Tuesday, October 18, 2011

Hugleiðingar um virkjanir og baðferðir...

Ég fór í bað um daginn, sem er ekki í frásögur færandi, en einhverra hluta vegna fór ég að hugsa um virkjanir í baðinu. Einu sinni var ég mjög hlynnt virkjunum, sá bara alls ekkert athugavert við það að sökkva einhverju landskika sem hvort eð er fáir nenntu að skoða og bara „urð og grjót“. Ég fór meira að segja upp að Kárahnjúkavirkjun þegar framkvæmdin var komin vel á veg, og fannst mest „töff“ hvað stíflan var mikið mannvirki og klikk flott að vera staðsettur á stað sem yrði á 200 metra dýpi þegar lónið væri orðið fullt.

Síðan þá hef ég bæði lært mikið og hugsað enn meira. Ekkert landsvæði á jörðinni er „bara eitthvað land“. Náttúran er ekki eitthvað sem við eigum að fara með að eigin geðþótta. Þurfum við fleiri virkjanir? Þurfum við að eyðileggja fleiri náttúruperlur? Hver einasti steinn og hver einasta þúfa er náttúruperla, allir staðir eru einstakir. Alveg eins og hver einasta manneskja er einstök.
Þurfum við fleiri álver? Og hefur fólk leitt hugann að því hvað álver er og afhverju erlendir álframleiðendur vilja reisa álver á Íslandi?

Álframleiðsla er talsvert langt ferli sem byrjar í námugreftri við migbaug jarðar, en þar eru báxít námur. Báxít er leirjarðvegur og úr honum er svo unnið súrál. Súrálið er svo flutt hingað í álverin þar sem mest mengandi ferli álframleiðslunnar fer fram; álbræðslan. „Til frumvinnslu á einu tonni af áli þarf um tvö tonn af súráli, 520 kg af kolefnisskautum, um 15 kg af álflúoríði auk raforku sem nemur 14.800 kWh.“ (Alur, álvinnsla hf. http://www.alur.is/drupal/?q=node/11 ).
Síðan eru álstangirnar fluttar erlendis aftur til hinna ýmsu staða í hina ýmsu framleiðslu. Við „fáum“ að sjá um þann hluta sem mengar mest, því að við erum jú svo heppin að eiga svo mikin mengunarkvóta!

Við íslendningar erum nenfilega svo ótrúlega fá, að vegna smæðar okkar, en stærðar landsins, þá getum við gert ýmislegt. Við teljum okkur huga vel að náttúruvernd og vera framarlega meðal þjóða í endurvinnslu og eigum fullt af ósnortnum fallegum náttúruperlum. Að mörgu leyti er það kannski rétt, en við erum heimsmeistarar í sóðaskap. Við erum sú þjóð í heiminum sem skilur eftir sig stæðsta sporið í umhverfissóðaskap. Ef allar þjóðir heims, skiluðu frá sér jafn miklu sorpi og íslendinar, þá þyrftum við 7 jarðir til að búa á!

Af hverju er alltaf einblínt á orkufrekan, mengandi iðnað, þegar rætt er um atvinnuuppbygginugu á landinu? Af hverju er ekki farið út í vistvænni framleiðslu, eins og t.d stórframleiðslu á grænmeti og ávöxtum? Það er tiltölulega auðvelt að byggja gróðurhús (amk miðað við álver) og til þess að vera með stóriðnað í gróðurhúsum, þarf lýsingu, hita og áburð (lífrænan). Ég er svo sem engin sérfræðingur í ræktun grænmetis og ávaxta, en veit þó að það er hægt að rækta allar heimins tegundir við réttar aðstæður, sem auðvelt er að skapa í gróðurhúsum þar sem aðgangur að heitu vatni og rafmagni er. Einnig held ég að gróðurhúsaljós þurfi að vera orðin ansi mörg til að þurfa jafn mikla orku og eitt álver.

En já, því ekki að byggja nokkur stór gróðurhús á Bakka við Húsavík? Rækta þar epli, banana, appelsínur og allar þær tegundir ávaxta og grænmetis sem við erum að flyja inn á hverjum degi. Við gætum hæglega mettað íslenskan markað og jafnvel farið í útflutning þegar fram í sækir. Hverju höfum við að tapa? Hver þekkir ekki muninn á íslenskum tómötum og erlendum? Ég get amk hæglega ímyndað mér svaðalega góða íslenska banana og appelsínur og og og....

Maður fær amk stundum á tilfinninguna að það sé eitthvað annað sem hangir á spítunni en hagur þjóðarinnar, þegar alltaf er einblínt á það sama og heimurinn hrynur ef við fáum ekki enn eitt álverið og þurfum þá kannski að reisa enn eina virkjunina...byggja stíflu!
Erum við ekki að verða vaxin upp úr stífluleiknum? Getum við ekki horft svolítið fram á veginn og hjálpast að við að halda landinu okkar eins og það er...amk ekki skemma meira.

Erlendir ferðamenn koma ekki til að skoða álverksmiðjurnar okkar, en ég er viss um að þeir myndu glaðir kíkja inn í risa gróðurhús og smakka á íslenskum bönunum.
Lækir eru lækir, ár eru ár og fjöll eru fjöll, eigum við ekki bara að hafa það þannig áfram?

Till next...adios

No comments: