Saturday, October 29, 2011

Enn ein hugleiðingin...

Hugleiðing um heimsmyndina...eða kannski sjálfsmyndina.

Núna ætla ég að segja ykkur nokkuð sem þið vitið öll; við erum upptekin af útliti okkar. Já og ekki nóg með það, heldur erum við einnig upptekin af útliti annarra, eða teljum að aðrir séu uppteknir að útliti okkar.
Er eitthvað rangt við þetta?
Já, því þetta leiðir til slæmrar sjálfsmyndar. Ef maður er alltaf að spá í hvað aðrir eru að spá í, þá verður maður ferlega upptekin að því að reyna að vera eins og maður heldur að allir vilji að maður sé, en gleymir alveg að vera bara maður sjálfur, sem jú flestir vilja að maður sé!

Svona einfalt er þetta bara.
En þótt að þetta sé svona frekar stutt og einfalt, og eina lausnin á þessu vandamáli sé sú; að við eigum að hætta þessari útlitsdýrkun og hætta að benda á og pota endalaust í hvort annað með niðrandi athugasemdum um holdafar eða klæðnað, þá er þetta víst flóknara en svo.
Það þarf nefnilega að breyta hugsunarhætti sem er orðinn viðurkenndur og ekki nóg með það, þá er hann ríkjandi og þykir töff.
Ástæða þess að ég ákvað að setjast niður og pota nokkrum stöfum í wordskjal, er sú að ég afrekaði það að horfa á fréttatíma tvö kvöld í röð. Í gærkv. var frétt um að heill hellingur af stúlkum í 10. bekk grunnskóla (15 ára sennilega) sem eru yfir kjörþyngd, reyni skaðlegar aðferðir til að létta sig, eins og að framkalla uppköst, svelta sig og þh. Þetta þykja mér slæmar fréttir og greinilegt að umræður og fræðsla um átraskanir og hversu alvarlegar afleiðingar þær hafa í för með sér, hafa vikið fyrir einhverju öðru.

Í kvöld var svo frétt um að Íslendingar séu á góðri leið með að verða feitasta þjóð heims, og einhvern vegin finnst mér mikið um svona „offitufréttir“ um þessar mundir. Ætli það geti verið tenging þarna á milli?

Fullorðið fólk talar mikið saman, og það talar einnig mikið um annað fullorðið fólk, já og líka um börn annars fullorðins fólks...hvort þau eru feit eða flott...já og börn hlusta mikið.

Við erum að ala upp börn með lélegt sjálfsmat, og þetta lélega sjálfsmat hafa þau frá okkur foreldrunum, sem erum alltaf að tala um feitu nágrannana eða hvað þessi eða hinn afrekaði í ræktinni, hvað sumir eru flottir en aðrir óflottir.
Hvers er annars að dæma um það?

En já...við erum öll misjöfn í útliti og einnig að byggingu, sumir eru alltaf stórir, alltaf hávaxnir, alltaf grannvaxnir eða alltaf stórbeinóttir, við skiptum ekki um genin sem ráða vaxtarlagi okkar. En við getum hinsvegar stjórnað hvort við verðum mikið grennri eða mikið feitari, hvort við borðum of lítið eða of mikið. En eins og allt annað sem er flókið í heiminum þá er þetta sára einfallt. Uppskriftin er svona:
Sættu þig við útlit þitt + borðaðu miðað við hreyfingu= Aukin vellíðan.

Auðvitað á maður ekki að sleppa því að borða ef maður hreyfir sig ekkert, því líkaminn þarf jú slatta af orku bara til að halda öllu kerfinu gangandi, við notum meira að segja orku þegar við hugsum, svo ekki vanmeta það að hugsa um að fara út að labba ;)
En það sem gerir þetta allt svo flókið, er neyslusamfélagið sem við búum í, já og við sköpuðum það sjálf og virðumst vilja búa við það að vera eins og við höldum að aðrir vilji að við séum.

Ef okkur langar til að missa nokkur kíló, þá er það í góðu lagi, en þá er líka ekkert óeðlilegt að það taki jafn langan tíma að ná þeim af sér eins og það tók að setja þau á sig. Og það er í þessu eins og öllu öðru, fara fokking MILLIVEGINN sem enginn virðist rata lengur.

Þú þarft ekki að eyða stórfé í brennslutöflur eða próteinduft eða einkaþjálfara...markaðurinn er bara búinn að segja þér að gera það.
Borðaðu bara aðeins minna en þú er vanur/vön, steiktu hamborgarinn þinn heima og notaðu tómatsósu (shitt gott sko) já og steiktu frönskurnar í ofninum á smjörpappír. Fáðu þér appelsínu þegar þig langar í kók...já og ekki trúa að diet-gos sé eitthvað tengt því að léttast.
Ég get gefið ykkur hundrað svona ráð, alveg frítt, nenni bara ekki að skrifa þau öll hér, nema ég verði beðin sérstaklega um það, þá er það ekkert mál.

En já...við skulum bara fara vel með okkur sjálf, vera góð við okkur og koma vel fram við alla aðra. Hættum að gagnrýna annað fólk og setja út á aðra, hjálpumst að og styðjum hvort annað. Tölum saman um áhyggjur og gleði. Verum til staðar fyrir hvort annað.
Ef þessum sáraeinföldu (en um leið flóknu og erfiðu...já það er fokking erfitt að hætta að smjatta á mistökum annarra) ráðum er fylgt, þá er ég viss um að margt myndi lagast í samfélaginu, meðal annars EINELTI sem virðist þrífast hvar sem er, en það sem verra er, þá eyðileggur einelti æsku fjölda barna á hverju ári.

Tökum höndum saman, ég mæli með þjóðarátaki í góðsemi ;)

Till next...adios

No comments: