Monday, December 31, 2007

Gamlársdagur

Ég gleymdi víst að blogga (eða nennti ekki) í gær sem mér telst til að hafi verið sjötti í jólum og í dag því sjöundi í jólum...sem sé, það er farið að síga á seinni hluta jólanna ;)
Við Mikael fengum alveg kast í gær, fórum í Nettó og keyptum smá mat og nauðsynjar. Fórum svo á flugeldamarkað björgunnarsveitarinnar Súlunnar (alveg við hæfi þar sem ég gekk á Súlur fyrri hluta sumars og hefði kanski þurft að bjarga mér þaðan niður...var orðin ansi skjálf-fætt á toppnum, en það reddaðist) og keyptum örlítið af blysum og eina litla tertu...eða kanski meira svona rúgbrauð, svo lítil er hún ;) en við eyddum þarna 4.000 kr. í tóma vitleysu en fyrir góðan málsstað. Veit nú ekki hvar við Íslendingar værum stödd ef við hefðum ekki björgunarsveitirnar, sennilega öll föst upp á fjöllum ;)
Veit ekki hvort ég á eftir að fara yfir farinn veg og skrifa einhvern ægilegan áramótapistil, athuga hvað mér dettur í hug á morgun.
Annars er heldur ekki stefnan að stíga á stokk og strengja áramótaheit, en planið er nú samt að reyna að verða betri manneskja á næsta ári, hugsa vel um strákana mína, standa mig vel í skólanum, hreyfa mig nokkuð reglulega og horfa bjartsýn fram á veginn :)
Eða eins og máltækið góða segir: "Brostu og allur heimurinn brosir með þér, gráttu og þú verður blautur í framan" ;)
Gangið hægt um gleðinnar dyr inn í nýtt ár, eigið góð áramót og fengsælt ár í vændum :)
Knús í krús!

Till next...adios

Saturday, December 29, 2007

Fimmti í jólum

Já, það var margt brallað í dag! Við Mikael drifum okkur eldsnemma á fætur og ég keyrði hann upp í Hlíðarfjall (eða Skíðafjall eins og hann segir alltaf) og skráði hann í skíðaskólann frá 10:00-14:00 fór svo sjálf á skíði á milli 13:10 og 14:30 hef ekki alveg jafn mikið úthald í þetta eins og hann...ekki ennþá ;) Fór meira að segja eina ferð með Mikael í stólalyftuna og það gekk svona frekar hægt en nokkuð örugglega fyrir sig ;) Held samt að hann verði að læra aðeins betur á skíði áður en að hann þvælist mikið með mér, því ég er ekki góð til aðstoðar! Annars finnst mér skemmtilegast að fara í svigi niður brekkurnar (frekar hægt miðað við alla sem fara framhjá mér...en það kemur) og ímynda mér að ég sé Ingimar Stenmark, ef einhver man eftir honum frá því í gamla-gamla daga ;) en auðvitað segi ég ekki nokkrum manni frá þessum hugsunum mínum á leiðinni niður brekkurnar. En þetta var rosa gaman. Svo var jóla-kaffiboð hjá Þórði bró. og Öllu mág. og var það ekki af verri endanum frekar en vanalega þegar maður rekur nefið þar inn :) og alveg snilld að koma glorsoltinn inn af skíðum og fá heitt kakó og smurbrauðs-og rjómatertur :) Takk fyrir mig og mína :)
Verst að þau Árni bró.og Có eru veikindaföst á Egilsstöðum :( en maður vonar nú að þau komist norður yfir heiðar fyrir áramótin...ansi er nú samt að verða stutt í þessi áramót!
Það hlýtur einhver að hafa komist í dagatalið og kippt úr einum mánuði eða svo, árið getur bara ekki verið svona fljótt að að líða!
Nú sitjum við Mikael bara og borðum soðna ýsu...loksins fékk maður fisk :)
Jæja, ætla að máta sófann aðeins...

Till next...adios

Friday, December 28, 2007

Fjórði í jólum

Bara örstutt í dag (það er nú reyndar komið kvöld). Kristján fór suður í dag, eða um 6 leitið, voða rólegt hjá okkur Mikael. Reyndar svona til að fyrirbyggja allan misskilning, þá er ennþá rólegra þegar ég og Kristján erum ein heima, það gerist bara enn sjaldnar. ;)
Ég byrjaði aðeins að taka til í herberginu hans Kristjáns og þurfti að negla saman rúmið hans sem ég keypti handa honum í vor! Þetta er nú meira draslið! Kostaði nú samt alveg sitt. Held ég sé bara hætt að versla við rúmfatalagerinn!
Jæja, sagðist ætla að hafa þetta örstutt, ætla að reyna að koma Mikael í rúmið ef mér dytti í hug að setja hann í skíðaskólann í fyrramálið ;) fer eftir veðri og færð ;)
Njótið nú síðustu daga ársins og verið góð við hvert annað :)

Till next...adios

Thursday, December 27, 2007

Þriðji í jólum

Hó hó hó, já enn eru jólin ;) og ekki alveg séð fyrir endann á öllu áti! Var að koma heim úr saumaklúbb, örlítið rauðvínsslegin og úttroðin af mat. Þetta hlýtur náttúrulega að leiða af sér eitthvað gríðarlegt átak í byrjun janúar...eða febrúar ;) Annars var þessi dagur mjög rólegur, byrjaði á því að við sváfum fram að hádegi (er að fá nett kvíðakast yfir því að snúa sólarhringnum við aftur...en það verður ekki fyrr en 4.jan) og svo fóru ég og Mikael að föndra saman kubbakalla sem hann fékk í jólagjöf...reyndar eru þetta einhverjar ferlegar ófreskjur en flottar óferskjur ;) og gaman að setja þetta saman, gott að vera kominn í háskóla og vera orðinn nógu gáfaður til að geta hjálpað drengnum með þetta :) Annars gaf ég honum eitthvað Spiderman-dót sem ég get ómögulega sett saman, held að það þurfi tæknifræðing til þess! Kanski þegar ég verð búin með háskólanámið ;) Já, svo var piparkökuhúsinu rústað við hátíðlega athöfn...og hluti af því snæddur.
Svo fer Kristján suður á morgun, það er búið að kaupa flugmiða og alles! Annars er greiið svo fullur af kvefi að hann er farinn að missa heyrn og hefur miklar áhyggjur af þessu öllu saman!
Jæja, ég nenni ekki að skrifa meira í kvöld, er södd, feit og þreytt en verð nú að reyna að vaka samt vel framyfir miðnætti...æfa mig fyrir gamlárskvöld ;)

Till next...adios

Wednesday, December 26, 2007

Annar í jólum

Góðan dag og gleðilega rest ;)
Annars eru nú jólin langt frá því að vera búin. Erum að fara í sveitina á eftir í hið árlega "annar í jólum" jólaboð, en þar mæta allir sem vettlingi geta valdið og eru staddir hér á landi og norðan heiða :)
Annars eru jólin búin að vera fín, allir búnir að fá eitthvað fallegt og borða fjöll af kræsingum. Mikael fékk möndluna á aðfangadagskvöld, enda var hann voða duglegur að borða jólabúðinginn :) Það er langt komið ofaní Quality Street krukkuna sem hann fékk í verðlaun ;) nammi namm!
Veðrið hefði heldur ekki getað verið mikið betra þessi jól, það snjóaði aðeins í gær en núna er voða stillt veður. Væri fínt ef að strákarnir væru jafn stilltir og veðrið! Þeir virðast ekki alveg vera að höndla allt þetta frí og nöldra eins og gamlar kellingar reglulega. Annars stendur nú til að Kristján fari suður til pabba síns á föstudaginn, svo þá verða nú meiri rólegheit, kanski get ég meira að segja byrjað að lesa bækurnar sem ég fékk í jólagjöf :) en þetta er reyndar í fyrsta skipti í mööööööörg ár sem ég hef fengið bók/bækur í jólagjöf :)
Annars er myndavélin mín eitthvað að klikka, fæ hana ekki til að kveikja á sér, ætlaði nefnilega að setja inn eins og eina mynd af ólátabelgjunum í fínu fötunum sínum...en það verður bara að bíða.
Verð samt að segja frá einu fyndnu síðan á þorláksmessu...ég nefnilega rölti í bæinn um kvöldið ásamt vinkonu minni, strákum og hundi, og þar sem við nálguðumst torgið þá heyri ég að eitthvað er um að vera. Á torginu stóð hópur fólks með kerti í hönd, "jæja, bara svona friðar stund á torginu, en sætt" hugsaði ég og staldraði aðeins við. En vitið menn, þá fór einn kall að kenna fólki texta sem hann hafði samið við sálminn Heims um ból. Og laglínan hljómaði einhvernvegin svona: " Farið burt bandaríski her" hummm....ég varð pínu hissa, svo meira hissa og að lokum var ég að hugsa um að verða hneiksluð en fór þess í stað að flissa og gekk í burtu. Hálf vorkenndi þessum hóp "herstöðvarandstæðinga" sem eru greinilega svo fastir í sínu baráttumáli að þau eru ekki búin að fatta að herinn fór fyrir einu og háflu ári síðan! ÆÆ...það er svona að ætla sér aldrei að gefast upp að berjast fyrir málstaðinn...jafnvel þótt að málstaðurinn sé löngu farinn! Ég held að þetta fólk ætti þá að skilja af hverju þjóðir í hinum stóra heimi eru endalaust í stríði þótt varla sé vitað lengur útaf hverju er barist....umhugsunarvert!
Reyndar var ég aldrei á móti hernum, skipti mig reyndar engu máli hvort hann væri eða færi, en samt gott að hafa hann til að bjarga sjómönnum úr háska og fleira fólki úr hrakningum. Væri gaman að sjá tölur yfir það hvað bandarískir hermenn hafa bjargað mörgum Íslendingum á meðan þeir dvöldu hér. Þyrlur bandaríksa hersins voru ólíkt öflugri en litlu síbiluðu þyrlur okkar Ísl.
Friður sé með yður...

Till next...adios

Tuesday, December 25, 2007

Jól

Gleðileg jól kæru vinir og ættingjar um allan heim og geim.
Megi nýja árið uppfylla alla ykkar drauma og verða gleði- og heillaríkt :)
Kær jólakveðja,
Elísabet Katrín, Kristján Esra og Mikael Hugi.

Till next...adios

Monday, December 24, 2007

Kertasníkir

Góðan daginn gott fólk :) Upp er runninn fallegur aðfangadagur, kom passlega mikill snjór í gær til að þekja allt lítillega. Nú er sólin að koma upp og slær rauðgilltum bjarma á skýin í suðri. Maður er svona rétt við það að fá jólakökkinn í hálsinn :)
Annars er heilsufarið að skána á bænum, Kristján er reyndar ennþá með hálsbólgu en er skárri og tekur ekki annað í mál en að fara í sveitina! Ég var meira að segja búin að gera plan B og kaupa jólamat ef heilsan yrði ekki góð til ferðalaga, en virðist geta geymt hann eitthvað ;) "Eldsnemma" í gær fórum við Mikael í leiðangur, keyptum hálstöflur í stórum stöflum og fórum svo í buxna og sparibinda-leiðangur. Skemmst er frá því að segja að við riðum ekki feitum hesti frá þeim leiðangri! Hér í bæ (litla-stórbænum Akureyri) eru ekki til gallabuxur nr.122 og ekki til sparibindi á 6 ára stráka! Það eru til sparibindi á pínu-litla stráka og svo aftur stóra-stóra stráka. Reyndar finnst mér þetta skrýtnara með gallabuxurnar. Ég geri þá ráð fyrir að hér um bæ hlaupi um hálf naktir strákar á þessum aldri, eða þá að hér búi fáir sem engir strákar á þessum aldri! Sem passar ekki alveg því að í bekknum hans Mikaels eru 63 krakkar og þar af örugglega 40 strákar, þeir eru a.m.k í stórum meirihluta! Eða hitt að strákar á þessum aldri gangi bara í íþrótta- eða joggingbuxum, eða það langsóttasta....allir 6 ára strákar fá gallabuxur í jólagjöf og þess vegna voru þær ekki til í neinum búðum á Akureyri ;) Þetta er náttúrulega mjög dularfullt. Ok, verð nú samt að viðurkenna að ég átti nú kanski eftir að fara í eina búð, kíki í hana milli jóla og nýárs.
Svo er líka allt jólaöl og appelsín búið í bænum, það er ennþá til aðeins af malti og appelsíni í 10-11 og það kostar líka sitt! Fór þangað í gær og greip með mér tvær kippur....og þær kostuðu nú bara rétt um 2000kr. Hefði bara verið nær að kaupa rauðvín ;) held það sé ódýrara. En ég sá nú samt ekkert eftir þessum aur, strákunum finnst þetta voða gott, og þetta hefur komið sér vel fyrir sjúklinginn minn sem hefur verið mjög lystarlaus.
Jæja, gólfin skúra sig víst ekki sjálf, svo þarf ég að setja í eina vél og náttúrulega skreyta jólatréið :)
Gleðileg jól öllsömul nær og fjær...hó hó hó :)
*<:o)

Till next...adios

Sunday, December 23, 2007

Ketkrókur

Í gær kom ég ýmsu í verk en ekki miklu samt. Við fórum í kirkjugarðinn með jólagrein á leiðið hjá pabba, það var svolítið kalt, en ljósakrossar og aðrar skreytingar gerðu garðinn bara ljómandi fallegan. Það var víst búið að spá einhverju kreisí veðri hér í dag, en núna er a.m.k bara þokkaleg blíða, vona að það haldist. Svo byrti aldeilis yfir ganginum hjá mér í gær, nýja ljósið komið upp og skín mjög skært ;) Hugsa að ég verði að reyna að taka aðeins til á ganginum, nú sést allt draslið svo vel. Svo keyrði ég út nokkur jólakort í gær, lét strákana hlaupa með þau í lúgurnar og hann Mikael náði að detta tvisvar á hausinn (eða á hnéin), samt er ekki nein hálka eða neitt...ég veit ekki hvernig þeir bræður fara að þessu, en þeir eru ótrúlega miklir hrakfallabálkar...sérstaklega þó Mikael. Einnhvað virðist þó hausinn á Kristjáni að vera að stækka, því hann er alltaf að reka hann í núna, veggi eða dyrakarma! Þetta eru hæfileikar!
Svo í allt gærkveld var Mikael hálf vælandi yfir fætinum á sér (tók nú alveg móðursýkiskast á tímabili) og seint í gærkveldi þá varð Kristján allt í einu lasinn. Og þegar ég segi allt í einu, þá meina ég allt í einu! Þetta var svona tralll lalala...mér er illt í hálsinum...mér líður allsstaðar illa! Skæl skæl skæl...það voru ekki glaðir bræður sem skriðu í rúmið í gærkveldi, heldur vælandi-skælandi bræður. Kristján er ennþá alveg ónýtur, held hann sé kominn með pestina sem Mikael var með síðustu helgi, vona bara að þetta gangi jafn fljótt yfir hjá honum annars er aðfangadegi stofnað í uppnám! Jæja, er búin að lofa Kristjáni að skjótast í apótek og kaupa hálstöflur og kanski verkjatöflur og eitthvað fleira.
Vona að síðasti jólasveinninn komi bara með góða heilsu og gleði í skóinn :)

Till next...adios

Saturday, December 22, 2007

Gáttaþefur

Ég skaust í bæinn fyrripartinn í gær, byrjaði reyndar á því að fara með 4 ruslapoka af flöskum og dósum í endurvinnsluna. Þurfti að troða þessu inn í bílinn og svo skoppaði þetta út um allt, svo datt einn pokinn á hliðina þegar ég setti hann frá mér fyrir utan bílinn og allt út um allt! Heftur eflaust verið svolítið spaugileg sjón, þótt mér fyndist það ekki það augnablikið.
Svo fór ég í BIKO og keypti mér ljós á ganginn! Dugleg...nú er bara spurning hvort ég kem því upp fyrir jól...þarf reyndar að fara og kaupa skrúfur til að festa ljósið í loftið, komst að því að þær fylgja víst ekki með! Kjánalegt! Svo fór ég í Hagkaup og ætlaði að kaupa gallabuxur á Mikael. Það var nú ekki eins auðvelt og það átti að vera. Ég leitaði og leitaði en fann engar í hans númeri. Reyndar var alveg afskaplega lítið úrval af strákafötum yfir höfuð þarna! Örugglega 90%af barnafötunum voru stelpuföt, strákafötin voru í einu horni og fór ekki mikið fyrir þeim. Enn minna fór fyrir starfsfólki, ég leitaði lengi að aðstoð og fann loksins eina í "sokkadeildinni" hún sagðist ekkert vita um barnafötin og fór að leita að einhverjum í það, kom svo og sagði mér að "hún væri rétt ókomin úr mat", ég skyldi bara hinkra aðeins. Ég stóð þarna eins og álfur innan um barnafötin í laaaaangan tíma og gafst upp fyrir rest og fór. Hagkaup fær ekki góða einkunn hjá mér varðandi þjónustu og bæ thei vei ekki BIKO heldur! En jæja, ég ætlaði nú ekki alveg að gefast upp og fór í Glerártorg, fann barnafatabúð þar, þar voru til einar gallabuxur í réttu númeri! Ég keypti þær bara og fór, konan í búðinni var svo sammála mér að það væri erfitt að fá föt á stráka á þessum aldri. Var nærri búin að spyrja hana hvort hún gæti ekki keypt inn meira af fötum á stáka á þessum aldir, en ákvað að segja bara "gleðileg jól" í staðin.
Svo skottaðist ég í sund með strákana, það var fínt, ég lá í heita pottinum og varð eins og sveskja, reyndar var eitthvað verið að laga stóru- gömlu sundlaugina, svo það var ekkert í boði að synda neitt ;) Strákarnir hömuðust í rennibrautinni, rosa stuð hjá þeim.
Svo voru það jóla-tónleikar ársins ;) Hvanndalsbræður, þeir tóku nokkur "falleg" jólalög og dagleg lög og voru náttúrulega haug skemmtilegir eins og vanalega. Svo var tekið smá pöbba-rölt en það var allt mjög rólegt og ég komin heim fyrir kl.01 :) Fínt kvöld.
Jæja, ætli ég verð ekki að kaupa skrúfur og reka Kristján í bæinn að kaupa jólagjöf handa mér ;)

Till next...adios

Friday, December 21, 2007

Gluggagægir

Vá hvað það er allt í einu stutt til jóla! Ég er nú nærri búin að gera allt, á reyndar eftir að hjálpa næstu 3 jólasveinum aðeins. Svo er reyndar öll tillagning eftir, það er alveg útséð að það borgar sig ekkert að laga til fyrr en í mesta lagi 2 dögum fyrir jól, annars er maður bara að laga til alla daga!
Fór í gærkveldi og keypti handa Kristjáni, og fleirum sem eftir voru. BT er fín búð, einnig Eymundsson, þetta verða "hörð" jól í pökkum í ár frá mér ;) Einnig sendi ég jólakort, gleymdi reyndar einu í sætinu á bílunm, sá það í gærkveldi þegar ég kom heim og nennti ómögulega aftur af stað...hendi því í póst í dag...ef ég nenni ;) Annars er ég að hugsa um að fara í laaaaanga gönguferð um bæinn í dag eða á morgun og læða nokkrum kortum í lúgur.
Kristján hefur ægilega áhyggjur af því að hann er ekki ennþá kominn í jólaskap, er alveg að fara á taugum útaf því strákgreiið...kanski eru hormónarnir búinir að yfirtaka jólaskapið! Ætla nú að gera mitt besta, syngja jólalög í allan dag og kanski kíkja á kaffihús í kakó :) Það er svo gaman að tjilla og dúlla sér bara í rólegheitum :) Annars var Mikael að heimta sundferð...ekki vitlaus hugmynd.
Ætla núna að skokka niður á torg og athuga hvort það eru til miðar á Hvanndalsbræður í kvöld...það kemur manni nú í jólagírinn að hlusta á þá ;)
Þrír dagar til jóla! Reynið að halda ró-inni, friður sé með ykkur ;)

Till next...adios

Thursday, December 20, 2007

Bjúgnakrækir

Voða er nú fínt að skottast um á náttfötunum.
Ég ræsti strákana rúmlega 8 í morgun, klæddi þá í fín föt (Mikael fór meira að segja í frakka utanyfir sparifötin, eitthvað sem ég mundi allt í einu að ég átti inn í skáp síðan Kristján var á þessum aldri) og þeir gengu glaðir í bragði í skólann á leið á litlu jólin :) Voðalega á ég nú sæta stráka :) Þeir hafa náttúrulega sitt fallega útlit frá feðrum sínum, því að ég held mínu fallega útliti ennþá, en þeir feðurnir báðir orðnir ljótir ;) hehe. (Vona að enginn taki þessu voða alvarlega eða illa). Það hefur nefnilega komið mér pínu á óvart hvað sumir sem lesa bloggið mitt taka því voðalega hátíðlega...halda jafnvel að ég sé í fýlu eða í vondu skapi ef ég er eitthvað að tuða eða hneykslast á hinu og þessu! En svona til að fyrirbyggja allan misskilning þá myndi ég í fyrsta lagi aldrei nenna að blogga ef ég væri í vondu skapi og í öðru lagi er ég aldrei í vondu skapi ;) Þetta er nú bara allt til gamans gert og meira svona í átt til þess að reyna að vera fyndin heldur en leiðinlegur ;) Ég verð kanski bara misskilin grínisti svona eins og Jón Gnarr...hehe.
Annars er svo margt sem liggur fyrir í dag að ég veit bara ekkert á hverju ég á að byrja! Þarf að skrifa jólakort og senda þau (þeir sem búa fyrir utan íslenska landhelgi fá bara engin kort, því ég er orðin alltof sein....þið þarna úti: gleðileg jól og takk fyrir allt gamallt og gott, frá mér og mínum). Þeir sem búa á Íslandi Íslandi Íslandi, fá vonandi sín kort í hendurnar fyrir jól...held það sé síðasti skiladagur í dag, vona að það reddist ef ég kem þessu í póst fyrir miðnætti ;) Á nú eftir að finna nafna-heimilisfanga listann og svoleiðis...þetta tekur allt saman tíma o sei sei já.
Svo þarf að kaupa gjafir og pakka inn já og ég tala nú ekki um að laga til AFTUR!
Jæja, ætla að reyna að ákveða mig hvort ég klæði mig í skokkgallann og fer smá hring, eða hvort ég klæði mig í venjuleg föt og fer að gera eitthvað af viti...Þarf aðeins að hugsa þetta. Passið ykkur á jólastressinu, virðist vera að gagna núna ;) Lýsi, kertaljós, kakó og kósíheit eru ágætis forvarnir...og forðist búðir, þetta grasserar þar ;)

Till next...adios

Wednesday, December 19, 2007

Skyrgámur

Vá, næstum gleymdi að blogga maður....og þá hefði dottið út einn jólasveinn og ekki má það nú! ;)
Annars hef ég nú bara varla verið heima hjá mér í allan dag. Var að vinna frá 8-17 og fór svo í matarboð kl.19 og var að koma heim rétt um kl.23 ...voða skemmtilegar svona staðreyndir í tölum ;) Litlu jólin eru hjá strákunum á morgun og svo verður legið í leti og í fleti næstu tvær vikurnar, með kanski örlitlum undantekningum. Hef reyndar verið að hugsa um hvort ég eigi ekki að drífa mig í skokkið aftur...hef ekki farið síðan hummm í lok október, er bara að verða feit og sælleg...or notttttt!!!!!!(ætla að hugsa þetta samt aðeins lengur...) En gæti svo sem orðið það ef ég held þessu áti áfram, ef ég er ekki að borða mat þá er ég að borða konfekt! Gott að þurfa ekki að vinna fleiri daga á þessu ári ;)
Kristján kom heim með einkunnarblaðið sitt í dag, las upp fyrir mig og lofaði bót og betrun á næsta ári...í þessum "fallfögum sínum" ég var ekkert voða glöð, hann fékk reyndar nokkrar ágætis einkunnir, en sumar, eins og t.d íslenska, stærðfræði og náttúrufræði voru undir 5 en svo er hann að fá flottar einkunnir í öðrum fögum eins og 9 í vefhönnun, 8,5 í myndmennt, 8 í matreiðslu (aldrei nennir hann samt að elda heima), 7,5 í ensku og 6,5 í dönsku sem mér finnt nú bara ansi gott :)
En ég vona bara að loforðin hans standi!
Vonast til þess að ég geti farið að setja einkunnirnar mínar inn á bloggið ;) á eftir að fá fyrir þessar blessuðu ritgerðir ennþá. En fékk 5,2 í rökfræðiprófinu...hummm, ekkert spes einkunn, en náði þó ;) (þetta gildir 20% í vinnulagsáfanga).
Jæja, hef ekki meira að segja í bili, er þreytt og ætla að dríbba mig í bólið :) Goood night !

Till next...adios

Tuesday, December 18, 2007

Hurðaskellir

Vaknaði við einhvern hávaða eldsnemma í morgun, fattaði það ekki fyrr en Mikael gáði í skóinn sinn að þetta var auðvitað jólasveinninn :) Og enn ein sönnun þess að jólasveinninn er til byrtist mér í dag...í bókstaflegri merkingu, það komu þrammandi 2 jólasveinar inn í eldhús FSA (já, ég var sko að vinna í dag) æddu inn á GÁMES svæðið með hrópum og köllum ofan af fjöllum og sungu jólalag. Gáfu okkur svo rista stóran Makkintoss-bauk, svo við yrðum svolítð sætari þarna í eldhúsinu ;) og maður er sko búinn að standa sig í því ;) nammi namm! Þetta var nú skemmtilegt :)
Annars var tíðindalítið í dag...ég gleymdi að fara í skólann hjá Mikael í morgun, það var einhver foreldra-kynning í gangi, fékk reyndar póst frá kennaranum hans Mikaels í gær, en þar var sko ekkert verið að minna mann á þetta! Vona að mér verði fyrirgefið fyrir fermingu ;/
En ég keypti svo flotta skó handa honum í gær að ég hugsa að ég komist nú upp með ýmislegt næstu daga...hann varð ekki einusinni mjög fúll yfir því að fá sokka í skóinn í morgun ;)

Allur snjór er farinn, veit ekki alveg hvert hann fór, en spurning um að lýsa eftir honum: "tapast hefur snjór, hvítur á lit, brúkast gjarnan undir skíði og annað dót, og um jól til áhorfs, er annars oft til mikils ama einkum þegar hann hrúgast upp í bunka og festir bíla, svo er hann líka dálítið kaldur"...cool snow ;) Hætt að bulla í bili þó...hó hó hó *<:o)

Till next...adios

Monday, December 17, 2007

Askasleikir

Klukkan er að verða hálf 12 á hádegi og það er ennþá nánast svarta myrkur úti! Alltaf hlakkar mig nú jafn mikið til þess tíma þegar daginn fer að lengja á ný :) Held ég sé meira fyrir ljós en myrkur, finnst bara best að sofa í myrkri...þess vegna er ég nú eiginlega ný komin á fætur ;)
En núna á eftir á að gera aðra tilraun til þess að fara í búð, og ég vona að það haldi allir heilsu í því ferðalagi. Spruning um að fara bara í Nettó!
Mikael er orðinn fínn, segist reyndar annað slagið vera veikur, en svona meira þegar það hentar honum...eins og ég verð að sækja handa honum eitthvað að drekka af því að hann er svo lasinn.... svo sagðist hann ekki geta farið í skólann á morgun, vegna veikinda, þangað til að ég benti honum á það að þá missti hann af sundinu, þá varð hann voða hress og auðvitað fer hann í skólann á morgun :)
Svei mér þá, ég held bara að það sé farið að dimma aftur!!!!
Fólkið á efri hæðinni hjá mér er alveg að missa sig í jólaljósum, þau voru reyndar byrjuð að setja seríur út í glugga í byrjun nóvember og hafa nánast ekki stoppað síðan...setja meira að segja seríur í geymslugluggana og utanum þvottasnúrurnar. Verður örugglega ekkert gaman að ná þessu af snúrunum eftir jólin ;) Svo var bankað upp hjá mér í gær, þá hafði farið öryggi hjá þeim (og þau eiga náttúrlega engin öryggi, afþví að það er miklu auðveldara að fá þau bara hjá mér) þegar þau voru að segja peru í útiljósið...rauða-jóla-peru! Mér fannst þetta reyndar ferkar minna mig á ljós sem gæfi til kynna pútnahús. Og svo eru þau með bláar seríur í flestum gluggum....vantar alveg alla sjatteríngu í þetta hjá þeim. Þau (eða annaðhvort þeirra hjúa þarna uppi) eru líka farin að spila jólalög á píanóið í tíma og ótíma, sem væri kanksi svolítið sætt ef þau kynnu að spila! "Jólasveinar ganga um gólf " og ekki ein einasta laglína án þess að fara út af laginu...og bara í öllum lögum! Meira að segja ég gæti spilað þessi lög einhent á píanó án þess að ruglast...hehe.
Jæja, held ég verði bara að drífa mig af stað í búðina, búin að gefast upp á að bíða eftir því að það byrti meira ;)

Till next...adios

Sunday, December 16, 2007

Pottaskefill

Pottaskefill var nú alltaf kallaður Pottasleikir í mínu ungdæmi...en kanski er skefillinn eitthvað fínni, finst það samt alveg í takt við Askasleiki að kalla hann bara Pottasleiki áfram, og ekkert að vera að skafa utanaf þessu ;)
Mikael varð lasinn í gær, ég fór með strákana í Hagkaup (þar sem brjálæðið er) og eftir svona 5 min þar, fór hann að kvarta ógurlega yfir að sér liði illa, mér fannst það svo sem ekkert skrítið, þar sem fólk tróðst og tróðst og varla hægt að labba um með kerru án þess að sitja fastur á milli fólks með verslunarbrjálæðisglampa í augunum.
Svo það var lítið keypt, bara kjúlli í matinn og ein dvd mynd og svo brunað heim, ég var nú í rauninni bara pínu fegin...
Svo Mikael lá og horfði og sjónvarp og svaf mest megnis allan daginn í gær, eftir búðarferðina.
Ég þóttist ætla að rjátla eitthvað við að laga til, fór nú lítð fyrir því, en náði að fara með 1 ruslapoka af fötum í rauðakrossinn. Þetta voru nú reyndar föt sem ég var búin að setja í poka í haust...svo ekki skilja mig sem svo að ég hafi verið dugleg að fara í gegnum fataskápa ;) isss, það er alveg eftir!
En svo var leikhúsferð í gærkv. á "Ökutíma" og ég veit ekki hvað skal segja. Ég var kanski búin að heyra of mikið af því hvað þetta væri frábært leikrit, að mér fannst það bara svona allt í lagi! Ekkert frábært, en ekkert leiðinlegt heldur. Fanst það kanski full átakalaust miðað við efnið sem var tekið á. En núna vona ég bara að það sé fullt af fólki ósammála mér og skrifi þvílíku kommentin að ekki hafi annað sést ;)

Pabbi hefði átt afmæli í dag, orðið 83 ára, planið var að fara í sveitina en ég veit ekki hvort heilsufar Mikaels leyfir það, en hann er nú samt talsvert hressari en í gær (þarf svo sem ekki að vera mjög hress til þess). Svo sennilega verður maður bara heima að dunda sér og horfa á góða veðrið út um gluggann.

Svo sá ég jólasvein í gær :) ekki á sleða nei, heldur ók hann rauðum fólksbíl hér upp Þórunnarstrætið og flautaði ógurlega og veifaði til mín :)
Ég vissi alltaf að jólasveinninn væri til!!! :)

Till next...adios

Saturday, December 15, 2007

Þvörusleikir

Ég er í miklu letistuði núna, búin með prófin og komin í jólafrí úr skólanum. Það hlaðast nú samt upp verkefnin hér heima, skúra skrúbba og ekki bóna. Ætla nú samt að láta það eftir mér að gera ekkert of mikið í dag. Skreppa aðeins með strákana í Hagkaup og reyna að eyða eitthvað af öllum þessum pening sem maður á ;)
Svo verður bara tjill tjill og leikhús í kvöld :)
Held að það sé brostið á með blíðu, eftir rok og rigningu í gær, virðist vera alveg stillt og gott veður, verst að fíni skíðagöngusnjórinn sem var kominn í fjallið er kanski eitthvað orðinn minni núna. Það runnu hér lækir niður götuna í gær, og maður var gjörsamlega eins og belja á svelli að reyna að fóta sig á öllum klakanum í rokinu ;)
Jæja, ég ætti kanski að reyna að klára að klæða mig, henda í eina þvottavél og drífa strákana út!

Till next...adios

Friday, December 14, 2007

Stúfur

Gott og slæmt...var að fá lokaeinkunn úr myndfræðinni, fékk 9 og er alveg himinsæl með það :)
en svo er ég að fara í próf í rökfræði á eftir (kl.14:00) og er ekki alveg að skilja þetta torf! Prufaði að taka sýnipróf í gær og fékk 2 !:(
Það er náttúrulega hrein mannvonska að hafa heilt próf bara krossaspurningar!!! Sérstaklega þegar efnið er um:
Modus Ponens:
Ef A þá B
A
B

Modus Tollens:
Ef A þá B
ekki-B
Ekki A

Eða rökhenda:
A eða B
Ekki A
B

Barbara:
Öll A eru B
Öll B eru C
Öll A eru C

Þetta eru sem sé gild rökform, og er næstum það léttasta við þetta próf!

Jæja, ætla ekki að tuða meira í bili, ég geri bara það sem ég get og vona það besta.
Svo er þriggja daga helgarfrí framundan hjá okkur, bæði mér og strákunum :) Svo vinn ég í tvo daga og fer svo í frí fram yfir áramót! Það kemur þá bara í ljós hvort ég les skólabækur eða aðrar bókmenntir um jólin ;)
Það gæti margt verra gerst en að falla á prófi...lífið er dásamlegt :)

Till next...adios

Thursday, December 13, 2007

Giljagaur


Það er best að líta aðeins upp úr bókunum, enda byrjað arg og garg út á leikvelli, svo smá pása er fín ;) Er nánast búin að sitja og lesa síðan kl.8 í morgun, þetta er miklu meiri lestur en ég hélt ;/
Ég fann annars þessa skemmtilegu mynd í myndasafninu mínu og ákvað að deila henni með ykkur:)
Hef annars ekki mikið meira að segja í dag en í gær...
Fartölvan mín ber nafn með rentu: fartölva, ég er nefnilega búin að fara ótrúlega oft með hana á milli eldhússins og stofunnar. Ég sit oftast og læri við eldhúsborðið (eldhúsið er sem sé nokkurskonar eldhússkrifstofa) og svo labba ég með tölvuna inn í stofu þegar ég þarf að prenta eitthvað, því að prentarinn er staddur í stofunni (eða stofuskrifstofunni). Ég bara hafði ekki pláss fyrir prentarann í eldhúsinu, og ef ég reyni að læra í stofunni þá sofna ég ;)
Annars er ég að spá í að breyta stofuskrifstofunni í svefnherbergi líka, sum sé svefnherbergisskrifstofustofu, en hann Mikael minn er farinn að kvarta svo mikið um herbergisleysi að ég er að hugsa um að eftirláta honum herbergið mitt einhverntíman eftir áramót og flytja sjálfa mig inn í stofu. Henda bara út ónýta sófanum sem er þar og kaupa svefnsófa. Það verður þá kanski til þess að ég fer að búa um mig á morgnana ;) En þetta er svona í gerjun, þarf a.m.k að gera eitthvað í þessu fyrir afmælið hans Mikaels, en hann fullyrðir það að honum verði strítt ef hann verður ekki kominn með eigið herbergi þá. Reyndar er það ekki bara herbergi sem hann vill, heldur líka sjónvarp, tölva og a.m.k tvær fjarstýringar á tölvuna ;)
Svo þetta gæti kostað sitt ;) best að byrja að spara og einhenda mér í þetta þegar snjóa leysir...sem er nú reyndar alltaf að gerast...hummm, jæja, ég sé til.

Till next...adios

Wednesday, December 12, 2007

Stekkjastaur

Ég fékk reyndar ekkert í skóinn í nótt...kanski vegna þessa að ég gleymdi að setja hann út í glugga, verð að reyna að muna eftir því í kvöld! En hann Mikael klikkaði ekki á skónum, og fékk Star Wars spil í skóinn, svo kanski fær hann StarWars kerti í nótt, ef jólasveinninn á það til...sem ég efa reyndar, á sennilega eftir að finna upp svoleiðis kerti. Mér finnst annars að það ætti að fækka jólasveinunum, svona niður í tvo. Þetta er tómt ves...og ég sef ekki á nóttunni vegna spennu, er svo hrædd um að jólasveinninn gleymi sér!
En hvað um það, ég fór til fjalla í dag, nánar tiltekið í Hlíðarfjall, á gönguskíði. Alveg glimrandi gott veður og færð, gerist ekki mikið betra. Átti nú reyndar að liggja yfir bókum, en gerði það alveg fram að hádegi ;) svo verður það bara allur dagurinn á morgun...lesa lesa!
Annars eru fleiri en ég í prófun, Kristján er í prófaviku, var í stærðfræði í gær (sagðist hafa gengið ágætlega) , í ensku í dag (gekk vel, ekki við öðru að búast) svo fer hann í dönsku á morgun og íslensku á föstudag. Ég er endalaust að rexa í honum að lesa undir prófin, en svo hef ég grun um að bókin sé fljót að lokast um leið og ég fer út úr herberginu hans!
Jæja, ég veit eiginlega ekkert hvað ég á að skrifa núna, bulla bara eins og þvara samt kemur þvörusleikir ekki strax, er fjórði í röðinni.
Ok, ég skal hætta núna...

Till next...adios

Tuesday, December 11, 2007

Sveiflur

Það eru nú meiri sviftingarnar í þessu veðri. Í gær var birrr birrr kuldi úti, ca.13 gráðu frost, sem manni fanst vera alveg hellingur. Bíllinn fór í gang jú, en var svo frosinn að þær hurðir sem opnuðust, þær lokuðust ekki aftur :/ en strax í gærkveldi var aðeins farið að hlýna og í dag var bara næstum kominn 13 gráðu hiti! Bara bongó blíða.
Fór með strákana í jólaklippinguna í gær, svo núna á ég bara eftir að kaupa örfáar jólagjafir, skrifa jólakort og þá mega jólin koma ;) Já, og svo reyndar er ég að fara í eitt próf á föstudaginn...í rökfræði, en ég þykist ætla að vera voða dugleg að lesa og læra á morgun og hinn...var að vinna í dag og gær, mikið að gera á stóru heimili ;)
Annars er mig farið að langa að skella mér á gönguskíði, planið var að fara í gær, en þar sem að forstið var það mikið þá var því skotið á frest....núna vona ég bara að ég komist áður en snjórinn verður farinn aftur ;)
Fer á morgun ef ég verð dugleg að læra...verðlauna sjálfa mig :)
Fyrsti jólasveinninn kemur víst í nótt, svo ég ætla að drífa mig í rúmið og vona það besta :)

Till next...adios

Sunday, December 09, 2007

Tónleikar

Tja, það fór nú svo að ég gerðist örlítið menningarleg fyrir jólin og fór á tónleika...rétt leit upp úr skrúringarfötunni og arkaði í höllina á tónleika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ásamt Garðari Thór Cortes og söngfélaginu Sálubót. Þetta voru alveg magnaðir tónleikar og ég fékk gæsahúð þegar hann Garðar Thór söng "Helga nótt", enda ekki annað hægt, svona flottur maður að syngja svona flott lag ;) Amk var ég bara ánægð með þetta, mætti auðvitað vera betri hljómburður í höllinni, en þetta lagast nú allt með nýja menningarhúsinu sem er óðum að rísa, svo ég bara bíð róleg og nýt þess sem er í boði núna, hvar og hvenær sem ég get :)
Annars er ég búin að vera voða dugleg í dag, setti aðventuljósið út í glugga (ekki seinna vænna þar sem annar í aðventu er á morgun) svo fór ég að laga til og þrífa í elhúsinu, setti seríur í báða gluggana og jólagardínur líka! Voða voða dugleg, eldhúsið er nú reyndar bara hálf klárað af því að ég var dregin upp úr skúringarfötunni og á tónleikana, en ég klára þetta á morgun, á undan eða á eftir laufabrauðsgerð ;) Ætla að þykjast gera nokkrar laufabrauðskökur með gamla laginu, já já, eftir uppskrift! Eða, sko...mamma verður búin að hnoða í degið og svo flet ég út ;) og steiki, hviss, hvass, búmm...:)
Annars þrufti ég að skreppa upp á slysó í morgun, þannig var nefnilega að hann Mikael litli lamdi hann Kristján í olbogann og meiddi sig svo í hendinni að hann skældi í allt gerkveld þar til að hann sofnaði. Svo var hann enn svo aumur í morgun, og gerði ekkert með hendinni að ég þorði ekki annað en að láta kíkja á hann. Hann stera Pétur kíkti á kauða, þuklaði hendina og eftir að ég hafði sagð honum hvað hafði gerst (sem sagt að hann hefði lamið bróðir sinn) þá spurði hann voða varlega "hvað er bróðir þinn gamall"? kanski verið hræddur um að hann ætti pínu lítin bróðir sem hann væri að níðast á. En hann sagði að hann væri ekkert brotinn, hefði bara marist illa svo við fórum bara heim, en hendin er nú samt ennþá bólgin og mjög aum. Svo spurði Mikael þegar við komum heim: "mamma var læknirinn eitthvað þroskaheftur?" og ég var nú frekar hissa og segi: "nei, afhverju helduru það", þá sagði Mikael: "heyrðiru ekki hvernig hann talaði ?" hehe... þetta finnst reyndar engum fyndið nema þeim sem vita hver stera Pétur er og hvernig hann talar :)
Jæja, ég ætla að skríða í rúmið og láta mig dreyma um sleðaferð og jólasveina :)

Till next...adios

Friday, December 07, 2007

Ritgerðarskrif

Nú er ritgerðarskrifum lokið í bili...vonandi. Var að klára ritgerðina um "umbyltingu á lífsáttum, efnahag og samfélagsgerð á Ísl á tímabilinu 1850-1950" phúff! Byrjaði smá í morgun, fór svo í andlitsbað, lit og plokk, (geggjað, maður ætti að gera þetta annan hvorn mánuð) en ég átti ennþá eftir af gjafakortinu sem ég fékk þegar ég hætti á FSA, svo þetta kostaði varla krónu ;) svo fór ég á kaffi hús og fékk mér kakó og las fyrir ritgerðarskrifin. Ætlaði svo aðeins rétt að kíkja inn í Pennan/Eymundsson, en endaði með að kaupa 7 jólagjafir! Ég er að slá öll met í snemmbærumjólagjafakaupum þetta árið (reyndar ekki erfitt að slá mín fyrri met ;). Svo kíkti ég heim, fór svo í Nettó....og plís, minnið mig á að fara ekki aftur í búð fyrir jólin! Bílastæðin voru troðfull og ys og þys út af engu...halló, eru ekki ennþá 17 dagar til jóla???? Held að neysluæði Íslendinga sé bara ekkert að minnka nema síður sé. Jæja, þegar hér var komið við sögu þá náði ég í Mikael í skólann og fór heim og settist þá niður fyrir fullri alvöru að skrifa þessa blessaða ritgerð. Var að klára kl.22:22 og er ansi fegin. Þá er "bara" eftir að lesa fyrir rökfræðiprófið 14.des...og vinna 3 daga í næstu viku :/
Já, meðan ég man... ég náði hugmyndasöguprófinu, ætla ekkert að flíka einkunninni, en hann KK hefur greinilega verið voða strangur því að einkunnirnar hjá þeim sem náðu voru á bilinu 5-7 og ég var þar á milli ;) bara 1 fékk 8 og engin þar yfir...og nokkrir féllu :(
Þarf að hætta, Mikael lamdi Kristján svo fast að hann meiddi sig í hendinni ....best að hugga aðeins og skammast...tók nú smá syrpu áðan, þar sem ég kíkti inn í stofu og sá að fína tillagningin mín síðan í gær var komin í uppnám!

Till next...adios

Thursday, December 06, 2007

Jólamatur

Þetta var víst bara þreyta sem þjáði mig þarna á þriðjudaginn...og kanski smá kvef. Það er greinilega bara svona langt síðan að ég hef unnið eitthvað, að þetta fór alveg með mig að vinna heilan dag...greinilega mikið léttara að vera í skóla, og skemmtilegra ;) vildi bara vera á launum við að skólast, það væri alger snilld.
Í dag var jólamatur í vinnunni, hangikjöt með tilheyrandi og þá er öllu staffi FSA boðið í mat. Þetta er sem sagt "jólagjöf" yfirstjórnarinnar til hins allmenna starfsmanns. Allir glaðir en voða mikið að gera í eldhúsinu, eins gott að ég ákvað að vinna og algerlega bjarga þeim, hefðu ekkert ráðið við þetta án mín ;) já, fyrst að það segir þetta enginn annar þá segi ég þetta bara;). Ég vann frá 8-14 nennti ekki að vera lengur og fór heim og lagaði til í stofunni og núna sést í stofuborðið! En það er eitthvað sem hefur ekki gerst síðan í haust. Ætla bara að skúra yfir gólfið á eftir og innsigla svo stofuna fram til jóla :) verst að það er ekki hurð á henni sem hægt er að loka....hummm, kanski væri rafmagnsgirðing ágæt!
Annars ætlaði ég nú að reyna að byrja á þessari ritgerð, sem ég þarf að skila 14.des. en draslið í stofunni var bara farið að flæða um alla íbúð...eða var kanski draslið í íbúðinni farið að flæða inn í stofu...ekki gott að segja. En nú er amk stofan fín :) þótt restin sé eins og svín.
Planið núna er þá sem sagt að skrifa ritgerðina á morgun, taka smá pásu milli 9:30-11:00 og fara í andlitsbað, lit og plokk, halda svo áfram með ritgerðina og helst klára hana fyrir kvöldið. Vona bara að planið haldist...er ekki með plan Bé!

Till next...adios

Tuesday, December 04, 2007

Vinna sem þarf að sinna

Kræst! Úff púff dagur í dag. Var að vinna, í gömlu eldhús vinnunni minni, frá 8:00-16:00, lét svo Kristján plata mig í BT til að kaupa "skógjöfina" fyrir jólasveininn. Hann Kristján gerði nefnilega samning við jólasveininn fyrir ca.2 árum, að í stað þess að fá 13 sinnum eitthvað smotterí, þá fengi hann bara einn "veglegan" pakka. og þar sem jólasveinninn var viss um að hafa nóg að gera þegar hin alvöru skóvertíð byrjar og Kristján alveg búin að sjá út vænlegan pakka, þá var bara drifið í þessu.
Þegar heim var komið, þá helltist yfir mig heljarinnar þreyta! Ég lognaðist útaf í sófanum og lá þar nánast meðvitundarlaus til að verða 8. Þá fannst mér ég verða að sinna eitthvað næringarmálum fjölskyldunnar og eldaði lasagna að minni alkunnu snilld. En viti menn, Mikael vildi bara kornflögur og Kristján borðaði hummmm kanski 2 bita og var þá saddur. Hefði bara alveg geta sleppt eldamennskunni í kvöld.
Núna sit ég hér með hausverk og almennan slappleika og er að gleypa í mig hressingu (borðaði smá mat jú) en hressingin er í töflu formi, Omega 3-6-9, vítamín með steinefnum, hvítlaukstöflur og einhver lítil rauð pilla, bólgueyðandi og verkjastillandi. Þegar ég verð búin að koma þessu niður ætla ég beint í rúmið og vonast til þess að komast í vinnuna í fyrramálið.
Annars er nú lífið samt alltaf jafn dásamlegt :)

Till next...adios

Monday, December 03, 2007

Próf vinna

Jæja, þá er ég búin í prófinu í hugmyndasögunni, vona bara það besta, mér tókst amk að skrifa 12 bls. á 3 klst. og vona bara að eitthvað vit hafi verið í þessu!
Var að prenta út rolluritgerðina, sem endaði með það virðulega heiti: "Áhrif íslensku sauðkindarinnar á íslenskt samfélag." vona að þetta sé nógu fræðílegur titill og vona að ég fái amk 5 fyrir ritgerðina! Það er að hellast yfir mig eitthvað kæruleysi, eða kanski bara þreyta, er farið að verða nokk sama hvað ég fæ í einkunnir bara ef ég næ!
Svo er ég að fara að vinna á morgun og hinn og hinn...og svo þrjá daga í næstu viku líka og tvo daga í vikunni þar á eftir. Svo frí jibbí :)
Þarf samt að hella mér út í aðra ritgerðarsmíð, en hún á að vera um umbyltingu á lífsháttum, efnahag og samfélagsgerð á Íslandi áð tímabilinu 1850-1950. Þessi ritgerð á að vera 2000-2500 orð og skila fyrir 14.des! Svo það er best að týna eitthvað til, svona á milli vinnu. Síðasta prófið sem ég fer svo í er 14.des. í rökfræði. Og það er bara krossapróf! Sem mér finnst ekki gaman. Svo er maður að heyra sér til hryllings að heilu haugarnir af fólki hafi fallið á þessu prófi í fyrra....krossa putta og vona það besta, já og kanski reyna að læra eitthvað undir það líka, það hjálpar ;)

Till next...adios