og leikfélögin notað miðasölu til að borga hinn helminginn...lítið gagn af hálfum leikstjóra ;)
Menningarlega séð, og þá sérstaklega fyrir fámennari sveitafélög og dreifðar byggðir landsins, þá er þetta stór slys!

Það eru ótal margir sem hafa notið góðs af starfi áhugaleikfélaga, bæði sem þátttakendur og einnig sem áhorfendur...bjargað geðheilsu fólks, sinnt félags- og sköpunarþörfum þess, svo fátt eitt sé nefnt.
Já og svo eru ótal önnur félög sem vinna góð og þörf störf, sem verða fyrir niðurskurði sem hamlar eða setur starfsemi þeirra í mikla hættu.

Ég er bara afar leið yfir þessu öllu...já og fyrst að ég er byrjuð þá er ég einnig leið yfir óréttlæti og mannvonsku, stríði og hörmungum, hroka of yfirgangi, spillingu og valdagræðgi.

Hvar í ósköpunum gleymdum við að hugsa um hvort annað, án þess að ætlast til einhvers í staðin?
Hvenær fór mannskepnan að tapa virðingu fyrir sjálfri sér, misnota, pynta og drepa?
Hvenær fór eigingirni og fyrirlitning á umhverfinu að verða að sjálfsögðum hlut?

Það er margt sem ég ekki skil...og það bara eykst með árunum.
Ég ætla að láta þetta duga í bili af neikvæðum hlutum og hugsunum...en þrátt fyrir að vilja alltaf sjá það jákvæða, þá er manni hollt að hugsa stundum um það neikvæða í tilverunni og hvernig við viljum hafa hlutina.

Annars er lífið dásamlegt :)
Knús á ykkur öll :)

Till next...adios

Tuesday, September 29, 2009

Kristján Esra afmælisbarn :)

Í dag eru nákvæmlega 16 ár síðan hann Kristján minn fæddist...nánar tiltekið kl.17:20 ef mig minnir rétt ;) Ótrúlegt alveg hvað tíminn líður hratt, nú hamast hann bara í VMA og líkar vel. Agalega sætur og prúður piltur með alveg heilan haug af hæðnishúmor í sér...veit ekki hvaðan hann hefur það...hummm...en annars ákaflega alvörugefinn og hugsi...reyndar einnig uppfullur af ábyrðartilfinningu, sem ég get enganvegið áttað mig á hvaðan kemur ;)
Reyndar finnst Mikael hann Kristján núna vera orðinn nógu gamall til að flytja að heiman, Mikael vill nefnilega fá herbergið hans Kristjáns ;) hehe...

Nú er ALVEG að bresta á frumsýning...ekki laust við smá skjálfta...bara 3 æfingakvöld eftir og OMG ég sennilega farin á taugum eftir tvö kvöld ;)
Algerlega brjálað að gera í skólanum, svo þetta er bara allt eins og það á að vera ;)

Jæja, hef ekki tíma í meiri skrif...þarf að koma mér í skólann...læra...ræktina...skutla í fimleika...sinna afmælisbarninu...og koma mér á æfingu...já og læra meira...;)

Till next...adios

Friday, September 25, 2009

Frumsýning eftir viku...

Memento mori veður frumsýnt í Freyvangsleikhúsinu föstudaginn 2.október kl.20:30!
Sýningafjöldi verður takmarkaður, svo nú er um að gera að tryggja sér miða í tíma...a.t.h að sýnt verður í litla salnum :)
Þetta er sýning sem engin má láta framhjá sér fara :) Spannar allan tilfinningarskalann og er eins og ferskur fjallablær inn í menningarlíf þjóðarinnar :)


Annars er bara fínt að frétta...endalaust mikið að gera, læra læra læra...skóli skóli skóli...æfa æfa æfa...ræktin ræktin ræktin...reyndar hefur ræktin setið örlítið á hakanaum undanfarið, bæði vegna ógurlegra strengja í fótunum eftir síðustu ferð þangað, og einnig vegna ógurlega mikils lærdóms. Svei mér þá ef maður er ekki að fara í gegnum erfiðustu önnina í skólagöngunni núna.
Svo sé ég til þegar þessi önn er búin, hvað ég tek mikið nám eftir áramót...en núna um jólin, þá á ég (af því gefnu að ég nái öllum áföngunum sem ég er í núna) aðeins eftir 6 einingar af náminu. Svo einingalega séð, þá þyrfti ég bara að dúllast við ritgerðarvinnu. En reyndar eru einhver skyldufög sem ég hvorki vil né get sleppt :)

Og svo þarf ég nú bara að öllum líkindum að reyna að finna mér einhverja vinnu eftir áramót...og kanski fyrr. En það er seinna tíma vandamál ;)

Jæja...ætla að skella mér í ræktina og svo í sláturgerð í sveitina, skutla svo Mikael í og úr fimleikum og svo á æfingu í Freyvang...reyna svo að koma inn nokkrum mínútum fyrir lærdóm og eldamennsku :)

Till next...adios

Friday, September 18, 2009

Þrotlausar æfingar...;)

Smá uppdeit...sem er svo sem ekkert nýtt, dagarnir fljúga framhjá og ég hef varla tíma til að gera allt sem ég þarf að gera.
Skóli, lærdómur, ræktin, borða, æfingar í Freyvangi...já og svo reyni ég að sinna strákunum örlítið og hjálpa til í sveitinni...kindastúss, göngur...réttir...osfrv.

Mikael Hugi fór í sinn fyrsta tíma í fimleikum í dag, honum fannst það bara gaman og ég er að vonast til þess að hann haldi þessu áfram. Hann gæti orðið efnilegur í fimleikum, því hann er svo skolli sterkur strákurinn...og hefur það að sjálfsögðu frá mömmu sinni ;)Hann er reyndar einnig að spá í að halda áfram í fótboltanum, en taka kannski eina æfingu á viku þar, í staðin fyrir þrjár. Enda veitir ekkert af því að hann fái útrás fyrir alla orkuna ;)

Kristján er bara ánægður í VMA, duglegur að mæta og er JÁKVÆÐUR, sem er bara næstum nýtt þegar skólakerfið á í hlut...held að þessi skólabreyting hafi verið afar góð fyrir hann...enda full mikið að vera í sama skólanum í 10 ár ;) hehe...
Ég fór á foreldrakynningu í VMA í síðustu viku og leist bara svona agalega vel á skólann...enda gott starf unnið þar og frábært starfsfólk :)

Skólinn hjá mér gengur bara ágætlega...það sem af er...maður sér reyndar fyrir sér ótal verkefnaskil og ritgerðir sem fara að skella á manni af fullum þunga...en maður verður bara að taka því :)

Stefnt er að frumsýna "Memento mori" föstudaginn 2.október í Freyvangi og standa æfingar yfir á fullum krafti...er búin að vera á æfingum öll virk kvöld, en nú er smá æfingahlé sem verður notað til þess að, slappa af í smá stund (eða eina kvöldstund...sem sagt í kvöld) og svo er planið að halda áfram að taka á í ræktinni og jafnvel læra eitthvað ;)

Átakið "Í form fyrir fertugt" er nú í algleymi enda styttist óðum sá tími sem maður hefur fyrir þetta átak...en um leið og þetta átak verður búið, þá hefst átakið "í form fyrir fjörutíuogfimm" en það er á langtíma planinu ;) hehe...

Jæja, best að hætta að bulla hér...er að vonast eftri smá sól næstu dagana...væri til í smá sólbaðsheitaliggipott...ja svona þegar mestu marblettirnir eru farnir af lærunum eftir kindastússið...einhverra hluta vegna datt mér í hug "blettatígur" eftir síðustu kindahelgi ;)
En þetta "grær" áður en ég gifti mig ;)

Till next...adios

Saturday, September 05, 2009

Sól sól sól

Í dag skín sól :)
Það er ekki verra...ég þurfti að fara í búð, (þar sem ísskápurinn minn var orðinn tómari en hausinn á mörgum pólitíkusinum...eða útrásarvíkingnum)og eftir að hafa keypt bæði eitthvað að borða og drekka (eins og kaffi og 70% súkkulaði, þá ákvað ég að kaupa sokka handa Mikael...sem er nú kanski ekki í frásögur færandi, nema hvað, að ég fór út úr þessari frábæru barna-og unglingafatabúð "Casino" með tvennar buxur, tvennar peysur og eina vettlinga...en enga sokkana...missti mig aðeins ;)Það eru bara svo flott og ódýr föt þarna að það er ekki annað hægt en að kaupa þau ;) og reyndar var Mikael farið að vanta föt, svo það var ekki bara að ég væri að tapa mér að ástæðulausu ;)

Og svona til að róa mig niður eftir verslunarleiðangurinn, þá hentist ég í ræktina og skokkaði 4 km á bretti...lét það duga, vegna þess að, bæði var ræktin að loka og ég á leiðinni í sund...vá...það er bara mest slakandi ever að liggja í sólbaðsheitaliggipottinum í sólinni og gera nákvæmlega EKKERT :) og þarna lá ég og bæði soðnaði og steiktist í tæpa tvo tíma :)

Svona eiga haust að vera...ég segi nú ekki annað ;)

Till next...adios

Wednesday, September 02, 2009

Öfgaleysi

Ég hef aldrei misst mig í neinum öfgum, aldrei "bara þurft" að gera hitt eða þetta eða verið "forfallin" eitthvað. Og fundist það bara fínt, mér hefur hingað til ekki þótt það sérstaklega spennandi að vera bundinn af því að þurfa bara að gera eitthvað eða verða ómögulegur/skapvondur/pirraður ella.

Nú er ég búin að vera pínulítið dugleg í ræktinni ( og hlaupa) undanfarið, og er ekki frá því að ég sé að fá smá snert af því að langa til að langa...hef nefnilega ekkert komist í ræktina í allan dag (og kem ekki til með að komast vegna anna) og er svona næstum ómöguleg útaf því. Tja eða það að ég er að verða eitthvað lasin, það er a.m.k nettur pirringur í mér, eða svona óþægindi, kanski bara hiti ;)

En þetta kemur sennilega í ljós, reyndar finn ég það að manni líður bara mun betur bæði líkamlega og ekki síst andlega, þegar maður fer að hreyfir sig og tekur hraustlega á því ;) Tala nú ekki um þegar maður fer að sjá enn meiri árangur..þolið eykst...six-pakkið sprettur fram...upphandleggsvöðvarnir bólgna upp og skeggrótin dökknar...hehe...ok, kanski aðeins orðum aukið, ég er nú bara að meina það að hafa meira þol og halda bingó-vöðvunum í algeru lágmarki...maður biður vart um meira á þessum síðustu og bestu ;)

Skólinn byrjaði í gær, var alveg búin eftir að hafa þurft að mæta í tvo tíma eftir hádegið ;) hehe...er svo reyndar búin að vera í skólanum í ALLAN dag, eða byrjaði kl. 8 og kláraði núna kl.17 og svo er æfing í Freyvangi kl. 19 svo það er best að fara að gefa á garðann og hætta að bulla hérna eins og bjáni.

Svo er bara að muna það, að hversu slæmt sem maður heldur stundum að maður hafi það....þá gæti það alltaf verið verra! Svo brosum og verum glöð :)

Till next...adios

Saturday, August 29, 2009

Leika...sér ;)

Já, þá er það komið á hreint, búin að fá hlutverk í Memento Mori og bara ánægð með það hlutverk, það eru spennandi tímar framundan ;)
En planið er sem sagt að byrja æfingar 31.ágúst og frumsýna fyrstu helgina í október. Það verða takmarkaðar sýningar, því það þarf að fara að æfa og sýna kabarett á eftir þessari sýningu, svo nú verða allir að vera fljótir til og panta sér miða þegar miðasala hefst :)

Karakterinn minn er ódauðleg kona sem er að gera upp ástarmál sín í gegnum aldirnar...og eðli málsins samkvæmt eru þau þó nokkur ;)
Annars held ég að það sé hiklaust hægt að mæla með þessari sýningu, hún er bæði dramatísk á köflum og einnig bráð fyndin...en best að segja ekki of mikið...hlakka til að sjá ykkur öll í Freyvangsleikhúsinu :)
Og þar sem það eru víst að nálgast 10 ár síðan ég lék síðast í leikriti í Freyvangi, þá er ekki laust við að ég sé þegar orðin afar spennt og nett stressuð....skyldi maður geta þetta ennþá? ;)

Ég fór í draugagöngu í gærkveld, Kristján harðneitaði að fara með, en Mikael var mun kjarkaðri...reyndar var hann orðinn frekar skelkaður þegar við vorum að koma á svæðið...bara af tilhugsuninni einni saman ;) En svo þegar þetta byrjaði allt saman, þá fannst honum þetta bara fyndið og skemmtilegt...held að það hafi orðið dálítið spennufall hjá honum þegar hann sá að þetta var ekkert svo hræðilegt ;)
Ég varð reyndar pínu svekkt...var að vonast eftir því að verða hrædd og fá að öskra svolítið...agalega gott fyrir sálina að öskra stundum ógurlega...en það getur maður víst ekki gert hvar sem er, a.m.k ekki án þess að þykja í besta falli stór skrítinn ;)
Nú hlakka ég bara til að fara í göngur og geta öskrað þar og gargað...og ég verð þá ekkert endilega að góla á kindurnar, þótt að þær haldi það alltaf og hlaupi heim á leið ;)

Ég fór annars í ÁTAK í gær, en þar er opið hús þessa dagana, það var alveg fínt...er samt hrædd um að þar sé oftast of mikið af fólki fyrir minn smekk...en þar sem ég vil helst hafa einka stöð fyrir mig og örfáa útvalda, þá hugsa ég að ég haldi mig bara við Vaxtarræktina ;)

Læt þetta duga í bili...verð að reyna að eiga eitthvað eftir til að skrifa, ef ég þykist ætla að halda áfram að blogga...fyrst mér tókst að halda því áfram eftir ágætis sumarfrí ;)

Till next...adios

Thursday, August 27, 2009

Að leika eða ekki leika...

