Monday, February 11, 2013

Flýttu þér!!!




Snemma sumars á síðasta ári (2012) var ég stödd í stórmarkaði í Narbonne í Frakklandi, það var upplifun á margan hátt. Þarna var til dæmis hægt að kaupa allt sem manni hefði til hugar geta komið, nema kannski flugvél eða togara, en það vakti samt ekki mesta undrun mína.

Eftir að hafa rölt um og skoðað og týnt nokkra hluti ofaní körfu, þá var haldið að langri kassaröð, fjöldi kassa kom mér heldur ekkert á óvart, miðað við stærð búðarinnar. En það sem kom mér á óvart var að þegar við biðum við kassann eftir að röðin kæmi að okkur, hvað allt var rólegt. Afgreiðslukonan renndi vörum viðskiptavinarinns sem var á undan okkur rólega yfir skannan, sagði svo rólega frá því hvað vörurnar kostuðu og rabbaði svo í rólegheitunum við viðskiptavininn á meðan hann borgaði og setti sínar vörur í pokann.

Ég varð afar hissa, þegar afgreiðslukonan hélt bara áfram að rabba við viðskiptavininn á meðan hann gekk frá vörunum, „ætlar hún ekkert að fara að afgreiða okkur? Sér hún okkur ekki?“ En vegna þess að ég er vel upp alin og var uppálögð kurteisi og var þarna gestur í ókunnugu landi, þá sagði ég ekkert heldur horfði betur í kringum mig. Jú, þetta var víst svona á hinum kössunum líka, það var ekki byrjað að afgreiða næsta viðskiptavin fyrr en sá sem á undan var, var búinn að ganga frá sínum vörum og farinn!

Og ég hugsaði: „vá hvað þetta er sniðugt“ ekkert stress og ekkert vesen, fólk bíður pollrólegt og þarf þó ekkert að bíða lengi. En svo hugsaði ég um leið; „þetta gætu Íslendingar aldrei tileinkað sér“.  Og af hverju er það? Af hverju eru Íslendingar alltaf að flýta sér svona mikið? Er það vegna þess að hér er alltaf svo kalt, að ef við stoppum í örskamma stund þá frjósum við í hel? Nei, ég held ekki, það er í það minnsta alltaf funheitt inn í blessuðum verslununum okkar, en samt þolum við ekki að bíða eftir afgreiðslu í eitt augnablik.

Ég hef staðið í röð við kassa og hlustað á fólk fussa og sveija og jafnvel verið afar dónalegt við saklaust afgreiðslufólk, bara vegna þess að það þarf að standa í örstutta stund og bíða eftir afgreiðslu. Ef það eru komnir tveir í röð (sem er samt alveg á mörkunum að geta kallast röð) þá er farið að góla „Halló! Er enginn að afgreiða hérna!“

Svo kunna íslendingar heldur ekki að vera í röð, eða ef það er röð þá er varla hægt að kalla það röð, það myndast frekar svona óreglulegur hópur þar sem allir hugsa um það eitt að verða næstir í röðinni! Svo þegar afgreiðslumaðurinn kallar „hver er næstur“ þá er oftar en ekki frumskógarfrekjulögmálið sem gildir, heldur en að sá næsti í röðinni sé næstur í röðinni.
En já...þá spyr maður sig; af hverju eru íslendingar alltaf að flýta sér? Þurfum við alltaf að flýta okkur svona mikið?

Íslendingar eru að flýta sér svo mikið að þeir aka hratt í umferðinni, þeir aka yfir á rauðu ljósi og þeir blóta fábjánanum í sand og ösku sem er ekki nógu fljótur og hafa þar að leiðandi ALLS ekki tíma til að gefa stefnuljós, því þeim liggur of mikið á til þess. Svona fyrir utan það að auðvitað kemur öðru fólki ekkert við hvert það er að fara!

En að sjálfsögðu koma stundum upp aðstæður að maður þarf að flýta sér, til dæmis koma fóki til hjálpar sem hefur slasað sig, að bjarga heyi í hlöðu áður en það rignir og svoleiðis óvæntir atburðir, þegar þarf að bjarga mannslífum eða verðmætum. En það eru algerar undantekningar.

Þegar ég er í stórmarkaði (matvöruverslun) þá hef ég það yfirleitt á tilfinningunni að ég sé fyrir. Ég er fyrir fólki sem er að versla og fyrir þeim sem setja nýjar vörur upp í hillur, en mest er ég þó fyrir þegar kemur að kassanum og ég hamast við að setja í poka án þess að taka mikið af þeim vörum sem næsti viðskiptavinur á, því afgreiðslufólkið er að flýta sér svo mikið að afgreiða næsta til þess að það myndist ekki tveggja manna röð. Ég held að það sé að stórum hluta út af þessu sem mér finnst leiðinlegt að fara í búð. Maður þarf alltaf að haska sér svo agalega mikið.

En þar sem ég hef verið alveg fullkominn þátttakandi í þessari „flýtimeðferð“ stórmarkaðanna, þá get ég ekki verið með neinn derring. En aftur á móti ætla ég að reyna að flýta mér hægar. Draga djúpt andann og taka því rólega. Hvort sem ég er í umferðinni á Miklubrautinni eða í einhverjum stórmarkaðinum...hvað liggur okkur svo sem á?

Till next...adios