Saturday, October 29, 2011

Enn ein hugleiðingin...

Hugleiðing um heimsmyndina...eða kannski sjálfsmyndina.

Núna ætla ég að segja ykkur nokkuð sem þið vitið öll; við erum upptekin af útliti okkar. Já og ekki nóg með það, heldur erum við einnig upptekin af útliti annarra, eða teljum að aðrir séu uppteknir að útliti okkar.
Er eitthvað rangt við þetta?
Já, því þetta leiðir til slæmrar sjálfsmyndar. Ef maður er alltaf að spá í hvað aðrir eru að spá í, þá verður maður ferlega upptekin að því að reyna að vera eins og maður heldur að allir vilji að maður sé, en gleymir alveg að vera bara maður sjálfur, sem jú flestir vilja að maður sé!

Svona einfalt er þetta bara.
En þótt að þetta sé svona frekar stutt og einfalt, og eina lausnin á þessu vandamáli sé sú; að við eigum að hætta þessari útlitsdýrkun og hætta að benda á og pota endalaust í hvort annað með niðrandi athugasemdum um holdafar eða klæðnað, þá er þetta víst flóknara en svo.
Það þarf nefnilega að breyta hugsunarhætti sem er orðinn viðurkenndur og ekki nóg með það, þá er hann ríkjandi og þykir töff.
Ástæða þess að ég ákvað að setjast niður og pota nokkrum stöfum í wordskjal, er sú að ég afrekaði það að horfa á fréttatíma tvö kvöld í röð. Í gærkv. var frétt um að heill hellingur af stúlkum í 10. bekk grunnskóla (15 ára sennilega) sem eru yfir kjörþyngd, reyni skaðlegar aðferðir til að létta sig, eins og að framkalla uppköst, svelta sig og þh. Þetta þykja mér slæmar fréttir og greinilegt að umræður og fræðsla um átraskanir og hversu alvarlegar afleiðingar þær hafa í för með sér, hafa vikið fyrir einhverju öðru.

Í kvöld var svo frétt um að Íslendingar séu á góðri leið með að verða feitasta þjóð heims, og einhvern vegin finnst mér mikið um svona „offitufréttir“ um þessar mundir. Ætli það geti verið tenging þarna á milli?

Fullorðið fólk talar mikið saman, og það talar einnig mikið um annað fullorðið fólk, já og líka um börn annars fullorðins fólks...hvort þau eru feit eða flott...já og börn hlusta mikið.

Við erum að ala upp börn með lélegt sjálfsmat, og þetta lélega sjálfsmat hafa þau frá okkur foreldrunum, sem erum alltaf að tala um feitu nágrannana eða hvað þessi eða hinn afrekaði í ræktinni, hvað sumir eru flottir en aðrir óflottir.
Hvers er annars að dæma um það?

En já...við erum öll misjöfn í útliti og einnig að byggingu, sumir eru alltaf stórir, alltaf hávaxnir, alltaf grannvaxnir eða alltaf stórbeinóttir, við skiptum ekki um genin sem ráða vaxtarlagi okkar. En við getum hinsvegar stjórnað hvort við verðum mikið grennri eða mikið feitari, hvort við borðum of lítið eða of mikið. En eins og allt annað sem er flókið í heiminum þá er þetta sára einfallt. Uppskriftin er svona:
Sættu þig við útlit þitt + borðaðu miðað við hreyfingu= Aukin vellíðan.

Auðvitað á maður ekki að sleppa því að borða ef maður hreyfir sig ekkert, því líkaminn þarf jú slatta af orku bara til að halda öllu kerfinu gangandi, við notum meira að segja orku þegar við hugsum, svo ekki vanmeta það að hugsa um að fara út að labba ;)
En það sem gerir þetta allt svo flókið, er neyslusamfélagið sem við búum í, já og við sköpuðum það sjálf og virðumst vilja búa við það að vera eins og við höldum að aðrir vilji að við séum.

