Uuuu...réttlátt samfélag?
Nú er hver höndin á móti annari í allskonar umræðum, bæði manna á millum en þó sér í lagi á veraldarvefsíðum ýmisskonar. Eftir stutta skönnun á facebook, þá virðist sem svo að fólk sé talsvert að fá leið á „iðnaðarsalt-umræðunni“ svokölluðu. Jú auðvitað er hundleiðinlegt að tala um sama málefnið í allt að þrjá daga í röð! Tölum frekar um eitthvað annað; Gillz eða Geir H.H.
En ég ætla, því miður (og þá geta einhverjir bara hætt að lesa hér), að bera í bakkafullan lækinn og ræða aðeins meira um iðnaðarsaltið, eða öllu heldur spá í það; hvað í óskupunum hefur geta valdið því að það var selt hér og notað í matvæli í yfir tíu ár. Ég veit ekki hvort að almenningur gerir sér yfirleitt grein fyrir, eða hugsar út í það, að þessar eftirlitsstofnanir sem við höfum á landinu, eru í vinnu hjá okkur við að gæta hagsmuna okkar. Þetta eru stofnanir reknar af almannafé, fyrir skatta frá fyrirtækjum og einstaklingum, eins og aðrar opinberar stofnanir.
Hjá stofnunum eins og Matvælaeftirlitinu og Heilbrigðiseftirlitinu vinnur fagfólk og ef við grípum aðeins niður í grein sem Sigurður Kristinson skrifaði um fagstéttir þá segir þar meðal annars: „Fagstéttir standa ekki undir nafni nema þær hafi kerfisbundna tilhneigingu til að setja almannahag ofar sérhagsmunum.“ Hefur orðið misbrestur á þessu hjá mörgum fagstéttum landsins? Hvenær urðu sérhagsmunir æðri almannahagsmunum? Afhverju fær Ölgerðin undanþágu til að selja iðnaðarsalt og afhverju fær Skeljungur undanþágu til að selja áfram áburð með of háu kadíum-innihaldi?
Málið er ekki, að mér finnst, hvort að þetta sé svo skaðlegt eða ekki, eða hvort að við þurfum að innbyrða mörg baðkör að viðkomandi vöru til að hljóta skaða af, heldur því að reglur eru settar og eftirlitsaðilar ráðnir sem fara svo ekkert eftir reglunum. Og afhverju ekki? Er einhver að fá einhverjar greiðslur fyrir eitthvað? Getum við ekki alveg eins sleppt þessum reglum fyrst við erum ekkert að fara eftir þeim?
Einhverra hluta vegna þá finnst mér þessi mál hafa einhvern smá ilm af einhverju frekar spilltu, kannski ekkert ólöglegt, meira svona siðlaust...maður þekkir mann, eða er frændi hans, eða á bara fullt af peningum. Hver veit. En til þess að geta byggt hér upp farsælt og réttlátt samfélag, sem ég hygg að talsverður fjöldi manns vill, þá þurfum við einmitt að hætta að viðurkenna spillingu sem sjálfsagðan hlut.
Við eigum rétt á því að eftirlitsaðilar vinni störf sín á faglegan hátt í þágu okkar almennings. Hvað EF einhver mjög heilsuspillandi efni hefðu leynst í saltinu?
Svo bara rétt til umhugsunar: Ef við erum núna að byggja upp nýtt samfélag alveg frá grunni, hvernig viljum við hafa það? Viljum við hafa mikla stéttaskiptingu? Viljum við hafa mikin launamun? Viljum við hafa misjöfn réttindi fyrir misjafna hópa fólks? Spyrjið ykkur að þessum spurningum, og endilega upphugsið fleiri ;) og hugsið ykkur svo að þegar skipan nýja samfélagsins er tilbúin, þá veit enginn hvar hver lendir. Þú gætir lennt í efsta þrepi samfélagsins eða þú gætir lennt í því neðsta. Viljum við þá ennþá sömu skipan á málum?
Till next...adios
Tuesday, January 17, 2012
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment