Smá siðfræðileg pæling:
Það hefur örlítið verið í umræðunni núna, en samt reyndar furðanlega lítið, að stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar réði Þorvald Lúðvík Sigurjónsson sem nýjan framkvæmdarstjóra nýverið. Málið væri kannski ekki umræðandi, nema fyrir þær sakir að hann hefur stöðu sakbornings og sætir rannskókn hjá Sérstökum saksóknara, vegna gruns um stórfelld fjársvik í störfum sínum sem forstjóri Saga Capital fjárfestingabanka og sem framkvæmdarstjóri hjá Kaupþingi á undan því. (Tengist málefnum Glitnis og Kaupþings).
Ein helstu rök Geirs Kristinns Aðalsteinssonar, formanns AFE og oddvita L-listans, eru þau að Þorvaldur Lúðvík hafi skarað framúr í persónuleikaprófi hjá Capacent, af þeim 10 sem fóru í það próf, en alls sóttu 37 um stöðuna.
Hér er hvorki ætlunin að ræða um sekt eða sakleysi Þorvaldar Lúðvíks, eða hvort hann sé hæfari eða óhæfari en aðrir til að sinna þessu starfi, heldur ætla ég mér að velta því fyrir mér hvaða afleiðingar þessi ráðning getur haft og reyna að komast að því hvort það hafi verið siðfræðilega réttmætt að ráða hann í þetta starf.
Það hafa komið fram gagnrýnisraddir á þessa ráðningu, sem benda á það að vafi leiki á um siðferði hennar og því ætla ég að reyna að nytjagreina þessa athöfn.
Ef við setjum þessa ráðningu inn í athafnanytjastefnu, þá þarf að skoða allar afleiðingar sem athöfn að þessu tagi getur haft og ef við setjum þetta inn í reglunytjastefnu, þá skoðum við hvaða almennar afleiðingar þessi athöfn getur haft.
Hvað myndi t.d gerast ef það yrði almenn regla, að það skipti ekki máli við ráðningar í opinber störf, að umsækjandi hefið stöðu sakbornings í sakamáli?
Skiptir máli hvaða staða það er sem ráðið er í? Myndum við t.d vilja að skólastjóri væri ráðinn inn í skóla sem sætti rannsókn vegna nauðgunar?
Fyrirfram er ekki hægt að segja til um hvaða afleiðingar þessi ráðning hefur, enda er sjaldnast hægt að sjá fyrir um afleiðingar gjörða og það er einmitt það sem gerir þetta að siðferðislegu álitamáli.
Ef það væri vitað að maðurinn komi ekki til með að fá nokkurn dóm, þá skiptir þetta sennilega ekki svo miklu máli, nema þá að þessi umræða sem er í gangi í augnablikinu getur skaðað ímynd AFE, sem er í sjálfu sér slæmt fyrir öll fyrirtæki og stofnanir ef orðspor og ímyndir þeirra skaðast. Er ekki alltaf betra að taka ákvarðanir sem ekki skaða ímynd og álit út á við?
Eða erum við orðin það fljót að gleyma að það skiptir ekki máli ef allt fer vel að lokum?
Eins og staðan er í dag, þá kannski skaðast engir einstaklingar við þessa gjörð, en ef svo færi að Þorvaldur Lúðvík yrði fundinn sekur um misferli að einhverju tagi, þá gæti það bitnað á mörgum. Þeir sem að ráðninguni standa myndu bera álitshnekki og vera sakaðir um dómgreindarskort við ráðningaferlið, bæði þá stjórn AFE og einnig starfsfólk Capacent og allir þeir aðilar sem að málinu koma. Það gæti allt eins farið svo að einhverjir misstu vinnuna vegna rangra og áhættusamra ákvarðana og myndu þá einnig fjölskyldur þeirra gjalda fyrir það með óbeinum hætti.
Það virðist þó ekki vera lenska hérlendis að fólk taki almennt ábyrgð á umdeildum ákvörðunum, svo þetta er kannski langsótt.
Ég myndi þó segja að þessi ráðning hafi óbein áhrif á samfélagið í heild, því með þessari ráðningu er verið að segja að það skipti í raun ekki máli hvort að viðkomandi sæti rannsókn eður ei. Og ef fólk er saklaust uns sekt er sönnuð, þá hlýtur það að ganga yfir alla.
Einnig veit ég að rannsóknir mála og dómsúrskurður tekur oft langan tíma oft til skaða fyrir bæði einstaklinga og samfélagið í heild. En það kostar endurskoðun á réttarkerfinu í heild, já og kannski fleira fólk í vinnu í þessum málaflokki, sem er allt annað mál en það sem ég fjalla hér um.
Mikilvægi þess að ráða þennan ákveðna mann í þessa stöðu er mér að mestu leyti hulin ráðgáta. Ef umsóknir hefðu verið fáar og margir ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru, þá hefði málið litið öðruvísi út. En umsóknirnar voru 37 eins og áður kom fram og 10 virðast hafa náð því lágmarki að vera teknir í persónuleikapróf.
Þetta persónuleikapróf gerir mig reyndar örlítið ruglaða, því jafnvel hinir harðsvífustu glæpamenn geta komið glimrandi vel út úr persónuleikaprófum. Er það ekki einmitt eitt af því sem einkennir þá sem „svífast einskins“ í viðskiptum? Að vera svalur og kúl og láta fátt sem ekkert koma sér úr jafnvægi. Maður hefur jafnvel lesið um fjöldamorðingja sem nágrannar og aðrir báru hina bestu sögu og þóttu hinir mestu ljúflingar. Einnig veit maður að til er fólk sem er nánast ófært um mannleg samskipti eða eiga erfitt með að tjá sig opinberlega, en samt eldklárt og rosalega fært í því sem það tekur sér fyrir hendur (nema kannski að sannfæra aðra um ágæti sitt). En þetta er kannski aðeins útúrdúr, og meira ætlað til umhugsunar en að ég sé að varpa fram staðreyndum.
Hvert er réttlætið við þessa ráðningu? Átti maðurinn hana skilið, eða var verið að ganga framhjá enn hæfara fólki vegna pólitískra tengsla eða vinskapar?
Ég er þess fullviss, að minnsta kosti einn annar umsækjandi hefur verið að minnsta kosti jafn hæfur, án þess að hafa kynnt mér aðra umsækjendur á neinn hátt. En í þetta stórum hópi umsækjenda, má bara gera ráð fyrir því. Ég gæti jafnvel ályktað sem svo að eitthvað annað en gríðarleg hæfni þessa einstaklings hafi stýrt þessari ráðningu, en ég kýs að leyfa fólki að dæma hvert fyrir sig. Það mætti jafnvel bera þessa ráðningu saman við ráðningu bæjarstjóra Akureyrar á sínum tíma, en ég kýs að gera það heldur ekki.
Ef ráðningin er á öðrum forsendum en hæfni, þá er hún óréttlæti í garð hinna umsækjendana.
Ef ráðinn hefði verið einhver annar umsækjenda (en enginn annar sætir rannsókn) þá hefði það ekki einu sinni átt að skaða Þorvald Lúðvík, því hann hlýtur að minnsta kosti að hafa verið í svipaðri stöðu og aðrir umsækjendur varðandi vinnu. Ég tek það fram að ég hef ekki nennt að kynna mér hvort eða í hvaða vinnu hann var, eða aðrir umsækjendur.
En það má alveg hugsa sem svo að einhver annar hafi meira þurft á þessari atvinnu að halda, og jafnvel verið jafn hæfur.
Ef ráðningin er fordæmisgefandi út í samfélagið, þá gæti hún haft skaðleg áhrif á mörgum og misjöfn um stöðum.
Í siðfræðilegum álitamálum stendur valið oft á milli tveggja slæmra kosta, hver er hinn slæmi kosturinn í þessu tilviki?
Ef valið er á milli þess að ráða hæfan mann sem sætir rannsókn á misferli og að ráða hæfan mann sem sætir ekki rannsókn af neinu tagi, af hverju er þá valið erfitt?
Og af hverju er þá maður ráðinn sem sætir rannsókn þegar talsverður fjöldi annarra er í boði?
Það liggur nærri að maður geti ekki einu sinni flokkað þetta sem siðfræðilegt álitamál, heldur sé þessi ráðning hreint og beint siðferðilega röng og lykti af spillingu og pólitískum hrossakaupum. Er þetta sú leið sem við viljum fara eftir hrunadansinn mikla?
Þessi gjörð stuðlar ekki að sátt og samlyndi í samfélaginu og veitir hinum almenna borgara varla öryggistilfinnigu yfir því hversu faglega málum sé háttað í stjórnsýslunni.
Til er ein góð formúla fyrir því að finna út hvort að athafnir séu réttar eða rangar og hún er svona: Leggið saman góðar og slæmar afleiðingar. Ef slæmar afleiðingar eru meiri en hinar góðu er athöfnin röng, ef góðar afleiðingar eru meiri en slæmar er hún siðferðilega rétt. (eða í það minnsta réttari)
Og að þessum orðum skrifuðum þá læt ég það í hendur ykkar lesenda að ákveða hvort að ráðning Þorvaldar Lúðvíks sé siðferðilega rétt eða röng.
Ég er búin að gera upp við mig hvað mér finnst.
Till next...adios
Thursday, January 05, 2012
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment