Monday, March 05, 2012

Hvaða hvaða...

Íslendingar eru ótrúleg þjóð. Ekki það að ég hafi mikið vit á öðrum þjóðum, enda heimóttaleg með afbrigðum. En ég held þó að ég geti með sæmilegu móti fullyrt að við erum heimsmeistarar í þrasi og þrætum. Það er hreinlega eins og afar mörgum finnist þeir vera að játa sig sigraða að einhverju leyti ef þeir þurfa einhverntíman að skipta um skoðun.

Hvað ætli valdi þessu?

Ég hitti gamlan kennara (ekki að hann sé neitt gamall...bara langt síðan hann kenndi mér, rúm 25 ár eða svo) nú á haustdögum þegar fyrir lá að ég væri að skella mér suður yfir heiðar að hefja meistaranám í siðfræði. Ég rakst á hann fyrir hreina tilviljun og sagði honum frá þessari fyrirætlan minni í spurðum fréttum. Hann brosti að þessari vitleysu í mér og sagði að ekki væri neitt vit í að læra siðfræði á Íslandi, því siðleysi væri svo rótgróið í landanum að það tæki nokkra mannsaldra að breyta því.
(Ég færi þetta samtal kannski örlítið í stílinn, en ekkert rosa mikið).

Núna síðustu daga, þá hefur mig nokkrum sinnum verið hugsað til þessara orða, míns djúphugsa kennara. Ekki er það eitt sem því veldur, heldur næstum öll almenn umræða sem fer af stað í þjóðfélaginu. Það er eins og allir geti leyft sér að hnýta í alla, hreyta skít í aðra og tala niður til allra. Sumir reyna að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra. Aðrir drulla yfir skoðanir annarra sem svo drulla yfir skoðanir hinna sem svo drulla yfir skoðanir þeirra sem drulluðu yfir skoðanir þeirra.
Sem sagt, í stuttu máli; við erum óendanlega góð í því að vera ómálefnaleg.

Það virðist heldur ekki vera hægt að vekja máls á neinu, nema grípa til róttækra aðferða, sem svo vekja upp enn róttækari aðferðir, gegn róttæku aðferðunum, þannig að róttæklingarnir verða alveg rasandi.
Svo veit enginn hver kastaði fyrsta grjóthnullungnum úr glerhúsinu og ekkert að sjá nema glerbrot um allt og sundurskornar sálir.

Stundum langar mig til að öskra út um gluggann: „GETUM VIÐ EKKI HÆTT AÐ RÍFAST OG FARIÐ AÐ TALA SAMAN?“ En ég er bara orðin svo kvefuð af öllum þessum skít í þjóðfélaginu að ég kem ekki upp orði...enda væri það víst lítið skárra að öskra á aðra til að ná fram málefnalegri umræðu.

Kannski er bara réttast að byrja að hvísla, reyna svo að hækka róminn smátt og smátt og athuga hvort að það sé einhver að hlusta.
Ef enginn hlustar, þá er það er versta falli orð sem fjúka burt í tómið, ég hygg að það sé betra en að sitja eftir með ráma rödd og rifin raddbönd.

Till next...adios

No comments: