Wednesday, June 20, 2012

Í pokann með hrokann ;)

Hvað ungur nemur, gamall temur. Í þessu felst mikil viska – hvað getum við lært ef enginn er til að kenna okkur og leiðbeina? Nú tala ég eingöngu frá eigin reynslu og áliti, en ég segi að maður sé óttarlega vitlaus fyrstu 30 ár ævinnar eða svo, jafnvel dálítið lengur. Kannski er ég með endæmum seinþroska, en einhverra hluta vegna hafa skoðanir mínar breyst gríðarlega bara síðustu tíu árin. Svo ég myndi segja að 42 ára ég væri afar ósammála 32 ára mér.
Kannski kemur þetta til af þroska, en þroskinn kemur sennilega af reynslu og reynslan er það sem ungdóminn skortir (og þegar ég tala um ungdóm, þá meina ég flesta undir 35 ára aldri).

 Öll göngum við í gegnum ólíka hluti í lífinu, sem þroska okkur mis hratt og mis mikið, en við eigum það sameignilegt að við þurfum tiltal og handleiðslu til þess að okkur gangi betur og fáum tækifæri til að reyna nú að feta hin mjóa veg dygðanna. Sumir taka reyndar aldrei tiltali og hlusta ekki á nein rök, æða bara áfram í fullu trausti á sjálfan sig með óbilandi trú á eigin ódauðleika og réttsýni. Hjá sumum er mottóið: það sem mér finnst rétt er rétt! Og virka þá öll rök á viðkomandi jafn vel eins og að skvetta vatni á gæs; áhrifin eru engin.
 En fyrr en seinna þá reka þessir einstaklingar sig á, og því meiri sem trúin hefur verið á eigið ágæti því harkalegri verður áreksturinn. Eflaust gæti ég týnt til eitt eða tvö dæmi um þetta, en ég læt það ógert. En eitt er víst, að margir af þeim óhörnuðu unglingum sem eru önnum kafnir á þroskabrautinni (35 ára og yngri), freistast til að líta upp til þessara sjálfsöruggu, kokhraustu aðila með oft miður góðum afleiðingum. Þess vegna þurfum við fleiri hógværa, hjartgóða og réttsýna einstaklinga sem fyrirmyndir fyrir unga fólkið okkar. Við þurfum að læra að tala saman, ræða í bróðerni þau mál sem upp kunna að koma og taka sameiginlega ákvörðun. Við þurfum að kenna jákvæðni en ekki yfirgang, við þurfum að leiðbeina en ekki skammast, við þurfum að kenna samkennd en ekki hroka.

Það má heldur ekki misskilja mig, margt ungt fólk undir 35 ára er bæði miklum gáfum gætt og dygðum prýtt, en það vantar reynsluna og skilninginn sem því fylgir. Þegar við erum ung, þá finnst okkur við geta sigrað heiminn, þegar við þroskumst þá sjáum við að það er hin mesta vitleysa að sigra heiminn, við eigum að lifa í sátt við hann. Ég treysti ungu fólki mjög vel og þekki margt ungt fólk sem eru allir vegir færir og geta ekki annað en gert heiminn betri sem við búum í.

En þrátt fyrir það allt, þá megum við aldrei hundsa visku hinna eldri og reynslumeiri og ef eitthvað á að geta sætt sundurlyndi þá er það speki þeirra sem reynsluna hafa. Mannskepnan fór ekki að þróast að neinu viti fyrr en það tókst að færa skilaboð í orð og letur, þannig var hægt að koma vitneskju áfram til komandi kynslóða og ekki þurfti lengur að finna upp hjólið aftur og aftur. Notum þessa visku, lesum okkur til, lesum speki þeirra hugsuða sem uppi voru löngu fyrir árið 0. Lesum Sókrates, Plató, Aristóteles og Bókina um veginn eftir Lao Tse. Lesum, tölum saman í sátt, hugsum okkur hvernig við viljum hafa framtíðina og lifum í núinu.

Till next...adios