Ef okkur langar til að missa nokkur kíló, þá er það í góðu lagi, en þá er líka ekkert óeðlilegt að það taki jafn langan tíma að ná þeim af sér eins og það tók að setja þau á sig. Og það er í þessu eins og öllu öðru, fara fokking MILLIVEGINN sem enginn virðist rata lengur.

Þú þarft ekki að eyða stórfé í brennslutöflur eða próteinduft eða einkaþjálfara...markaðurinn er bara búinn að segja þér að gera það.
Borðaðu bara aðeins minna en þú er vanur/vön, steiktu hamborgarinn þinn heima og notaðu tómatsósu (shitt gott sko) já og steiktu frönskurnar í ofninum á smjörpappír. Fáðu þér appelsínu þegar þig langar í kók...já og ekki trúa að diet-gos sé eitthvað tengt því að léttast.
Ég get gefið ykkur hundrað svona ráð, alveg frítt, nenni bara ekki að skrifa þau öll hér, nema ég verði beðin sérstaklega um það, þá er það ekkert mál.

En já...við skulum bara fara vel með okkur sjálf, vera góð við okkur og koma vel fram við alla aðra. Hættum að gagnrýna annað fólk og setja út á aðra, hjálpumst að og styðjum hvort annað. Tölum saman um áhyggjur og gleði. Verum til staðar fyrir hvort annað.
Ef þessum sáraeinföldu (en um leið flóknu og erfiðu...já það er fokking erfitt að hætta að smjatta á mistökum annarra) ráðum er fylgt, þá er ég viss um að margt myndi lagast í samfélaginu, meðal annars EINELTI sem virðist þrífast hvar sem er, en það sem verra er, þá eyðileggur einelti æsku fjölda barna á hverju ári.

Tökum höndum saman, ég mæli með þjóðarátaki í góðsemi ;)

Till next...adios

Tuesday, October 18, 2011

Hugleiðingar um virkjanir og baðferðir...

Ég fór í bað um daginn, sem er ekki í frásögur færandi, en einhverra hluta vegna fór ég að hugsa um virkjanir í baðinu. Einu sinni var ég mjög hlynnt virkjunum, sá bara alls ekkert athugavert við það að sökkva einhverju landskika sem hvort eð er fáir nenntu að skoða og bara „urð og grjót“. Ég fór meira að segja upp að Kárahnjúkavirkjun þegar framkvæmdin var komin vel á veg, og fannst mest „töff“ hvað stíflan var mikið mannvirki og klikk flott að vera staðsettur á stað sem yrði á 200 metra dýpi þegar lónið væri orðið fullt.

Síðan þá hef ég bæði lært mikið og hugsað enn meira. Ekkert landsvæði á jörðinni er „bara eitthvað land“. Náttúran er ekki eitthvað sem við eigum að fara með að eigin geðþótta. Þurfum við fleiri virkjanir? Þurfum við að eyðileggja fleiri náttúruperlur? Hver einasti steinn og hver einasta þúfa er náttúruperla, allir staðir eru einstakir. Alveg eins og hver einasta manneskja er einstök.
Þurfum við fleiri álver? Og hefur fólk leitt hugann að því hvað álver er og afhverju erlendir álframleiðendur vilja reisa álver á Íslandi?

Álframleiðsla er talsvert langt ferli sem byrjar í námugreftri við migbaug jarðar, en þar eru báxít námur. Báxít er leirjarðvegur og úr honum er svo unnið súrál. Súrálið er svo flutt hingað í álverin þar sem mest mengandi ferli álframleiðslunnar fer fram; álbræðslan. „Til frumvinnslu á einu tonni af áli þarf um tvö tonn af súráli, 520 kg af kolefnisskautum, um 15 kg af álflúoríði auk raforku sem nemur 14.800 kWh.“ (Alur, álvinnsla hf. http://www.alur.is/drupal/?q=node/11 ).
Síðan eru álstangirnar fluttar erlendis aftur til hinna ýmsu staða í hina ýmsu framleiðslu. Við „fáum“ að sjá um þann hluta sem mengar mest, því að við erum jú svo heppin að eiga svo mikin mengunarkvóta!

Við íslendningar erum nenfilega svo ótrúlega fá, að vegna smæðar okkar, en stærðar landsins, þá getum við gert ýmislegt. Við teljum okkur huga vel að náttúruvernd og vera framarlega meðal þjóða í endurvinnslu og eigum fullt af ósnortnum fallegum náttúruperlum. Að mörgu leyti er það kannski rétt, en við erum heimsmeistarar í sóðaskap. Við erum sú þjóð í heiminum sem skilur eftir sig stæðsta sporið í umhverfissóðaskap. Ef allar þjóðir heims, skiluðu frá sér jafn miklu sorpi og íslendinar, þá þyrftum við 7 jarðir til að búa á!

Af hverju er alltaf einblínt á orkufrekan, mengandi iðnað, þegar rætt er um atvinnuuppbygginugu á landinu? Af hverju er ekki farið út í vistvænni framleiðslu, eins og t.d stórframleiðslu á grænmeti og ávöxtum? Það er tiltölulega auðvelt að byggja gróðurhús (amk miðað við álver) og til þess að vera með stóriðnað í gróðurhúsum, þarf lýsingu, hita og áburð (lífrænan). Ég er svo sem engin sérfræðingur í ræktun grænmetis og ávaxta, en veit þó að það er hægt að rækta allar heimins tegundir við réttar aðstæður, sem auðvelt er að skapa í gróðurhúsum þar sem aðgangur að heitu vatni og rafmagni er. Einnig held ég að gróðurhúsaljós þurfi að vera orðin ansi mörg til að þurfa jafn mikla orku og eitt álver.

En já, því ekki að byggja nokkur stór gróðurhús á Bakka við Húsavík? Rækta þar epli, banana, appelsínur og allar þær tegundir ávaxta og grænmetis sem við erum að flyja inn á hverjum degi. Við gætum hæglega mettað íslenskan markað og jafnvel farið í útflutning þegar fram í sækir. Hverju höfum við að tapa? Hver þekkir ekki muninn á íslenskum tómötum og erlendum? Ég get amk hæglega ímyndað mér svaðalega góða íslenska banana og appelsínur og og og....

Maður fær amk stundum á tilfinninguna að það sé eitthvað annað sem hangir á spítunni en hagur þjóðarinnar, þegar alltaf er einblínt á það sama og heimurinn hrynur ef við fáum ekki enn eitt álverið og þurfum þá kannski að reisa enn eina virkjunina...byggja stíflu!
Erum við ekki að verða vaxin upp úr stífluleiknum? Getum við ekki horft svolítið fram á veginn og hjálpast að við að halda landinu okkar eins og það er...amk ekki skemma meira.

Erlendir ferðamenn koma ekki til að skoða álverksmiðjurnar okkar, en ég er viss um að þeir myndu glaðir kíkja inn í risa gróðurhús og smakka á íslenskum bönunum.
Lækir eru lækir, ár eru ár og fjöll eru fjöll, eigum við ekki bara að hafa það þannig áfram?

Till next...adios

Monday, October 03, 2011

Hugleiðing

Hugleiðing...

Það er til bók sem heitir „konan sem man“ og stundum dettur mér í hug hvort að ég sé eini íslendingurinn sem man. Ekki það að ég telji mig sérstaklega minnuga, er reyndar ef út í það er farið alveg fjarskalega gleymin. Ég á það til dæmis til að fara út í búð til að kaupa tannkrem, en kem heim með tvo fulla haldapoka af öllu mögulegu nema tannkremi. En þetta er nú útúrdúr.

Mér skilst að nú sé fólk að fara að berja tómar tunnur á Austurvelli, og tilefni sé að nú sé forsetisráðherra að fara að flytja stefnuræðu sína. Að því tilefni vakna upp spurningar eins og;

Af hverju hlustar fólk ekki á stefnuræðu forsetisráðherrans og dæmir svo hvort það og þá hverju það vill mótmæla?
Hverju er fólk að mótmæla?