Fór á samlestur í Freyvangi í gærkv. en þar var samlesið verkið "Memento mori". Þetta virðist vera hið skemmtilegasta verk og spennandi að sjá hvernig niðurraðast í hlutverk...spurning um að stökkva ef manni hlotnast eitthvað bitastætt ;)

Annars er annar samlestur í kvöld, en þar sem ég er að reyna að kvelja hann Kristján á busaballið í VMA í kvöld, þá veit ég ekki hvort ég fer.
Annars er Kristján ekki á því að fara á þetta ball...hann er ekki líkur mömmu sinni á þessum aldri ;) hehe...hefði fátt stoppað það að fara á svona böll ;)
Það eru sennilega ekki margir foreldrar sem eru í baráttu við að fá börnin sín til að FARA á ball...;) annars hef ég grun um að hann hafi betur og verði bara heima...
Busunin hjá honum var í dag, svo nú er hann orðinn fulgildur í framhaldsskólasamfélaginu...vá hvað maður á eitthvað stóran strák...en samt svo lítin ;)

Mikael byrjaði svo í Brekkuskóla í dag...og ég er endalaust ánægð með það ;) hehe...verður gott að fá að pústa ein í tvo daga áður en skólinn byrar hjá mér...en hann byrar 1.sept.
Svo fór ég í ræktina í gær...enn í átakinu "í form fyrir fertugt" og það er bara fínt...finn svo sem enga breytingu á mér, nema hvað mér líður betur andlega og líkamlega...vigtin er enn söm við sig ;) og six-packið sennilega bara best geymt inn í ísskáp...hehe

Látið ykkur líða vel og leyfið ykkur að vera happy...no matter what :)

Till next...adios

Thursday, August 20, 2009

Af skólamálum og öðrum málum ;)

Nú eru skólarnir að bresta á einn af öðrum.
Ég fór með Kristjáni í morgun að sækja stundarskrána í VMA, svo byrjar skólinn hjá honum í fyrramálið...mig hlakkar ekkert sérstaklega til að koma drengnum á fætur fyrir klukkan 8 í fyrsta sinn í tæpan mánuð ;) en það hlýtur að hafast :)
Svo fer ég með Mikael í viðtal í Brekkuskóla á miðvikudaginn í næstu viku og svo byrjar skólinn hjá honum á fimmtud. Svei mér þá ef það verður ekki bara gaman að koma rútínu á liðið á ný...já og mig líka ;) úff...þetta að "sofa eins lengi og ég nenni" er ekki alveg að gera sig til lengdar ;) Annars byrjar HA 2.september svo ég fæ örlítið frí fyrir mig ;)

Reyndar hefur nú bjargað miklu að hafa þurft að drífa Mikael á fótboltaæfingar flesta morgna...en það er líka búið eftir þessa viku. Svo vona ég bara að hann haldi áfram í boltanum í vetur...hann er reyndar líka að spá í fimleika, bretti og körfubolta ;)

Íþróttalöngun þeirra bræðra er afskaplega misskipt ;)

Annar var ég að koma úr ræktinni rétt í þessu, fór með Ellu gellu sem kann allar réttu æfingarnar...ég er búin að uppgötva vöðva sem ég vissi ekki að væru til ;) hehe...en reyndar er bara rosalega gott og hressandi að púla svona annað slagið :)

Svo var viðtal við mig í Morgunblaðinu í dag ;) af því að ég er brjáluð (ok, kanski ekki brjáluð, en pínu ósátt) út í LÍN, en þeir vilja ekki lána mér nema 80% námslán í vetur...vegna þess að ég tók sumarlán í sumar...og það kom aldrei fram að sumarlánin skertu vetrarlánin...og þetta er allt í fokki hjá þeim.
Greinilega eru skilaboðin þau að fólk eigi frekar að hanga atvinnulaust og þiggja bætur, heldur en að nota tímann og læra og fá þá námslán! Og það er ekki eins og maður sé að betla út einhvern styrk, heldur þarf maður að borga hverja krónu til baka með vöxtum...
En þetta er a.m.k að vekja einhverja athygli, því að ég verð svo einnig í smá viðtalið í svæðisútvarpinu í dag ;)

Svo ég sé fram á meiri útgjöld í vetur en áður, vegna framhaldsskólagöngu Kristjáns, og mun lægri tekjum...vei vei...aldeilis að mann getur farið að hlakka til ;)

En ef einhver veit um litla vinnu handa mér sem er afar vel borguð ;) þá má endilega hafa samband ;) ég get allt og kann allt...og er þar að auki hógværðin uppmáluð :)

Well...best að reyna að gera eitthvað að viti...er að græja herbergi fyrir Mikael, skrifborð og stól og svona fyrir skólann...og eins gott að ég er komin langt í háskólanáminu, því ég held að það þurfi háskólgráðu til að geta sett saman þennan skrifborðsstól ;)
Já og svo langar mig endilega í smá sól núna takk :)

Till next...adios

Thursday, August 13, 2009

Heimapróf

Á að vera að taka heimapróf, en nenni því ekki, þess vegna skrifa ég frekar einhverja þvælu hér inn ;)
Ég fór í litun og klippingu í dag, og það má segja að það varð svakaleg breyting á mér...hárið styttist um u.þ.b 10 cm. (í það minnsta) svo ég rétt hangi í axlarsíddinni...og svo ákvað hún Harpa (sérleg hárgreiðslukona mín, sem fær alltaf að ráða öllu) að sennilega væri betra upp á gáfnafarið að lita mig nú aðeins dökkhærða á ný ;)
Enda fór ég að spá, að kannski væri bara dáldið töff að vera ljóshærð bimbó á sumrin en dökkhærður hugsuður á veturna ;)
En þegar ég verð búin að rusla af þessu heimaprófi og fá einkunn, þá kemur það víst í ljós hvernig nýji háraliturinn virkar ;)
Annars er ég bara ennþá að venjast sjálfri mér...en strákarnir mínir, þessar elskur, segja að minnsta kosti að ég sé voða sæt og fín svona :)

Það er góð regla að spyrja alltaf bara börning sín hvernig maður lítur út ;)

Annars á Nonni bró afmæli í dag :) til hamingju með það bróðir kær :) ég bíð svo bara spennt eftir köku og kræsingum ;)
Annars er planað grillrauðvínspartý hjá Öllu mágkonu á laugard. og án efa verður það snilld...:) Annars man ég vart eftir öðru eins skemmtanalífs-sumri...tja í það minnsta varla síðustu 20 árin eða svo ;) bara endalaust eitthvað um að vera og það er BARA GAMAN :)

Ég skokkaði 6,6 km í Kjarna í gær og er ekki frá því að strengirnir hafi lagast talsvert við það :)
Svo það gengur bara ágætlega að hreyfa sig meira...en ég er alveg viss um að baðvogin mín er biluð, hún sýnir alltaf sömu töluna!!!

Jæja...best að reyna að fara að sofa í nýlitaða hausinn sinn...síðasti tíminn í fyrramálið í skólanum og svo að taka þetta blessaða próf...geysp...
Ég er annars búin að leggja inn beiðni fyrir sól, þarf endilega að ná nokkrum sólbaðsheitiliggipottum í sumarfríinu mínu ;)

Till next...adios

Tuesday, August 11, 2009

Loksins...

Það kom að því að ég blogga smá ;)
Ég eginlega lofaði sjálfri mér að blogga þegar ég tengdis umheiminum á ný eftir netleysi undanfarna daga, tja eða viku!

Þetta hófst allt saman einn fagran dag í júlí...hehe...eða svona, netvandræði mín þar að segja. Fékk hringingu seint um kvöld, þar sem tungulipur maður gerði mér tilboð sem ég gat ekki hafnað (ekkert skrítið þótt maður sé alltaf að koma sér í einhver vandræði;)..."sér tilboð bara fyrir Akureyringa og aðeins í kvöld" og ef ég færi með allt mitt hafurtaks, net, síma og gsm, yfir til Tal þá væri ég að spara ógurlegar upphæðir. Ef ég hefði haft tíma til að hugsa þetta örlítið lengur, þá hefði ég eflaust sagt nei, þá hefði ég líka kanski fattað að sparnaðurinn lægi sennilega í því að ég hefði bara ekkert net...
En ég sagði já, og stuttu seinna hófust vandræðin, ég var aftengd og ekki tengd, og svo smá tengd og svo ekkert tengd og þegar upp var staðið þá var ég netlaus í heila 7 daga! En ég endaði líka á því að gefa skít í Tal og fara yfir til Símans ;) og í stað þess að spara, þá jók ég bara umsvif mín og pantaði mér líka Sjónvarp Símans í gegnum netið..., en það er örugglega eitthvað sem maður getur ekki verið án ;)

Svo í stað þess að spara, þá bara eyði ég aðeins meiru, en er þá NETTENGD og ánægð ;)
Ég var svo sem alveg ánægð fyrir, það eina sem ég var ekki ánægð með var netleysið, sem ég var að nefna...

Sumarskólinn skemmtilegi er alveg að verða búinn...bara eftir að setjast niður og taka eitt próf...svo eftir helgi þá verð ég sem sagt komin í rúmlega tveggja vikna sumarfrí :) BARA FRÁBÆRT ;)

Er búin að reyna að fara annað slagið út að skokka, sem hefur gengið ágætlega...fyrir utan eitt fall, en það grær áður en ég gifti mig ;)
Svo fór ég í ræktina í gær, undir strangri leiðsögn Ellu gellu, og í dag get ég nánast ekki gegnið fyrir strengjum ;) en það er líka bara frábært :) hehe...stefni á skokk á morgun, eftir dekur í lit, plokk og andlitsbað...næs næs næs...

Versló var líka snilld hér á Ak...fór út að skemmta mér með frábæru fólki bæði á föstudagskvöldi og sunnudagskvöldnu...algerlega óvænt á sunnud. en mikið afskaplega var það nú gaman :)
Ég er farin að halda að það sé alltaf skemmtilegast þegar "djömmin" koma á óvart og eru algerlega óskipulögð ;)
En hitt er líka gaman ;)

Jæja...ætla að hætta í bili...vona að ég verði pínulítið duglegri að henda hér inn nokkrum orðum ;)
Knús á ykkur öll sem ennþá nennið að kíkja hér inn :)

Till next...adios

Monday, June 15, 2009

facebook...

http://www.facebook.com/elisabet.k.fridriksdottir

Þetta er slóðin inn á facebook hjá mér ;)
ÉG er augljóslega að vanrækja bloggið um þessar mundir...en facebook græðir á því ;)

Annars er allt ljómandi hjá mér. Mikael er í íþróttaskóla KA og æfir einnig fótbolta hjá þeim :) Kristján er að vinna á Minjasafninu, aðallega í garðvinnu sem honum finnst nú ekkert alltof spennandi ;) en hann er líka búinn að fá inní í VMA og það er bara flott ;)

Ég leik mér bara í sumarnámi við HA og stunda sólböð og sundlaugar af miklu kappi :) bara snilld að vera í skóla á sumrin...vinna hvað??? ;)

Well...reyni kanski að skrifa smá meira hérna fyrir lok júní ;)

Till next...adios

Wednesday, May 20, 2009

Ísland í 2.sæti ;)

Já, eins og margoft hefur komið fram, þá er ég afleitur spámaður ;)
Auðvitað var bara litla Ísland í 2.sæti í Eurovision og þetta var mest spennadi stigagjöf síðan 1999 eða sl.10 ár ;)eða eins og glöggir hafa þegar áttað sig á þá urðum við líka í 2. sæti þá...en töpuðum reyndar naumlega fyrir Svíagæru nokkurri.
Það var mun betra að tapa stórt fyrir krúttlegum Norsara ;)

Annars ætla ég ekkert að hafa þetta langt núna...ætti kanski bara að reyna að skrifa örlítið minna í einu hér inn en þá kanski pínu oftar í staðin ;) þótt það séu eflaust skiptar skoðanir með það eins og allt annað ;)

Kindurnar bera og bera og sólin skín :)
ef ekki væri fyrir fjandans skólakerfið (og þá meina ég grunnskóla) þá væri bara allt í himnalagi... það er náttúrulega bara alltof auðvelt að hafa ekki alltaf eitthvað djö ves! Well...er hætt áður en ég skrifa eitthvað sem ég sé eftir seinna....löngu seinna ;) hehe...

Till next...adios

Saturday, May 16, 2009

Eurovision :)

Bara örstutt...er á leiðinni í sveitna í sauðburðinn og sólina ;)

Ég ætla að spá Íslandi 5.sæti í kvöld í Eurovision
einnig ætla ég að spá Albaníu 1.sæti og Noregi 2.sæti.

Svo er bara spennandi hvernig fer...
Hafið það öll rosa gott í sólinni :)

Till next...adios

Friday, April 24, 2009

Kosningakjaftæði....

