Hugleiðing...
Það er til bók sem heitir „konan sem man“ og stundum dettur mér í hug hvort að ég sé eini íslendingurinn sem man. Ekki það að ég telji mig sérstaklega minnuga, er reyndar ef út í það er farið alveg fjarskalega gleymin. Ég á það til dæmis til að fara út í búð til að kaupa tannkrem, en kem heim með tvo fulla haldapoka af öllu mögulegu nema tannkremi. En þetta er nú útúrdúr.
Mér skilst að nú sé fólk að fara að berja tómar tunnur á Austurvelli, og tilefni sé að nú sé forsetisráðherra að fara að flytja stefnuræðu sína. Að því tilefni vakna upp spurningar eins og;
Af hverju hlustar fólk ekki á stefnuræðu forsetisráðherrans og dæmir svo hvort það og þá hverju það vill mótmæla?
Hverju er fólk að mótmæla?
Já, ég veit að fólk er að mótmæla ástandinu í landinu, fólk er að missa íbúðir sínar, er búið að missa vinnuna og allt hækkar og hækkar. Ég er ekki að segja að mér finnist ástandið í landinu neitt til að hrópa húrra fyrir. En þar sem ég er konan sem man, þá man ég eftir mótmælum í janúar árið 2009 þar sem „hrunstjórninni“ svokölluðu var komið frá völdum.
Svo var boðað til kosninga og ný stjórn tekur við...og allir ættu að vera glaðir? Eða ekki? Nú vill sama fólkið og kom fyrri stjórn frá völdum koma þessari stjórn frá völdum og ef skoðanakannanir hafa rétt fyrir sér, þá eru allar líkur á að kosningar í dag myndi færa völdin aftur til þeirra sem höfðu þau á undan núverandi stjórn...humm...nú er ég kannski farin að flækja þetta um of.
Ef aðrir væru við völd, erum við þá viss um að ástandi í landinu væri betra? Ég tek það fram að ég er alveg hætt að botna neitt í pólitík í dag og myndi ekki treysta mér til að velja einn flokk fram yfir annan í kosningum, ef kosið yrði í dag.
Persónulega myndi ég vilja alla burt af þingi og ráða inn fólk á faglegum forsendum, ekki samt hagfræðinga, þeir myndu bara fækka fólki í landinu þangaði til að efnahagsástandið næði jafnvægi...hehe...(það verður að vera hægt að grínast smá líka).
Svo í lokin, þá held ég að við séum orðin alltof góðu vön. Það þarf ekkert langt aftur í tímann, til að sjá að hér hefur oft verið mun sárari fátækt en er hér í dag. Fólk gekk eða fór ríðandi langar leiðir (já frá fjölskyldu) til að vinna skítavinnu fyrir léleg laun. Í dag, þá fer fólk ekki einu sinni út á land til að vinna...og getur ekki hugsað sér að taka eina törn á sláturhúsi á Húsavík, og virðist þá litlu skipta hvort það eigi fjölskyldu eða ei. Nei, það er víst öruggara að vera atvinnulaus í Reykjavík heldur en í fásinninu út á landi.
Já og svo getur fólk jafnvel ekki leyft sér að fara í utanlandsferðir, svo mikil er fátæktin hér á landi.
Ég veit að ég er hundleiðinleg, og ég veit líka að það er til fólk sem á verulega bágt, en það er líka til fólk sem er bara verulega vælið og það skemmir fyrir hinum sem virkilega þurfa á hjálp að halda.
Ég hef það til dæmis bara mjög gott, en ég hef líka bara farið í tvær utanlandsferðir á ævinni, þá fyrri 1987 og seinni 2005. Ekki að mig hafi ekki langað, en ég tók bara þá ákvörðun að nota frekar launin mín í fæði, klæði og húsnæði (leigu) fyrir mig og strákana, heldur en að fara reglulega í utanlandsferðir og standa svo í biðröð fyrir utan mæðrastyrksnefnd.
Ég veit ekki hvort þetta heitir stolt eða bara heimska...kannski sitt lítið af hvoru. En maður bara moðar úr því sem maður hefur og er ekkert að barma sér. Svo hef ég heyrt að fólk sem fer mikið til útlanda sé ekkert að njóta þess almennilega...orðið hversdagslegt.
Grasið er líka yfirleitt bara sölnað hinumegin þegar maður er loksins kominn yfir.
En, já...hvað vildi ég sagt hafa með þessari hugleiðingu? Æ, ég veit það varla sjálf, kannski bara reyna að vekja einn eða tvo til umhugsunar um hvernig þjóðfélagi við viljum búa í. Viljum við vera freka spillta barnið sem grenjar og öskrar við minnsta mótlæti eða viljum við vera prúða vel upp alda barnið sem er þakklátt fyrir það sem það fær og kann að þakka fyrir sig?
Það er talsvert langt síðan að ég gerði upp við mig hvernig ég vil vera, og er enn að vinna í því (maðu er svo agalega breiskur), þetta kostar allt vinnu og það að fara í gagnum lífið með talsverðri meðvitund. En það verður hver og einn að gera upp við sig hvernig hann vill lifa sínu lífi.
Góðar stundir
Till next...adios
Monday, October 03, 2011
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
Æ, hvað það er notalegt að lesa nokkur skynsamleg orð á þessum tímum og njóta þess á meðan. Það er nefnilega svo margt til í þessu hjá þér. Takk fyrir þetta.
Sammála, sammála, SAMMÁLA! Og það ekki í fyrsta skipti. Það er mín skoðun að ansi margir hafi lifað langt um efni fram og nú eru þeir í enn dýpri skít vegna ástandsins. Ég geri ekki neitt nema eiga pening fyrir því.
Ætlaði nú ekki að vera nafnlaus!! En ég er s.s. anonymous ;-)
Post a Comment