Já, ég veit að fólk er að mótmæla ástandinu í landinu, fólk er að missa íbúðir sínar, er búið að missa vinnuna og allt hækkar og hækkar. Ég er ekki að segja að mér finnist ástandið í landinu neitt til að hrópa húrra fyrir. En þar sem ég er konan sem man, þá man ég eftir mótmælum í janúar árið 2009 þar sem „hrunstjórninni“ svokölluðu var komið frá völdum.

Svo var boðað til kosninga og ný stjórn tekur við...og allir ættu að vera glaðir? Eða ekki? Nú vill sama fólkið og kom fyrri stjórn frá völdum koma þessari stjórn frá völdum og ef skoðanakannanir hafa rétt fyrir sér, þá eru allar líkur á að kosningar í dag myndi færa völdin aftur til þeirra sem höfðu þau á undan núverandi stjórn...humm...nú er ég kannski farin að flækja þetta um of.

Ef aðrir væru við völd, erum við þá viss um að ástandi í landinu væri betra? Ég tek það fram að ég er alveg hætt að botna neitt í pólitík í dag og myndi ekki treysta mér til að velja einn flokk fram yfir annan í kosningum, ef kosið yrði í dag.
Persónulega myndi ég vilja alla burt af þingi og ráða inn fólk á faglegum forsendum, ekki samt hagfræðinga, þeir myndu bara fækka fólki í landinu þangaði til að efnahagsástandið næði jafnvægi...hehe...(það verður að vera hægt að grínast smá líka).

Svo í lokin, þá held ég að við séum orðin alltof góðu vön. Það þarf ekkert langt aftur í tímann, til að sjá að hér hefur oft verið mun sárari fátækt en er hér í dag. Fólk gekk eða fór ríðandi langar leiðir (já frá fjölskyldu) til að vinna skítavinnu fyrir léleg laun. Í dag, þá fer fólk ekki einu sinni út á land til að vinna...og getur ekki hugsað sér að taka eina törn á sláturhúsi á Húsavík, og virðist þá litlu skipta hvort það eigi fjölskyldu eða ei. Nei, það er víst öruggara að vera atvinnulaus í Reykjavík heldur en í fásinninu út á landi.

Já og svo getur fólk jafnvel ekki leyft sér að fara í utanlandsferðir, svo mikil er fátæktin hér á landi.

Ég veit að ég er hundleiðinleg, og ég veit líka að það er til fólk sem á verulega bágt, en það er líka til fólk sem er bara verulega vælið og það skemmir fyrir hinum sem virkilega þurfa á hjálp að halda.

Ég hef það til dæmis bara mjög gott, en ég hef líka bara farið í tvær utanlandsferðir á ævinni, þá fyrri 1987 og seinni 2005. Ekki að mig hafi ekki langað, en ég tók bara þá ákvörðun að nota frekar launin mín í fæði, klæði og húsnæði (leigu) fyrir mig og strákana, heldur en að fara reglulega í utanlandsferðir og standa svo í biðröð fyrir utan mæðrastyrksnefnd.
Ég veit ekki hvort þetta heitir stolt eða bara heimska...kannski sitt lítið af hvoru. En maður bara moðar úr því sem maður hefur og er ekkert að barma sér. Svo hef ég heyrt að fólk sem fer mikið til útlanda sé ekkert að njóta þess almennilega...orðið hversdagslegt.

Grasið er líka yfirleitt bara sölnað hinumegin þegar maður er loksins kominn yfir.
En, já...hvað vildi ég sagt hafa með þessari hugleiðingu? Æ, ég veit það varla sjálf, kannski bara reyna að vekja einn eða tvo til umhugsunar um hvernig þjóðfélagi við viljum búa í. Viljum við vera freka spillta barnið sem grenjar og öskrar við minnsta mótlæti eða viljum við vera prúða vel upp alda barnið sem er þakklátt fyrir það sem það fær og kann að þakka fyrir sig?

Það er talsvert langt síðan að ég gerði upp við mig hvernig ég vil vera, og er enn að vinna í því (maðu er svo agalega breiskur), þetta kostar allt vinnu og það að fara í gagnum lífið með talsverðri meðvitund. En það verður hver og einn að gera upp við sig hvernig hann vill lifa sínu lífi.
Góðar stundir 

Till next...adios