Saturday, December 29, 2012

Að vera eða vera ekki...




Núna er árið 2012 að renna sitt skeið á enda og þá er tvennt árlegur viðburður; að fólk prufi flugeldana fyrir áramótin (væri verra ef þeir virkuðu ekki á ögurstundu) og hinir ýmsu miðlar hamast við að kjósa „mann ársins“ (og sumir taka fram að með orðinu „maður“ sé að sjálfsögðu átt við konur líka – skemmtilegt).

Hér ætla ég ekki að ræða flugeldaskotæði landans, heldur rétt velta upp hugsunum um þá þörf okkar að finna einhverja hetju á meðal vor, að hylla einhvern sem borið hefur af eða hvað?
Við erum að sjálfsögðu ekki sammála um hver ber af, hver er hetja eða sönn hetja og loga nú netmiðlar af misjafnlega gáfulegri umræðu um þessi hetjumál. Persónulega finnst mér það margar hetjur á landinu að alger óþarfi sé að gera upp á milli og velja einhverja eina „aðal hetju“. Hver er til dæmis tilgangurinn með því? Erum við að velja hetju eða mann ársins til að hvetja hina til að verða meiri „menn ársins“ á næsta ári? Eða vantar okkur einhvern til að hylla?

Við þurfum ekki að líta langt til að finna sannar hetjur:  það eru börn sem berjast fyrir lífi sínu á hverjum degi, vegna veikinda eða annarra erfiðleika, það eru bæði konur og karlar sem basla við það á hverjum degi að hugsa um börnin sín, ein og óstudd og fá sjaldnast annað en gagnrýni annarra í staðin. Það er fólk sem býr við kröpp kjör, en lætur ekki bugast. Það eru unglingar sem falla á prófum í framhaldsskólum en halda samt áfram og reyna aftur og aftur. Það er fullt af fólki út um allt land sem þarf að hafa meira fyrir hlutunum en aðrir, en halda ótrauð áfram, án þess að kvarta og berjast jafnvel fyrir auknum réttindum annarra í leiðinni. Ég gæti haldið áfram með mun lengri lista af fólki sem mér finnst uppfylla þau skilyrði að teljast menn ársins.

Landið er fullt af góðu fólki sem gefur af sér án þess að ætlast til nokkurs í staðin, fólk sem hjálpar og huggar með hjartað fullt af kærleika.

Skólar landsins eru fullir af börnum og ungmennum sem þurfa að hafa misjafnlega mikið fyrir námi sínu. Við hömpum þeim sem vel gengur, en hinir sem strita við og ströggla til að ná því marki að vera í meðaltalinu, þeir eru bara meðaljón sem aldrei vinna nein  verðlaun, jafnvel þótt þeir hafi lagt mun meira á sig en þeir sem verðlaun hljóta.

Er ekki allt í lagi að hugsa þetta allt aðeins upp á nýtt? Eða í það minnsta verið sammála um að vera ósammála og hætta að rífast yfir hver er mestur og bestur?

Kannski er þetta allt svo bara öfund í mér, þar sem ég er of mikil meðal-Jóna til að vinna nokkurntíman til hetjuverðlauna, en ég hef líka ofboðslega lítið fyrir því að vera meðal-Jóna, á meðan það er fullt af fólki sem hefur mikið fyrir því, og allt það fólk eru menn ársins að mínu mati, fólk sem gefst ekki upp og heldur áfram no matter what!

Megi nýja árið færa ykkur öllum gleði og kærleika, ást og frið!
Till next...adios