Saturday, November 19, 2005

Húmar að kveldi

og líður að jólum!
Í þessum rituðu orðum er klukkan 16:50 að staðartíma. En úti er orðið dimmt og drungalegt!
Eða eins og skáldið sagði:
Nú húmar að kveldi
og skuggar sækja að
í öllu sínu veldi
það er nefnilega það.

Annars hef ég ekkert að segja eða skrifa...en geri það nú samt!

Það kom í ljós í gær að ég þarf að fara suður til Reykjavíkurborgar 9.desember! Skreppa með hann Kristján litla til læknis og sjálfa mig til augnlæknis 8-)

Annars er ég voða róleg yfir því að styttast tekur í jólin. Ólíkt sumum sem virðast vera að fara yfirum (starx!) af stressi, þurfa að sótthreinsa íbúðir sínar og baka a.m.k 15 sortir , tala nú ekki um gjafakaupin.
Maður hleypir nú þessu bara framhjá sér, jólin koma á sama tíma og vanalega, hvort sem ég er búin að slettast með blauta tusku upp um alla veggi eða ekki. Staðreyndin er nú bara sú ,að mér finnst miklu skemmtilegra að sitja undir teppi og horfa á góða mynd í sjónvarpinu, með kakó og smákökur sem "kexsmiðjan" eða "Kristjánsbakarí" hafa bakað fyrir mig, heldur en að hamast með tusku upp um alla veggi og út í öll horn!
Ef ég væri rík (tík) þá myndi ég vera með skúringakonu sem kæmi einu sinni í viku ;)

Jæja, nóg af jólaundirbúning mínum...ætla að hætta að slæpast á netinu og reyna að taka pínu til :) or not! Sjáum til hvort hefur meira aðdráttarafl tuskan eða sófinn...

Till next...adios

Tuesday, November 15, 2005

Afmælisdagurinn...

minn er í dag :)
Vildi bara láta þess getið, aðallega fyrir alla þá sem ekki mundu eftir honum!
Sem að vísu eru kanski ekki svo margir...meira að segja allir bræður mínir sem staddir eru á Íslandi mundu eftir honum :)
Svo ég ætla bara að óska sjálfri mér til hamingju með daginn :)
annars var dagurinn óskup hversdagslegur, brjálað að gera í vinnunni, allir að leggjast í pestir á þeim bænum! Svo pantaði ég pizzu í tilefni dagsins og fór svo á kóræfinug :) That´s aboute it!
En ennþá er tekið við gjöfum milli kl.16-19 alla virka daga út þennan mánuð ;)

Ég fékk jú eina gjöf, hann Mikael gaf mér lítið Bountý súkkulaðistykki sem hann rændi af bróðir sínum :)

Lifið í lukku en ekki krukku...

Till next...adios

Sunday, November 13, 2005

Rugludagur

Heil og sæl :)
Um daginn þá var rugludagur í leikskólanum hjá Mikael, sem var svo sem allt í góðu, þá áttu krakkarnir að koma í úthverfum fötum, sitt hvorum sokknum og fleira svoleiðis rugl.
Allt í góðu með það, leifum krökkunum að vera rugluð í einn dag :)

Verra var þegar margar konur landsins "rugluðust" dag einn í október, lögðu niður vinnu og flykktust á einhverja úti-og innifundi víða um land!
Og afhverju??? JÚ það voru einhver 30 ár síðan að "kvennafrídagurinn" var! OG!
Hversvegna í óskupunum þarf ég að gjalda fyrir þessa vitleysu? Leikskólanum var lokað kl.14:00 !!!
Ég hef nú sjaldan kvartað yfir hlutum sem pirra mig, en þetta pirraði mig það mikið að ég fór og talaði við aðstoðarleiksskólastjórann (leikskólastjórinn var einhverra hluta vegna í fríi).
Hún var náttúrlega hin elskulegasta, sagði að bæjarstjórafíflið (smá innskot frá mér) hafi hvatt allar konur hjá bænum til að leggja niður vinnu, og að þessi verknaður allur væri löglegur.
Ég er nú reyndar enn í vafa, mér finnst það mjög skrítið að það megi loka leikskólanum 3 klst á undan lokunartíma, og tilkynna foreldrum það með 4 daga fyrirvara. Auk þess sem að ég er búin að greiða fyrir þessa þjónustu!
Annars er það sem fer mest í taugarnar á mér þetta endalausa "kellingavæl" geta konur ekki bara tekið sig saman í andlitinu og farið að vinna "karlastörf" fyrst að þær öfunda þá svona mikið útaf laununum?!
Mig langar nú bara hvorki að vera útá sjó eða moka snjó, sem dæmi.

Einnig er það alkunna í dag, að launamismunurinn er stéttaskiptur en ekki kynjaskiptur. Karlar nenna bara að vinna meiri yfirvinnu og lengir vinnudag.
Og geta kellingafíflin ekki bara verið ánægð yfir góðu laununum sem karlarnir þeirra leggja til í búið?

Mér finnst bara í góðu lagi að karlinn hafi það góð laun að konan geti verið heima og hugsað um börn og bú ef vilji er fyrir hendi.....

Mér hefði fundist gáfulegra að þessar kellingar sem tóku þátt í kvennafrídeginum fyrir 30 árum, hefðu hisst yfir kakói og kleinum, en látið það vera að pirra mig sem var 6 ára þegar þetta var, og hafði bara ekki minnsta áhuga á þessum rugl degi!!!

Ps. kabarettinn tókst bara vel :)

Till next...adios

Rugludagur

Heil og sæl :)
Um daginn þá var rugludagur í leikskólanum hjá Mikael, sem var svo sem allt í góðu, þá áttu krakkarnir að koma í úthverfum fötum, sitt hvorum sokknum og fleira svoleiðis rugl.
Allt í góðu með það, leifum krökkunum að vera rugluð í einn dag :)

Verra var þegar margar konur landsins "rugluðust" dag einn í október, lögðu niður vinnu og flykktust á einhverja úti-og innifundi víða um land!
Og afhverju??? JÚ það voru einhver 30 ár síðan að "kvennafrídagurinn" var! OG!
Hversvegna í óskupunum þarf ég að gjalda fyrir þessa vitleysu? Leikskólanum var lokað kl.14:00 !!!
Ég hef nú sjaldan kvartað yfir hlutum sem pirra mig, en þetta pirraði mig það mikið að ég fór og talaði við aðstoðarleiksskólastjórann (leikskólastjórinn var einhverra hluta vegna í fríi).
Hún var náttúrlega hin elskulegasta, sagði að bæjarstjórafíflið (smá innskot frá mér) hafi hvatt allar konur hjá bænum til að leggja niður vinnu, og að þessi verknaður allur væri löglegur.
Ég er nú reyndar enn í vafa, mér finnst það mjög skrítið að það megi loka leikskólanum 3 klst á undan lokunartíma, og tilkynna foreldrum það með 4 daga fyrirvara. Auk þess sem að ég er búin að greiða fyrir þessa þjónustu!
Annars er það sem fer mest í taugarnar á mér þetta endalausa "kellingavæl" geta konur ekki bara tekið sig saman í andlitinu og farið að vinna "karlastörf" fyrst að þær öfunda þá svona mikið útaf laununum?!
Mig langar nú bara hvorki að vera útá sjó eða moka snjó, sem dæmi.

Einnig er það alkunna í dag, að launamismunurinn er stéttaskiptur en ekki kynjaskiptur. Karlar nenna bara að vinna meiri yfirvinnu og lengir vinnudag.
Og geta kellingafíflin ekki bara verið ánægð yfir góðu laununum sem karlarnir þeirra leggja til í búið?

Mér finnst bara í góðu lagi að karlinn hafi það góð laun að konan geti verið heima og hugsað um börn og bú ef vilji er fyrir hendi.....

Mér hefði fundist gáfulegra að þessar kellingar sem tóku þátt í kvennafrídeginum fyrir 30 árum, hefðu hisst yfir kakói og kleinum, en látið það vera að pirra mig sem var 6 ára þegar þetta var, og hafði bara ekki minnsta áhuga á þessum rugl degi!!!

Ps. kabarettinn tókst bara vel :)

Till next...adios

Saturday, October 15, 2005

Slátur

Nú, eða sláttur! Undarlegt hvað einn stafur getur skipt miklu máli!... en þetta er nú útúrdúr.
Nú eru haustverkin í algleymingi. Sláturgerð var sl. föstudag (í gær) og styttist í "kjötbras" og kabarett.
Sverrir bró. er að semja hlutverk fyrir okkur systkinin (svo við getum nú bæði slegið í gegn;) og Árni bró ku víst búinn að trúlofa sig! Það las ég a.m.k á Bloggi og ekki lýgur það ! Nonni bró er staddur í S.-Ameríku og Þórður bró hjá Securitas!
Og ég.....bara sama sama. Nema kanski að viðbættu kabarett-gospel stússi.

Nýju nágrannarnir á efri hæðinni eru flutt inn, í kvöld, svo ég fer að sjá fyrir endann á endalausum hamarshöggum, borhljóðum og ýmsum hávaða !
En hvað þau eru heppin að eiga svona "geðgóðan" nágranna :)
Svo auglýsi ég hér með eftir góðu fólki til að kaupa efstu hæðina í húsinu "mínu", það er búið að gera hana voðalega fína og er hún jafnframt á viðráðanlegu verði fyrir milljónamæringa:)

Jæja, best að fara að koma sér í háttinn, reyna svo að vera dugleg á morgun og laga til og þrífa!!! Or not!;/
Svo held ég líka að það séu allir (allir tveir) hættir að lesa bloggið mitt....en það er líka bara allt í lagi, ég get þá bara farið að láta allt flakka! Múhahaha!

Till next...adios

Sunday, October 02, 2005

Veðurspá vetrarins

Nú er ég búin að dreyma fyrir veðri vetrarins!
Það var í fyrrinótt sem mig dreymdi að ég fór inn í fjárhús sem var nánast fullt af kindum, þó
gátu þær nú samt hlaupið um og voru mjög styggar! En samt dáðist ég að litarfari þeirra, það voru nefnilega margar flekkóttar, flestar í framan! Ég hugsagði einmitt að það væri nú gaman ef það væru fleiri svona í sveitinni heima!;)
Þetta var í einhverjum fjárhúsum fyrir austan...er ekki viss með staðsetninguna.
Svo veðurspáin er svohljóðandi: "Það verður mjög umhleypingasamt veður í vetur, snjór og hláka til skiptis og talsvert hvasst!

En frá veðurspá í heilsufar dagsins! Nú er liðið rétt að skríða saman eftir magapest sem laggt hefur alla í sófann!
Mikael byrjaði á þriðjudagskvöld, síðan ég á föstudag og Kristján í gær, laugardag. Kristján greiið fór nú verst út úr þessu því hann byrjaði að æla kl.05 að morgni laugardags og hætti ekki fyrr en um kl.10 að kvöldi sama dags!!!
En nóg af svona ógleðissögum!
Kristján er að fara á Reyki á morgun, verður í 5 daga.
Ég er byrjuð að syngja í gospelkór, og líkar ágætlega það sem af er. Ætla svo bara að sjá til hvað verður.
Svo eru að fara að skella á Kabarett æfingar, reyndar búnir tveir fundir og lofa góðu :)
Man ekki eftir að það hafi verið komið svona mikið efni svona löngu fyrir Kabarett.....

Allir sem virkilega langar til að hlæja og skemmta sér, þeir mæta sko á Kabarett....áætluð dagsetning er 28.og 29. október!

Hef svo sem ekki miklu við að bæta í dag, nema kanski að ég hef tekið þá drastísku (or not) ákvörðun að láta karlmenn algerlega eiga sig a.m.k næstu tvö árin!!!
Og eftir því sem að ég hugsa það betur, því skynsamlegri finnst mér þessi ákvörðun ;)

Till next...adios

Thursday, September 08, 2005

Haust

ÉG lifði lengi í þeirri veiku von, að það kæmi ekki fyrr en eftir 2-3 vikur.
En nú eru nokkur atriði sem benda til þess að það sé komið til að vera, haustið!
Fyrsta ábending: kuldi og miklar rigningar.
Önnur ábending: snjóað hefur í kartöflugarðinn minn fyrir austan húsið.
Þriðja ábending: ég þurfti að skafa af bílrúðunum í morgun!
Fjórða ábending: sendi Mikael með kuldagallann í leikskólann, og hann var í honum í útiveru.
Fimmta ábending: og sú sem gefur sem gleggsta mynd af ástandinu; ég er komin með KVEF!!!

Svo nú gengi ég um með rautt nef og rauðan trefil í hvítri dúnúlpu.

ÉG hélt að kvefskammturinn minn hefði klárast í janúar, en þá laggðist ég í rúmið með ófétis pest, en þá varð til þessi hnoðskapur:

"Er sækir á kvefpestin sárlega
þá skal það ákveðið klárlega,
og fyrir öllum skal sanna
og í hvelli það banna
að haf 'ana oftar en árlega."

Jæja, það er best að hita kakó og setja slettu af "amaroulla" útí og sjáa svo til hvort ég lagist ekki!
Verð a.m.k að vera klár í gangnaslaginn á laugard.
Skilst á honum Sve bró. að það dæmist á mig að fara upp á topp! Þar sem Árni stakk af suður, Þórður verður ósofinn og Nonni að gera eitthvað allt annað en að smala ;)
En við sjáum nú til hvað verður....

Gleðilegt haust;)

Till next...adios

Friday, August 26, 2005

Rigning

Bara örstutt í dag....

Það er rigning og rigning og rigning, ííííííííískuldi og skólinn er byrjaður hjá Kristjáni.
Vinnu vikan er búin JÍBBÍ! Væri alveg til í djamm, en nenni því ekki!

Nágrannar mínir, moldvörpurnar sem eru að grafa allt í sundur og byggja leikskóla við hlið mér, eru voða duglegir. Búnir að reisa voða vegg og halda ótrauðir áfram að girða mig af.

ÉG er ennþá að pirra mig á yfirkerlingunni í vinnunni! Og er nú svo komið að ég myndi stökkva þegar í stað í sambærilega-launaða vinnu! Ef hún væri nokkursstaðar í boði.
Hvað ein kona getur verið "pirrandi" er eiginlega óskiljanlegt! En þetta er nú víst það eina sem hún leysir vel af hendi ;)

Það var í fréttunum í dag að það væri búið að færa sönnur á það að karlmenn væru gáfaðari en konur!
En hvernig stendur þá á því að við þurfum alltaf að hafa vit fyrir körlunum???

Það getur svo sem vel verið að við konurnar höfum minni heila og minna vit, en við notum það a.m.k betur :)

Till next...adios

Monday, August 08, 2005

Heimskramannaráð!!!

Það er nú ekki oft sem ég nenni að rífast, og ennþá síður að ég finni mig knúna til að rífast við bláókunnugt fólk!
En þetta gerðist í dag. Það er nefnilega verið að byggja leikskóla við túnfótinn hjá mér, og allt í lagi með það (nema hann er 3 árum of seint á ferðinni!) nema að þegar ég kom heim úr vinnunni í dag þá var nánast búið að girða fyrir dyrnar hjá mér!
Ég kannski ýki nú aðeins, en samt sem áður eru aðeins tveir metrar (samkvæmt mínum fótum) frá húsvegg og að fyrirhugaðri leikskólagirðingu!
Og ekki var menni sagt eitt eða neitt og blessuð "verktaka girðingin" er talsvert inn á lóðinni
Þessum blessuðum bæjarskipulagtvitleysingjum datt nefnilega í hug að láta endurmæla lóðina og komust þá að því að lóðin var of stór (skemmtileg tilviljun fyrir þá!). Svo runna greiin hér fyrir norðan húsið verða að víkja og gott betur en það!
Svo á að koma vírnetsgirðing á milli mín og organdi leikskólabarna!!!
Og svona til að toppa alla vitleysuna, þá á leikskólalóðin að liggja ca.meter hærra en lóðin hjá mér!!!
Herra "þú hefur ekkert um þetta að segja kelling", sem er sennilega verkstjóri hjá Hyrnu, sagði að ég gæti bara talað við skipulagsdeild Akureyrarbæjar ef ég væri eitthvað ósátt við þetta. En þar væri opið milli 10-12 á dagin. En þeir ætluðu að vera búnir að grafa upp runnana annað kvöld!
Ég sagði að mér þætti nú allt í lagi að tilkynna svonalagað íbúum hússins með smá fyrirvara,svo maður gæti nú allaveganna atugað hvort þetta væri löglegt yfir höfuð.
En hann sagði að það væri ekki sitt verk, bæjarapparratið hefði átt að gera það ef það þyrfti yfir höfuð.
Urrrrrr ég hefði getað argaðá þessa #####.
Svo er náttúrulega búið að grafa og grafa og moldarhaugarnir eru að verða hærri en húsið og mér líður eins og ég búi í kartöflugarði!
Svo nú verð ég að muna að hringja í fyrramálið og skammast ég einhverjum Leif hjá skipulagsdeild. Hann Finnur fulli kall, sem býr enn fyrir ofan mig, er búin að selja og sagðist hafa haft samband við kaupendur, en þeim var sko alveg sama..En bæ the vei....maðurinn sem keypti er að fara að vinna hjá Hyrnu sem er umrætt verktakafyrirtæki!
Svo virðist enginn vita hver á íbúðina á efstu hæðinni! Er það hægt?
Ég hélt að það þyrfti að vera skráður eigandi að íbúðum! Ekki gæti ég skilið bílinn minn eftir á víðavangi og þóst svo bara ekkert kannast við gripinn ef ég væri beðin um að fjarlægja hann!
Er þá bara hægt að labba út úr eigin íbúð og svo kannast bara ekki neinn við neitt!!!

Jæja, búin að fá smá útrás....og ég sem var búin að hugsa mér að tileinka bloggið mitt í dag fyrsta vinnudeginum eftir sumarfrí og tala illa um "ótrúlega asnalegu eldhúskellinguna utan úr geimnum" að öðru nafni "yfirgribba eldhússins" en hún slapp vel vegna framkvæmda við útidyrahurðina hjá mér!

Verður kanski ekki svona heppin næst!!!!

LOST að byrja bráðum...lifið heil!

Till next...adios

Friday, August 05, 2005

Einkamálaauglýsingar

Nú er svo komið að mér finnst ég sitja föst í sama farinu.
Allt í kring um mig er fólk að gifta sig, eiga börn eða á leiðinni til að gera annaðhvort!

Svo ég er búin að sjá, að við svo búið verður ekki unað til lengdar!!!
ÉG er búin að skipuleggja umbótaferli mikið.
Þar sem tilraunir mínar á öldurhúsum bæjarins hafa ekki borið tilætlaðan árangur,
verður að fara nýjar leiðir.

Nokkrar hugmyndir hafa skotið upp kollinum og nú er bara að velja úr.
Ein er að auglýsa í einkamálaauglýsingum dagblaðanna. Spurning hvort Mogginn, DV eða Fréttablaðið er vænlegast til árangurs.
Hugmynd að auglýsingu gæti verið svona:

"Staða eiginmanns og uppalenda er laus til umsóknar.
Umsækjandi skal vera góður í samskiptum, hafa mikla þolinmæði og úrræðagóður.
Áhersla er lögð á snyrtimennsku og gott útlit.
Æskilegt er að umsækjandi sé ekki mikið yfir kjörþyngd og hafi ríkulegan húmor.
Barngóður og ökuréttindi algert skilyrði.
Þetta er reyklaus "vinnustaður" en áfengisneysla er leifð í miklu hófi.
Umsækjandi þarf að geta tekið til hendinni og kunna á þvottavél og uppþvottabursta.
Einnig þarf umsækjandi að hafa góð laun og geta séð fyrir heimili ef svo ber undir.
Ekki er krafist mikillar menntunar en öll mentun verður talin til tekna umsækjenda.

Umsóknir sendist til elisabkf@hotmail.com , ásamt mynd. Öllum umsóknum verður svarað og farið verður með umsóknir sem trúnaðarmál."

Hummm, ég þyrfti kanski að endurskoða þessa auglýsingu áður en ég set hana í blöðin!
Sennilega of löng, kanski betra að segja bara:
"Mig vantar kall, þarf að vera nothæfur í flest, má vera notaður en helst ekki af of mörgum"

Kanski ég hugsi þetta aðeins....

Till next...adios

Thursday, August 04, 2005

Grill

Það var haldin gríðarleg grillveisla, á ættaróðalinu Brekku, í gær.
Tókst það bara með ágætum eftir að örlitlir hnökrar eins og "gasleysi" hafði verið kippt í liðinn.
Telst mér svo til að þar hafi verið samankomin 15 stk. fólks á öllum aldri.:)

Þetta er náttúrulega alveg nauðsinlegt, að hóa stórfjölskyldunni saman a.m.k einu sinni á sumri.
Verst að þarna vantaði Siggu Láru og kafbátinn ;)

Voru teknar þarna tímamóta myndir, eins og : Sverrir og Nonni í pólitískum samræðum", "Árni og Nonni að vaska upp" ,"Sverrir og maiskólfurinn", "Þórður og pabbi í langborðsumræðum" , og fl.(mér tókst að koma mér undan uppvaskinu með því að þykjast þurfa í bæinn....uppvaskið var svo lööööngu búið þegar ég kom mér loks af stað í bæinn;)
Myndi ég setja þessar fínu myndir hér á bloggið mitt ef ég kynni það!
Hef reyndar gert nokkrar tilraunir til að setja myndir á bloggið mitt, en þær enda alltaf með "error" eitthvað , eða það bara gerist ekkert!

Annars er ég að upgötva mér til mikillar skelfingar að sumarfríið mitt er að verða búið!:(
Vinna á mánudaginn!!!

Till next...adios

Wednesday, August 03, 2005

Bifreiðaskoðun

Þegar maður fer með gamla bíla í skoðun (eins og gamla grána minn f.1991) þá þarf maður að vera passlega vitlaus varðandi bíla (eða þykjast vera það) og vera af kvenkyni.
Þetta tvennt hefur a.m.k reynst mér ljómandi vel :)
Ég ákvað í morgun (eldsnemma) að ljúka þessari árlegu kvöð af!
Setti upp sakleysingja svipinn og þóttist glugga í gamalt vikublað, á meðan að þungbúinn maðurinn hristi til bílinn minn!
Svo kallaði hann á mig og sýndi mér mjög ábúðafullur að það væri slitin "upphengja" á pústurrörinu, og það væri náttúrulega ekki gott. Ég tók undir það og sagðist myndi láta laga það í hvelli svo ég myndi ekki missa pústurrörið undan mér á versta tíma!
Svo var líka eitthvað "sambandsleysi í stöðuljósinu að framan", en það fór að loga aftur þegar "hann skellti niður húddinu". Láttu nú laga þetta, saði hann á meðan hann límdi þennan fína "06" miða á númeraspjaldi mitt :)
Ég hélt það nú, sagðist ætla beint að láta hengja upp pústið og spurði hvort hann héldi að ég þyrfti á verkstæði útaf "sambandsleysinu". "Nei, nei...bíddu bara, fyrst ljósið fór að loga aftur og sjáðu bara til".
Svo keyrði hann bílinn út fyrir mig og ég þakkaði pent fyrir.

Og að sjálfsögðu fór ég strax og lét hengja upp pústið, lét meira að segja skipta um olíu í leiðinni !

Næst á dagskrá er ekki að fara með bílinn á verkstæði vegna sambandsleysis....það væri öllu nær að ég færi sjálf í "sambandsleysiskoðun".

En næst á dagskrá er að fara í "lit og plokk" og sjá hvað það gerir fyrir sálartetrið :)

Till next...adios

Monday, August 01, 2005

Vigdís Finnbogadóttir...

Ég sá mér til mikillar skelfingar að það eru 25 ár síðan að Vigdís Finnbogadóttir var sett inn í embætti forseta íslands!!!
Það er í sjálfu sér ekki mesta skelfingin, enda var hún aldeilis fínasti forseti....heldur það að ég man þetta eins og gerst hafi í gær!!! hummmkanski ekki í gær, meira svona fyrragær....en það lítur óneitanlega út fyrir að annað hvort man ég langt aftur í bernsku, eða er að verða svona skolli gömul!!! Og gott ef það seinna er ekki nærri lagi !

Ætli það ség ekki að verða komin tími á að maður ákveði hvað maður ætlar sér í lífinu, taka einhvejar drastískar ákvarðanir.
Ég hef nú yfirleitt verið meira svona fyrir að láta hlutina gerast, án þess að hafa bein afskipti af framgangi mála...kanski er komin tími á breytingar!!!

Ég ætla að minsta kosti að hugsa málið...sjá hvað gerist :)

Svo var líka í fréttum að "engar nauðganir hafi verið kærðar um helgina", talandi um að engar fréttir séu góðar fréttir ;) líka samt skrítið að byrta "engar fréttir" í fréttunum.....fer að minna mann á "ekki fréttatímann".;)

Nú hlusta ég bara á "They might be giants" diskinn sem Sverrir var svo góður að brenna fyrir mig :)
Alger snilld :) Þegar ég hugsa um það , þá finnst mér alveg með ólíkindum að þeir séu ekki þekktari en þeir eru!!! Eða eins og einhver snillingur sagði :"menningarsnauða pakk".

Till next...adios

Wednesday, July 27, 2005

Til-raunir

Ég hef sennilega verið í einu af mínum víðfræðu bjartsýnisköstum þegar ég fann upp fyrirsögnina á þessu bloggi mínu...."Allir dagar eru góðir dagar".....því sumir eru ekki eins góðir og aðrir!
En ég hef nú reynt að lifa eftir uppáhalds "frasanum" mínum:
"Brostu og allur heimurinn brosir með þér....gráttu og þú verður blautur í framan".
og mun reyna það áfram, hvað sem öllum "ekki alveg eins góðum" dögum líður.

Einnig finnst mér gremjulegt, þegar maður tekur rétta og góða ákvörðun (að maður telur), þá geti einhver annar tekið aðra ákvörðun sem gjörbreytir manns eigins ákvörðun !
Sem sagt: er ekkert að marka mína ákvörðun, ef einhver annar tekur aðra ákvörðun sem er yfirsterkari minni ákvörðun!???

Ok, nú vita sennilega fæstir sem lesa þetta (ef einhverjir eru enn nógu þolinmóðir að kíkja hér inn) hvert ég er að fara.....og það er bara allt í lagi....maður þarf ekki endilega að gefa útskýringu á öllu....stundum er maður bara að hugsa undarlega....eða ekki!!!

En núna er ég að hugsa um að reyna að komast á námskeið, og námskeiðið á að heita "Lærðu að hugsa eins og karlmaður", svo ef einhver veit um slíkt námskeið þá má láta mig vita takk (",)

Læt þetta bara duga í bili

Till next...adios

Danmerkurferðin - annar hluti

Jæja, það er ekki seinna vænna að halda áfram með danmerkurferðasöguna....fer nú að verða svolítið djúpt á mynninu!....en höldum áfram sem frá var horfið....

Á föstudagsmorguninn var byrjað á smörrebröd sem var afgreitt af tælendingum í smákompu nærri Ráðhústorginu. Ráðhústorgið er náttúrulega snilldar-torg, þar sem fólk er eins og heima hjá sér, klippir ýmist táneglur á eiginkonunni eða sefur svefni hinna (svefn-)drukknu!
Þá upphófst eina verslunarbrjálæði mitt í ferðinni.....það stóð í ca.2 tíma á Strikinu á meðan að hann Jón hvíldi sig eftir "erfiða" æfingu gærkvöldsins ;)
Enda ekki leggjandi á nokkurn karlmann að æða búð úr búð (fór nú inn í ca.5 búðir) og kaupa og kaupa!!!!
Ég keypti mér sko alveg þrennar buxur og tvenna boli! Og Spiderman bíl handa Mikael ;)

Þegar ég kom heim til Jóns með pinkla mína var hann hinn hressasti og við ákváðum að fara í gönguferð um Köben. Fórum reyndar fyrst á fantagóðan veitingastað og fengum geðveikan kjúkling! Þ.e.a.s hann var geðveikt góður......verð að komast að því hvernig danir matreiða kjúklingabringur....eru alveg meirar og safaríkar....mmmmmmmm :)

Svo var labbað og labbað og skoðaðir allir merkustu staðir Kaupmannahafnar...Litla hafmeyjan (sem er ekki mikið stærri en ég) Nýhöfn, Marmarakirkjan, og fullt af stöðum sem Nonni man hvað heita :)

En ég stóð líka í sporum HC.Andersens ;)
var að vísu heillengi að spá í hvaða spor væru þarna út um allt!!!

Eftir allt labbið fórum við og sáum frumsýningu á myndbandi þeirra Hekkenfeld-bræðra....skítkast. Sem er bæ the vei, alveg snilld....:)

Til að gera langa sögu stutta, þá var ferð í dýragarðinn á laugardeginum, þar sem ég missti mig með myndavélina, enda ekki á hverjum degi sem maður sér ljón, fíla og gíraffa!!!

Og á laugardagskvöldinu voru svo hinir víðfrægu og stórskemmtilegu útgáfutónleikar Hekkenfeld :)
Þar sem Jón bró var náttúrulega laaaang bestur :)
Bjórinn kostaði bara 10 kr.danskar.....svo ég var fegin þegar ég vaknaði upp heima hjá Jóni uppúr hádeginu á sunnudeginum.... en ég mæli alveg með skemmtistöðunum "Kósí" og "Can can" svona ef einhver er á leið til Köben ;)

Sunnudagurinn var letidagur, sem leið að mestu leiti á snilldarbarnum "Oscar", mæli einnig með honum...

Svo á máundagsmorgun var komin tími til að kveðja þessa frábæru borg...og var ekki laust við að það væri með örlitlum söknuði. Nonni fylgdi mér á flugvöllinn....þar sem ég reyndar komst í hann krappann!

Sennilega er mynd af mér núna á Kastrup....svona til vonar og vara fyrir þá ef mér skyldi detta í hug að skreppa aðra ferð yfir atlandshafið :)

Ég kom heim um hádegisbilið, náði í Kristján og við brunuðum heim á leið....með viðkomu á Dalvík að ná í Mikael. Það voru þreittir en ánægðir ferðalangar sem komu heim um kvöldið :)

till next...adios

Wednesday, May 18, 2005

Danmerkurferðin- fyrsti hluti

Ferðalagið byrjaði nú eginlega á miðvikudaginn 11.mai.
Ég fékk að stinga af úr vinnunni kl.14:00 og fór og keypti miða í Hvalfjarðargöngin og náði mér í smá gjaldeyri.
Amma hans Mikaels fór með hann út á Dalvík og við Kristján brunuðum af stað suður um kl.17:00
Ég byrjaði á að skutla Kristjáni til pabba síns þegar til borgarinnar var komið og fór svo upp í Garðarbæ þar sem ég gisti hjá henni Örnu. Það var náttúrulega kjaftað til kl.02 um nóttina og svo vaknaði ég kl.05 morguninn eftir.
Ég var komin á Leifsstöð rúmlega 06, byrjaði á því að villast aðeins í leit að vöktuði bílastæði, þar var frekar ólipur starfsmaður sem spurði hvort ég ætlaði að borga með debet,visa eða pening. Þegar ég sagði ha? Þá argaði hann á mig: "svaraðu stax". Ég stamaði út úr mér að ég ætlaði að borga með debet, og þá rausaði hann eitthvað sem ég skildi ekkert í, rétti mér miða og ég stormaði í burtu. >Lagði bílnum og vonaði að ég myndi finna hann þegar ég kæmi til baka.
Þegar í flugstöðina kom þá fann ég vingjarnlega konu sem gat sagt mér hvað ég ætti svo að gera við þennan blessaða miða sem bílastæðavörðurinn rétti mér!
Auðvitað lennti ég í ógulegri röð, en að lokum gat ég tékkað mig inn og fór í fríhöfnina.
Ég er ekki alveg að skilja hvað fólk nennir að kaupa sér í þessari fríhöfn, þarna tróðust konur um allt og fylltu körfur sínar af kremum og ilmvötnum.
Ég svona hálf flaut með straumnum og náði að grípa með uppáhalds ilmvatnið, maskara, varalit og dagkrem.
Svo keypti ég Starwars legó tölvuleik fyrir Kristján og starfæna myndavél handa mér :)

Svo settist ég niður og dróg andann léttara eftir þessa þrekraun!

Þegar að fluginu kom þá lennti ég aftur í röð, það var eins og allir væru á leiðinni til Köben, enda var vélin alveg kjaftfull!
Á leiðinni var frekar óspennandi fræðslumynd um hárþykkingar vörur og andlitskrem! Hummmm...ekki veit ég hvað Icelandair ætlar sér með þessu framtaki sínu.
Svo var lennt og ég var orðin SPENNT, var eflaust eins og lítill krakki, VÁ hvað allt var stórt og allt öðruvísi!

Nonni bró beið eftir mér á flugvellinum og byrjuðum við á að fara í lest og Nonni lennti í leiðinlegum lestarverði sem verður ekki rakið meira hér!

Svo um kvöldið fór Nonni á hljómsveitaræfingu og ég í Tívolí!!! Það var ekkert smá gaman :)
Rússíbaninn stóri nýji var toppurinn. Turninn þar sem maður er hífður upp 60 metra og dettur svo niður, var mest skerí! Það var rosalega gaman að prufa þetta allt saman og ég skemmti mér ofboðslega vel :)

...nú ætla ég að gera hlé á sögunni og frh.næst

Till next...adios

Wednesday, May 04, 2005

Kóngsins Köbenhavn

Þar kom að því!
Ótrúlegt en satt, hinn mikli meistari frestanna er búin að panta sér far til Köben :)
Flýg út þann 12.mai kl.7:45 og til baka 16.mai kl.10:40
Ég veit Jón, að þetta finnst þér stutt stopp, en það bara verður að duga núna :)
Og að öðrum merkilegum atburðum í lífi mínu þessa dagana: "ég fór í gær og lét skipta yfir á sumardekkin (sem eru reyndar gömul vetrardekk, en heita núna sumardekk) og ekki nóg með það, heldur lét ég líka skipta um olíu! Mér finnst þetta reyndar svo mikið afrek á einum og sama deginum að ég eigi skilið frí á morgun....og viti menn, ég er í fríi á morgun :) Að vísu vegna þess að það mun vera Uppstigningardagur og þá eiga svona heilagar letikisur eins og ég að vera heima og mala :)
En í dag hlakkar mig mikið til að fara til Köben. Hlakka einnig til þegar það kemur almennilegt sumar (það fór náttúrulega að snjóa eftir hin miklu dekkjaskipti) og er almennt bjartsýn á lífið og tilveruna.

Búin að komast að ýmsu sniðugu um stórfjölskyldu mína sem ég vissi ekki áður, eins og t.d. Þórður bró. skoðar djammið á Akureyri á netinu...hummm (lítið að gera í vinnunni ha!)
Árna bró. þykir vænlegra að Sigga Lára geti veitt uppúr mér leyndarmál en hann...:)
Svo á hann Sverrir litli brói afmæli í dag! Til hamingju með það :)

Annars er ég að velta því fyrir mér að koma bara með ráðskonu með mér frá Danmörku fyrir hann Sverri bónda...ekki veitir honum af hjálpinni við sauðburðinn....góð hugmynd að afmælisgjöf! hehe.

Well...Jón, nú hefur þú viku til að undirbúa komu mína :)
Og vil ég skora á fleiri í leiðinni að drífa sig til Köben og koma með mér á tópnleikana hans Nonna :)
Já og meðan ég man, tónleikarnir sem Árni var að syngja á voru mjög góðir og Árni var að sjálfsögðu lang bestur!

Till next...adios

Saturday, April 30, 2005

Skýjum ofar

Ég skrapp til Reykjavíkur sl.fimmtudag. Sem er í frásögur færandi.
Ekki get ég sagt að ég hafi gaman af því að fljúga...því fer fjarri, en þegar maður þarf að skreppa á námskeið
þá lætur maður sig hafa það.
Svo þegar vinnustaðurinn borgar flug og heilar 2500 kr. í dagpening þá er það ekki spurnign.
Ég hefði að vísu valið betri ferðafélaga en það slapp til.
Ég fór á námskeið í hraðkælingu og hraðfrystingu og varð margs vísari. T.d ef maður frystir matinn sinn í venjulegum frysti á Ítalíu er maður settur í steininn! Eða það sagði amk ítalinn sem var með námskeiðið. Það fór sem betur fer fram á ensku, þar sem ítölsku kunnátta mín er lítil sem engin!
En þetta var sem sagt ansi góð ferð, flugið fínt og svo gaman að horfa niður á skýin og auðvelt að ímynda sér að það sé nú bara ekkert mál að hoppa á milli skýjabólstra!

Svo ég var skýjum ofar...og er það reyndar enn...en það er allt önnur saga.

Verð að stoppa núna og þjóta á tónleika með Árna bró.stórsöngvara :)

Till next...adios

Tuesday, April 05, 2005

Klirrumprill

ÖSKUR!!!!

Ég var búin að skrifa ógeðslega ógeðslega mikið....Publish Post og púfff!
Allt horfið....
Ætla að skæla aðeins og athuga svo hvort ég nenni að endurskrifa eitthvað af þessari snilld

Klirrumprill

Jamms og kjamms...

Stundum finnst mér alveg kostulegt hvað mér dettur mikið í hug, til að skrifa á blogginu mínu, þegar ég er víðsfjarri tölvu! Eða hef engan tíma til að setjast niður og skrifa.
Datt þetta í hug þegar ég gluggaði í vikutímaritið Andrés Önd.
Það bar nefnilega svo til tíðinda að Andrés nokkur, sem er söguhetjan, langaði svo til að skrifa handrit. En fannst það erfitt og taka langan tíma, því hann var ýmist upptekinn við sjónvarpsgláp eða át. Þá skrapp hann til vinar síns Georgs gírlausa sem einmitt átti til handa honum huxanaskrifara, fyrir hreina tilviljun. Svo hann setur huxanaskrifarann á höfuð sér sem sér um að skrifa niður hugsanir hanns og prennta út.
Það sorglegasta við þetta var að Andrés átti mjög erfitt með að einbeita sér að því að hugsa um eitt í einu svo að þetta gekk ekki vel hjá honum.
En hugmyndin fannst mér góð, þ.e þetta með huxanaskrifarann...þá þyrfti maður ekkert að hafa fyrir þessu og kæmi hugsununum frá sér áður en maður gleymir öllu þessu sniðuga sem maður ætlaði að segja :)
En ég þekki víst engan Georg gírlausa.....

Ég verð líka að bæta því að Andrés Önd er alveg snilldar lesefni og ráðlagður skammtur er eitt blað á viku, gott fyrir sálartetrið.

Talandi um sálartetrið. Mér finnst líka snilld þegar upp eru fundnir þættir sem láta mann líða vel með það sem maður hefur í kring um sig.
Einn slíkur þáttur heitir "allt í drasli" og er í umsjá Heiðars snyrtis og hússtjórnarstýru nokkurrar sem ég man ekki nafnið á.
Ég er nefnilega ein af þeim sem nenni bara alls ekki að vera með tuskuna á lofti á hverjum degi og eins og verða vill (með tvo algera draslara á heimilinu) er stundum mjög óregluleg afstaða til hlutanna hér á heimilinu.
En viti menn, eftir að hafa horft á einn þátt af "Allt í drasli" þá hreinlega glansaði mín íbúð og bar þess vott að hér byggi kona sem tæki til og þrifi hjá sér í amk 3 tíma á dag!

Svona á þetta að vera! Hætta að sýna fullkomnunarþætti eins og "Next Amerikan Topp model" og "The Swan",
Sýna heldur þætti með allt í drasli og þá ekkert að vera að laga til fyrir fólk!
Sýna þætti með ljótu fólki, skrítnu fólki, fólki í basli og s.frv.
Þættirnir gætu heitið eitthvað á þessa leið:

"Ljóti andarunginn "
"Bilaði bíllinn" eða "bölvuð beiglan"
"Flottasta ruslakompan"
"Lægstu launin"
og svona mætti lengi telja...

Þetta er náttúrulega rugl að vera að sýna okkur meðalJónunum þætti sem eru til þess eins fallnir að sýna okkur að við erum bara meðalJónar!

En samt er nauðsinlegt að hafa einn og einn þátt með sætum strákum....byrjaði einn í gærkvöldi LOST og ég er nokkuð viss um að hann heitir LOST af því að það er svo LOSTafullur læknir sem er í aðalhlutverki :)
Ég reikna amk með að hann sé í aðalhlutverki fyrst að hann var ekki étinn eða tættur í sundur í fyrsta þætti, skrámaðist bara aðeins á bakinu við flugslysið...sem bæ ðe vei...flugstjórinn lifði af slysið...þótt nefið af flugvélinni hafð endað langt frá restinni af vélinni...en var svo bara tættur út um gluggann af einhverju sem enginn veit enn hvað er...en er sennilega stórt og getur flogið...eða er rosalega stórt...því restin af flugstjóranum ó-heppna endaði upp í tré! The end...nú bara bíður maður spenntur eftir næsta þætti :)

Verrívell.......búin að rugla nóg í bili

Till next...adios

Sunday, April 03, 2005

Súkkulaði

Sælt veri fólkið :)

Vil ég byrja á að þakka Nonna, Siggu Láru og Lifur (frænda) kærlega fyrir stuðninginn og ógurlega þolinmæði :)
Þið verðið til þess að ég sest niður við seinfæru tölvuna mína og reyni að rita eitthvað að viti (eða ekki viti...skiptir engu!).

Einu sinni, þegar ég var lítil stúlka, þá hélt ég að það væri aldrei hægt að fá nóg af súkkulaði.
En ég dag er ég eginlega komin á aðra skoðun.
Ég keypti nefnilega páskaegg handa strákunum mínum, nú eins og góðri móðir sæmir..., og afþví að þau voru á tilboði í Bónus (ekkert bruðl) þá urðu fyrir valinu tvö egg nr.6 (sennilega eitthvað sem mig hefur dreymt um sem lítil stúlka).
Svo þegar Kristján kemur heim, kemur hann með eitt páskaegg með sér! Sniðugur leikur hjá föður hans...láta hann taka út sykuræðið hjá mér ;) hehe, og við Mikael ekki enn búin með páskaeggið hans!
Svo staðan í dag er þannig: ennþá leifar af 2 eggjum þeirra bræðra og eitt egg nr.6 ennþá falið upp á skáp!
Mér finnst súkkulaði flæða út um eyrun á mér pog hugsa með hálfgerðri skelfingu til þess þegar síðasta páskaeggið verður tekið til átu!
Verst að hann Friðrik Ingi fermdist ekki um páskana, þá hefði ég gega gefið honum það í fermingargjöf...múhahaha!

Talandi um ferðalög til Köben...hummm....hux.... þegg hlýtur að fara að koma. Það eina sem er að hrella mig núna eru fjárlög heimilisins!
Ísskápurinn minn gamli (sem ég fékk gefins fyrir ca.13 árum síðan, þá átti sko að henda honum) tók upp á því um dagin að telja hlutverki sínu sem kæligeymslu lokið og fór að hita innihald sitt! Það var ekki geðsleg aðkoma á sunnudagsmorgni, að opna ísskápinn og á móti manni kom hitabylgja....mjólkin rann ekki úr fernunni heldur slettist þykk og vellyktandi úr henni!
Svo ég þurfti að drífa mig strax í búð og kaupa nýjan ísskáp.
Sem var sko ekki inn á fjárlögum þessa árs.
En þessi nýji er nú aldeilis mikilu flottari en gamla greiið :)
Svo þurfti ég líka að kaupa mér gleraugu um daginn, svo að fjárútlát mín hafa verið í hærri kantinum það sem af er árinu. ÉG er að vísu ekki búin að borga ísskápinn alveg....tek mér nú sennilega tvo mánuði í það.
Svo ferðaáætlanir ráðast kanski svolítið af fjármálum, finnst lítið spennandi að fara til Köben og geta ekki eytt neinu! En ég er á fullu að plana í hausnum....og á hausnum;)

Jæja, læt þessu lokið í bili
reyni bara að skrifa fljótlega aftur...

Till next...adios

Monday, March 28, 2005

Xskjúse mí

Heilt og sælt veri fólkið...

Sennilega eru nú samt allir (allir = þessir fáu sem lesa bloggið mitt, eða lásu!) búnir að gefast upp á að fara hingað inn. Ekkert skrifað síðan fyrri hluta 1425...ýki kanski smá.

Annars ef ég reyni að afsaka mig eitthvað, þá er þetta sambland af leti, leti og óþolinmæði gagnvart tölvugarminum mínum! Ég er ekki einu sinni að ýkja þegar ég segi að ég þarf að bíða í nokkrar mínútur bara til að komast inn á bloggið.

Annars er ég nú samt hissa á mér að nenna ekki oftar að skrifa, því ég hef alveg haft helling til að skrifa um.
Man að vísu ekki helminginn núna en þetta sem ég man er:
Það var árshátíð FSA 5.mars, gekk alveg ljómandi vel. ÉG var veislustjóri og stóð mig að sögn annara alveg hreint ljómandi vel. Hún var þarna hún Elísabet Gestsdóttir ,náfrænka mín, og var alveg hreint að springa úr stolti! Læt þetta bara fljóta með...;)
Svo fékk ég flensu, og fékk aftur flensu og svo fékk ég líka sýkingu í flest tómarúmin í hausnum á mér (sem hljóta að vera þónokkur, því ég var alveg að farast) og þurfti að vera á sýklalyfum í 10 daga.
Missti meira að segja heyrnina á hægra eyranu í tvær vikur eða svo. Svo nú er ég að verða bæði blind og heyrnarlaus!
Get að vísu ennþá talað ótæpilega mikið :) mér amk til mikillar gleði....múhahahaha

Svo er ég löt í skólanum, veit ekki afhverju ég vara að druslast í þetta eina fag...er gersamlega ekki að nenna þessu!
Er með danmerkur ferðina á bið, tek ákvörðun um mánaðarmótin hvenær ég fer.
Verð greinilega að drífa mig fyrir 1.júní ef ég ætla að ná í skottið á honum Jóni áður en hann flyst á klakan um stund amk. Annars finnst mér það frábærar fréttir.
Nú verður sko fjör í sumar :)

Kristján fór suður til pabba síns miðvikudaginn fyrir páska.
Páskarnir fóru mest í að taka til og borða góðan mat.
Fór í sveitina föstudaginn langa, Mikael hjálpaði Sverri að gefa kindunum hey.
Fengum svo hangikjöt með stöppu og grænum baunum...nammi nammi nammmmmm.

Kíktum svo á Dalvík á laugardeginum, fengum þar hammara. Ljómandi fínt.

Fórum svo aftur í sveitina á Páskadag. Eftir að Mikael hafði innbyrt nánast heilt páskaegg nr.6 !!!
Enda var drengurinn í stuði þann daginn.
Fórum aftur í fjárhúsin með Sverri og fórum svo í fótbolta. Fengum svo hrygg og tilheyrandi í kvöldmatinn.....namminamminamminammm!!!
Ég var hálf afvelta þegar ég kom heim.

Svo kom hann Kristján minn heim í dag :)
Og þá færðist nú aldeilis fjör í bæinn...
og nú bíður hann eftir því að komast aðeins í tölvuna...og er ég að hugsa um að leifa honum það, enda ekkert meira að segja og er farin að bulla út í eitt.

Till next...adios

Saturday, February 05, 2005

Leti

Nú er svo komið að maður nennir ekki einu sinni að fara og skemmta sér!
Fyrr má nú aldeilis vera letin...
Ég held að þetta sé líka eitthvað tengt þessum blessuðum timburmönnum sem vilja oft fylgja mínu skemtanalífi!
Annars er mjög viðburðarlítið í mínu lífi.
Alltaf stöðugt vesen í vinnunni. Allir komnir upp á háa c-ið ef eitthvað er.

Fór í dag og kláraði að leika í bíómyndarsenu fyrir hann (Gj)-örnInga.
Byrjað var að taka þessa senu snemma í desember 2003, svo það var ekki seinna vænna en að klára dæmið.
Man þessa fyrri upptöku....úfff, mætti kl.10 laugardagsmorgun eftir mikið skrall kvöldið áður. Mynnir að ég hafi verið að halda uppá próflok.
Það sem reddaði hlutunum var að ég lék sjúkling...sennilega verið sannfærandi.
Eigi veit ég þó gjörla hvenær filma þessi nær augum almennings.
En það er seinna tíma vandamál.

En það er best að henda pylsum í pottinn og góna á imbann.

Skemmtanahald verður að bíða betri tíðar og tíma...

Till next...adios

Monday, January 17, 2005

Starfsdagar

Búin að komast að því að starfsdagar í skólum og leikskólum, eru ekkert svo slæmir.
A.m.k ekki ef maður hefur verið svo forsjáll að skilja eftir sumarfrísdaga.
Ég var í öllu falli ánægð með að vera heima í dag, með litlu kútunum mínum báðum.
Þetta er að vísu í fyrsta skifti sem starfsdagur er sama dag í leik-og grunnskólum hér á brekkunni! En alveg afskaplega hentugt.
Dagurinn fór samt mest í að gera allt sem þarf að gera fyrir kl.16:00
eins og að fara í banka og svoleiðis.
Fór líka og lét taka passamynd af mér og sótti um vegabréf!
Svo nú er ekki aftur snúið...nú skal stefnt að því ljóst og leint að komast til útlanda, nánar tiltekið höfuðstað danaveldis.
Kristján fór í fyrsta skipti í TTT í Akureyrarkirkju. Þetta heitir: "tíu til tólf", og er farið í leiki, sungið og ýmislegt með trúarlegu ívafi.
Hann fann algerlega upp á þessu hjá sjálfum sér. Kom eitthvað fólk að kynna þetta í skólanum á föstudaginn, og hann hefur greinilega heillast svona af því.
En ég er nú ánægð með að pilturinn finni sér einhver önnur áhugamál en að tapa sér í tölvuleikjum.
Annars tíðindalítill dagur.
Það er bara allt voða tíðindalítð í kring um mann núna.
Ætla að draga hana Elísabetu, nöfnu og vinkonu út á lífið næstu helgi!
Nú skal mála bæinn grænan :)

Till next...adios

Saturday, January 15, 2005

Blogg...bölvun eða bæting?

Las það í blaðsnepli nú um daginn, sennilega Fréttablaðinu,
að fólk hefði misst vinnuna útaf blogg skrifum sínum!
Varð nú hálf hvumsa við, þar sem ég hef lítillega reifað vinnu mína á téðum vettvangi.
En afhverju í óskupunum má maður ekki segja sína skoðun á blogginu?
Þetta er nú meira eins og opinber dagbók, heldur en háalvarlegur fréttamiðill.

Er nú svo komið með mig og mína vinnu, að ég er alveg að gefast upp!
Og ekki batnaði það er ég fékk síðasta launaseðil og komst að því að námið mitt, sem staðið hefur yfir í 3 og 1/2 ár, var metið til 8.000 kr.launahækkunar!!!
Ekki finnst mér það nú til að hrópa húrra fyrir.

Ég fengi t.d hærri laun sem ófaglærð matráðskona á leikskóla!
Eftir að þær fengu launahækkun nú um áramót, sem að vísu voru 2 ár aftur í tímann!
En þar sem ég vinn hjá Ríkinu, þá á ég bara að vinna af hugsjón, og ekki hugsa um peninga eða vinnuaðstöðu.

Svo nú ætla ég að leita mér að alvöru að nýrri vinnu, a.m.k ef engar breytingar verða á mínum vinnustað.
Það væri þá bara allt í lagi ef ég yrði rekin vegna skrifa um vinnuna á bloggið, myndi spara mér uppsagnarbréfaskrif :)

Annars örlítið að öðru; ef einhver er með góða uppskrift, að því hvernig á að losna við kvef og hósta, er það vel þegið.

Till next...adios

Sunday, January 09, 2005

Snjór, snjór og meiri snjór

Þetta fer nú alveg að verða ágætt.
Eins og það hafi ekki verið nóg af þessu hvíta kalda fyrir. Nei...þá þurfti nú endilega að snjóa 15cm í viðbót í gær!

Ég ákvað að láta reyna á hvernig heilsan væri orðin, og mokaði snjófjallið ofan af bílnum mínum. Tók tíma sinn, en ég lifði það af, svo ég ætla þá að drífa mig í vinnu á morgun.

Þórður bró á víst afmæli í dag. 39 ára kallinn, ef ég reikna rétt.

Snæfell er byrjað að myndast hér fyrir neðan hjá mér. Risa stór snjóhaugur sem vex og dafnar mjög vel í þessu veðurfari.
Hélt reyndar í fyrra að Snæfell færi bara ekki neitt um sumarið og myndi bara breytast í jökul.
Þá ætlaði ég að skíra það Snæfellsjökul.

Það er ótrúlega mikill snjór sem kemur úr Þórunnarstrætinu og hefur vetursetu hér á auða græna blettinum, fyrir neðan húsið.

Það stendur að vísu til að byggja þar leikskóla, sem mun koma til að ná alveg upp að dyrum hjá mér. Sennilega samt ekki fyrr en Mikael er byrjaður í skóla, hitt væri of auðvelt fyrir mig!

Hvað blessaðir bæjarstarfsmannamokararnir gera þá við snjóinn, veit ég hinns vegar ekki!

Og blessuð börnin sem enn nenna að sparka í bolta, þurfa sennilega að leita sér að öðrum auðum blett fyrir tuðrusparkið.
Bæjaryfirvöld bera sennilega þá von í brjósti, að þessi hreyfingarþörf, sem enn er í örfáum börnum, leggist senn alveg af og flytjist alfarið í fingur barnanna. Auðvitað er búið að gefa allar tegundir íþrótta út á leikjatölvuformi og því tilvalið að börnin séu ekki að þvælast úti á auðum blettum, heldur einbeiti sér að fingrafimi í fótbolta.
Enda alkunna að fótbolti er fremur hættuleg íþrótt, fólk fótbrotnar, snýr sig um ökla, slítur liðbönd eða þaðan af verra.
Tölvuleikir aftur á móti eru tilltölulega hættulausir, ef leiðbeiningum er fylgt um 15 min hlé á klukkutíma. Tognaður þumall er tiltölulega fátítt.

Nú langar mig til að byðja æðri máttarvöld um örlítið minni snjó, eða amk að það snjói ekki meira í vetur :)
Annars fer þorrinn að byrja...sososo

Með von um betri og bjartari tíð

Till next...adios

Wednesday, January 05, 2005

Rok og rólegheit

Þá er nú allt að færast í samt horf, eftir tilbreytingu jóla og áramóta.
Þetta er nú búið að vera alveg ljómandi, ef frá er talið að leggjast í eymd og volæði með eihverslags pestarmynd um áramótin.
Eginlega ómynd, því maður er eginlega hvorki hress né lasinn!

Er samt heima, finnst mun betra að vera heima með hitalurðu og höfuðverk, en að þræla mér út í vinnunni fyrir vanþakklæti og leiðindi.

Nú er ég farin að hljóma eins og ég sé búin að fá hundleið á vinnunni, sem er bæði rétt og ekki rétt.
Aðallega búin að fá nóg af yfirmannsómyndinni, sem virðist hafa þá einu ánægju í lífinu að gera öðrum lífið leitt!
Get svona rétt ímyndað mér áramótaheiti hennar: " reyna að lækka laun sem flestra, og kannast aldei við neitt sem ég segi eða geri".

Svo skrifa ég ekki meira um vinnuna, ætla að forðast kærur fyrir meinyrði á þessu nýja ári :)

En ef einhver veit um góða vinnu (vel borgaða og góðan vinnutíma) er ég sko alveg tilbúin að skoða málið.

Ef vinnan krefst búferlaflutninga, þá vantar mig aðstoð við það.

Ég steingleymdi nú alveg að stíga á stokk (væntanlega eldspítustokk) og strengja áramótaheit, en það er spurning að breyta til og strengja þrettándaheit.

Þar sem þrettándinn er nú á morgun er hægur vandi að skella sér í það.
Hummm, kanski að:
framkvæma í stað þess að tala (eða skrifa).
skipta um vinnu á árinu (13 ár er eflaust orðið nóg á sama stað).
Verða betri persóna en ég er (það er alltaf hægt að bæta allt, líka það sem er gott fyrir;)

Þá er best að leggjast undir feld og hugsa málið.

Ps. mér fannst áramótaræðan hanns Halldórs forsætisráðherra alger snilld!
Hjartanlega sammála þessum fína kalli.
Og ef einhverjar kellingar eru að reyna að snúa þessu upp í eitthvað allt annað en það er, þá ættu þær nú bara að leita sér hjálpar.
Að hann væri eitthvað að ala á samviskubiti einstæðra mæðra er þvílík fyrra.
Ég held frekar að karladruslurnar sem ekki nenna eða vilja sinna börnum sínum ættu að taka þetta til sín. Þessi ábyrgðarlausu fífl.
Svo eru þessar kellingadruslur, sem eiga barnsfeður sem vilja og nenna að sinna börnum sínum, ekkert nema leiðindin við þá!
Fussumsvei og fussumsvei!

Nú hætti ég áður en ég tapa mér alveg...

till next...adios

Monday, January 03, 2005

Gleðilegt ár ***

Þar kom að því.
Bara nýtt ár að byrja.

Að því tilefni vil ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og vona að nýja árið verðir öllum til heilla og hamingju :)

Annars sit ég hér með höfuðverk og kvef og bíð eftir að eitthvað verði ákveðið með flug.
Hann Kristján minn átti nefnilega að koma norður í kvöld, en þar sem ekkert hefur verið flogið síðan í morgun, er það að verða óvíst. Á að athuga eftir 15 min.
Nonni bró er líka að bíða eftir flugi, en hann er að fara suður og síðan til Danaveldis á morgun.

Ekki veit ég hvað þetta veðurlag á að þíða.

Sennilega að rætast "kinda" draumurinn minn síðan í haust.

Þá dreymdi mig að ég kom inn í fjárhús og leit þar yfir stóran kindahóp. Allar voru þær hvítar, nema örfáar voru með smá dökkar rákir í framan.
Ég hugsaði með mér að þetta væru minsta kosti 100 kindur. Og var eginlega hissa, því ég hélt að eigandi kindanna ætti bara 10 kindur!
En svona fyrir utan draumalandið á þessi maður ekki eina einustu kind!
Maðurinn í draumnum er pabbi vinkonu minnar og heitir Ægir.
Svo ég spáði því að það yrði ægilega mikill snjór í a.m.k. 100 daga!

Mig langar svo sem ekkert að hafa rétt fyrir mér.
En að fenginni fyrri reynslu hef ég oftar rétt fyrir mér, (ef ég ræð draumana mína rétt)
heldur en veðurklúbburinn á Dalvík ;)

Jæja, ætla að láta þessar hrakspár duga í bili, og fara og tékka á flugi í textavarpinu.

Till next...adios