Tuesday, May 22, 2012

Íslendingar - einnota þjóð?

Ég fór á sushi veitingastað fyrir nokkru með strákunum mínum, sem er svo sem ekki í frásögur færandi, nema að það fékk mig til að hugsa enn meira um hversu einnota-vædd við íslendingar erum að verða.

 Ég vissi ekki betur en að þetta væri venjulegur sushi staður, og þarna inni voru mörg borð og stólar fyrir talsverðan fjölda fólks. En strax og inn var komið, var allt sushi-ið í plastbökkum, svona eins og maður getur keypt í sumum matvöruverslunum. Ég hélt að þetta væri kannski líka fyrir heimtöku og spurði hvort ekki væri hægt að fá sushi-ið á disk, en nei, þetta var það sem til var. Jæja, við völdum okkur þá bara stóran bakka saman og ég ákvað að kaupa þá einnig heitan rétt og súpu, sem afgreiðslukonan sagðist myndi koma með á borðið. Ekki leið löng stund þar til maturinn kom, kjúklingarétturinn í hólfaskiptum plastbakka og súpan í frauðplastglösum með loki! Einnig voru öll áhöldin úr plasti, nema prjónarnir en þeir voru svona hefðbundnir einnota úr tré.
 Og ég spurði mig: Eru margir veitingastaðir hættir að nenna að vaska upp og nota bara einnota áhöld? Hversu mikið af því einnota dóti sem borðað er úr á staðnum ætli fari í endurvinnslu? Er þetta það sem við viljum? Erum við alveg hætt að gefa okkur tíma til að setjast niður og njóta matarins? Viljum við bara taka með okkur matinn og troða honum í okkur á hlaupum?

Ég skil vel að oft er afar þægilegt og jafnvel eina leiðin til að fá „alvöru“ mat að taka hann með í plastbökkum. Ég hef sjálf oft fengið mér „take a way“ kaffi og gripið sushi-bakka í matvöruverslun til að borða heima. En erum við ekki aðeins að missa okkur í einnota-notkun?

 Í Háskóla Íslands er Háma, ef maður svo mikið sem röltir framhjá byggingunni sem það hýsir, þá mætir maður talsverðum fjölda fólks með plastbakka með mat. Ég held að það sé svipuð saga í flestum stærri mötuneytum landsins. Ég hef grun um að oft sé þetta af þægindarástæðu en ekki vegna þess að annað var ekki hægt. Ég er ekkert að tala um að hætta alfarið notkun einnotaumbúða, en ef fólk myndi aðeins reyna að stilla henni í hóf, þá væri hálfur sigur unninn. Já og ég tala nú ekki um að setja svo einnota umbúðirnar í endurvinnslu eftir notkun. Þetta er nefnilega að lang stærstum hluta aðeins hugsunarleysi, en ég hygg að það sé betra að huga að þessu strax, nema okkur langi mikið að flytja út á einhverja plasteyjuna sem fljóta nú um flest heimsins höf.

Till next...adios

No comments: