Saturday, November 10, 2012

Samkennd

Á snara.is er samkennd útskýrð sem: samúð, meðaumkun eða félagstilfinning. Hér ætla ég að velta vöngum yfir samkennd út frá því að hún sé félagstilfinning sem er til þess ætluð að stuðla að betra samfélagi.

   Hinn andlegi vinur minn Aristóteles, skrifaði um samkennd og dygð. Hann sagði að hana þyrfti að kenna börnum, því að uppeldi skifti öllu máli þegar kemur að samkennd. Dygð er meðalhóf milli tveggja öfga, til dæmis er hugrekki meðalhóf milli fífldirfsku og hugleysis. Aristóteles segir: „Þannig er þessu háttað með dygðir, því með athöfnum okkar í samskiptum við annað fólk verðum við ýmist réttlát eða ranglát. Við verðum ýmist hugrökk eða huglaus af athöfnum okkar við hættulegar aðstæður með því að venja okkur á ótta eða djörfung. Sama máli gegnir um langarnir og reiði, því manneskja verður ýmist hófsöm og geðprúð eða hóflaus og geðvond, allt eftir athöfnum og aðstæðum. Hneigðir verða til, í stuttu máli, fyrir samsvarandi virkni. Þetta er ástæða þess að virknin í hverju tilviki verður að vera af ákveðinni gerð, því hneigðirnar laga sig að virkninni. Af þeim sökum skiptir ekki litlu máli hverju við venjumst frá blautu barnsbeini, heldur miklu og reyndar öllu.“

 Aristóteles sagði einnig að til þess að geta fundið meðalhófið þá þyrftum við bæði hyggindi og visku. „Það telst vera til marks um hygginn mann að geta ráðið ráðum sínum vel um eigin gæði og hagsmuni, en þó ekki í eistöku máli, eins og hvað leiði til heilbrigðis eða líkamsstyrks, heldur hvað leiði til almenns velfarnaðar.“

Þarna erum við þá komin að lykilatriðinu; það sem leiðir til almenns velfarnaðar. Til þess að geta unnið að velferð samfélagsins, þá þurfum við samkennd og við þurfum að kenna samkennd og við þurfum að rækta hana með okkur.
 Ég ætla hér að halda því fram, að hnignun samfélagsins, hvort sem við tölum um bankahrun, hvítflibbaglæpi, einelti eða aðra neikvæða þætti, eigi rætur sínar að rekja til skorts á samkennd. Það er skortur á samkennd og það er skortur á dygðum, það er skortur á meðalhófi og það er skortur á hyggindum og visku. Við höfum undanfarna áratugi unnið að því að ala á einstaklingsframtaki, og hvernig er það gert? Jú, með því að hampa þeim sem skara framúr, og skiptir þá engu hvaða leiðir eru farnar til þess. Í dag má enginn verða undir, það er ekki gott að vera meðal-Jóninn, það er ekki gott að sýna tilfinngar og það er algert tabú að sýna tilfinningar á almannafæri. Við eigum að vera köld og klár, kunna utanbókar allskyns fræði og skiptir þá skilningurinn minna máli. Við eigum að svara fyrir okkur og aldrei að víkja frá málstaðnum, hver sem hann kann að vera. Að viðurkenna mistök, eru talin mestu mistökin. Að eiga nógu margar táknmyndir auðs er það sem öllu skiptir. Hvað skipta þá nokkrar verðlausar sáli máli?

 Fyrir langa langa löngu þá gerði mannskepnan svokallaðan samfélagssáttmála, en hann byggðist á því að fólk setti sér reglur sem voru þeim í hag sem hópur. Þetta voru einfaldar reglur eins og bann við því að drepa, stela, svíkja og þess háttar. Þá þurfti fólk ekki lengur að óttast gjörðir annarra.
Alltaf eru þó einhverjir sem skera sig úr, gera uppreisn gagnvart „kerfinu“, mótmæla „forræðishyggju“ og vilja haga lífi sínu eins og þeim sýnist. Eru þetta þá einstaklingar sem kjósa að búa utan samfélaga? Nei, yfirleitt eru þetta aðilar sem kjósa að búa í samfélögum og njóta þeirra réttinda sem því fylgir en um leið maka sinn eigin krók. Það má segja að þetta sé fólk sem vill bæði halda og sleppa.
 En af hverju er þetta svona? Jú ég hygg að þetta sé vegna þess að þessum einstaklingum hefur ekki verið kennd samkennd. Þeim hefur ekki verið kennt að bera virðingu fyrir öðrum og að koma fram við aðra eins og þeir vilja láta koma fram við sig.

 Að kenna þetta er alls ekki á færi eins eða tveggja einstaklinga. Það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn segir gamalt málætki og það er alveg hárrétt.
Við erum öll fyrirmyndir í samfélagi okkar, annarra manna börn sjá okkur úti á götu, sjá okkur í umferðinni, sjá okkur úti í búð, sjá okkur tala við annað fólk og hverngi við komum fram við aðra. Í samfélögum skipta allir máli og ég hygg að það sé löngu tímabært að rifja það upp og vinna að því hörðum höndum að stuðla að bættri samkennd, sterkari siðferðisvitund og betra samfélagi fyrir alla.

Till next...adios

No comments: