Saturday, December 04, 2004

Prófdagurinn mikli

Föstudagur 3.des

Ég svaf nú ekki mikið nóttina áður. Vaknaði um kl.2 og sofnaði ekki aftur fyrr en um kl.4 Dreymdi þá að Þórður bróðir hennti í mig alskyns dóti, poka fullum af gulrótum, stáldunk fullum af koktelsósu og fleiru í þeim dúr, ég vaknaði svo hálf grátandi yfir þessum óskupum!

Kom svo Kristjáni í skólann og Mikael í leikskólann.
Keyrði sem leið lá upp í VMA.
Fékk nett taugaáfall þegar konan í afgreiðslunni fann ekki nafnið mitt á próflistanum. Svo fann hún það, var bara ekki þar sem hún leitaði. C-álma stofa 9... ég arkaði af stað, eftir að hafa fengið örlitlar upplýsingar um hvar C-álmu væri að finna. Var nokkuð viss um að vera á réttum stað, en þar sem ég fann engar merkingar í líkingu við “C” eða jafnvel “C-álma”, þá þorði ég ekki annað en að spyrja, bara svona til að vera viss.
Þá urðu á vegi mínum þrjár ljóshærðar skvísur, sem töluðu svo mikið að ég rétt gat skotið inní þeirri spurningu minni, hvort ég væri á réttri leið. Jú, jú, þetta var víst C-álman, svo nú hófst leitin að stofu 9.
Fannst stofunúmerin vera full handahófskennd. Ekki alveg svona í röð eftir hækkandi númerum, en samt nokkuð í áttina. Þar sem ég gekk um, horfandi á hverja hurð sem á vegi mínum varð, kom til mín kona sem virkaði svipað áttavillt og ég og spurði : “ert þú líka að leita að stofu 9?”
Jú, ég hélt nú það, og í sömu svifum bar leit mín árangur og hróðug sagði ég konunni að ég væri sko búin að finna hana.

Þótt klukkan væri rúmlega 8 (próftíminn 8:15) voru ekki nema 3 eða 4 nemendur mættir. Sátu út í horni, og tóku dræmt undir “góðan daginn” . Ég valdi mér sæti aftast, í lausa horninu og reif upp blíant, yddara, strokleður og 15 ára gamla vasatölvu.
Fór ofaní úlpuvasana og fann þar bíllykla og snuð.
Allt í orden!

Svo fór nú að fjölga í stofunni. Þarna kom inn fólk á mínum aldri, sennilega einhverjir iðnaðarmenn, tveir voru í eins vinnubuxum, einn var í jakka merktur “Ljósgjafinn” og svo nokkrir sem var ómögulegt að spá í hvað gerðu. Svo komu unglingarnir. Einn kom svo slyttingslega inn í stofuna að ég var hrædd um að hann hitti ekki á stólinn. Fór að spá í hvenær á lífsleiðinni strákar hættu að “slettast” áfram og færu að samhæfa limaburðinn í nokkurnvegin eðlilegt göngulag. Spurning!
Svo kom grafalvarlegur maður inn, með bunka af blöðum undir hendinni. Maginn í mér fór í enn meiri hnút og ég þakkaði fyrir að hafa ekki borðað meira en ég gerði um morguninn. Sem var ca.20 kókópuffskúlur og mjólk.
Elísabet Katrín Friðriksdóttir! Ég náði að veifa máttleisislega hendinni og sagði mjóróma: hérna! Hann kom arkandi til mín og lagði stóra dóm kæruleysislega á borðð fyrir framan mig. Hélt svo áfaram að útdeila prófum....ég hætti að heyra nöfnin og horfði stjörf á blaðið fyrir framan mig. Prófið er 5 blaðsíður, leifileg hjálpar gögn eru.... FIMM BLAÐSÍÐUR!!!!
Það er nú bara ekki í lagi !
Svo opnaði ég prófið, ekkert blað til að reikna á!
Ég veifaði aftur máttleysislega hendinni og bað auðmjúklega um rúðustrikað blað. Humm, yfirsetumaðurinn hafði víst ekkert svoleiðis meðferðis, en til allrar lukku átti fjarkennslustjórinn hann Ingimar leið hjá og stökk af stað til að redda þessu.
Svo ég náði að svitna í góðar fimm mínútur í viðbót.
Maginn var farinn að snúast í hringi og ég var á báðum áttum hvort ég ætti að hlaupa á klósettið eða bíta á jaxlinn.
Ákvað að bíta á jaxlinn, því ég hafði ekki hugmynd um hvar klósett væri að finna.
Fékk svo blaðið mitt og hófst handa.
Tíminn æddi áfram, ég notaði sömu aðferð við öll dæmin í von um að hitta á að gera eitt rétt. Þegar prófyfirsetumaðurinn sagið: “fimmtánmínútur eftir” átti ég tvö dæmi eftir. Renndi yfir þau, fannst það seinna vænlegra til árangurs (gilti 15%) og hljóp yfir það á hundavaði.
Skilaði prófinu og arkaði út.
Var óneitanlega léttara yfir mér en þegar ég gekk inn.
Lét samt ekki eftir mér að reka upp gleðiöskur er út var komið.
Ætla að geyma það þar til ég fæ einkunn.
Og vona þá sannarlega að það verði GLEÐI öskur.

Till next...adios

2 comments:

Nonni said...

Ég hef greinilega verid of lengi í Danmörku,madur er farinn ad tapa nidur Íslenskunni! Hvad thýdir "slyttingslega"? Ég vona ad ég heiri glediöskrid alla leid til køben :)

Lifur said...

Þórður hefur nú alltaf verið ruddi