Saturday, November 29, 2008

Af bíói og bulluskjóðum

Jamms og jæja,
Ég fór í bíó í dag með Mikael og vin hans, Kristján nennti ekki með og þykist vaxinn upp úr teiknimyndum. Við fórum að sjá Madagaskar II og hún var mjög góð, ég hló eins og strompur oft á tíðum. Komst reyndar að því í upphafi bíósins að ég er djéskotans aumingji, fór næstum að grenja yfir Coca-Cola auglýsingu...er ekki að grínast, fékk tár í augun og alles, er næstum ennþá klökk ;) hehe...ýki smá núna.
Eftir bíóið þá fórum við á Bláu könnuna og fengum okkur kakó, þar sat við næsta borð einn stríðnispúki frá Húsavík, veit engin deili á þessum vinalega kalli, en hann fíflaðist í strákunum og ekki leiddist þeim það :)
Svo átti að kveikja á jólatrénu á torginu, þar var danska fánanaum flaggað sem aldrei fyrr...annað hvort hef ég ekki tekið eftir honum áður, eða bara óvenju mikið að horfa á umhverfið núna...hummmm...vi bliver dansk snart ;)
Tónlistarskólinn var nýbúinn með atriði þegar okkur barr að garði, eða torgi...og við tóku "kynnarnir" sem voru Lápur og Skrápur, ég verð bara að óska þeim til hamingju með það að þeir voru leiðindarskjóður!
Þeir röfluðu og bulluðu en bara alls ekki neitt fyndið kom út úr þeim, því miður. Eftir allt það bull þá kynntu þeir bæjarstjórann til leiks, eða ræðuhalda og þá gáfust nú mínir menn upp og vildu heim í snatri, var nokk sama um þetta jólatré!
Enda voru þessar 15 min eða svo sem við stoppuðum þarna ekki mjög barnhæfar...og varla hefur bæjarstjórinn toppað það ;)

Jæja, er að hugsa um að skrifa bara ekki meir í bili, er einhvernvegin í þannig skapi að ég gæti átt það til að skrifa eitthvað sem ég sæi eftir...og ekki er það nú gott. Er mikið að spá í að fara í sveitina á morgun, stinga út skít og athuga hvort mér líður ekki betur á eftir :)
Það þurfa margir að stinga út hjá sér skítnum þessa dagana ;)

Reyndar fór ég í gær og keypti jólagjöf handa sjálfri mér ;) og búin að opna hana og prufa. Keypti mér snjóbuxur og úlpu...þetta svínvikaði í útiverunni í dag, svo nú er bara að bíða eftir að koamst á skíði :)

Ha de bra :)

Till next...adios

Monday, November 24, 2008

Tja...hvað getur maður sagt?

Það voru umræður á alþingi þegar ég kom heim úr skólanum í dag, var verið að fjalla um vantraust tillögu á ríkisstjórnina. Það var mikið rifist, hróp og köll, þennan tíma sem ég hlustaði með öðru eyranu, þóttist vera að læra með hinu eyranu...en var svona meira að skoða stöðuna á Facebook ;) En svo þurfti ég að drífa mig út úr húsi um sex leitið og þá var enn rifist í útvarpinu.
Eftir síðbúinn kvöldmat og smávegis lærdóm þá sest ég við sjónvarpið, þar var verið að sýna frá borgarafundi í Háskólabíó, þar var líka mikið sagt og klappað og púað...ætlaði reyndar að gera tilraun til að horfa aftur á Heroes-þátt, svo ég skipti yfir á borgarafundinn í auglýsingahléum...veit svei mér ekki hvort var skrítnara á að horfa, Heroes eða borgarafundinn. Fyrir mér var þetta svona álíka raunverulegt.
Verð bara að segja að ég skil ekki neitt í neinu, ég skil ekki afhverju ríkisstjórnin uppfræðir ekki okkur almenning um athafnir sínar, svo við höldum ekki öll að þau séu ekki að gera neitt...ég skil heldur ekki þá sem láta frysta lánin sín til þess að geta notað peninginn sem ella hefði farið í lánaafborganir (eins og áður) til þess að sukka bara pínu meir. Ég hef nefnilega bara lúmskan grun um það að við almenningur (allir nema ég náttlega) séum bara búin að lifa í sukki og svínaríi undanfarin ár og nú eru það timburmenn sem sumir eru að reyna að forðast með að fá sér bara nokkra snafsa í viðbót!
Hverjir hafa ekki farið í utanlandsferðir upp á krít sl.ár?
Hverjir hafa ekki tekið lán algerlega að nauðsynjarlausu? t.d til að kaupa sér flatskjá, risa jeppa, hjólhýsi, hunda eða eitthvað sem við ættum eðlilega að komast af án!
Í fyrsta sinn í laaaangan tíma þá vorkenndi ég þeim greijum, sem sátu á borgarafundinum, úr ríkisstjórninni...það var alveg drullað yfir þau....reyndar vorkenndi ég þeim ekki lengur í fréttatímanum á eftir, þar sem parið "krúttlega" Geir og Ingibjörg Sólrún sögðu að þetta hefði verið fínn fundur...hummm, tala um að skvetta vatni á gæs, ég veit það a.m.k að ef ég hefði setið þarna í þeirra sporum, þá hefði ég löngu verið gengin grátandi á dyr.

Jæja, ég varð bara aðeins að pústa, er að þykjast vera að læra fyrir próf, svo það er best að koma sér bara í rúmið :)
Njótið alls hins besta sem kostar ekki neitt :)

Till next...adios

Tuesday, November 18, 2008

Gaga

Ég hef haft svo mikið að gera undanfarið að ég hafði ekki einu sinni tíma til að blogga á sjálfan afmælisdaginn minn...en ég er nú vön að koma því að hér til að fiska eftir afmæliskveðjum ;)
Annars er Facebookin alveg að bjarga mér þar, því ég hef aldrei á æfinni fengið jafn mikið af kveðjum, svo fékk ég slatta af sms-um líka og líka svona face to face ;)
En afmælisdagurnn 15.nóv. var sum sé bara alveg hinn besti dagur, þótt ég hafi þurft að mæta í skólann kl.12 og taka svo viðtal fyrir jólablað Vikudags og vinna það, þá endaði dagurinn í matarboði, rauðvíni og afslöppun og það var nákvæmlega það sem ég þurfti :) Hefði ekki haft orku í djamm þótt ég hefði reynt það...

Ég er sem sagt búin að klára eitt vídeó verkefni, sem á að sýna í skólanum á morgun og sennilega líka á N4 um jólin ;) og núna er ég á fullu að safna og vinna efni í jólablað Vikudags, þetta er hellings vinna (púl að plata ættingja og vini til að skrifa fyrir sig ;) hehe) en þetta er rosa gaman. Svo þarf ég líka að gera ritgerð sem skila þarf nk.mánudag, eitt heimapróf fyrir þriðjud. og svo verður bara næs tími eftir viku og bara desember próf eftir :) Það sem bjargar mér líka alveg er að við vorum tvær að vinna vídeóverkefnið og verðum tvær að vinna ritgerðina ;) Alltaf gott að vinna með góðu fólki ;)

Það er víst ennþá kreppa, þótt ég gleymi því stundum þegar ég hef engan tíma fyrir fréttir ;) en þó frétti ég af formanni vor, afsögn hans og leyfi á Kanarí ;) Ég skil hann Guðna vel að hafa stokkið úr landi, ekki fengi hann frið hér, vona bara að hann njóti frísins. Það besta í stöðunni núna fyrir framsókn væri að moka þessu gamla liði út, sem er hvort sem er alltaf að rífast, og skella inn nýju orkumiklu fólki :)
Annars er ég alveg komin inn á þá línu að stofna bara nýjan flokk, held að nafn Framsóknarflokksins hafi borði of mikla hnekki til þess að hægt sé að bjarga honum...en það finnst mér reyndar líka um Sjálfstæðisflokkinn!!!

Jæja, var búin að lofa mér að fara snemma í rúmið í kvöld, tek með mér smá lesefni fyrir ritgerðarbrölt á morgun ;)

Góðar stundir allir saman og takk fyrir allar afmæliskveðjurnar :) líka þeir sem gleymdu að senda mér kveðju, veit að það var ekki með vilja ;)

Till next...adios

Saturday, November 15, 2008

Texti

Það er mikið að gera á litlu heimili, en nenni nú ekki að væla yfir því núna. Það var þriðji í kabarett í gærkveldi, en þá vorum við með styrktarsýningu fyrir hann Jón Gunnar, það gekk glimrandi vel, fullt hús og fjör :) Í tilefni þess ætla ég að skella hér inn einum texta sem ég samdi og var notaður í kabarett, það var alltaf verið að glamra þetta lag á píanó á hæðinni fyrir ofan, já píanósnillingurinn hefur tekið talsverðum framförum sl.ár ;) En lagið er sum sé "Slipping through my fingers" með ABBA og var náttlega í ABBA myndinni ógurlegu sem er enn í bíó ;) en nó bull, hér kemur textinn sem by the way er saminn fyrir kreppu ;)

Sól rís á ný
Gyllir fjöll
Fegrar fjörðinn allan
Kindur á beit en kýrnar fjósi í
Ég held af stað geng um tún horf‘á gróður dafna
Og Þarf mér að tilla hér um stund

Sú tilfinning að horfa yfir fjörðinn
Er engu lík og allir þekkja það
Sem átt hér hafa stund og ævi sína
Og alltaf elskað það

Gengur mér úr greipum þessi jörð og þessi dalur einhvertíman?
Nú margs ég sakna
Gengur mér úr greipum þessi jörð?
Sé ég virkilega allt það fagra allt það góða er mér hlotnast
Og ætt að þakka
Gengur mér úr greipum þessi jörð?

Draumaheim í allt er gott, enginn kvíðatregi
Vitjar mín fólk sem hér áður gekk um grund
græddi upp jörð, ól sín börn án allra ofurþarfa
og gerði fagra fjörðinn það sem hann er.

Sú tilfinning að horfa yfir fjörðinn
Er engu lík og allir þekkja það
Sem átt hér hafa stund og ævi sína
Og alltaf elskað það
Gengur mér úr greipum þessi jörð og þessi dalur einhvertíman?
Nú margs ég sakna
Gengur mér úr greipum þessi jörð?
Sé ég virkilega allt það fagra allt það góða er mér hlotnast
Og ætt að þakka
Gengur mér úr greipum þessi jörð?

Sú tilfinning að horfa yfir fjörðinn
Er engu líka og allir þekkja það
Gengur mér úr greipum?

Sól rís á ný
Gyllir fjöll
Þurrkar tár af vanga
Ég áfran held, brosi af tilhlökkun á ný

Lífið er dásamlegt :)

Till next...adios

Monday, November 10, 2008

Crazy days

Svo mikið að gera, svo lítill tími...nú er allt í gangi í skólanum, verkefni og ritgerðir dynja á manni sem aldrei fyrr, auðvitað er mikill léttir að vera þó laus við kabarett...en samt ekki alveg, það verður nefnilega aukasýning á kabarett nk.fimmtudagskvöld kl.21:00 en það verður styrktarsýning fyrir hann Jón Gunnar ofurkrúttfrænda ;) Endilega allir að mæta, sjá frábæra sýningu og styrkja gott málefni og góðan mann :)
Tók reyndar og úrbeinaði heil óksöp af rollum í gær(ekki ein samt), sem voru svo hakkaðar og settar í poka, gott að eiga hakk í kreppunni ;)
Svo er saumaklúbbur í kvöld hjá henni Gústu :) ekki verður það nú leiðinlegt :)
Svo verður bara skóli og verkefnavinna það sem eftir er vikunnar...ég er farin að láta mig dreyma um jólafrí...og er harðákveðin í því að taka alls ekki meira en 17 einingar eftir áramót ;)
Jæja, er stokkin í að elda pasta fyrir strákana og svo í klúbb ;)
Hafið það gott allir saman :)

Till next...adios

Saturday, November 08, 2008

Fyrsti í kabarett

Jæja, það var kabarett sýning hin fyrri í kvöld, gekk bara alveg glimrandi vel...næstum of vel svona fyrir föstudagskvöld segja sumir ;)
Svo verður bara sýning og ball annaðkvöld...svo nú er bara að dusta rykið af góða skapinu og dansskónum og skella sér á skemmtun og ball :)
Annars er ennþá allt á fullu hjá mér, vantar marga tíma í sólarhringinn...var á árshátið í gær hjá Kristjáni mínum, hann stóð sig eins og hetja...rosa flottur strumpur, blár og sætur ;)
Svo var sjóræningjasund hjá Mikael mínum í dag, hann kafaði eftir gulli og gersemum stanslaust í 45 mínútur...hann verður flottur í sundinu einhvern daginn :)
Óskup sem maður á flotta stráka :)
Svo ég hef mest verið að sinna strákunum svona á milli skóla og æfinga þessa dagana, svo er ókristilegur skóli í fyrramálið...á laugardagsmorgun sem er ekki fallegt af kennaranum, en svona varð þetta bara að vera. Svo eftir skóla þarf ég í verkefnavinnu og svo seinni kabarettsýning og ball um kvöldið...og svo heimspekikaffihús og rolluúrbeining á sunnudaginn...dúdíraríra...
Er að leka niður og farin að sofa...
Góðar og glaðar stundir :)

Till next...adios

Wednesday, November 05, 2008

Afmæli Árna

Árni bró á afmæli í dag, og langar mig hér með að óska honum til hamingju með afmælið :)
Til hamingju Árni og hafðu það gott í dag og alla daga :)

Langar einnig að óska Obama til hamingju með að hafa náð kjöri til forseta USA, þetta er greinilega stór dagur í dag ;)

Vona svo bara að alir hafi það sem best í kreppunni...muna bara að besta ráðið við henni er: kreppa - rétta, kreppa - rétta ;)

Till next...adios

Tuesday, November 04, 2008

Allt á fullu

Ákvað að gefa mér örfáar mínútur til að rita hér inn smá bull, bara svona láta vita að ég er ekki alveg hætt að blogga ;)
Nú er rosa törn í skólanum, verkefni og ritgerðir sem þarf að skila...úfff, og svo var ég náttúrulega svo "gáfuð" að taka þátt í kabarett í Freyvangi og þar með eru öll kvöld undirlögð...held að þetta sé kallað að hugsa ekki fram í tímann, enda hef ég aldrei verið þekkt fyrir það ;)
Annars er ég að verða vitlaus á krepputali, finnst þetta hljóma í eyrum mér allan daginn, auðvitað er þetta allt saman slæmt, en ekki batnar það ef maður er komin með gubbu af endalausri umræðu en engum gjörðum.
Heyrði smá umræðu í útvarpinu í morgun, þar sem fólk mátti hringja inn og tjá sínar skoðanir, þar hringdi ein kona með þá alvitlausustu hugmynd sem ég hef nokkru sinni heyrt!
Hún sagi, sem rétt er, að þeir sem skulduðu eins og af húsnæði og annað, væri að taka á sig auknar skuldir vegna kreppunnar, sum sé lánin að hækka eins og allir vita. En þetta fannst henni ekki réttlátt, heldur vildi hún láta senda skuldabréf á alla þá sem ekki skulda svo þeir geti borgað meira líka! Jamm, þetta er kanski pínu ruglingslegt, en svona var þetta. Svo ef ég tæki mig sem dæmi, sem á ekki neitt, en skulda ekki neitt (nema þá námslánin mín) þá væri alveg upplaggt að ég fengi bara að borga kanski eins og 20 millur eða svo, svona bara svo ég geti fengið að vera með í skuldadansinum....dahh...Auðvitað er óréttlátt að skuldir og afborganir á húsnæði sé búið að hækka upp úr öllu valdi, en vonandi skánar það eitthvað einhverntíman og fólk á þó sitt húsnæði eftir sem áður...en á ég bara að borga helling fyrir ekki neitt...eiga ekki neitt eftir sem áður??? Held að þessi kellingarskrukka hafi ekki alveg verið að hugsa heila hugsun...

Jæja, búin að hella úr smá úr skálum reiði minnar...á samt slatta eftir sem ég þori ekki að gusa yfir alnetið ;)

Till next...adios