Leið mín lá niður á Glerártorg áðan, ég var svo sem ekkert að spá í hvaða dagur væri, svo ég var pínu hissa á að mæta fullt af fólki með rós í hendi. Það þaut í gegnum huga minn hvort það væri verið að opna blómabúð, eða hvort að Valentínusardagurinn væri...en eins og fyrri daginn þá hafði ég rangt fyrir mér. Glerártorg var sum sé ekki bara fullt af fólki með kaupæði, heldur einnig frambjóðendum.
Þarna höfðu flokkarnir fundið sér staði á víð og dreif um torgið, vildu greinilega ekki troða hvorum öðrum um tær þarna, þótt þeir reyni það á öðrum vígstöðvum.
Framsóknarflokkurinn var að gefa kaffi (sýndis mér) norðlenskt að sjálfsögðu, Samfylkingin gaf rósir (flest öllum greinilega nema mér) og svo sá maður bæði Frjálslyndar- og Sjálfstæðisblöðrur á lofti hér og þar. Reyndar sá ég ekkert Vinstri Grænt og (þótt það geti vel verið að þeir hafi verið þarna án þess að ég hafi séð það) þeir fengu nú smá prik hjá mér fyrir það.
Þetta er nefnileg alveg ofar mínum skilningi. Ég kýs Sjálfstæðisflokkinn ekkert frekar þótt þeir gefi börnunum mínum blöðru (sem ég hefði sko ALDREI leyft) eða Samfylkinguna þótt ég fengi rós. Eða þótt Sigmundur Ernir hafi laumað miða ofaní innkaupakörfuna hjá mér og sagt: "þú leyfir þessu nú að fljóta með heim til þín".
Ég fór reyndar að spá í eitt, þarna voru allir þessir aðilar að ausa út gjöfum, en enginn svo mikið sem gerði tilraun til að gefa mér neitt!
Já og hann Sigmundur Ernir hefur örugglega ætlast til að ég færi bara með miðann heim og léti einhvern með viti lesa hann þar.
Annað hvort er ég þá bara svona ósýnileg, eða það hefur bara enginn lagt í að tala við mig.Eða þá að ég lýt út fyrir að vera þroskaheft eða án atkvæðaréttar!
Ég tók reyndar eftir einu, en það er að frambjóðendur Framsóknarflokksins eru laaaaang sætustu frambjóðendurnir. Mér finnst að þeir ættu að hafa bókstafinn K fyrir krútt ;) Þórarinn Péturson er t.d. ekkert smá krútt ;)
Ég held samt, því miður, að það skipti í raun engu máli hvað maður kýs þegar upp er staðið. Þetta kemur allt á sama stað niður, alltaf eru einhverjir óánægðir sama hvaða leið verður farin í þessum kreppumálum.
Ef ég myndi ákveða einn rigningardag að fara út í pólitík, þá myndi ég ekki taka þátt í því að bera gjafir á fólk, ég myndi ekki vilja kaupa atkvæði fólks eða láta múta mér hvað ég á að kjósa. Hitt er annað mál að vera til staðar og ræða við fólk á opinberum stað, eins og á Glerártorgi daginn fyrir kjördag, allt í góðu.
Í besta falli hefði ég viljað fá áritaða mynd af sætu strákunum í Framsókn, X-K fyrir krútt ;) eða þá X-B fyrir Bráðmyndarlegir menn ;)hehe

Muna svo að kjósa rétt...og allt er rétt ef þú ert sáttur við það :)

Till next...adios

Friday, April 03, 2009

Apríl

Þetta fer að verða spurning um að láta bloggin heita bara eftir mánuðum, þar sem ég er farin að blogga bara einu sinni í mánuði...það, eða blogga oftar ;)

Annars liggur mér margt á hjarta, og ég skil ekkert í sjálfri mér að vera ekki búin að fá útrás á þessum vetvangi fyrir margt löngu síðan!

Nú auglýsa bankarnir sem aldrei fyrr (nýju ríkisbankarnir), þeir auglýsa grimmt fjármálaráðgjöf og hversu mikið við eigum að teysta þeim. Persónulega finnst mér þetta ekki flókið reikningsdæmi, ég fór eftir ráðum bankans fyrir margt löngu, fór í auka lífeyrissparnað og tapaði svo 200þús kalli af því á einni nóttu, hefði komið mun betur út fyrir mig að sleppa þessum auka lífeyrissjóð og leggja bara sjálf inn á bankabók 5 þús á mánuði...eða bara troða í koddaverið ;)
Svo hér er ókeypis fjármálaráðgjöf frá mér: Ekki taka mark á neinu sem bankastofnanir (eða fólkið sem er að launum fyrir að ljúga fyrir það) segja. Persónulega er mér alveg sama þótt að starfsmaður í Nýja Landsbankanum sé með tvo hesta á húsi!

Svo er það blessuð kreppan...það virðist vera yfirlýst stefna hjá Akureyrarbæ að láta kreppuna ekki bitna á neinum nema þeim sem minna mega sín; börnum, gamalmennum og sjúkum!
Sparnaðurinn virðist fólginn í því að leggja niður Reykjaferðir hjá 7.bekk í öllum skólum, stytta skólaferðalög 10.bekkjar (amk í Brekkuskóla) og svo eru þeir að spá núna að stytta bara skólann yfir höfuð, svo þeir þurfi ekki að borga kennurum og öðru starfsfólki laun...reyndar hélt ég að þetta væri aprílgabb, en svo las ég um þetta aftur í gær...svo þeir eru varla að missa sig í aprílgöbbum í marga daga ;)
Pesónulega finnst mér að bærinn gæti byrjað sparnaðaraðgerðir sínar á því að fækka eitthvað bæjarstjórum á launum ;)

Nú er loka törnin að byrja í skólanum, reyndar mesta kennslan yfir staðin, en núna á ég bara eftir að skrifa tvær ritgerðir, skila einu stóru verkefni og taka þrjú próf!

Það er kanski bara best að byrja á einhverju ;)

Till next...adios

Monday, March 16, 2009

Meee

Jó hó...
Fór á Kaldbak í gær, í sól og blíðu...renndi mér niður á skíðum hálfa leið og svo restina á snjóþotu. Fanst bæði æði en fékk þó meira kikk út úr snjóþotubruninu...enda þorði ég hraðar á því tæki ;)
Var ekki alveg sama í bröttustu brekkunum, þótt ég viðurkenni það náttúrulega ekki fyrir neinum!
Svo fór Sverrir bró. suður í gær og til Liverpool í dag, og ég er góði fjárhirðirinn á meðan ;) Svo ég er búin að fara tvisvar í fjárhúsin í dag og skóla og fund þess á milli. Hef einhvernvegin á tilfinningunni að þetta verði annasöm vika og sennilega líka fjót að líða ;)
Well...ætla að þykjast vera að læra, þarf víst að klára eitt verkefni í kvöld...geysp, langar nú meira að skríða bara í bólið ;)
En ekki dugir slór við að moka flór ;)
Ha de bra :)

Till next...adios

Monday, March 02, 2009

Home sweet home :)

Er komin heim eftir hina ágætustu Reykjavíkurferð :)
Fór til augnlæknis, keypti mér ný gleraugu sem ég fæ einhverntíman send í pósti og hitti gott fólk :)
Var í hinu besta yfirlæti hjá Árna bró og co eins og vanalega :)
Á laugardegi þegar ég var á leiðinni úr Vesturbænum í Hafnarfjörðinn, þá sé ég hvar hann Gunnar Þórðarson tónlistarmaður stendur og spjallar við einhvern fyrir utan eitthvað hús vestur í bæ...ég hugsa með mér hvað það sé nú merkilegt í stórborginni að sjá svona "frægt" fólk.
Þegar ég kem norður seinnipartinn í dag, alveg laus við að nenna að elda, og bruna beint á Subway, þá er fyrsta fólkið sem ég sé Þorgerður Katrín og Kristján Arason ;) Svo ég sá bara fleira "frægt" fólk á Akureyri en í Reykjavík...þessa helgina :)

Ég er fegin því að það er lítil umferð á Akureyir :)

Knús á ykkur öll :)

Till next...ados

Tuesday, February 24, 2009

Bolsprengösk...

Ef ég ætla að reyna að blogga amk tvisvar í febrúar á þessu ári, þá verð ég víst að drífa í því...tíminn líður hratt og hraðar!
Ég var að koma frá tannsa, var pyntuð þar ógurlega og tekinn einhver tannsteinn, hélt á tímabili að það myndu örugglega fara einhverjar tennur með...en það virðist hafa sloppið til!
Annars er ég búin að vera ákaflega pirruð undanfarið, sérstaklega sl.laugardag, en þá var ég bara hreinlega í hinu versta skapi allan daginn. Held að mér hafi tekist að safna saman öllum pirringi sl.árin og það helltis yfir mig. En ég notaði þá daginn bara í að skúra og laga til, fyrst að dagurinn var hvort sem er ónýtur ;)
Svo strax á sunnudaginn (konudaginn) var ég í þessu ljómandi góða skapi, en svo varð ég aftur dáldið pirruð þegar ég kom heim í gær eftir laaaaaaangan skóladag. En þá beið eftri mér tölvupóðstur frá skólanum hans Mikaels, þar sem var sagt að það væri útivistardagur á morgun (eða í dag sem sé) og þau ættu að koma með snjóþotur/sleða til að renna sér á...bla bla bla...Það er nefnilega svo að Mikael á ekki snjóþotu eða sleða, en hann á hinsvegar þessi fínu skíði sem hann hefur meiri áhuga á. Og þar sem þessi fuck póstur kom svo seint, þá voru góð ráð dýr. ÉG stökk í Hagkaup, þar sem var búið að loka öllum "venjulegum" búðum og sem betur fer var nú til þota þar, reyndar sagði búðarkonan að allir Stiga sleðar væru uppseldir í landinu!
Well...en ég þurfti sem sagt að kaupa þessa þotu, fyrir þennan eina dag í dag og ætla rétt að vona að Mikael renni sér margar ferðir ;)

Annars er búið að grafa hér upp allan garðinn og laga stríflufrárennsli...sem betur fer ;) það var víst allt orðið missigið og vitlaus halli á öllum lögnum. En ég er voða fegin að geta þvegið þvott á ný ;)
Svo er ég að fara til Reykjavíkur á fimmtud. mæta hjá augnlækni á föstudaginn og ætla rétt að vona að eitthvað verði hægt að gera fyrir þetta blessaða auga mitt, þar sem ég sé alltaf ver og ver með því...ekki gaman :(

Vínland eftir Helga Þórs var frumsýnt í Freyvangi síðustu helgi. Þetta er alveg snilldar sýning, alveg óhætt að mæla með henni við alla, konur sem kalla og krakka lakka...

Jæja, best að reyna að gera eitthvað af viti fyrir skólann á eftir...og vinna í þessum pirringi mínum, er mest hrædd um að ég sé að breytast í gamla sínöldrandi kellingu sem aldrei er ánægð...púfff, skelfileg tilhugsun ;/

Till next...adios

Wednesday, February 11, 2009

Já sæll...

Ég er búin að vera ofurlöt við að blogga undanfarið...hef verið öllu duglegri á Facebook en það er allt önnur saga ;)
Þórður bró og Alla mág tóku sig til síðustu helgi, gerðu sér lítið fyrir og skírðu litlu prinsessuna :) Hún var skírð Sigríður María :) til hamingju með þetta allt :)

Af málum lands og þjóðar er lítið annað að frétta að allt er í helvítis fokking fokki og ekki sér fyrir endann á þessari vitleysu...myndun nýrrar ríkisstjórnar virðist ekki hafa gert neitt sérstakt kraftaverk...enda er ég bara að styrkjast í þeirri trú að það þarf miðjuflokk til að stýra þessu öllu saman...allir öfgar til hægri eða vinstri geta aldrei látið gott af sér leiða...og hana nú! Annars ætla ég ekki að eyða stöfum eða orku í að skrifa um kreppu, ríkisstjórn, seðlabankastjóra, forseta eða forsetafrú ;) þetta er bara ett stórt samsæri ;)

Nú er allt komið í fokk aftur í frárennslismálum...aftur komin stífla og ég þarf algerlega að vakta það að snillingarnir fyrir ofan mig setji ekki í þvottavél...þau eru sko alveg búin að gera það þrisvar i þá þrjá daga síðan allt fór í ves..og ég hamast með drullusokkinn og reyni að ná í liðið sem á hinar íbúðirnar... en þessu fólki virðist vera þokkalega nákvæmlega sama hvað gerist í þessu húsi eða hvernig ástandið er...enda eru þau ekki í þeirri aðstöðu að geta ekki sett í þvottavél :(
Annars hafa fæst orð minnsta ábyrgð, heyrði að konu sem þurfti að borga hálfa millu í málskostnað vegna bloggskrifa um einhvern hundaræktenda...svo ég held að það sé best að hætta hér...;)

Annars er ég búin að plana ferð til Rvk. síðust helgina í feb. er búin að panta mér tíma hjá augnlækni og alles ;)
Það er brjálað að gera í skólanum, verkefni og verkefni og svo smá verkefni...svo þarf ég kanski að byrja á eitthvað af þessum 4 ritgerðum sem á að skila fyrir vorið ;)
Svo er 10.bekkur svo duglegur að selja kaffi þegar það er eitthvað um að vera í skólanum að ég er bara nánast í fullri vinnu við að búa til tertur og salöt ;) og best að gera eitthvað af viti :)

Till next...adois

Tuesday, January 27, 2009

Völvuspá ;)

Eins og fram kom í síðasta bloggi mínu, þann 22.jan, þá spáði ég stjórnarslitum fyrir 26.jan. og viti menn...stjórnarslitin urðu bara akkúrat 26.jan ;) svo ég tilnefni hér með sjálfa mig sem völvu vikunnar ;)

Annars er tilefni þessarar bloggfærslu minnar í dag, sú að ég er stórhneiksluð! Það liggur sum sé í loftinu að Jóhanna "minn tími mun koma" Sigurðardóttir, verði næsti Forsetisráðherra landsins og mér lýst bara ljomandi vel á það og finnst einmitt merkilegt að núna loksins sé KONA á leiðinni í þetta embætti...sú fyrsta hér á landi.
Svo er ég að skoða visir.is áðan og þar er bara fyrsta frétt: Fyrsti samkynhneigði forsetisráðherrann" Halló! hvaða fuck máli skiptir kynhneigð hennar? Það eitt að hún skuli ekki vera með typpi, (sem virðist alltaf vera aðal málið og leitt hefur þjóðina í ógöngur-því typpum virðist oft (ekki alltaf) fylgja græðgi yfir það að komast yfir sem mest...)já, hvar var ég...humm, já sem sagt Jóhanna er kona og það er merkilegt hversu langt hún hefur náð í þessum karlaríkjum stjórnmálanna...og því ber að fagna, og ekki síður því að hún virðist vera eina KONAN með viti í þessu argaþrasi þarna um þessar mundir!
En að draga kynhneigð hennar inn í þetta, finst mér ósmekklegt og óviðkomandi því sem hún stendur fyrir á þingi.
Ég tek það fram að ég hef alls ekkert á móti hommum eða lesbíum og finst það algert aukaatriði við persónuleika fólks, eins og það er rauðhært eða dökkhært...og þar fyrir utan verð ég bara að upplýsa það að ég hafði ekki hugmynd um að Jóhanna Sig.væri samkynhneigð...og var einmitt að frétta af Páli Óskari um daginn ;) hehe...

Jóhanna Sig. fyrsta gráhærða konan sem forsetisráðherra ;)

Lifi Ísland :)

Till next...adios

Thursday, January 22, 2009

Bylting

"Megir þú lifa áhugaverða tíma" segir í Kínverskri bölbæn, eitthvað virðist þetta að vera að koma fram hér...kanski einhver Kínverji verið fúll eftir allar kínverjasprengingar hér öll áramót og skellt þessu á landann ;)
Annars byrjaði vikan á smá pirringi út í allt og allt...mánudaguar virðast ætla að verða ansi strembnir, sérstaklega að sitja seinnipartinn á fyrirlestri í 90 min án pásu...og um Austur Asíu...þarna kemur bölbænin aftur fram ;) hummmm...
En þegar ég kom heim um 6 leytið á mánud. þreytt og búin á því, þá var það fyrsta sem ég sá að rusl flæddi hér út og uppúr öllum ruslatunnum! ARG...og þar sem rusla kallarnri sætu koma alltaf á þriðjudags morgnum, þá þurfti ég að byrja á að "laga til í ruslinu". Kenni þessu leikhúspakki sem er um helgar á efstu hæðinni um stóran hluta af þessu...og svo eru þau líka voða dugleg að henda vínflöskum í ruslið...og ég sem hélt að þetta listabóheim pakk væri svo náttúrvænt og umhverfiselskandi...
Talandi um leikhúspakk...mér var óvænt boðið í leikhús á laugardagskvöldið og var náttúrulega svakalega ánægð með svona leikhúsboð :) en var ekki alveg jafn ánægð með sýninguna "Falið fylgi". Það var svo sem margt gott, smá fyndið og vel leikið, en það var bara einhvern vegin byrjað á mörgu sem var aldrei klárað. Svona pínu eins og höfundurinn hafi byrjað á einhverri hugmynd og svo fengið aðra hugmynd og því ekki klárað fyrstu hugmyndina...það var svona ýjað að og gefið í skyn og svo datt bara botninn úr öllu saman. Veit einnig ekki hvernig í fjáranum þetta heitir "Falið fylgi" því frambjóðandinn og kosningabarátta er í algeru lágmark, hefði betur heitið "Fólk í fári" eða eitthvað svoleiðis ;)
Annars er allt í lagi að sjá þetta...sérstaklega fyrir leikhúsrottur, ég er svo all svakalega skrítin að mér finnst gaman í leikhúsi jafnvel þótt að það sé leiðinlegt ;)
Og þetta er ekkert leiðinlegt...hefði bara þurft að skrifa þetta betur og svo skil ég heldur ekki tilgang með veggstubbum sem er alltaf verið að stökkva yfir...annaðhvort er veggur eða ekki veggur...er það ekki???

Jæja, það er víst bylting í landinu...allt að verða vitlaust, ég spái að ríkisstjórnin sundrist fyrir 26.janúar. Ég fór meira að segja smá í mótmæli á þriðjudkv. fín varðeldastemming á Ráðhústorgi ;) Ég er ekkert hissa á að allt sjóði uppúr í Reykjavík, fólkið þar er bara meira tens, það er nú bara nóg að fara inn í Kringluna til að finna það ;) of mikill ys og þys...;)

Jæja, þarf að taka mig til í skólann, sé fram á brjálaða ritgerðar og verkefnavinnu...þarf að vera með fyrilestur strax á mánduaginn sem ég er nákvæmlega ekkert byrjuð að undirbúa mig fyrir, enda vissi ég það líka bara fyrir 2 dögum að ég ætti að vera með þetta á mándud. En ég verð bara fegin þegar það er frá ;)

Litla frænka er komin með nafn já, hún heitir Sigríður María :)

Knúsumst í kreppunni og brosum í byltingunni :)

Till next...adios

Tuesday, January 13, 2009

Föðursystir

Ég er náttúrulega löngu orðin föðursystir margra barna...ótrúlegt hvað helmingur bræðra minna er duglegur við að fjölga sér ;)
En sum sé Þórður bró og Alla mág eignuðust sum sé eina stóra stelpu um eitt leytið í dag :) og við ég nota tækifærið og óska þeim innilega til hamingju með það :)
Vil einnig nota tækifærið og benda á bloggfærslu mína í gær, þar sem ég spáði því að barnið kæmi í heiminn í dag ;) ...eða á föstud.en það var bara svona vara vara dagur ;)
Já, stúlkan var sum sé einnthvað um 18 merkur og 56 cm em ég man rétt (sem er ekkert endilega rett, á í mesta basli með að muna svona).

Annars er ég að hamast við að laga til fyrir saumaklúbb í kvöld, á eftir að fara í búð og laga enn meira til svo það þýðir lítið að hanga bara við tölvuna :) ætlaði bara að gera kunngjört um fjölgunina í stórfjölskyldunni :O)

Till next...adios

Monday, January 12, 2009

Skólamál

Fór í bókainnkaupaleiðangur í dag...þurfið að kaupa óvenju fáar bækur en þær voru líka óvenju dýrar. en þessar þrjár bækur sem ég keypti kostuðu um 16.000 kallinn!
Fór annars að spá í það við afgreiðslukassann að ég væri kanski með svolítið undarlega samansettar vörur, ég var sum sé með 2 bækur um stjórnmál Comparative Politics og Íslenska stjórnkerfið, eina bók um barnabókmenntir Í Guðrúnarhúsi og svo dósayddara með hauskúpumynd og einn stóran tréblíant, sexstrendan og feitan sem stendur á Learning-to-write pencil...hummm...spurning hvort ég hefði átt að kaupa þetta í sitt hvoru lagi ;) og muna eftir einu skólabókinni sem ég get hugsanlega skilað frá í fyrra :)

Mér tókst að klára herbergið hans Kristjáns í gær :) nú er það málað í Mývatnsbláum lit og með eikarparket á gólfinu...bara geggjað :) langaði nú mest til að flytja bara sjálf inn í herbergið...en það er víst ekki í boði. Nú er næst á dagskrá að reyna að koma skikki á restina af íbúiðnni.
Ég er búin að lesa Kristjáni pistilinn um umgengni um "nýja" herbergið, þar skal hlýta mjög ströngum reglum sem kallaðar verða "umgengnisreglur" ;)
Hann fékk fyrstu skammirnar í dag, þegar ég kom heim þá fann ég tvö poppkorn á gólfinu hjá honum...sennilega verð ég svo mikið að passa upp á þetta eina herbergi að restin af íbúiðnni verður bara eins draslaraleg áfram og hún er búin að vera ;)

Alla mágkona er víst ekki búin að eiga enn...ég spái því núna að ef hún kemur ekki með krakkann í heiminn á morgun, þá muni hann fæðast þann 16.janúar en sá dagur ku vera í alveg sérstöku uppáhaldi hjá Þórði bró: ;)

Jæja, ætla að láta þetta duga í bili og gera smá nostalgíu verkefni um Dísu ljósálf :) fyrir barnabókmenntaáfangann...

Till next...adios

Friday, January 09, 2009

Afmæli Þórðar


Í dag er 9.janúar 2009 og því á Þórður bróðir afmæli í dag :) og vil ég nota tækifæri og óska honum til hamingju með það og skella inn einni mynd sem ég fann af honum, örugglega honum til mikillar ánægju :) Ekkert virðist vera að gerast hjá Öllu, en hvur veit...dagurinn ekki alveg búinn ennþá ;)
Skólinn minn byrjaði í gær... stuð stuð stuð...fór svo í dag og keypti bjór og vonast til að það komi mér í gegnum málningarvinnu í kvöld ;)
Ég er annast stór hneiksluð á verkum ríkisstjórnarinnar varðandi sparnað og sameiningu í heilbrygðiskerfinu...ekki alveg að fatta hvað þeir eru að hugsa...kenni alþjóða gjaldeyrissjónðum um stóran hluta af þessum gjörningi...skamm skammms.
Veit ekkert hvað ég á meir að segja í bili...

Till next...adios

Wednesday, January 07, 2009

Spá

Rakst á stjörnuspána á Mbl.is og fanst hún voða mikið ég:

Sporðdreki: Það getur reynst þér skeinuhætt að hlaupa í blindni eftir athugasemdum annarra. Leyfðu málum að hafa sinn gang og njóttu lífsins með bros á vör.


Ákvað að henda þessu hér inn svona í tilefni dagsins eða eitthvað ;)

Skólinn byrjar á morgun, verð í 16 einingum, þótt ég hafi verið búin að lofa mér að taka ekki meira en 15 ein. á þessari önn...en þar sem að ég gat ekki valið einn 3 ein áfanga sem mig langaði að taka...vegna árekstra...þá varð ég að velja tvo 2 ein áfanga í staðin...

Ég er svona nokkurnvegin að verða búin að berja gólfið í Kristjáns herbergi sundur og saman...svo ég vonast til að geta þrifið og málað á morgun og skellt parketinu á um helgina :)
Þá á ég "bara" eftir að koma dótinu hans Kristjáns fyrir og þrífa restina af íbúðinni hátt og lágt, því blessaða rykið, sem kom þegar ég fræsti í gær og eyðilaggði ryksuguna, hefur náð að smjúga um allt og er alls staðar...En ég fer bara í ríkið, kaupi kassa af bjór og geri þetta líka um helgina ;) hehehe...

Alla mágkona ekki ennþá búin að eiga, allar líkur eru nú á því að Þórður bró fái bara barnið í afmælisgjöf þann 9.jan ;) Spennandi :)

Till next...adios

Sunday, January 04, 2009

Gleðilegt ár :)

Í dag er 3.janúar 2009 og ég þarf að æfa mig í að skrifa nýja ártalið 2009 :)
Þetta þýðir reyndar það að ég er búin að vera hrikalega löt fyrstu 4 daga ársins...hummm, er reyndar búin að lofa sjálfri mér bót og beturn strax í fyrramálið, vakna ekki seinna en 9...eða 10 ;) og rífa strákana á fætur. Það ku vera síðast séns á að rétta við sólarhringinn því strákarnir byrja í skólanum á þriðjudaginn...6.jan 2009, á sjálfan þrettándann ;)
Ég fór á Ljótu hálfvita tónleika á föstudaginn 2.jan 2009 og það var gaman, það voru svo margir á Græna hattinum að við fengum ekki sæti nema við barinn, sem varð til þess að auðvitað rann bjórinn hratt og örugglega niður og auðvelt að nálgast áfyllingu ;)
Nú þarf ég bara að reyna að komast að því hvað ég gerði við diskinn sem ég keypti og hafði ekki mikið fyrir að láta árita...
Í gær var svo alveg tvöfalt boð...fyrst kaffiboð í sveitinni og svo snilldar kjúllaréttur og Trivial spurningakeppni hjá Árna og Siggu Láru um kvöldð :) fun fun fun :) Gott ef þynnkan var ekki bara nokkuð í undanhaldi þegar ég kom heim um 11 leitið í gærkv.
Svo í dag er búin að vera mikill leti dagur, er búin að plana lengi að fara út að labba, en held ég þurfi að hugsa það aðeins lengur...kanski þangað til að ég þarf að elda kvöldmat og hef ekki tíma til þess ;)
En ég er bara sæmilega bjartsýn á árið 2009 og vona að það veiti öllum gæfu og gleði :)
Svo bíður maður bara spenntur eftir því hvenær Alla mágkona fer í fæðingu...var skráð inn í dag ef ég man rétt...:)

Hafði það gott, flott og látið ekki smott...erí pirra :)

Till next...adios